Remove ads
land í Norður-Evrópu From Wikipedia, the free encyclopedia
Svíþjóð (sænska: Sverige), formlegt heiti Konungsríkið Svíþjóð (Konungariket Sverige), er land í Skandinavíu í Norður-Evrópu og eitt Norðurlandanna. Landamæri liggja að Noregi til vesturs og Finnlandi til norðausturs. Í vestri á Svíþjóð strönd að Skagerrak, Kattegat og Eyrarsundi. Landið tengist Danmörku með Eyrarsundsbrúnni. Austan og sunnan megin liggur ströndin að Eystrasalti.
Konungsríkið Svíþjóð | |
Konungariket Sverige | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: För Sverige - I tiden (sænska) Fyrir Svíþjóð - með tímanum | |
Þjóðsöngur: Du gamla, du fria | |
Höfuðborg | Stokkhólmur |
Opinbert tungumál | sænska |
Stjórnarfar | Þingbundin konungsstjórn |
Konungur | Karl 16. Gústaf |
Forsætisráðherra | Ulf Kristersson |
Stofnun | seint á 10. öld |
Evrópusambandsaðild | 1. janúar 1995 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
57. sæti 447.425 km² 8,97 |
Mannfjöldi • Samtals (2023) • Þéttleiki byggðar |
87. sæti 10.540.886 25/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2023 |
• Samtals | 715,995 millj. dala (40. sæti) |
• Á mann | 66.209 dalir (17. sæti) |
VÞL (2022) | 0.952 (5. sæti) |
Gjaldmiðill | Sænsk króna (kr) (SEK) |
Tímabelti | UTC+1 (UTC+2 á sumrin) |
Ekið er | hægra megin |
Þjóðarlén | .se |
Landsnúmer | +46 |
Svíþjóð er rúmlega 450 þúsund ferkílómetrar að stærð. Það er stærst Norðurlandanna og fimmta stærsta land Evrópu. Svíþjóð er fjölmennast Norðurlanda með 10 milljónir íbúa en er þó frekar strjálbýlt. Langflestir íbúanna búa í þéttbýli í mið- og suðurhluta landsins. Höfuðborg Svíþjóðar er Stokkhólmur. Aðrar stærri borgir landsins eru: Gautaborg, Málmey, Uppsalir, Linköping, Västerås, Örebro, Karlstad, Norrköping, Helsingjaborg, Jönköping, Gävle, Sundsvall og Umeå.
Náttúra landsins einkennist af skóglendi og stórum vötnum, sem sum eru með þeim stærstu í Evrópu. Helstu ár landsins renna frá Skandinavíufjöllum í Eystrasalt. Barrskógar landsins eru nýttir í timbur- og pappírsgerð. Í norðurhluta landsins er mikil námuvinnsla; einkum er þar unninn járnmálmur en þar er einnig að finna ýmsa aðra málma. Aðaliðnaðarsvæðið er um mitt landið en landbúnaður einkennir mjög suðurhlutann. Svíþjóð á mjög langa strandlengju að sjó og flestir íbúar búa ýmist nærri vatni eða hafi. Landið langt og nær frá 55. að 69. breiddargráðu norður. Þar er því breytilegt loftslag eftir landshlutum.
Germanar hafa byggt Svíþjóð frá forsögulegum tíma. Í elstu heimildum er talað um tvær þjóðir í Svíþjóð: Gauta og Svía. Íbúar töluðu norrænt mál og fóru í víkingaferðir, einkum í Austurveg. Seint á 10. öld myndaðist sameinað sænskt konungsríki. Árið 1397 gekk þetta ríki í konungssamband við Danmörku og Noreg í Kalmarsambandinu. Árið 1523 yfirgaf Svíþjóð Kalmarsambandið og kaus sér eigin konung. Í þrjátíu ára stríðinu tóku Svíar þátt með mótmælendum í Norður-Evrópu og lögðu fleiri lönd undir Svíaveldi. Þar til snemma á 18. öld ríkti Svíþjóð yfir nær öllu landi umhverfis Eystrasalt, en við uppgang Rússaveldis á 18. öld missti landið stórveldisstöðu sína smátt og smátt. Stærstur var missir Finnlands til Rússlands árið 1809, en Finnland hafði verið hluti Svíþjóðar frá því seint á 13. öld.
Svíþjóð er þróað ríki sem hefur lengi setið hátt á vísitölu um þróun lífsgæða. Stjórn landsins er þingbundin konungsstjórn með þingræði, þar sem löggjafarvaldið er í höndum sænska þingsins, Riksdag, þar sem sitja 349 þingmenn. Svíþjóð er einingarríki sem skiptist í 21 hérað og 290 sveitarfélög. Landið býr við norrænt velferðarkerfi með opinberu heilbrigðiskerfi og ókeypis háskólamenntun fyrir alla íbúa. Landið situr hátt á listum eftir lífsgæðum, heilsu, menntun, borgararéttindum, samkeppnishæfni, tekjujöfnuði, jafnrétti og velmegun. Svíar gengu í Evrópusambandið 1. janúar 1995. Svíþjóð er líka aðili að Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu, Norðurlandaráði, Schengen-svæðinu, Evrópuráðinu, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og OECD.
Svíþjóð nefnist Sverige á sænsku, sem er dregið af fornnorræna orðinu Svíaríki, það er „ríki Svía“. Svíar voru einn þjóðflokkur sem bjó um miðbik landsins sem í dag nefnist Svíþjóð á íslensku. Heiti þjóðflokksins kemur fram í rómverskum heimildum hjá Tacitusi sem Suiones og hjá Jordanesi sem Suietidi (hugsanlega „Svíþjóð“). Snorri Sturluson notar bæði Svíþjóð og Svíaríki í Heimskringlu, og bæði heitin koma fyrir á sænskum rúnasteinum frá miðöldum.[1] Svíaríki kemur líka fyrir í engilsaxneska sagnakvæðinu Bjólfskviðu, sem Swēorice.[2] Merking orðsins Svíar er talin vera „sitt“, í samhenginu „sitt eigið fólk“, af frumindóevrósku afturbeygðu endingunni *s(w)e (sbr. latínu suus), sem eru sömu orðsifjar og fyrir ættbálkaheitið Svefar frá Schwaben í Þýskalandi.[3][4][5][6]
Nafn Svíþjóðar á öðrum málum er í flestum tilvikum dregið ýmist af Svíþjóð (sbr. Sweden á ensku og Zweden í hollensku) eða Svíaríki (sbr. Swíoríce í fornensku og Sverige í dönsku). Í sumum finnskum málum er nafn landsins dregið af Roslagen (dregið af orðinu róður) í Upplöndum, og verður Ruotsi eða Rootsi. Heiti Rússlands (sem Snorri kallaði „Svíþjóð hin kalda“ eða „Svíþjóð hin mikla“) er dregið af þessu heiti Svíþjóðar.[7]
Megnið af Wechsel-tímabilinu var Svíþjóð hulin ís, með stuttum millibilum. Engar minjar um mannabyggð hafa fundist frá þeim tíma. Um leið og ísinn tók að hörfa er talið að menn hafi sest að, fyrst á Skánarsvæðinu þar sem fundist hafa ummerki um menn frá því fyrir 14.000 árum.[8] Líklegast hafa þetta verið hreindýraveiðimenn. Á miðsteinöld hlýnaði enn og skógar þöktu landið. Á þeim tíma var Eystrasalt stöðuvatn (Ancylus-vatn) en fyrir um 7800 árum rann það saman við Atlantshaf og varð ísalt vatn.[9] Frá þeim tíma eru elstu merki um bústaði manna á Norðurlandi.[10][11][12]
Talið er að nýsteinöld hafi hafist í Svíþjóð með aðflutningi fólks (snúrubikarmenningin) sem lifði af landbúnaði og kom upprunalega frá Litlu-Asíu.[13][14][15] Veiðimannasamfélagið sem fyrir var hélt velli samhliða bændasamfélaginu í þúsund ár, en hvarf svo. Erfðarannsóknir sýna að bændasamfélagið blandaðist bæði veiðimannasamfélaginu og annarri bylgju fólksflutninga sem kom frá Síberíu.[16][17] Fyrir um 5000 árum síðan barst Jamnamenningin til Svíþjóðar með hirðingjum á hestum sem stunduðu kvikfjárrækt og komu með ný trúarbrögð (stríðsaxarmenningin).[18][19] Elstu skíði sem fundist hafa eru frá Kalvträsk í Vesturbotni, frá 3200 f.o.t.[20] Með tamningu hesta jókst verslun við aðra hluta Evrópu á bronsöld sem hófst um 1700 f.o.t. Svíar seldu raf fyrir brons og salt. Frá þessum tíma er Konungagröfin í Kivik. Þegar járnöld gekk í garð um 550 f.o.t. hófst innlend málmframleiðsla. Fornsamíska er talin hafa mótast í kringum upphaf okkar tímatals.[21]
Elstu heimildir um Svía er að finna í skrifum Rómverja. Tacitus nefnir Suiones í Germaníu árið 98.[22] Á þessum tíma bárust rúnir til Svíþjóðar frá Mið-Evrópu. Elsta rúnastafróf Norðurlanda er að finna á Kylversteininum frá 5. öld.[23] Fornvirki og gullsjóðir sem fundist hafa í Svíþjóð benda til áhrifa þjóðflutninganna 375-550.[24] Um miðja 6. öld er talið að eldvirkni á norðuhveli jarðar hafi valdið áralöngum uppskerubresti og hungursneyð (Fimbulvetur). Síðasti hluti járnaldar fyrir víkingaöld er nefndur Vendeltímabilið eftir bátagröfum með ríkulegu haugfé í Vendel norðan við Uppsali.[25] Á þeim tíma þróaðist frumnorræna úr forngermönsku.
Á níundu og tíundu öld stóð víkingamenning á stórum hluta þess svæðis sem nú er Svíþjóð. Sænskir víkingar héldu í austurveg til Eystrasaltslandanna, Rússlands og allt suður til Svartahafs, þar sem þeir gengu í lífvarðasveitir keisarans í Konstantínópel sem væringjar.[26] Í máli Finna fengu þessir víkingar heitið ruotsi (hugsanlega dregið af orðinu „róður“[27]) sem varð rús (sem Rússland dregur nafn sitt af). Sænskir víkingar stofnuðu Garðaríki meðfram fljótunum þar sem nú eru Rússland, Hvíta-Rússland og Úkraína. Rúriksætt ríkti yfir þessu ríki til loka 16. aldar, síðast sem stórfurstar af Moskvu.[28] Yngvar víðförli var víkingaforingi sem hélt í leiðangur til Svartahafs og Kaspíahafs 1036-1041, en aðeins eitt af skipum hans náði aftur til Svíþjóðar.[29]
Sænskumælandi íbúar settust að í suðurhluta Finnlands og einnig í Eistlandi. Á þessum tíma tók einnig sænskt ríki að myndast með þungamiðju í Uppsölum og náði það allt suður að Skáni, sem þá var hluti Danmerkur. Helstu heimildir um Svíþjóð frá þessum tíma eru rúnasteinar og skrif erlendra manna, eins og frankverska trúboðans Ansgars sem ferðaðist til Birka árið 830. Í Heimskringlu og fornaldarsögum eins og Hervarar sögu frá 13. og 14. öld eru nefndir nokkrir sagnkonungar í Svíþjóð, eins og Björn að Haugi (sem er hugsanlega sá sem Ansgar hitti í Birka).[30] Talið er að konungsvaldið í Svíþjóð hafi verið veikt á þessum tíma og að mestu bundið við ófriðartíma. Fyrsti konungurinn sem kemur fyrir í samtímaheimildum er Eiríkur sigursæli sem ríkti hugsanlega fyrstur yfir bæði Svíum og Gautum frá 970 til 995.[31] Hann stofnaði bæinn Sigtuna um 980.[32]
Adam frá Brimum lýsti því að Svíar hefðu stórt hof í Uppsölum þar sem þeir færðu guðunum bæði dýra- og mannfórnir. Rit hans byggist þó aðeins á munnmælum og tilgangur þess var að styrkja biskupsdæmið í Hamborg í sessi. Sumir fræðimenn telja því að hofið í Uppsölum sé hreinn uppspuni.[33] Svíar hófu að snúast frá norrænni trú til kristni um miðja 10. öld. Ólafur skotkonungur var fyrsti sögulegi konungurinn sem tók kristni til frambúðar. Samkvæmt sögnum snerust Svíar endanlega til kristni þegar Ingi hinn eldri drap mág sinn, Blót-Svein, um 1087.[34] Á 11. og 12. öld var Svíþjóð skipt í sóknir. Fyrsta biskupsdæmi Svíþjóðar var stofnað í Husaby í Vestur-Gautlandi um 1014.[35]
Við upphaf miðalda réði konungur Svíþjóðar aðeins yfir Svíaríki (Mälarsvæðinu) og Gautlandi um miðbik landsins sem í dag nefnist Svíþjóð á íslensku. Þegar Emundur gamli, sonur Ólafs skotkonungs, lést 1060, tók Steinkell Svíakonungur við sem fyrsti konungur Steinkelsættar. Eftir 1130 tókust Sörkvisætt og Eiríksætt á um konungdæmið. Eiríkur hinn smámælti og halti var síðasti konungur Eiríksættar. Helsti ráðgjafi hans og ríkisstjóri í Svíþjóð var Birgir jarl af Bjälbo-ætt (Fólkungaættin). Á þeim tíma tóku Svíar að nema land við suðvesturströnd Finnlands og Birgir leiddi krossferð gegn Tavöstum árið 1249.[36] Kristnir íbúar suðvesturhéraðanna báðu sænsku konungana um vernd gegn árásum finnskra þjóðflokka og Hólmgarðsríkinu í Rússlandi. Eftir lát Eiríks varð sonur Birgis, Valdimar Birgisson, konungur og síðan bróðir hans, Magnús hlöðulás. Magnús var fyrsti konungurinn sem var kjörinn við Morasteina.[37] Svíar reistu þrjá kastala í Finnlandi, Åbo-höll í (eiginlega) Finnlandi, Viborg-höll í Karelíu og Häme-höll í Tavastíu.[38] Á sama tíma stækkaði Svíþjóð bæði til norðurs (Norðurland) og suðurs (Smálönd).[39]
Árið 1290 varð Birgir Magnússon konungur. Hann átti í átökum við bræður sína, hertogana Valdimar og Eirík, sem tóku hann til fanga í Nyköpingshus 1306. Hann slapp þaðan 1308. Árið 1317 bauð hann bræðrum sínum til veislu í Nyköping þar sem hann fangelsaði þá báða og lét þá svelta til bana.[40] Fylgismenn þeirra gerðu uppreisn gegn honum og settu hann af árið 1319. Þriggja ára sonur Eiríks, Magnús Eiríksson smek, varð konungur yfir bæði Svíþjóð og Noregi. Magnús keypti Skán og Blekinge af Valdimar atterdag Danakonungi, en Valdimar hertók löndin aftur síðar. Á þessum tíma voru tekin upp ein lög fyrir allt landið og hefð komst á herradaga, þing stórmenna.[41] Árið 1350 barst svarti dauði til Svíþjóðar og er talið að þriðjungur íbúa hafi látist vegna hans. Heilög Birgitta frá Svíþjóð hélt í pílagrímsferð til Rómar sama ár og stofnaði Birgitturegluna. Bonifasíus 9. páfi gerði hana að dýrlingi árið 1391.[42]
Árið 1389 sameinuðust Danmörk, Noregur og Svíþjóð undir einum konungi. Danmörk og Noregur gengu í konungssamband árið 1380 þegar hinn barnungi Ólafur 4. Hákonarson tók við völdum. Konungur Svíþjóðar á þeim tíma, Albrekt af Mecklenburg, átti í átökum við sænsku stórmennina sem leituðu til Margrétar, móður Ólafs, eftir aðstoð. Margrét vann sigur á her Albrekts í orrustunni við Åsle 1389.[43] Kalmarsambandið var svo formlega stofnað 1397 þegar ættleiddur sonur hennar, Eiríkur af Pommern, var krýndur konungur Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Kalmarsambandið var ekki pólitískt sambandsríki heldur konungssamband. Þegar systursonur Eiríks, Kristófer af Bæjaralandi, tók við völdum eftir 1440 var hann krýndur sérstaklega í hverju landi fyrir sig. Meirihluta 15. aldar reyndi Svíþjóð að hamla þeirri miðstýringu sem Danir vildu koma á í sambandinu undir dönskum kóngi.[44] Sambandið rofnaði um stutt skeið þegar Karl Knútsson Bonde var kjörinn konungur í Svíþjóð 1448, en Kristján Danakonungur, greifi af Aldinborg, kom því aftur á með stuðningi aðalsins í löndunum. Svíþjóð sagði sig úr Kalmarsambandinu 1523 þegar Gústaf Eiríksson Vasa, síðar þekktur sem Gústaf 1., endurreisti sænska konungdæmið eftir átök sænska aðalsins við Kristján 2.[45]
Eftir upplausn Kalmarsambandsins 1523 tóku konungar af Vasaætt við völdum í Svíþjóð. Ættin fór með konungsvaldið þar til Kristín Svíadrottning sagði af sér árið 1654. Undir stjórn Gústafs Vasa fóru siðaskiptin fram í Svíþjóð. Bændur gerðu víða uppreisnir gegn konungi, eins og í Dacke-ófriðnum og Dalauppreisnini, en þær voru barðar niður af hörku.[46] Árið 1544 gerði Gústaf ríkið að erfðakonungsríki og gerði syni sína að hertogum til að tryggja völd ættarinnar. Allir uppkomnir synir hans nema einn urðu konungar í Svíþjóð eftir hans dag.
Eftir lát Gústafs árið 1560 tók elsti sonur hans við völdum sem Eiríkur 14. Eiríkur stóð í átökum við yngri hálfbræður sína, einkum Jóhann hertoga af Finnlandi. Þegar Jóhann giftist pólsku prinsessunni Katrínu Jagelloniku gegn vilja bróður síns, lét hann fangelsa þau bæði í Grípshólmshöll í Stokkhólmi. Sama ár hófst norræna sjö ára stríðið gegn Danmörku. Andlegri heilsu Eiríks hrakaði. Hann var haldinn ofsóknaræði og lét myrða þrjá meðlimi Stureættar árið 1567 vegna gruns um svik. Þegar hann gekk að eiga alþýðukonuna Karin Månsdotter árið 1568 gerðu bræður hans og sænski aðallinn uppreisn gegn honum. Konungur var fangelsaður og Jóhann tók við völdum. Eiríkur lést í fangelsi árið 1577.[47]
Sonur Jóhanns og Katrínar, Sigmundur, var gerður að konungi Póllands-Litáens 1587. Eftir að Sigmundur erfði sænsku krúnuna 1592 reyndi bróðir Jóhanns, Karl hertogi, að grafa undan völdum hans. Karl espaði meðal annars finnska bændur gegn aðlinum í Finnlandi sem stóð með Sigmundi í kylfustríðinu.[48] Hann fékk þingið til að samþykkja að konungur Svíþjóðar yrði að vera mótmælendatrúar. Árið 1598 hóf Karl stríð gegn Sigmundi og vann sigur. Sem konungur Svíþjóðar átti Karl í tíðum styrjöldum við Pólverja (stríð Póllands og Svíþjóðar 1600-1629), Rússa (herför De la Gardie og Ingermanlandsstríðið) og Dani (Kalmarófriðurinn). Þessi stríð stóðu enn yfir þegar Karl lést árið 1611 og 17 ára sonur hans, Gústaf 2. Vasa, tók við völdum.
Gústaf stóð mest ógn af hernaði Kristjáns 4. sem hafði lagt undir sig bæði Kalmarhöll og Älvsborg. Helstu herforingjar Svía, Jakob De la Gardie og Evert Horn, voru í Rússlandi. Konungur samdi um frið við Dani árið 1613 með friðarsamningnum í Knærød sem var Svíum mjög óhagstæður. Fjórum árum síðar náðu Svíar mun hagstæðari friðarsamningum í Rússlandi þar sem þeir náðu Ingermanlandi á sitt vald og lokuðu á aðgang Rússa að Eystrasalti. Stríðið í Póllandi stóð í 12 ár þar sem markmið Svía var að hertaka allar borgirnar á suðurströnd Eystrasalts og loka þannig á aðgang Pólverja að hafi. Árið 1629 sömdu stríðsaðilar um sex ára vopnahlé, sem gerði Svíum kleift að taka þátt í þrjátíu ára stríðinu.[49]
Heima fyrir nútímavæddi Gústaf stjórn landsins og kom sér upp ríkisstjórn með ráðuneytum í stað sænska ríkisráðsins. Helsti ráðgjafi hans var ríkiskanslarinn Axel Oxenstierna sem fór með stjórn landsins í fjarveru konungs. Gústaf einfaldaði líka og bætti skattheimtu og herkvaðningu og nútímavæddi sænska herinn.[50] Eftir ósigur Kristjáns 4. og brotthvarf úr átökum þrjátíu ára stríðsins árið 1629, ákvað Gústaf að hefja þátttöku í stríðinu í Þýskalandi. Hann samdi um árlegan stríðsstyrk við Frakka árið eftir. Nokkrir mótmælendafurstar gengu til liðs við hann, en stuðningur þeirra fór að miklu leyti eftir stríðsgæfu Svía. Fall og eyðing Magdeburg vorið 1631 jók fylgi við Gústaf og Svíar unnu mikilvægan sigur í orrustu við Breitenfeld, en í orrustu við Lützen árið eftir féll konungur. Oxenstierna tók þá við stjórn landsins sem ríkisstjóri fyrir hönd barnungrar dóttur Gústafs, Kristínar. Ófriðurinn hélt áfram og árið 1641 tók Lennart Torstenson við stjórn hersins. Árið 1643 hófst Torstensonófriðurinn þar sem Torstenson réðist inn í Danmörku. Með Brömsebrofriðnum 1645 fengu Svíar Halland, Jamtaland, Herjadal og eyjarnar Saaremaa og Gotland frá Dönum.[51] Þegar loks var samið um frið í þrjátíu ára stríðinu í Þýskalandi, fengu Svíar stórt land, Sænsku Pommern, í norðurhlutanum og atkvæði við kjör keisara Heilaga rómverska ríkisins.[52]
Árið 1654 ákvað Kristín Svíadrottning að segja af sér og láta völdin ganga til frænda síns, Karls, sem líka var barnabarn Karls 9. Karl hóf nær strax stríð gegn Póllandi sem var kallað „sænska syndaflóðið“. Stríðið gekk illa og þegar Danir lýstu Svíum stríði á hendur 1657 greip Karl tækifærið og hélt með herinn til Jótlands. Óvenju harður vetur varð til þess að dönsku sundin lagði og sænski herinn komst á eyjarnar gangandi á ís. Í friðarsamningunum fengu Svíar Skán, Blekinge, Bohuslän og Þrándheim. Í friðarsamningum við Pólland fengu Svíar viðurkennd yfirráð sín í Líflandi og ríktu þá yfir nær allri strönd Eystrasalts. Karl 11. kom á kerfi þar sem hver sveit sá hernum fyrir einum hermanni með öllum búnaði.[53] Árið 1686 var kirkjulögum breytt og tekin upp fermingarfræðsla með prófi í læsi.[54] Svíum tókst þó ekki að viðhalda stórveldisstöðu sinni við Eystrasalt lengi. Pétur mikli tók við völdum í Rússlandi 1696 og nútímavæddi stjórnkerfi og her. Helsta takmark hans var að fá aðgang að Eystrasalti. Norðurlandaófriðurinn mikli hófst með átökum milli Svía og Rússa, sem studdir voru af Dönum og Pólverjum, árið 1700. Eftir fjölda bardaga á þremur vígstöðvum féll Karl 12. í orrustu í Noregi árið 1718 og systir hans, Úlrika Eleónóra, tók við völdum. Í friðarsamningum 1721 misstu Svíar Ingermanland, Eistland og Lífland til Rússa, og hluta Sænsku Pommern til Prússlands. Það markar endalok stórveldistímans í sögu Svíþjóðar.[55] Ef undan eru skilin Finnland og Sænska Pommern, voru landamæri Svíþjóðar þá orðin svipuð því sem þau eru í dag.[56]
Ófriðurinn olli Svíum miklum búsifjum. Eftir lát Karls 12. var einveldið mjög óvinsælt meðal almennings. Þegar Úlrika Eleónóra tók við völdum tryggði sænska þingið sér sjálfstæð völd með lagasetningum 1719 og 1720. Tímabilið sem fylgdi í kjölfarið var nefnt frelsistíminn, þar sem þingið var sjálfstæður fulltrúi stéttanna og gerður var greinarmunur á grunnlögum og almennum lögum.[57] Friðrik 1. sem tók við völdum af Úlriku, eiginkonu sinni, árið 1720, var frjálslyndur konungur, en hafði lítil áhrif á stjórn landsins. Í fyrstu fór sænska ríkisráðið með stjórnina undir forystu Arvid Horn, sem markvisst forðaðist þátttöku í hernaðarátökum.
Með tíð og tíma skiptust þingmenn í tvo flokka: Hattana, sem studdu aðalinn, og Húfurnar, sem studdu stórbændur.[58] Hattarnir steyptu Horn af stóli 1738 og fóru eftir það oftast með stjórn landsins. Þeir studdu Frakka gegn Rússum og öttu Svíþjóð út í Hattastríðið gegn þeim 1741.[59] Stríðinu lauk með ósigri Svía og missi enn frekara lands við austurlandamæri Finnlands. Eftir ósigurinn náðu Húfurnar yfirhöndinni á þinginu. Þegar Úlrika lést án erfingja 1741, vildu Húfurnar í fyrstu fá danska krónprinsinn Friðrik, en Elísabet Rússakeisaraynja beitti sér fyrir því að frændi hennar, Adolf Friðrik, var valinn í staðinn. Eftir þetta komust Hattarnir aftur til valda.
Efnahagsstjórnin á 18. öld var í anda merkantílismans. Komið var á sænskri einokun á skipaflutningum innanlands, og reynt að koma á sænskum iðnaði á sem flestum sviðum. Árið 1731 var Sænska Austur-Indíafélagið stofnað og 1739 var Konunglega sænska vísindaakademían stofnuð. Flokkunarkerfi Carl Linné, Systema naturae, kom út í fyrsta skipti árið 1735. Járn var, líkt og áður, mikilvægasta útflutningsvara Svíþjóðar. Á seinni hluta 18. aldar hófust tilraunir með jarðaumbætur til að auka framleiðni í sænskum landbúnaði. Eitt frægasta fyrirtækið af þessu tagi var Alingsås, þar sem Jonas Alströmer kom upp vefnaðariðnaði í tengslum við kynbætur í sauðfjárrækt.[60] Verksmiðjan í Alingsås var ein af fyrirmyndum Innréttinganna á Íslandi.[61]
Árið 1771 komst sonur Adolfs Friðriks, Gústaf 3., til valda og framdi nær strax valdarán með aðstoð hluta hersins.[62] Ein ástæðan var ógnin frá Rússlandi. Gústaf lét samþykkja ný grunnlög sem færðu honum meiri völd í anda upplýsts einveldis. Gústaf kom í gegn fjölda umbótalaga í anda frjálslyndisstefnu. Hann stofnaði Sænsku akademíuna árið 1786, að franskri fyrirmynd. Hann hóf stríð gegn Rússum 1788 til að vinna aftur töpuð héruð í Finnlandi, en náði því aðeins fram að hindra afskipti Rússa af sænskum innanríkismálum. Hann nýtti sér uppreisn foringja í Finnlandi til að afnema réttindi sænska aðalsins. Á grímuballi árið 1792 var hann skotinn með skammbyssu og lést af sárum sínum átta dögum síðar.[63]
Eftir lát Gústafs 3. tók 14 ára sonur hans, Gústaf 4. Adolf, við en stjórnin var í höndum forræðisstjórnar. Þegar Napóleonsstyrjaldirnar hófust 1803 tóku Svíar harða afstöðu á móti Napoléon Bonaparte, en þegar Napóleon gerði bandalag við Rússland eftir fjórða bandalagsstríðið, sömdu keisararnir um að Rússar legðu Finnland undir sig til að veikja Svíþjóð. Svíar biðu afgerandi ósigur í Finnlandsstríðinu. Finnland (ásamt Álandseyjum, Lapplandi og Austurbotni) var innlimað í Rússaveldi sem Stórfurstadæmið Finnland. Núverandi landamæri Svíþjóðar og Finnlands eru þau sömu og samið var um í friðarsamningum í Frederikshamn 17. september 1809.[56] Konungi var kennt um ófarir Svía í stríðinu og í mars 1809 steypti hópur herforingja honum af stóli og fangelsaði í Grípshólmshöll.[64] Föðurbróðir hans, Karl, var kjörinn konungur sem Karl 13. eftir að hafa samþykkt mjög frjálslynda stjórnarskrá. Karl var 61 árs þegar hann tók við völdum og átti enga lögmæta erfingja. Því var ákveðið að velja arftaka hans strax og fyrir valinu varð hátt settur franskur herforingi, Jean-Baptiste Jules Bernadotte. Hann tók við völdum sem Karl 14. þegar Karl 13. lést 1818. Frakkar höfðu lagt Sænska Pommern undir sig 1807. Þegar Svíþjóð og Bretland sömdu við Danmörku um frið í Kíl 1814 var ákveðið að Danir fengju Pommern í skiptum fyrir Noreg, sem gekk í konungssamband við Svíþjóð.[65]
Napóleonsstyrjaldirnar og missir Finnlands léku sænskt efnahagslíf grátt. Á 19. öld hófst tímabil iðnvæðingar með byggingu Gautaskurðsins þvert yfir Svíþjóð 1832.[66] Stáliðnaðurinn átti hins vegar í erfiðleikum vegna samkeppni við Bretland. Árið 1842 var skólaskyldu komið á og umbætur í landbúnaði leiddu til fólksfjölgunar. Íbúafjöldi Svíþjóðar tvöfaldaðist á 19. öld og var 5 milljónir um aldamótin 1900. Yfir ein milljón Svía flutti til Ameríku í nokkrum bylgjum á síðari hluta 19. aldar. Í valdatíð Óskars 1. og Karls 15. gerðu Svíar umbætur í efnahagsstjórn, félagsmálum og stjórnkerfinu. Árin 1865-1866 var stjórnarskránni breytt þannig að sænska þingið í tveimur deildum tók við af gamla stéttaþinginu. Járnbrautarnetið stækkaði eftir 1870 og nýjar járnnámur voru uppgötvaðar á Norðurlandi. Mörg af helstu iðnfyrirtækjum Svíþjóðar í dag, eins og LM Ericsson, Asea og Bofors, voru ýmist stofnuð eða hófu stáliðju á þessum tíma. Alfred Nobel stofnaði fyrirtæki sitt, Nitroglycerin Aktiebolaget, árið 1865.
Óskar 2. varð konungur 1872. Í valdatíð hans hallaðist landið að Þýskalandi fremur en Frakklandi. Á sama tíma leiddu deilur stjórnarinnar við norska stórþingið til upplausnar konungssambandsins 1905. Almennur kosningaréttur karla var tekinn upp árið 1907. Konur fengu ekki kosningarétt í Svíþjóð fyrr en árið 1921.
Svíþjóð lýsti yfir hlutleysi í báðum heimsstyrjöldunum og hélt lengi fast við þá stefnu að standa utan hernaðarbandalaga í því augnmiði að halda sér utan við væntanlegar styrjaldir. Í fyrri heimsstyrjöld kusu Svíar að halda áfram verslun við Þýskaland sem varð til þess að bandamenn beittu landið viðskiptaþvingunum. Ásamt útflutningi matvara og fólksfjölgun, leiddi þetta til hungursneyðar og húsnæðiskreppu í borgum eins og Stokkhólmi. Fyrsta ríkisstjórn jafnaðarmanna, undir forystu Hjalmar Branting, komst til valda 1920. Almennur kosningaréttur karla og kvenna tók gildi 1921 og í kosningum það ár unnu jafnaðarmenn stórsigur. Kreppan mikla 1929 og gjaldþrot Kreuger-hópsins 1932 höfðu víðtækar samfélagslegar og pólitískar afleiðingar.
Þegar síðari heimsstyrjöld braust út lýsti Svíþjóð sig aftur hlutlaust og átti í margvíslegu samstarfi við Þriðja ríkið. Svíar heimiluðu til dæmis liðsflutninga Þjóðverja um sænskt land milli Noregs og Finnlands og seldu þýska hernum stál til hergagnaframleiðslu. Á sama tíma tóku Svíar við þúsundum flóttamanna frá Danmörku og Noregi. Þjóðverjar lokuðu Skagerrak milli Danmerkur og Noregs með tundurduflum, en sá hluti sænska kaupskipaflotans sem var utan við siglingatálmann var leigður til bandamanna. Svíar juku varnarviðbúnað verulega eftir 1942. Stríðið olli vöruskorti í Svíþjóð sem tók upp skömmtun á nauðsynjavörum. Sjálfsþurftarbúskapur fór vaxandi um allt land.
Í marga áratugi eftir stríð voru Sósíaldemókratar ríkjandi valdaflokkur í Svíþjóð. Tage Erlander varð forsætisráðherra 1946 og byggði upp almannatryggingakerfi sem undirstöðu velferðarkerfis í Svíþjóð, á grundvelli kenninga hagfræðingsins Gunnars Myrdal.[67] Á 6. og 7. áratugnum nutu skáldsögur Astrid Lindgren og kvikmyndir Ingmar Bergman vinsælda um allan heim.
Svíar gerðust aðilar að Sameinuðu þjóðunum 1946, en kusu að standa utan við Atlantshafsbandalagið. Samstarf Svía við NATO var þó svo náið að hlutleysið var nánast eingöngu að nafninu til.[68] Þéttbýlisvæðing hélt áfram eftir hléð í stríðinu og stjórnin tókst á við húsnæðiskreppuna með stórum byggingaverkefnum eins og Milljónaverkefninu 1965 og Norrmalmumbótunum á 6. og 7. áratugnum.[69] Hagvöxtur náði hámarki milli 1968 og 1973 þegar Svíþjóð var eitt af fjórum ríkustu löndum heims.[70] Olíukreppan 1973 og kreppur í hefðbundnum iðngreinum á sama tíma bundu enda á þetta tímabil. Sænska krónan gekk í gegnum margar gengisfellingar á 8. og 9. áratugnum.
Önnur ríkisstjórn Olofs Palme afnam reglur um lánsfjármarkaði sem leiddi til fasteignabólu á 9. áratugnum og fjármálakreppu 1990. Olof Palme var myrtur 1986. Á glaða 9. áratugnum svokallaða urðu Svíar stórveldi í popptónlist í Evrópu, með vinsælar hljómveitir á borð við Abba, Europe og Roxette. Árið 1990 var tekin upp aðhaldsstefna og niðurskurður í opinbera geiranum til að halda aftur af verðbólgu. Meðal afleiðinga fjármálakreppunnar var að atvinnuleysi jókst hratt, frá 2% árið 1991 í 10% árið 1993. Svíar samþykktu aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1994, en höfnuðu upptöku evrunnar árið 2003.
Herskylda var afnumin í Svíþjóð árið 2010, en 2016 var hún tekin upp að nýju, og gilti í þetta sinn líka um konur. Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu árið 2022 sótti Svíþjóð um aðild að Atlantshafsbandalaginu ásamt Finnlandi. Svíþjóð hlaut aðild að bandalaginu þann 7. mars 2024.
Svíþjóð er austan megin á Skandinavíuskaganum og nær yfir 17 breiddargráður, að mestu milli 55 og 70° N, og 15 lengdargráður, að mestu milli 11 og 25° A. Munurinn á lengdargráðum jafngildir 52 mínútna sólargangi frá Haparanda í austri að Strömstad í vestri. Svíþjóð er fimmta stærsta land Evrópu (ef aðeins er reiknað með Evrópuhlutum Danmerkur og Tyrklands). Lengsta lengd þess frá norðri til suðurs er 1.572 km og frá austri til vesturs 499 km. Svíþjóð á landamæri að Noregi í vestri og Finnlandi í norðaustri og tengist Danmörku í suðvestri um Eyrarsundsbrúna. Landið á strandlengju að Helsingjabotni, sem er hluti af Eystrasalti, í austri, og Skagerak, Kattegat og Eyrarsundi í vestri. Svíþjóð er eitt Norðurlandanna. Um það bil 221.800 eyjar tilheyra Svíþjóð. Þær stærstu eru Gotland og Eyland sem báðar eru í Eystrasalti.
Meirihluti Svíþjóðar er flatur og hæðóttur, en Skandinavíufjöllin (Kjölurinn) rísa í yfir 2.000 m hæð við landamærin að Noregi, sem fylgja nánast vatnaskilunum eftir. Hæsti hnjúkurinn er Kebnekaise sem er 2.097 metrar yfir sjávarmáli. 28 þjóðgarðar eru dreifðir um landið. Þeir stærstu eru í norðvesturhluta landsins. Þar mynda flestar árnar breið fljót sem renna frá fjöllunum í austur út í Botnvík og Botnhaf. Vindelfjällen-þjóðgarðurinn í Vesturbotni er eitt af stærstu náttúruverndarsvæðum Evrópu, um 5.628 km2 að stærð.
Suður- og Mið-Svíþjóð (Gautland og Svealand) ná aðeins yfir tvo fimmtu hluta landsins en Norður-Svíþjóð (Norrland) nær yfir þrjá fimmtu hluta landsins. Syðsti hluti landsins er héraðið Skánn. Suðurhluti landsins er að mestu landbúnaðarland. Alls nær ræktarland yfir 2,7 milljónir hektara í Svíþjóð. Þrátt fyrir það eru 75% þurrlendis í Svíþjóð þakin skógi. Svíþjóð er á vesturjaðri evrasíska barrskógabeltisins. Suðurhlutinn er líka mun þéttbýlli en norðurhlutinn. Þéttbýlustu svæðin eru Mälardalen, Bergslagen, Eyrarsundssvæðið og Vestur-Gautlandssvæðið. Í suðurhluta Gautlands koma mörg vatnsföll upp í suðursænska hálendinu og renna þaðan í allar áttir. Stærsta vatnsfall Svíþjóðar er Klarälven-Gautelfur sem rennur meðal annars um vatnið Vänern og út í sjó við Gautaborg. Stærstu stöðuvötn Svíþjóðar eru Vänern og Vättern. Vänern er þriðja stærsta stöðuvatn Evrópu, á eftir Ladogavatni og Onegavatni í Rússlandi.
Um helmingur landsins er skógi vaxinn (aðallega greni og furu). Í suðurhluta landsins eru einnig eikar– og beykiskógar.
Alls eru 65 tegundir landspendýra í Svíþjóð og er engin þeirra einlend í landinu. Af spendýrategundum má nefna elg, rádýr, rauðhjört, ýmsar tegundir nagdýra svo sem rauðíkorna, mýs, læmingja og bifur, kanínur og héra.
Þrjár tegundir spendýra eru taldar í mikilli útrýmingarhættu í landinu. Tvær þessara tegunda eru leðurblökur og þriðja tegundin í mikilli útrýmingarhættu er úlfurinn. Tæplega 260 tegundir fugla verpa að staðaldri í Svíþjóð. Alls hafa fundist sjö tegundir skriðdýra í Svíþjóð, þar af þrjár tegundir snáka. Þrátt fyrir kalda veðráttu hluta árs eru 13 tegundir froskdýra í Svíþjóð.[71]
Svíþjóð hefur verið konungdæmi í hátt í þúsund ár. Konungur hefur stærstan hluta þessa tíma deilt löggjöf með þinginu (á sænsku: Riksdag). Þingið hefur hins vegar haft mismikil völd gegnum tíðina. Frá endurreisn konungdæmisins 1523 var lagasetningu og stjórn ríkisins skipt milli konungs og stéttarþings aðalsmanna. Árið 1680 gerðist sænski konungurinn hins vegar einvaldur.
Eftir tap Svía í Norðurlandaófriðinum mikla hófst það sem nefnt er frelsistíminn frá 1719. Honum fylgdu þrjár stjórnarskrárbreytingar, 1772, 1789 og 1809, sem allar styrktu vald borgara gagnvart konungi. Þingræði var komið á 1917 þegar Gústaf 5. sætti sig við að skipa ríkisstjórn í samræmi við valdahlutföll á þingi, eftir langa baráttu. Almennum kosningarétti var komið á 1918 – 1921. Með nýrri stjórnaskrá 1975 var allt vald konungs afnumið. Táknrænu embætti konungs var haldið en án nokkurs valds.
Í upphafi 20. aldar mótaðist það flokkakerfi sem að miklu leyti hefur einkennt sænsk stjórnmál síðan. Sænski jafnaðarmannaflokkurinn hefur verið langstærsti stjórnmálaflokkurinn allar götur frá öðrum áratug 20. aldar og hefur setið í stjórn meira og minna samfleytt í yfir sjötíu ár. Á þingi sitja nú fulltrúar sjö flokka sem skiptast í tvær fylkingar, vinstri og hægri. Til vinstrifylkingarinnar teljast sænski jafnaðarmannaflokkurinn (Socialdemokraterna), sænski vinstriflokkurinn (Vänsterpartiet), sænski umhverfisflokkurinn (Miljöpartiet). Til hægrifylkingarinnar teljast sænski hægriflokkurinn (Moderaterna), sænski þjóðarflokkurinn (Folkpartiet) (frjálslyndur miðjuflokkur), sænski miðflokkurinn (Centerpartiet) og kristilegir demókratar (Kristdemokraterna) og síðan Svíþjóðardemókratar (Sverigedemokraterna) lengst til hægri.
Skjaldarmerki | Heiti | Landshluti | Flatarmál (km²) |
---|---|---|---|
Angurmannaland | Norðurland | 19.800 | |
Austur-Gautland | Gautland | 9.979 | |
Blekinge | Gautland | 2.941 | |
Bohuslän | Gautland | 4.473 | |
Dalir | Svíaríki | 29.086 | |
Dalsland | Gautland | 3.708 | |
Eyland | Gautland | 1.342 | |
Gotland | Gautland | 3.140 | |
Gästrikland | Norðurland | 4.181 | |
Halland | Gautland | 4.786 | |
Helsingjaland | Norðurland | 14.264 | |
Herjadalur | Norðurland | 11.954 | |
Jamtaland | Norðurland | 34.009 | |
Lappland | Norðurland | 109.072 | |
Medelpad | Norðurland | 7.058 | |
Norðurbotn | Norðurland | 26.671 | |
Närke | Svíaríki | 4.126 | |
Skánn | Gautland | 11.027 | |
Smálönd | Gautland | 29.330 | |
Suðurmannaland | Svíaríki | 8.388 | |
Uppland | Svíaríki | 12.676 | |
Vermaland | Svíaríki | 18.204 | |
Vesturbotn | Norðurland | 15.093 | |
Vesturmannaland | Svíaríki | 8.363 | |
Vestur-Gautland | Gautland | 16.676 |
Svíþjóð er tólfta ríkasta land heims mælt í vergri landsframleiðslu á mann og íbúar búa við mikil lífsgæði. Svíþjóð er með blandað hagkerfi. Helstu auðlindir landsins eru timbur, vatnsafl og járngrýti. Hagkerfi landsins leggur mikla áherslu á útflutning og alþjóðaviðskipti. Verkfræðigeirinn stendur undir helmingi af útflutningi, en fjarskiptageirinn, bílaiðnaður og lyfjafyrirtæki eru líka mikilvæg. Svíþjóð var þrettándi stærsti vopnaframleiðandi heims árið 2023.[72] Landbúnaður stendur undir 2% af landsframleiðslu og atvinnu. Landið er með eina mestu útbreiðslu farsímaþjónustu og Internets í heimi.[73][74]
Samningar verkalýðsfélaga ná yfir hátt hlutfall launþega í Svíþjóð.[75][76] Þessi mikla útbreiðsla samninga hefur náðst þrátt fyrir skort á löggjöf og endurspeglar styrk verkalýðsfélaga á sænskum vinnumarkaði.[77]
Árið 2010 var Gini-stuðull Svíþjóðar sá þriðji lægsti meðal þróaðra ríkja. Hann var þá 0,25, eilítið hærri en í Japan og Danmörku, sem benti til mikils tekjujöfnuðar. Síðan þá hefur hann hins vegar hækkað hratt og fór yfir 0,33 árið 2021.[78] Eignaójöfnuður var undir meðaltali Evrópusambandsins (miðað við 2022) en hærri en á öllum hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og Þýskalandi.[79] Gini-stuðullinn er ólíkur innan ólíkra héraða og sveitarfélaga í Svíþjóð. Surahammar, 100 km vestan við Stokkhólm, hefur lægsta Gini-stuðul Svíþjóðar, eða 0,23, meðan Danderyd við Stokkhólm er með þann hæsta, eða 0,52. Í kringum Stokkhólm og Skán, tvö þéttbýlustu svæði Svíþjóðar, er Gini-stuðull tekna yfir 0,30 (miðað við 2020).[80]
Sænska hagkerfið einkennist af stórum, þekkingarfrekum og útflutningshneigðum iðnaði; stækkandi en tiltölulega litlum viðskiptaþjónustugeira, og hlutfallslega stórum opinberum þjónustugeira. Stórfyrirtæki, sérstaklega í iðnaði og þjónustu, einkenna efnahagslíf Svíþjóðar.[81] Hátækniiðnaður stendur undir um 6% af landsframleiðslu.[82] Helstu viðskiptalönd Svíþjóðar árið 2022 voru Noregur, Þýskaland, Bandaríkin, Danmörk, Finnland og Bretland.[83]
Tíu stærstu fyrirtæki Svíþjóðar miðað við veltu árið 2023 voru Volvo, Scania, Ericsson, Hennes & Mauritz, Vattenfall, Skanska, ICA Gruppen, Electrolux, Essity og AstraZeneca.[84] Mikill meirihluti sænskra iðnfyrirtækja er í einkaeigu, ólíkt mörgum iðnvæddum vestrænum ríkjum.
Talið er að 5,2 milljónir Svía séu á vinnumarkaði og rúmlega þriðjungur vinnandi fólks hefur lokið háskólaprófi.[85] Landsframleiðsla á vinnustund var sú 16. hæsta í heimi í Svíþjóð árið 2022, eða 108 dalir, miðað við 102 dali á Spáni og 107 dali í Bandaríkjunum.[86] Svíþjóð stendur fremst allra landa hvað varðar einkarekna lífeyrissjóði og vandamál við fjármögnun lífeyris eru tiltölulega lítil miðað við mörg Vestur-Evrópuríki.[87] Árið 2014 var ákveðið að prófa sex tíma vinnudag í Svíþjóð á óbreyttum launum, með þátttöku starfsfólks sveitarfélagsins Gautaborgar. Með þessu leitast sænska ríkið við að draga úr kostnaði vegna veikindaleyfa og auka afkastagetu.[88] Enn hafa aðeins fá fyrirtæki og stofnanir fylgt þessu eftir og venjan í Svíþjóð er enn 8 tíma vinnudagur.[89] Atvinnuleysi var 7,4% í nóvember 2024.[85]
Þegar skattafleygurinn hefur verið dreginn frá heldur dæmigerður sænskur verkamaður eftir tæplega 60% af launakostnaði. Mest af skattafleygnum (87%) fellur á launagreiðandann. Ef tekið er tillit til launatilfærslu (bóta) heldur meðalverkamaður í Svíþjóð eftir um 75% af nettótekjum, og meðalfjölskylda með tvö börn heldur eftir meira en 80% af tekjum.[90] Skattar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu náðu hámarki, 52,3%, árið 1990. Til að takast á við fasteigna- og bankakreppu það ár réðist ríkisstjórnin í umbætur á skattkerfinu, lækkaði skattahlutfall og víkkaði út skattheimtuna.[91][92] Frá 1990 hefur skattahlutfallið lækkað miðað við landsframleiðslu og skattahlutfall fólks með mestar tekjur hefur lækkað mest.[93] Árið 2023 voru skattar 41,4% af vergri landsframleiðslu, sem var 8. hæsta hlutfallið innan OECD og lægra en í Danmörku, Noregi og Finnlandi, en talsvert hærra en á Íslandi.[94]
Samkvæmt World Economic Forum var Svíþjóð með áttunda samkeppnishæfasta hagkerfi heims 2019.[95] Svíþjóð var í þriðja sæti Global Green Economy Index (GGEI) árið 2024[96] og í 6. sæti á lista IMD-viðskiptaskólans yfir lönd eftir samkeppnishæfni 2024.[97] Samkvæmt bókinni The Flight of the Creative Class eftir bandaríska hagfræðinginn Richard Florida árið 2005, taldi hann að Svíþjóð byggi yfir bestu aðstæðum heims fyrir skapandi greinar og myndi virka sem segull fyrir skapandi starfsfólk. Mat bókarinnar byggist á þáttum eins og hæfileikum, tækni og umburðarlyndi.[98][99]
Svíþjóð er með sinn eigin gjaldmiðil, sænska krónu (SEK), eftir að Svíar höfnuðu upptöku evru í þjóðaratkvæðagreiðslu. Seðlabanki Svíþjóðar var stofnaður árið 1668 og er því elsti seðlabanki heims. Bankinn leggur áherslu á verðstöðugleika með 2% verðbólgumarkmið. Í nóvember 2024 var verðbólga um 1,6%.[100]
Sænska kirkjan er fjölmennasta trúfélagið en hún var þjóðkirkja til ársins 2000. 52.8% Svía eru meðlimir hennar. Þó sækja aðeins um 2% kirkju reglulega. Um 5% eru múslimar og 2% kaþólskir. Í Svíþjóð er fjöldi trúlausra.
Margir Svíar líta svo á að tengsl við náttúruna og áhugi á útivist sé eitt af helstu einkennum sænskrar menningar. Sérstök sænsk menning þróaðist á 19. öld út frá ólíkri menningu landshluta og þjóðflokka, sem sumir hverjir höfðu aðeins tilheyrt Svíþjóð um stutt skeið og höfðu sínar eigin mállýskur og alþýðuhefðir. Sumar af þessum staðbundnu hefðum voru teknar upp sem sænsk þjóðmenning, eins og Dalahestar, skíðaíþróttin og bálkestir á Valborgarmessu. Dalarna hafa lengi verið álitnir kjarnasvæði sænskra alþýðuhefða.
Sænsk menning hefur verið þekkt fyrir áherslu á jafnrétti og jöfnuð (meðal annars í gegnum Jantelögin og arfbótastefnu á 20. öld[101]), sterka hefð fyrir borgararéttindum og frjálslyndi í hjúskaparmálum. Sænska þjóðarheimilið var einkenni á stefnu sósíaldemókrata í velferðarmálum lengst af á 20. öld, undir áhrifum frá kenningum hagfræðingsins Gunnar Myrdal,[102] þar sem allir nytu aðstoðar og umhyggju, óháð efnahag eða uppruna. Samkvæmt hugmyndinni um þjóðarheimilið átti ríkið að tryggja öllum íbúum sambærileg grunnlífsgæði með gjaldfrjálsri menntun og heilsugæslu. Hugmyndinni um þjóðarheimilið var stillt upp sem „þriðju leið“ milli kommúnisma og kapítalisma.[103]
Á 7. áratugnum reyndi Svíþjóð að seilast til áhrifa á alþjóðavettvangi út frá hugmyndinni um „siðferðilega risaveldið“.[104] Sænsk stjórnvöld reyndu að miðla málum í ýmsum deilumálum risaveldanna á tímum kalda stríðsins og kynntu landið sem hlutlausan vettvang fyrir ráðstefnur alþjóðastofnana. Á sama tíma var Svíþjóð leiðandi í kynlífsbyltingunni og sænskar kvikmyndir sem fjölluðu um kynlíf á opinskáan hátt, eins og Forvitin gul, vöktu athygli um allan heim. Gagnrýnendur uppnefndu þessi viðhorf „sænsku syndina“.[105] Frjálslynd viðhorf til samkynhneigðar hafa líka verið talin einkenna sænskt samfélag.
Svíþjóð hefur lengi verið þekkt fyrir vísnasöng og dægurtónlist. Lög Carl Michael Bellman náðu miklum vinsældum um öll Norðurlönd á 18. og 19. öld, og sænski óperusöngvarinn Jussi Björling sló í gegn á alþjóðavísu á millistríðsárunum. Svíþjóð varð stórveldi í alþjóðlegri dægurtónlist eftir að hljómsveitin ABBA náði heimsfrægð á 8. áratug 20. aldar. Síðan þá hafa Svíar átt marga fræga lagahöfunda, danshöfunda, leikstjóra tónlistarmyndbanda og tónlistarframleiðendur.
Frægir sænskir rithöfundar eru meðal annars Astrid Lindgren, Selma Lagerlöf og leikskáldið August Strindberg. Þekktasti kvikmyndaleikstjóri Svíþjóðar er Ingmar Bergman. Leikkonurnar Greta Garbo og Ingrid Bergman eru þekktustu leikarar Svíþjóðar. Málarinn Anders Zorn náði alþjóðlegri frægð undir lok 19. aldar og Carl Larsson átti þátt í að skapa ímynd sænskrar alþýðumenningar í verkum sínum. Meðal þekktra sænskra vísindamanna eru Carl Linneus, Jöns Jacob Berzelius, Anders Celsius, Eva Ekeblad, Alfred Nobel, Ulf von Euler og Harry Nyquist.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.