stjórnmálaleg og efnahagsleg alþjóðasamtök 27 Evrópuríkja From Wikipedia, the free encyclopedia
Evrópusambandið (stytt ESB) er stjórnmálaleg og efnahagsleg alþjóðasamtök 27 Evrópuríkja með höfuðstöðvar í Brussel. Sambandið var stofnað í núverandi mynd með undirritun Maastrichtsamningsins þann 7. febrúar 1992 þar sem byggt var á Evrópubandalaginu. Rúmlega 500 milljónir borgara búa innan ríkja Evrópusambandsins og samanlagt er verg landsframleiðsla aðildarríkja um 30% af vergri landsframleiðslu heimsins.
Evrópufáninn | |
Kjörorð: „In varietate concordia“ (latína: Sameinuð í fjölbreytileika) | |
Aðildarríki | |
Höfuðstöðvar | Brussel (de facto) Strasbourg Lúxemborg |
Opinber tungumál | 24 (sjá tungumál í Evrópusambandinu) |
Leiðtogar - Fkv.stjórnar - Ráðs ESB - Evrópska ráðsins - Evrópuþingsins |
Ursula von der Leyen Thérèse Blanchet António Costa Roberta Metsola |
Flatarmál - Alls |
7. sæti * 4.325.675 km² |
Fólksfjöldi - Samtals (2007) - Áætlað (2008) - Þéttleiki |
3. sæti * 494.070.000 499.021.851 115/km² |
VLF - Samtals (2004) - VLF á mann |
1. sæti * € 9,61·10¹² € 21.125 |
Stofnun (sem EBE) - Undirritun - Gildistaka |
Rómarsáttmáli - 25. mars 1957 - 1. janúar 1958 |
Maastrichtsamningurinn - Undirritun - Gildistaka |
Maastrichtsamningurinn - 7. febrúar 1992 - 1. nóvember 1993 |
Gjaldmiðlar aðildarríkja | Evran (EUR eða €) (Evrusvæðið, stofnanir ESB) Í öðrum aðildarríkjum: Í ERM II: DKK, LTL. |
Tímabelti | UTC 0 til +2 (+1 til +3 þegar sumartími er í gildi) (að frönskum départementum utan Evrópu meðtöldum, UTC -4 til +4) |
Lén | .eu |
*ef sambandið er talið ein heild |
Í Evrópusambandinu er sameiginlegur markaður sem er staðlaður með löggjöf sem öll aðildarríki eru skyldug til þess að setja. Þau lög snúa að hinu svokallaða fjórfrelsi sem tryggir frjálsa för fólks, varnings, þjónustu og fjármagns um landamæri þeirra. Að auki má nefna sameiginlega viðskiptastefnu, landbúnaðarstefnu og sjávarútvegsstefnu auk byggðastefnu. Sextán aðildarríki hafa tekið upp sameiginlegan gjaldmiðil, evruna sem mynda Evrusvæðið. Evrópusambandið hefur einnig hlutverki að gegna í utanríkismálum, sameiginlegur fulltrúi ESB-ríkja semur um kjör og kosti í Alþjóða viðskiptastofnuninni, á fundum G7-ríkjanna, G20-ríkjanna og hjá Sameinuðu þjóðunum. Með Schengen-samstarfinu eru vegabréf óþörf fyrir ríkisborgara 22 ríkja Evrópusambandsins auk fjögurra annarra ríkja utan Evrópusambandsins, það er að segja Noregs, Íslands, Liechtenstein og Sviss þegar kemur að ferðum landanna á milli. Tuttugu og eitt ríki Evrópusambandsins eru meðlimir NATO.
Sem alþjóðasamtök er Evrópusambandið hvorki yfirþjóðlegt né hefðbundin milliríkjasamtök. Helstu stofnanir innan Evrópusambandsins eru ráðherraráðið, framkvæmdastjórn, Evrópska ráðið, Evrópuþingið, Seðlabanki Evrópu og Evrópudómstóllinn. Til Evrópuþingsins geta þeir kosið sem hafa evrópskan ríkisborgararétt.
Eftir eyðileggingu síðari heimsstyrjaldarinnar einsettu Evrópubúar sér að endurbyggja Vestur-Evrópu. Markmiðið var að koma á varanlegum friði í Evrópu, eftir að hvert stríðið hafði rekið annað frá örófi alda.[1] Kola- og stálbandalag Evrópu varð fyrsti vísirinn að því að efla samstarf Evrópuríkja, fyrst skyldi leitast við að gera ríkin efnahagslega víxlháð og sáttmálinn um Kola- og stálbandalagið gerði það með því að setja kola-, járn- og stálframleiðslu undir sameiginlega stjórn og á sameiginlegan markað. Það er athyglisvert að Kola- og stálbandalagið varð til upp úr viðræðum Frakka og Þjóðverja, en skærur milli þessara tveggja þjóða höfðu verið einn af meginþáttunum í áðurnefndri stríðssögu Evrópu, allt frá því að mörk þess, sem seinna varð að Frakklandi og Þýskalandi nútímans, voru dregin með Verdun-samningnum árið 843.
Meðal helstu áhrifavalda að Evrópusamrunanum á þessum upphafsárum voru Jean Monnet, Robert Schuman, Paul-Henri Spaak og Alcide de Gasperi. Upphaflegu stofnríki Kola- og stálbandalagsins voru Belgía, Frakkland, Holland, Lúxemborg, Ítalía og Vestur-Þýskaland. Árið 1957 undirrituðu þessi sex ríki Rómarsáttmálann. Þá varð til Efnahagsbandalag Evrópu (EBE) en því til viðbótar var Kjarnorkubandalag Evrópu stofnað sem hálf-sjálfstæð stofnun. Áratug seinna, árið 1967, gekk Samrunasamningurinn í gildi en þá voru stofnanir EBE færðar undir einn hatt.
Árið 1973 gengu þrjú lönd í EBE: Danmörk, Írland og Bretland. Aðildarríki töldu nú níu. Norðmenn höfðu lokið aðildarviðræðum en í þjóðaratkvæðagreiðslu höfnuðu þeir aðild. Árið 1979 var kosið til Evrópuþingsins í fyrsta skiptið.
Grikkland gekk í EBE árið 1981 og Spánn og Portúgal fylgdu eftir árið 1986. Schengen-samstarfið hófst árið 1985 með undirritun fimm ríkja um að opna landamæri sín fyrir ríkisborgurum þeirra í milli og leyfa fólksflutninga án vegabréfa. Árið 1986 var Evrópufáninn tekinn í notkun og Einingarlögin bjuggu til sameiginlegan markað ríkja EBE.
Eftir hrun kommúnismans og fall Sovétríkjanna opnaðist möguleiki fyrir Austur- og Mið-Evrópuríkja á að ganga í EBE. Af því tilefnu komu aðildarríki EBE sér saman um Kaupmannahafnarkríteríuna þar sem tekin voru fram þau skilyrði sem aðildarríki þurftu að hafa til að geta hlotið inngöngu.
Evrópusambandið (ESB) varð formlega til þegar Maastrichtsamningurinn tók gildi 1. nóvember 1993. Austurríki, Finnland og Svíþjóð gengu í ESB árið 1995 en þessi ríki höfðu fram að þessu viljað gæta hlutleysi með tilliti til Sovétríkjanna. Amsterdamsáttmálinn gekk í gildi 1997 en með honum voru ýmsir hnökrar á Maastrichtsáttmálanum lagfærðir og búið í haginn fyrir yfirvofandi stækkun ESB. Með Nicesáttmálanum 2001 var þessu starfi haldið áfram. Árið 2002 var evran, gjaldmiðill ESB, tekin í notkun í tólf aðildarlöndum. 2004 stækkaði Evrópusambandið um tíu ríki, og taldi þá 25 aðildarríki, þegar Malta, Kýpur, Slóvenía, Eistland, Lettland, Litáen, Pólland, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland gengu í ESB.
Ýmsar umbætur voru gerðar á stjórnkerfi Evrópusambandsins með Lissabon-sáttmálanum, sem var undirritaður þann 13. desember 2007 og tók gildi þann 1. desember 2009. Meðal annars var Evrópuþinginu veitt aukin völd, breytingar voru gerðar á þingmannafjölda aðildarríkjanna, til varð fastkjörið forsetaembætti fyrir evrópska ráðið og sérstakt lagaferli um útgöngu úr Evrópusambandinu var samþykkt.
Þann 1. janúar 2007 bættust Rúmenía og Búlgaría í hóp aðildarríkja, sem töldu þá 27 talsins og Slóvenía tók upp evruna. 1. júlí 2013 gekk Króatía í sambandið sem 28. aðildarríkið.
Árið 2016 hélt Bretland þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort ríkjasambandið myndi ganga úr sambandinu. Úrslitin fóru á þá leið að tæp 52% kusu með úrsögn en rúm 48% með áframhaldandi aðild. Bretland yfirgaf sambandið formlega þann 31. janúar árið 2020.
Evrópusambandið er um margt einstakt þegar kemur að alþjóðastofnunum, hvort heldur er alþjóðlegum eða svæðisbundnum. Fyrst ber að líta á, að Evrópusambandið felur í sér dýpra og víðtækara samstarf milli aðildarríkja en nokkur önnur alþjóðasamtök geta státað af, einnig það að áhrif Evrópusambandsins á löggjöf aðildarríkjanna eru meiri en gengur og gerist og þar með eru áhrif þess á daglegt líf borgara í þessum löndum meiri en fylgja yfirleitt aðild að alþjóðasamtökum. Sambandið getur sjálft sett lög, sem gilda sjálfkrafa í öllum aðildarríkjum.
Sambandið starfar á sviðum frá heilsugæslu og efnahagsmálum að utanríkis- og varnarmálum en aðildarríkin hafa framselt mismikið af valdi sínu til ESB eftir því um hvaða málaflokk er að ræða. Hvað varðar peningastefnu, landbúnað, viðskipti og umhverfismál til dæmis má líkja ESB við sambandsríki að völdum. Utanríkismál eru hins vegar dæmi um málaflokk, sem er alveg á hinum enda skalans, samstarfið í þeim flokki er meira í ætt við hefðbundið milliríkjasamstarf, þar sem ekki er hægt að þvinga aðildarríki til samstarfs. Aðrir málaflokkar lenda svo þarna mitt á milli. Evrópusambandið er þannig einstakt, hvorki hefðbundin alþjóðastofnun né sambandsríki, heldur er það stofnun sem er „sinnar eigin tegundar“ (l. sui generis).
Það hversu langt á að ganga með þessu samstarfi hefur verið uppspretta deilna frá upphafi þess og skoðanir eru skiptar bæði innan aðildarríkja sem og á milli þeirra. Þannig hafa meginlandsþjóðir á borð við Frakka, Þjóðverja og Benelúxlöndin yfirleitt verið jákvæðari gagnvart dýpra sambandi en þjóðir eins og Norðurlöndin og Bretland til dæmis hafa ekki viljað ganga eins langt.
Frá 31. janúar 2020 hafa aðildarríki Evrópusambandisins verið 27 sjálfstæð og fullvalda Evrópuríki sem skilgreind eru sem aðildaríkin. Stofnmeðlimir sambandsis 1952/1958 voru: Belgía, Frakkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg og Vestur-Þýskaland. Síðan þá hafa 22 ríki gengið í sambandið í nokkrum stækkunarlotum. Fimm ríki eru opinberlega umsóknarríki, sem þýðir að þau hafi hug á að ganga í ESB og verið sé að meta það hvort þau uppfylli skilyrði sem ákveðin voru á leiðtogafundi í Kaupmannahöfn árið 1993.[2] Þau eru Albanía, Norður-Makedónía, Svartfjallaland, Serbía og Tyrkland. Tvö lönd á Balkanskaganum hafa opinberlega verið viðurkennd sem hugsanleg umsóknarríki en þau eru Bosnía og Hersegóvína og Kosóvó.
Athugasemdir:
Fyrsta landið sem dró sig úr Evrópusambandinu var Grænland árið 1985, eftir þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1982 þar sem 53% höfnuðu aðild.
Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi árið 2016 þar sem tæplega 52% samþykktu úrsögn úr Evrópusambandinu hóf breska ríkisstjórnin formlegt úrsagnarferli. Bretar gengu úr Evrópusambandinu eftir langar samningaviðræður þann 31. janúar 2020.
Stofnanir og lagareglur Evrópusambandsins eru fjölmargar og hlutverk þeirra skarast oft. Þetta er afleiðing þess að sambandið byggir á röð milliríkjasamninga, sem hafa orðið til á nokkrum áratugum. Á seinni árum hefur verið hreyfing í þá átt að sameina og einfalda samningana og voru fyrirhuguð Stjórnarskrá Evrópusambandsins og Lissabon-sáttmálinn árið 2007 dæmi um það.
Frá 1993 til 2009 byggðist stjórnkerfi Evrópusambandsins á svokölluðum „þremur stoðum“ sambandsins: Evrópubandalaginu, sameiginlegri utanríkis- og öryggisstefnu og lögreglusamvinnu og lagalegri samvinnu í refsimálum. Stoðirnar þrjár voru leystar upp eftir gildistöku Lissabon-sáttmálans þann 1. desember 2009 og Evrópusambandið gert að einni lögpersónu. Evrópubandalagið var leyst upp og stofnanir þess, sem sneru að efnahags-, samfélags- og umhverfismálum, færðar undir Evrópusambandið.
Uppbygging Evrópusambandsins og Evrópubandalagsins í gegnum tíðina. |
Stofnanir Evrópusambandsins eru:
Á vegum ESB eru einnig fjármálastofnanirnar:
Að auki hafa verið settar á laggirnar álitsgefandi nefndir:
Evrópski umboðsmaðurinn hefur eftirlit með því að stofnanir ESB misbeiti ekki valdi sínu.
Evrópusambandið hefur ekki sameiginlegan her. Forverar Evrópusambandsins voru hugsaðir sem öflug hernaðarbandalög vegna þess að NATO gegndi því hlutverki fyrir flestar aðildarþjóðirnar.[3] Tuttugu og eitt aðildarríki Evrópusambandsins er einnig aðildarríki NATO[4] en hin fjögur Evrópusambandslöndin (Austurríki, Finnland, Írland og Svíþjóð) halda fram hlutleysi. Aftur á móti hefur verið dregið í efa að hlutleysi þeirra samrýmist aðildinni að Evrópusambandinu og þegar á reynir, til dæmis í tilviki hryðjuverka eða utanaðkomandi ógnar, er samstaða og eining innan Evrópusambandsins samkvæmt sáttmálum þess. Vestur-Evrópusambandið, sem var hernaðarbandalag með sáttmála um sameiginleg varnarviðbrögð, var lagt niður árið 2010 vegna þess að Evrópusambandið hafði tekið við hlutverki þess.
Samkvæmt Alþjóðlega friðarrannsóknasetrinu í Stokkhólmi (SIPRI) varði Bretland meira en 48 milljörðum evra í varnarmál árið 2009 og var þar með í þriðja sæti á eftir Bandaríkjunum og Kína. Frakkland varði 47 milljörðum evra og var í fjórða sæti. Saman bera Bretland og Frakkland ábyrgð á 45% af heildarútgjöldum Evrópusambandsins til varnarmála, 50% af herafla þess og 70% af útgjöldum til rannsókna þróunar í varnarmálum.[5] Árið 2000 báru Bretland, Frakkland, Spánn og Þýskaland ábyrgð á 97% af öllum útgjöldum til rannsókna og þróunarvinnu í varnarmálum.
Í kjölfarið á Stríðinu í Kosovo árið 1999 ákvað Evrópuráðið að Evrópusambandið yrði að hafa getuna til þess að framkvæma hernaðaraðgerðir á eigin vegum, hersveitirnar til að framkvæma þær og viljann og getuna til að ákveða að nota þær til þess að geta brugðist við aðstæðum sem gætu komið upp. Með það í huga var ráðist í að auka hernaðargetu Evrópusambandsins.
Friðargæslusveitir Evrópusambandsins hafa verið sendar til ríkja fyrrum Júgóslavíu á Balkanskaga, til Afríku og Miðausturlanda. Ýmsar stofnanir styðja við hernaðaraðgerðir Evrópusambandsins, þar á meðal Varnarmálastofnun Evrópu, Gervihnattamiðstöð Evrópusambandsins og Hermálaráð Evrópu.
Íbúafjöldi Evrópusambandsríkjanna allra var áætlaður rúmlega hálfur milljarður 1. janúar 2010. Íbúafjöldi Evrópusambandsins er 7,3% af fólksfjölda heimsins en Evrópusambandið nær þó einungis yfir um 3% af landsvæði jarðar. Evrópusambandið er því tiltölulega þéttbýlt svæði, með 115,9 íbúa á km².
Borg (og land) | Innan borgarmarka (2006) |
Þéttleiki byggðar /km² |
Þéttleiki byggðar /fermílu |
Stórborgarsvæði (2005) |
Stærri stórborgarsvæði (2004) |
---|---|---|---|---|---|
Berlín (Þýskalandi) | 3.410.000 | 3.815 | 9.880 | 3.761.000 | 4.971.331 |
Madríd (Spáni) | 3.228.359 | 5.198 | 13.460 | 4.990.000 | 5.804.829 |
París (Frakklandi) | 2.153.600 | 24.672 | 63.900 | 9.928.000 | 11.089.124 |
Róm (Ítalíu) | 2.708.395 | 2.105 | 5.450 | 2.867.000 | 3.457.690 |
Auk margra stórborga eru í löndum Evrópusambandsins fjölmörg afar fjölmenn þéttbýlissvæði sem hafa engan einn kjarna en hafa myndast úr nokkrum stórborgum. Stærstu svæðin af þessu tagi eru Rín-Ruhr svæðið með tæpar tólf milljónir íbúa (sem Köln, Dortmund, Düsseldorf og fleiri borgir mynda), Randstad með um sjö milljónir íbúa (sem Amsterdam, Rotterdam, Haag, Utrecht og fleiri borgir mynda), Frankfurt/Rín-Main með tæpar sex milljónir íbúa (sem Frankfurt, Wiesbaden og fleiri borgir mynda), Flæmski demanturinn með um 5,5 milljónir íbúa (þéttbýlissvæðið milli Antwerpen, Brussel, Leuven ogGhent), Eyrarsundssvæðið með um 3,7 milljónir íbúa (Kaupmannahöfn í Danmörku og Malmö í Svíþjóð) og Efri Slesíu iðnaðarsvæðið með um 3,5 milljónir íbúa (sem Katowice, Sosnowiec og fleiri borgir mynda).[7]
Í menntun og vísindum takmarkast hlutverk Evrópusambandsins við að aðstoða aðildarríkin. Menntastefna Evrópusambandsins varð til á 9. áratug 20. aldar og miðaði í upphafi einkum að því að auðvelda nemendaskipti og hreyfanleika. Þekktast þessara verkefna er Erasmus-verkefnið, sem er skiptinemaverkefni á háskólastigi sem var ýtt úr vör árið 1987. Á fyrstu tveimur áratugunum hefur það gert hálfri annarri milljón háskólanema kleift að að heimsækja erlenda háskóla og hefur orðið að nokkurs konar táknmynd evrópsks háskólalífs.[8]
Nú eru einnig sams konar verkefni í boði fyrir grunn- og framhaldsskólanema og kennara, fyrir iðnnema og í símenntun. Þeim er ætlað að stuðla að aukinni þekkingu á öðrum löndum og breiða út góða starfshætti í menntun og þjálfun innan Evrópusambandsins.[9] Með Bologna-viðmiðunum reynir Evrópusambandið einnig að stuðla að stöðlun námskrafna og námsgráða innan Evrópu.
Ísland er ekki aðili að Evrópusambandinu, en hefur sótt um aðild. Þann 16. júlí 2009 samþykkti Alþingi Íslendinga þingsályktunartillögu um umsókn um aðild að ESB.[10] Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands afhenti Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, umsóknina með formlegum hætti þann 23. júlí.[11] Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra Íslands í Svíþjóð, hafði þó afhent umsóknina í Stokkhólmi 17. júlí.[12] Ísland hefur hins vegar verið aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) síðan 1970, en þeim var ætlað að stuðla að frjálsri verslun. Með Evrópska efnahagssvæðiðnu, sem Ísland gerðist aðili að 1994 fengu íslensk fyrirtæki aðgang að evrópskum markaði.
Mikil umræða hefur verið um hugsanlega inngöngu Íslands í ESB, nú eða þá upptöku evrunnar, eða annars gjaldmiðils á síðustu árum. Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birt var í apríl 2008 eru ríflega ⅔ Íslendinga fylgjandi því að undirbúa umsókn að ESB. Í könnun frá því febrúar þegar spurt var um hvort sækja ætti um aðild (ath: ekki undirbúa umsókn um aðild) frá því í febrúar sama ár svaraði 55,1% játandi.[13] Það var ekki stefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, sem mynduð var eftir Alþingiskosningar 2007, að sækja um inngöngu í ESB. Samfylkingin hefur lýst því yfir að það sé á þeirra stefnu að sækja um aðild, en Sjálfstæðisflokkurinn er andvígur því.[14] Eftir að skuldakreppan í Evrópu (og þá einkum á Evrusvæðinu) hófst fyrir alvöru, 2010, hefur dregið mikið úr stuðningi við aðild.
Eftir alþingiskosningar árið 2013 tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar við völdum á Íslandi og voru báðir flokkarnir opinberlega á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafði þó margsinnis lýst því yfir bæði fyrir og eftir kosningarnar að ríkisstjórnin myndi ekki hverfa frá aðildarviðræðunum við Evrópusambandið án þess að leggja málið fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu.[15][16] Þvert á þessi ummæli fór svo að Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi utanríkisráðherra, sendi Evrópusambandinu árið 2015 tilkynningu um að aðildarviðræðum Íslendinga við Evrópusambandið, sem þá höfðu verið á ís í nokkur ár, skyldi alfarið hætt.[17] Tilkynningin um endalok aðildarviðræðanna var ekki lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu, né var hún afgreidd af alþingi.[18] Aðspurður hví ekki hefði verið staðið við loforðið um að binda ekki enda á viðræðurnar án samþykkis í þjóðaratkvæðagreiðslu sagði Bjarni Benediktsson síðar að „pólitískur ómöguleiki“ hefði komið í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um málið.[19]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.