Remove ads
eyjaklasi og dönsk hjálenda í Norður Atlantshafi From Wikipedia, the free encyclopedia
Færeyjar eru eyjaklasi í Norður-Atlantshafi á milli Skotlands og Íslands. Eyjarnar eru 18 talsins, og eru allar í byggð nema tvær, Koltur og Lítla Dímun. Mjög fámennt er þó á sumum þeirra. Eyjarnar eru hluti af Danmörku, en hafa heimastjórn í eigin málum. Eyjarnar eru þannig ekki hluti af Evrópusambandinu líkt og Danmörk. Tungumál eyjanna, færeyska, er náskylt íslensku.
Føroyar | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Tú alfagra land mítt | |
Höfuðborg | Þórshöfn |
Opinbert tungumál | Færeyska |
Stjórnarfar | Heimastjórn |
Konungur | Friðrik 10. |
Lögmaður | Aksel V. Johannesen |
Dönsk hjálenda | |
• Sameining við Noreg | 1035 |
• Flutningur til Danmerkur | 14. janúar 1814 |
• Heimastjórn | 1. apríl 1948 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
1.399 km² 0,5 |
Mannfjöldi • Samtals (2023) • Þéttleiki byggðar |
214. sæti 54.601 37/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2017 |
• Samtals | 2,83 millj. dala (179. sæti) |
• Á mann | 54.833 dalir |
VÞL (2008) | 0.950 |
Gjaldmiðill | Færeysk króna (DKK) |
Tímabelti | UTC (+1 á sumrin) |
Þjóðarlén | .fo |
Landsnúmer | +298 |
Færeyjar eru staðsettar um 300 km frá Bretlandi (Hjaltlandseyjum), um 500 km frá Íslandi og um 600 km frá Noregi. Þær ná yfir um 1400 km² og þar búa um 55 þúsund manns (m.v. 2023).[1] Höfuðstaður Færeyja er Þórshöfn á Straumey en í því sveitarfélagi búa alls um 20 þúsund manns. Landslag eyjanna einkennist af háum klettum sem ganga í sjó fram og litlu undirlendi. Veðurfar er rakt og vindasamt, en vegna áhrifa Golfstraumsins er mun hlýrra þar en víða annars staðar á sömu breiddargráðu. Meðalhiti er um 5˚ á vetrum og 12˚ á sumrin.[2]
Þær byggðust á svipuðum tíma og Ísland og með sama hætti; norskir sæfarar settust þar að, auk fólks frá Skotlandi og Írlandi, af norrænum og gelískum uppruna. Samkvæmt Færeyinga sögu og ritum írska munksins Dicuilusar byggðust eyjarnar snemma á 9. öld.[3][4] Sigmundur Brestisson kristnaði eyjarnar og í kjölfarið urðu þær hluti af ríki Noregskonunga snemma á 11. öld. Eftir upplausn Kalmarsambandsins 1523 voru eyjarnar hluti af Danaveldi. Árið 1538 var lúterstrú tekin upp í Færeyjum. Notkun færeysku var bönnuð í skólum, kirkjum og stjórnsýslu og færeyska hætti að vera til sem ritmál.
Á 19. öld átti Venceslaus Ulricus Hammershaimb þátt í endurreisn færeysks ritmáls og smám saman tók hún við af dönsku sem kirkjumál og menntamál á fyrri helmingi 20. aldar. Bretar hernámu Færeyjar í síðari heimsstyrjöld, en létu íbúa að mestu um að stjórn eyjanna. Eftir stríðið var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði þar sem naumur meirihluti var samþykkur. Kristján 10. ógilti niðurstöðuna, en eftir nokkrar samningaviðræður fengu Færeyingar heimastjórn 1948.[5]
Færeyjar tilheyra Danmörku og hafa notið umtalsverðra fjárstyrkja þaðan. Æðsti maður færeysku heimastjórnarinnar er titlaður lögmaður. Þjóðþing Færeyinga er kallað Løgtingið og er með aðsetur í Þórshöfn en þar sitja 33 þingmenn. Færeyingar eiga jafnframt 2 kjörna fulltrúa á Folketinget, þjóðþingi Dana. Færeyingar fara sjálfir með stjórn eigin mála, að undanskildum varnarmálum, löggæslu, æðsta dómsvaldi og gjaldmiðilsmálum. Færeyingar fara með eigin utanríkismál að hluta í samstarfi við Danmörku.[6] Þar sem Færeyjar eru ekki hluti af sama tollasvæði og Danmörk, hafa eyjarnar vald til að gera eigin verslunarsamninga við önnur ríki, eins og Hoyvíkursamninginn við Ísland. Í Norðurlandaráði eru Færeyingar hluti af dönsku nefndinni. Færeyjar senda sitt eigið landslið á mót í sumum íþróttagreinum. Einn Færeyingur, Niels Ryberg Finsen, hefur unnið Nóbelsverðlaun, þannig að eyjarnar eru það land heims sem á flesta Nóbelsverðlaunahafa miðað við höfðatölu. Sjálfstæðisbarátta Færeyinga hefur verið eitt helsta deilumálið í Færeyjum frá fyrri hluta 20. aldarinnar en þjóðin virðist ávallt skiptast nokkuð jafnt í þá sem vilja sjálfstæði og þá sem vilja áfram tilheyra Danmörku.
Aðalatvinnuvegir Færeyinga eru fiskveiðar og fiskvinnsla, sem eru ástæða þess að eyjarnar kusu að standa utan við Evrópusambandið þegar Danmörk gekk í það árið 1973. Margir Færeyingar fóru til Íslands og unnu á vertíð upp úr miðri 20. öld og settust sumir þeirra að á Íslandi og hafa gerst íslenskir borgarar. Einnig hafa allnokkrir Íslendingar sest að í Færeyjum. Í kringum aldamótin 2000 bundu Færeyingar vonir við að hægt væri að finna olíulindir á hafsvæðinu við eyjarnar, en síðustu olíuleitarfyrirtækin hættu störfum þar árið 2015.[7]
Færeyjar nefnast Føroyar á nútímafæreysku. Oyar er fleirtala af eldri orðmynd fyrir orðið eyja (sem er oyggj í nútímafæreysku) og før er almennt talið dregið af fornnorræna orðinu yfir fé. Norski fornfræðingurinn Anton Wilhelm Brøgger kom fyrstur með þá tilgátu að nafnið kynni að vera dregið af keltneska orðinu fereann („land“, „ríki“), en viðurkenndi jafnframt að það gæti aldrei orðið nema tilgáta.[8] Í bókinni Liber de Mensura Orbis Terrae frá 825 nefnir írski munkurinn Dicuilus eyjar í um tveggja sólarhringa fjarlægð norður frá Bretlandseyjum þar sem væri mikið af sjófugli og sauðfé, en nefnir eyjarnar ekki.[9] Elsta ritið þar sem nafnið kemur fram er á Hereford-heimskortinu frá 1280 þar sem þær eru merktar inn sem farei. Færeyinga saga er talin skrifuð á 13. öld en er aðeins til sem brot í handritum Ólafs sögu. Þar eru engar sagnir um uppruna nafnsins.
Talið er að einsetumenn og munkar frá Skotlandi eða Írlandi hafi sest að í Færeyjum á 6. öld og líklega flutt þangað með sér sauðfé og geitur.[10] Norrænir menn komu svo til eyjanna um 800 og settust einhverjir þeirra þar að en samkvæmt því sem segir í Færeyinga sögu fullbyggðust eyjarnar seint á 9. öld þegar norskir menn hröktust þangað undan Haraldi hárfagra. Fyrsti landnámsmaður Færeyja var að sögn Grímur kamban.[11] Hann á að hafa búið í Funningi á Eysturoy. Viðurnefnið er keltneskt og bendir til tengsla við Bretlandseyjar.
Í Færeyinga sögu segir svo frá kristnitöku í Færeyjum að höfðinginn Sigmundur Brestisson hafi hrakist undan óvinum sínum til Noregs í lok 10. aldar. Þar tók hann kristna trú og var fól Ólafur konungur Tryggvason honum að kristna Færeyinga, sem hann og gerði. Helsti andstæðingur hans var Þrándur í Götu og féll Sigmundur að lokum fyrir honum.[11]
Þrándur var leiðtogi Færeyinga næstu áratugina en hann dó um 1035 og varð Leifur Össurarson þá helsti höfðingi Færeyinga og gerðist lénsmaður Noregskonungs. Hefur verið miðað við að víkingaöld í Færeyjum hafi lokið það ár og eyjarnar komist undir yfirráð Noregskonungs. Hélst sú skipan til 1380, þegar Noregur komst undir Danmörku í Kalmarsambandinu. Alla tíð síðan hafa Færeyjar verið undir danskri stjórn. Árið 1274 varð lögmaðurinn konunglegur embættismaður en hafði áður verið valinn af landsmönnum á þingi.
Biskupssetur var stofnað í Færeyjum, líklega um eða upp úr 1100, því vitað er að Ormur, sem var biskup eyjanna 1139, var sá fjórði í röðinni og líklega sá fyrsti sem sat í Kirkjubæ. Erlendur var biskup Færeyja 1269–1308 og í hans tíð var Sauðabréfið skrifað, elsta skjal sem varðveitt er frá Færeyjum. Hann hóf líka byggingu Magnúsarkirkjunnar í Kirkjubæ. Annars er fremur fátt vitað um biskupa Færeyinga í kaþólskri tíð. Siðaskipti urðu á eyjunum 1538 og biskupinn sem þá tók við varð eini lútherski Færeyjabiskupinn um langa hríð, því að embættið var fljótlega lagt niður og eyjarnar lagðar fyrst undir biskupinn í Björgvin og frá 1620 undir Sjálandsbiskup. Embætti Færeyjabiskups komst ekki á að nýju fyrr en 1963.[12]
Sjóræningjar frá Alsír, líklega þeir sömu og rændu á Íslandi, frömdu Tyrkjarán í Hvalbæ 1629, drápu sex og rændu yfir þrjátíu konum og börnum og seldu í þrældóm. Ensk, hollensk og þýsk skip gerðu iðulega strandhögg á eyjunum en Magnús Heinason barðist gegn þeim af miklu kappi um 1580 og eftir það varð mun friðvænlegra. Verslunin fluttist svo frá Björgvin til Kaupmannahafnar snemma á 17. öld. Árið 1655 hófst tímabil það sem nefnt hefur verið Gablatíðin, þegar Daninn Christoffer Gabel fékk Færeyjar að léni, og er það almennt talið erfiðasti tíminn í sögu Færeyja. Einn helsti andstæðingur hans var presturinn Lucas Debes, sem leiddi sendinefnd sem hélt til Kaupmannahafnar 1673 til að kvarta yfir Gabel, sem lést sama ár. Sonur hans tók þó við og Gablatíðin er talin standa til 1709.[13]
Þegar Danir misstu yfirráð yfir Noregi í friðarsamningunum í Kiel 1814 héldu þeir Færeyjum, Grænlandi og Íslandi áfram þótt þessi lönd hefðu heyrt undir Noregskonung. Árið 1816 ákvað danska stjórnin að leggja niður færeyska lögþingið og embætti lögmanns og gera eyjarnar að amti í Danmörku.[14]
Á svipuðum tíma hófst þó barátta fyrir framförum í Færeyjum og var skáldið, bóndinn og skipasmiðurinn Nólseyjar-Páll þar í fararbrjósti. Hann barðist gegn einokunarversluninni, sem lengi hafði verið í Færeyjum, smíðaði sér sjálfur skip og sigldi á því til Danmerkur og Englands og keypti varning í trássi við yfirvöld. Páll, sem er ein helsta þjóðhetja Færeyinga, fórst á heimleið frá Englandi veturinn 1808–1809.[15]
Einokunarverslunin var loks afnumin 1856 og lögþingið endurreist 1852. Frá 1851 áttu Færeyingar tvo fulltrúa á danska þinginu. Þjóðernisvakning hófst 1888 með stofnun Føroyingafelagsins og snerist í upphafi fyrst og fremst um að varðveita færeyska tungu og menningu en síðar fór hún að beinast meira að stjórnmálum og stjórnmálaflokkar urðu til. Deilan um tungumálið harðnaði þegar danska stjórnin ákvað árið 1912, að undirlagi Sambandsflokksins, að kennsla í færeyskum skólum skyldi fara fram á dönsku. Því var þó breytt aftur árið 1938. Einn helsti leiðtogi þjóðernisvakningarinnar var kóngsbóndinn Jóannes Patursson.[16]
Bretar hernámu Færeyjar 12. apríl 1940 og stóð hernámið til stríðsloka. Efnahagur Færeyinga batnaði mjög í stríðinu vegna fisksölu til Bretlands og sigldu þeir þá undir eigin fána, sem þeir höfðu ekki getað áður. Þegar stríðinu lauk tóku Danir aftur við en sjálfstæðishreyfingunni hafði vaxið fiskur um hrygg. Færeyingar gátu hins vegar ekki komið sér saman um hvað þeir vildu sjálfir. Árið 1946 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem Færeyingar kusu um framtíðarfyrirkomulag sambandsins við Danmörku. Þeir samþykktu með mjög naumum meirihluta að lýsa yfir sjálfstæði en danska stjórnin hafnaði því og boðaði til kosninga þar sem andstæðingar sjálfstæðisyfirlýsingar náðu meirihluta svo að ekkert var gert með hana. Í kjölfarið, árið 1948, fengu Færeyingar heimastjórn og yfirráð yfir eigin málum að flestu leyti, en danska stjórnarskráin frá 1953 hefur þó aldrei verið samþykkt í Færeyjum enda er í henni raunar hvergi minnst á eyjarnar.[17]
Þegar Danir gengu í Evrópusambandið 1973 ákváðu Færeyingar að standa fyrir utan það. Alvarleg efnahagskreppa var í Færeyjum upp úr 1990 eftir mikinn uppgang á níunda áratugnum og um 15% Færeyinga fluttu úr landi en eyjarnar náðu þó að rétta úr kútnum. Stuðningur við sjálfstæði hefur farið vaxandi í Færeyjum á síðari árum og meirihluti Dana vill losna úr ríkjasambandinu en mörg mál eru þó óleyst. Færeyjar fá enn töluverðan fjárstuðning frá Danmörku og margir Færeyingar telja ríkjasambandið nauðsynlega tryggingu vegna þess hve einhæft atvinnulíf eyjanna er.[17] Færeyingar skipuðu stjórnlaganefnd til að semja drög að stjórnarskrá Færeyja árið 2006, en ekki hefur náðst samstaða um hvaða texta skuli leggja fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.[18]
Færeyjar eru í Atlantshafi, á milli Noregs, Íslands og Skotlands, á um 62°N, 7°V. Golfstraumurinn leikur um eyjarnar og vetur eru því mildir en sumrin svöl. Meðalhiti áranna 1961–1990 var 3,4 °C í janúar en 10,3 °C í júlí. Veðurlag er mjög breytilegt á eyjunum og loftslagið er rakt og rigningasamt. Meðalúrkoma í Þórshöfn 1961–1990 var 1.284 mm. Oft er þoka í eyjunum og þar er vindasamt en mjög snjólétt.[19]
Eyjarnar eru átján talsins og eru samtals 1.396 km². Umhverfis þær eru hólmar, drangar og sker, alls 779 talsins. Svæðið sem eyjarnar liggja á er 113 kílómetrar frá norðri til suðurs og 75 kílómetrar frá austri til vesturs. Samanlögð strandlengja er 1.289 kílómetrar[20] og á eyjunum er lengst hægt að komast til vesturs eða austurs um fimm kílómetra frá sjó.
Eyjarnar eru úr basalti og móbergi sem myndaðist í eldgosum og voru sorfnar af jöklum á síðustu ísöld. Við það mynduðust firðir, sund og dalir. Flest fjöllin á eyjunum eru lág, að meðaltali um 300 metrar; hæstur er Slættaratindur, 882 m. Saurvogsvatn er stærsta stöðuvatn Færeyja, 3,4 ferkílómetrar. Öll önnur stöðuvötn Færeyja eru um eða undir 1 ferkílómetra. Lítið er um vatnsból en það veldur þó sjaldan erfiðleikum vegna þess hve úrkoma er mikil. Aðeins 2,4% lands í Færeyjum telst ræktanlegt land.[21]
Eyjarnar eru nokkuð vel grónar og er gróðurfarið að miklu leyti svipað því sem gerist á Íslandi og á norðanverðum Bretlandseyjum. Við landnám voru eyjarnar kjarri vaxnar að miklu leyti en nú er afar lítið um trjágróður, nema þar sem innflutt tré hafa verið gróðursett, og eyjarnar eru nú aðallega vaxnar grasi og lyngi en blómskrúð er sums staðar mikið. Fjölskrúðugasta og mesta gróðurinn er að finna á afgirtum svæðum og klettasyllum þar sem sauðfé kemst ekki að.
Engin villt spendýr voru á eyjunum þegar menn komu þangað fyrst en nú eru þar rottur og húsamýs, sem borist hafa þangað með skipum, og snæhérar, sem þangað voru fluttir frá Noregi árið 1854 og eru nú á meirihluta eyjanna. Færeyski stofninn hefur breytt um lit vegna snjóleysis á eyjunum og er nú brúnn en ekki hvítur. Rottur eru á nokkrum eyjanna og mýs á öðrum en Straumey er sú eina þar sem báðar tegundirnar eru. Að minnsta kosti tvær deilitegundir músa er að finna á eyjunum og er önnur þeirra kennd við eyjuna Mykines, enda finnst hún eingöngu þar.[22] Á sumum eyjanna eru engin villt spendýr.
Nokkuð er um útsel við eyjarnar og hann kæpir þar sums staðar, einkum í sjávarhellum.[23] Ýmsar hvalategundir eru í hafinu kringum eyjarnar og er þar grindhvalurinn þekktastur. Margar fuglategundir verpa á eyjunum, bæði sjófuglar og aðrir, og meðal þeirra má nefna lunda, álku, langvíu, teistu, stuttnefju, fýl, sem er algengasti varpfugl eyjanna, og súlu, sem þó verpir aðeins á Mykinesi.[24] Tjaldurinn er þjóðarfugl eyjanna og má rekja það til Fuglakvæðis Nólseyjar-Páls.
Allar eyjarnar eru byggðar nema ein, Litla-Dímun, enda er sú eyja lítil um sig, 0,82 km² og umgirt bröttum hömrum. Á sumum hinna eyjanna eru íbúar þó fáir og hefur fækkað á síðustu áratugum. Stærsta eyjan er Straumey, 372 km². Sunnarlega á henni er höfuðstaðurinn, Þórshöfn. Þar eru um 20.000 íbúar.
Eyjarnar eru taldar upp hér á eftir í stafrófsröð.
Frá árinu 1948, þegar heimastjórnarlögin voru sett, hafa Færeyjar haft sjálfsstjórn innan konungsríkisins Danmerkur. Eyjarnar hafa eigið löggjafarþing, Lögþingið, og eigin fána, en framkvæmdavaldið er í höndum landsstjórnar undir forystu lögmanns. Nokkrir málaflokkar eru þó enn í höndum Dana, þar á meðal löggæsla og æðsta dómsvald.
Frá 1. janúar 2009 hafa Færeyjar skipst í 30 sveitarfélög sem ná yfir um 120 bæi, þorp og byggðir, en áætlað er að fækka sveitarfélögunum verulega á næstu árum og þau verði á bilinu 7-15. Þórshöfn og Klakksvík eru einu þéttbýlisstaðirnir sem Færeyingar sjálfir telja til bæja. Fimm fjölmennustu þéttbýlisstaðirnir eru Þórshöfn, Klakksvík, Heyvík, Argir og Fuglafjörður á Austurey. Bæði Heyvík og Argir eru í raun samvaxnar við Þórshöfn.
Eyjarnar skiptast einnig frá fornu fari í sjö sýslur, Norðeyjar, Austurey, Norður-Straumey, Suður-Straumey, Voga, Sandey og Suðurey, en sýslurnar eru nú á tímum fyrst og fremst löggæsluumdæmi. Fram til 2008 var hver sýsla kjördæmi fyrir sig en nú eru Færeyjar allar eitt kjördæmi. Á víkingatímanum hafði hver sýsla sitt eigið vorþing.
Danska stjórnarskráin hefur verið látin gilda í Færeyjum en hefur þó aldrei verið samþykkt, hvorki í þjóðaratkvæðagreiðslu né á Lögþinginu. Nú er verið að semja stjórnarskrá handa Færeyingum. Færeyingar fylgdu Dönum ekki í Evrópusambandið en geta valið hvort þeir vilja hafa færeyskt-danskt vegabréf eða danskt ESB-vegabréf. Það eru þó aðeins Færeyingar búsettir í Danmörku sem njóta fullra réttinda innan ESB, burtséð frá vegabréfinu.
Sex stjórnmálaflokkar eiga nú fulltrúa á Lögþinginu og í kosningunum 31. ágúst 2019 urðu úrslitin sem hér segir:
Færeyjar | ||||||
---|---|---|---|---|---|---|
Listar | Av | Av% | Ft | (Ft) | Δ | |
' | Þjóðveldisflokkurinn | 6.127 | 18,1 | 6 | 7 | –1 |
' | Sambandsflokkurinn | 6.834 | 19,98 | 7 | 7 | 0 |
' | Fólkaflokkurinn | 6.473 | 18,92 | 6 | 8 | –2 |
' | Jafnaðarflokkurinn | 9.094 | 26,58 | 9 | 7 | +2 |
' | Miðflokkurinn | 2.242 | 6,55 | 2 | 2 | ±0 |
' | Sjálfsstjórnarflokkurinn | 938 | 2,74 | 0 | 1 | –1 |
' | Framsókn | 2.571 | 7,52 | 3 | 2 | +1 |
Alls | 34.356 | 100 | 33 | 33 | 0 | |
Á kjörskrá | {{{Kjörskrá}}} | Kjörsókn | 88,05% |
Jafnaðarflokkurinn, Þjóðveldisflokkurinn og Miðflokkurinn mynduðu stjórn að kosningum loknum og var Aksel V. Johannesen úr Jafnaðarflokknum lögmaður. Í stjórninni sitja fimm karlar og fjórar konur.
Fyrsta konan settist á lögþingið árið 1964 og þá sem varamaður en konur voru ekki kjörnar á þingið fyrr en 1978. Fyrsta konan sem tók sæti í landstjórninni var Jóngerð Purkhús árið 1985 og 1993–1994 varð Marita Petersen lögmaður Færeyja, fyrst kvenna og sú eina hingað til. Af 33 þingmönnum sem kjörnir voru á lögþingið 2015 voru 11 konur.
Allt fram yfir aldamótin 1900 voru Færeyjar fyrst og fremst bændasamfélag og landbúnaður var aðalatvinnan þótt fiskveiðar og fuglatekja væru mikilvægar aukabúgreinar. Þótt búskapur sé enn stundaður á eyjunum breyttist þetta með vélbátavæðingu og síðar togaraútgerð og nútíma fiskvinnslu og nú er sjávarútvegur helsta tekjulind Færeyinga; þrátt fyrir fámennið voru þeir árið 2003 25. mesta fiskveiðiþjóð heimsins (Ísland var í 11. sæti). Um 10% Færeyinga hafa aðaltekjur sínar af fiskveiðum og fiskvinnslu. Fiskeldi er líka nokkuð öflug atvinnugrein.
Sauðfjárrækt er enn stunduð í eyjunum þótt mjög hafi dregið úr mikilvægi hennar fyrir efnahaginn og flestir stunda hana aðeins sem aukabúgrein eða frístundaiðju. Hún er þó enn mikilvægur þáttur í menningu Færeyinga.[25]
Árið 2004 veiddu færeysk skip samtals 580.000 tonn af fiski, þar af um helming innan færeysku landhelginnar. Þar af var uppsjávarfiskur um 400 þúsund tonn. Fiskur er aðalútflutningsvara Færeyinga, um 98% af öllum vöruútflutningi frá eyjunum. Mest er flutt út til Bretlands og þá til Noregs, Danmerkur, Frakklands og Spánar. Færeyingar flytja aftur á móti mest inn frá Danmörku og síðan Noregi, Þýskalandi og Svíþjóð. 2,4% innflutnings til Færeyja kemur frá Íslandi (2007).[26]
Þetta þýðir að sjálfsögðu að efnahagur Færeyinga er afar háður fiskveiðum og hætta er á miklum niðursveiflum, bæði vegna aflabrests og verðbreytinga. Þetta kom glöggt í ljós í kreppunni sem varð í Færeyjum upp úr 1990 vegna aflabrests og hás olíuverðs. Um miðjan áratuginn var atvinnuleysi 10-15% og margt ungt fólk flutti úr landi og hefur ekki snúið aftur. Færeyingar horfa því vonaraugum til olíuvinnslu sem framtíðartekjulindar og nokkur olíufélög hafa fengið heimild til olíuleitar í færeyskri landhelgi en enn hafa ekki fundist olíulindir sem vert þykir að nýta. Atvinnuleysi fer nú vaxandi að nýju og var í febrúar 2011 7,8%.[27]
Eini flugvöllur Færeyja er Vogaflugvöllur á Vogum og stærsta flugfélag í Færeyjum er Atlantic Airways. Einnig er áætlunarflug með þyrlum milli sumra eyjanna. Bílferjan Norræna (færeyska: Norröna) siglir allt árið á milli Þórshafnar og Hanstholm á Jótlandi og á sumrin einnig til Seyðisfjarðar. Áður hafði Norræna einnig viðkomu í Björgvin í Noregi og í Skotlandi, ýmist í Leirvík eða Scrabster.[28]
Vegna fjöllótts landslags og smæðar eyjanna var samgöngukerfið lengi vel ekki eins víðtækt og í öðrum löndum. Samgöngur milli eyjanna voru eingöngu með bátum og ferjum og á sumum eyjanna voru vegir lélegir eða jafnvel engir og einu samgöngurnar við sumar byggðirnar voru sjóleiðina. Sú er ekki lengur raunin og miklar framfarir hafa orðið í grunnsamgöngukerfi eyjanna. Jarðgangagerð í Færeyjum hófst snemma á 7. áratug 20. aldar og fyrstu göngin, Hvalbæjargöngin, voru tekin í notkun árið 1963[29] en fyrstu neðansjávargöngin, Vogagöngin, voru opnuð 10. desember 2002.[30] Nú eru alls 19 jarðgöng í eyjunum; lengstu göngin eru Norðeyjagöngin, neðansjávargöng milli Borðeyjar og Austureyjar, um 6300 metrar.[31]
Fleiri göng eru í undirbúningi, gröftur er hafinn á Austureyjargöngunum Frá Straumey til Austureyjar; rúma 11 kílómetra. Einnig er vinna hafin á Sandeyjargöngunum; göngum frá Straumey til Sandeyjar sem verða tæpir 11 km. Hugmyndir eru svo uppi um göng frá Sandey til Suðureyjar (um 20 km).
Tæplega 85% Færeyinga hafa nú beinan aðgang að jarðgöngum sem tengja eyjarnar auk þess sem sumar eyjanna eru tengdar með landfyllingum eða brúm. Hraðskreiðar ferjur sigla á milli eyjanna í suðri og póstbátar sigla til litlu eyjanna í norðaustri.
Engin járnbraut er í Færeyjum en þar er gott strætisvagnakerfi. Rauðir strætisvagnar aka um Þórshöfn undir nafninu Bussleiðin og bláir vagnar keyra á milli þorpa og eyja undir nafninu Bygdaleiðir.
Færeyingar eru af norrænum uppruna, líkt og Íslendingar. Talið er að landnámsmenn í Færeyjum hafi ýmist komið beint frá Noregi og öðrum Norðurlöndum eða úr byggðum norrænna manna á Bretlandseyjum. Færeyingar hafa ekki sjálfstæðan ríkisborgararétt, heldur eru þeir danskir ríkisborgarar. Fólk af færeyskum uppruna, búsett í Danmörku, er þó sérstaklega skráð hjá dönsku hagstofunni og samkvæmt upplýsingum hennar bjuggu 22.549 einstaklingar af færeyskum uppruna (fæddir í Færeyjum eða eiga foreldri eða afa eða ömmu fædda í Færeyjum) í Danmörku árið 2006, en það ár voru íbúar Færeyja 48.219. Þann 1. febrúar 2011 voru þeir orðnir 48.565.[32]
Ár | Íbúafjöldi | Ár | Íbúafjöldi | Ár | Íbúafjöldi |
---|---|---|---|---|---|
1327 | um 4 000 | 1880 | 11 220 | 1995 | 43 358 |
1350 | um 2 000 | 1900 | 15 230 | 1996 | 43 784 |
1769 | 4 773 | 1911 | um 18 800 | 1997 | 44 262 |
1801 | 5 255 | 1925 | 22 835 | 2000 | 46 196 |
1834 | 6 928 | 1950 | 31 781 | 1999 | 45 409 |
1840 | 7 314 | 1970 | um 38 000 | 2002 | 47 704 |
1845 | 7 782 | 1975 | 40 441 | 2003 | 48 214 |
1850 | 8 137 | 1985 | 45 749 | 2006 | 48 219 |
1855 | 8 651 | 1989 | 47 787 | 2011 | 48 565 |
Færeyska er tungumál sem hefur þróast úr fornnorrænu og er náskylt íslensku en hefur þó orðið fyrir mun meiri áhrifum frá dönsku. Presturinn Venceslaus Ulricus Hammershaimb, sem var góðvinur Jóns Sigurðssonar og varð fyrir áhrifum af honum, mótaði færeyska ritmálið. Hann gaf út fyrstu færeysku málfræðibókina árið 1854 og samdi stafsetningarreglur.
Christian Matras, kunnur færeyskur fræðimaður og prófessor í málvísindum við Kaupmannahafnarháskóla, samdi fyrstu færeysk-dönsku orðabókina ásamt Mads Andreas Jacobsen og kom hún út 1927–1928. Matras varð síðar fyrsti forstöðumaður Fróðskaparseturs Føroya. Christian Matras vann að útgáfu ýmissa færeyskra handrita, meðal annars mikils safns færeyskra danskvæða. Hann átti mikinn þátt í að móta færeyskt nútímaritmál.
Árið 1998 kom út stór orðabók, Føroysk orðabók, og var aðalritstjóri hennar Jóhan Hendrik W. Poulsen, en bókin var unnin á Fróðskaparsetrinu og byggðist að hluta á seðlasöfnum frá Christian Matras og fleirum.[33]
Færeyingar þykja trúræknir; um 79.7% Færeyinga tilheyra evangelísk-lúthersku þjóðkirkjunni (Fólkakirkjan) og flestir aðrir öðrum kristnum söfnuðum.[34] Árið 1948 var Biblían gefin út á færeysku í fyrsta sinn og hafði hún verið þýdd á færeysku úr ýmsum nútímatungumálum. Jacob Dahl og Kristian Osvald Viderø luku við nýja þýðingu úr hebresku og grísku árið 1961.
Embætti Færeyjabiskups var aflagt skömmu eftir siðaskipti og eftir það var stiftsprófastur æðsti maður kirkjunnar þar. Biskupsembættið var endurreist árið 1963 og á Ólafsvöku 2007 varð færeyska þjóðkirkjan sjálfstæð og ekki lengur undir dönsku kirkjunni. Jógvan Friðriksson var kjörinn fyrsti biskup færeysku þjóðkirkjunnar.[35]
Könnun árið 2018 sýndi að yfir helmingur Færeyinga aðhyllast sköpunarhyggju, þ. e. að Guð skapaði jörðina fyrir tugþúsund árum.[36]
Í færeyskum grunnskólum hefur verið kennt á færeysku frá 1938 en einnig fá nemendur kennslu í dönsku og ensku. Vísir að framhaldsskóla kom þegar árið 1937 en það var ekki fyrr en 1964 sem fyrsti framhaldsskólinn, Føroya Studentaskúli, var settur á laggirnar í Hoyvík í Þórshöfn er Føroya Handilsskúli, tækniskóli og sjómanna- og vélskóli. Þar er einnig Fróðskaparsetur Føroya, sem var stofnað 20. maí 1960 og er eini skólinn á háskólastigi. Mjög margir Færeyingar fara þó enn til framhaldsnáms í Danmörku og öðrum löndum.
Eftir siðaskiptin í Færeyjum var færeyskri tungu í raun úthýst úr kirkjunni, menningu og stjórnsýslu eyjanna og færeyskt ritmál var ekki mótað fyrr en um miðja 19. öld. Menningararfurinn varðveittist því fyrst og fremst í munnlegri geymd um 300 ára skeið, bæði sem sögur, ævintýri og ekki síst dansar og kvæði. Sum þessara kvæða eru um fornkappa, stundum íslenska, önnur um riddara og rómantík og sum eru skopkvæði um færeyska almúgamenn. Þessi kvæði hafa verið gefin út í stórum kvæðasöfnum.[37]
Færeyingar sungu þjóðkvæði sín við forn vikivakalög og dönsuðu dansa sem áttu rætur að rekja til miðalda. Svipaðir dansar tíðkuðust á Íslandi á fyrri öldum en hurfu á 17. og 18. öld þótt mörg danskvæði hafi varðveist niðurskrifuð. Færeyingar hafa aftur á móti haldið dans- og kvæðamenningu sinni til dagsins í dag og stíga enn forna dansa, til dæmis á þjóðhátíðardeginum Ólafsvöku.
Færeyski dansinn er hringdans eða keðjudans og geta danskvæðin verið allt frá fáeinum erindum upp í mörg hundruð. Oftast er einn forsöngvari sem syngur kvæðið en svo taka allir undir í viðlaginu, sem er sungið eftir hverja vísu.[38]
Færeyski þjóðbúningurinn er svipaður þeim íslenska en þó litríkari. Fólk klæðist honum meðal annars á Ólafsvöku þegar það dansar en það er þó alls ekkert skilyrði að vera í búningi.
Færeyingar eiga engin nafnkennd skáld eða rithöfunda frá fyrri öldum en þjóðhetjan Nólseyjar-Páll var vinsælt skáld um aldamótin 1800. Eftir að færeyskt ritmál varð til komu ýmis skáld og rithöfundar fram á sjónarsviðið en þekktustu höfundar Færeyja eru allir fæddir um aldamótin 1900, þeir William Heinesen, sem fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1964 fyrir skáldsöguna Det gode håb (Vonin blíð) en skrifaði reyndar aðallega á dönsku, Hedin Brú, en Færeyingar völdu sjálfir skáldsögu hans Feðgar á ferð sem bók 20. aldarinnar í Færeyjum, og Jørgen-Frantz Jacobsen, en skáldsaga hans Barbara, sem skrifuð var á dönsku og kom út 1939, ári eftir lát höfundarins, var þýdd á fjölda tungumála og hefur náð mestri útbreiðslu allra bóka eftir færeyskan höfund.[39]
Af yngri höfundum er Rói Patursson þekktastur, en hann fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1986 fyrir ljóðasafnið Líkasum.
Elsta færeyska blaðið er Dimmalætting, sem fyrst kom út 1878 og kemur nú út fimm daga í viku eins og helsti keppinauturinn, Sosialurin, sem hefur komið út frá 1927. Dimmalætting var áður flokksblað Sambandsflokksins og Sosialurinn fylgdi Jafnaðarflokknum en bæði teljast nú óháð. Fleiri flokksblöð komu út í Færeyjum fyrr á árum en lögðu upp laupana í kreppunni upp úr 1990. Norðlýsið er gefið út í Klakksvík og ætlað íbúum Norðeyjanna. Nokkur tímarit koma einnig út.
Útvarp Føroya hóf útsendingar 1957 og síðan hafa bæst við Rás 2 og kristilega útvarpsstöðin Lindin. Sjónvarp Føroya hóf útsendingar 1984 og urðu Færeyjar þar með síðasta landið í Evrópu til að fá eigin sjónvarpsstöð. Sjónvarp Føroya og Útvarp Føroya sameinuðust árið 2005 í eitt fyrirtæki, Kringvarp Føroya.
Frá fornu fari hefur uppistaðan í mataræði Færeyinga verið kjöt- og fiskmeti. Kartöflur bættust við á 19. öld ásamt fáeinum öðrum grænmetistegundum, einkum hvítkáli og gulrófum. Á síðustu áratugum hefur neysla á innfluttum matvælum aukist mikið en hefðbundnir færeyskir réttir eru bæði algengur hversdagsmatur og bornir fram við hátíðleg tækifæri. Lítið er þó um að þeir séu á boðstólum á færeyskum veitingastöðum.
Einn þekktasti rétturinn er skerpikjöt, sem er vindþurrkað kindakjöt. Það er mjög bragðsterkt og fellur ekki að smekk allra. Það er oftast skorið hrátt í þunnar sneiðar og borðað á rúgbrauði. Kjötið er þurrkað í hjalli í 5-9 mánuði eða jafnvel í heilt ár. Mjög víða í Færeyjum má einnig sjá siginn fisk (ræstan fisk) hanga í hjalli eða undir þakskeggi og einnig ræst kjöt, kindakjöt sem látið er hanga í mun styttri tíma en skerpikjötið, gjarnan um tvo mánuði. Kindakjöt er langalgengasta kjötið en nauta- og svínakjöt er einnig borðað, svo og kjúklingur. Eina færeyska villibráðin, fyrir utan hvali og sjófugla, eru snæhérar, sem eru veiddir fyrir jólin.
Grind og spik er algengur færeyskur réttur, kjöt og spik af grindhvölum. Kjötið er einnig oft steikt og borið fram í brúnni sósu og kallast þá grindabúffur. Ýmsir sjófuglar eru líka borðaðir, ýmist ferskir eða „ræstir“, og egg sjófugla eru einnig vinsæll matur. Fiskur, ferskur, siginn eða þurrkaður, er mjög algengur matur og með honum er stundum höfð garnatálg, en það er mör úr sláturfé sem er mótaður í kúlu og síðan látinn hanga. Knettir eða fiskibollur eru oft á borðum. Fæstir Færeyingar kaupa fisk úti í búð, enda úrvalið lítið; þeir veiða hann sjálfir eða kaupa hann beint af sjómönnum á bryggjunni.[40]
Grindhvaladráp er ekki aðeins gamall siður í Færeyjum, heldur mikilvægur þáttur í efnahagslífi margra byggða og er talið að kjötið af grindhvölunum sé um 25% alls kjöts sem neytt er á eyjunum. Um 950 grindhvalir eru veiddir árlega og eru hvalavöðurnar reknar með bátum inn í víkur eða firði og að landi, þar sem hvalfangarar slátra þeim og síðan er fengnum skipt jafnt á milli allra þátttakenda í veiðunum. Strangar reglur gilda um hvernig standa skal að veiðunum og fylgist sýslumaður á hverjum stað með því að þeim sé fylgt.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.