Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Móberg er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli. Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli með bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.
Móberg er algengt á Íslandi þar sem farið hefur saman eldvirkni og langvinnar jöklanir á kuldaskeiðum ísaldar. Oft má finna hraunhettur efst á móbergsfjöllum, en þær eru, eins og fyrr segir, til marks um að eldgosið hafi náð upp úr vatninu eða jöklinum þannig að hraun hafi byrjað að renna. Þannig má áætla þykkt ísaldarjökulsins út frá hæð hraunlaga í stöpum mynduðum á kuldaskeiðum ísaldar.
Móberg verður til þegar ný gosaska hleðst upp við eldstöð og þjappast saman.[1] Vatn gengur svo í samband við öskuna og hún ummyndast og límist saman í fast móberg, sem tekur oft á sig rauðleitan blæ. Ummyndun gosösku á sér stað við jarðhita og gerist hratt og auðveldlega við tiltölulega lágan hita. Í rannsóknum á Surtseyjargosinu kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gosaska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita [2][3]. Ummyndunin verður þannig að ýmsar katjónir losna úr gosglerinu, svo sem kísill, ál, kalsín, natrín og magnesín, en í stað þeirra gengur vatn inn í glerið og járnið í því oxast úr tvígildu járni yfir í þrígilt járn. Járnið gefur móberginu rauðan blæ en katjónirnar, sem gengu úr gosglerinu, mynda holufyllingar, sem límir glerið saman í hart móberg.
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur stungið upp á því að ef einhver bergtegund sé „steinn Íslands“, þá sé það móberg. Það sé vegna þess hvað það er algengt á Íslandi en sjaldgæft annars staðar. [4]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.