Remove ads
ein eyja Færeyja From Wikipedia, the free encyclopedia
Austurey (færeyska: Eysturoy) er næststærsta og næstfjölmennasta eyja Færeyja og er 288 km² að stærð. Íbúar eyjarinnar voru 10.839 þann 1. janúar 2011 og hefur fjölgað lítið eitt á síðustu árum. Sunnan til er eyjan tiltölulega sléttlend á færeyskan mælikvarða en þar er einnig hæsta fjall Færeyja, Slættaratindur, 882 metrar á hæð, og tvö önnur fjöll, Gráfell og Svartbakstindur, eru yfir 800 m há.
Austurey liggur austan við Straumey og samsíða henni. Sundið á milli þeirra, Sundini, er langt og nokkuð beint, mjög mjótt víða norðan til og var það brúað fyrir allmörgum árum svo hægt er að aka milli eyjanna. Árið 2006 voru svo opnuð göng, Norðeyjagöngin, yfir til Borðeyjar. Ný göng milli byggðanna í Skálafirði og Tórshavnar, Eysturoyargöngin eru í byggingu og stefnt er að opna þau árin 2019-2020.
Strendur Austureyjar eru mjög vogskornar, nema suðvesturströndin andspænis Straumey, og þar eru langir og mjóir firðir, þar á meðal Skálafjörður, lengsti fjörður Færeyja. Við mynni hans eru nokkur allstór þorp eða smábæir sem liggja þétt saman eða hafa nánast runnið saman. Þar á meðal er Runavík, en þar er ferjuhöfn þar sem Norræna lendir stundum ef veðurskilyrði eru óhagstæð í Þórshöfn því höfnin í Runavík er yfirleitt kyrrari. Stærsti bærinn er hins vegar Fuglafjørður á austurströndinni, en þar eru um 1500 íbúar.
Þorp og bæir með yfir 400 íbúa eru, auk Fuglafjarðar: Leirvík, Saltangará, Toftir, Strendur, Eiði, Skáli, Norðragøta, Runavík, Glyvrar og Syðrugøta. Aðrar byggðir eru: Elduvík, Funningsfjørður, Funningur, Gjógv, Gøtugjógv, Hellurnar, Innan Glyvur, Kolbanargjógv, Lambareiði, Lambi, Ljósá, Morskranes, Nes, Norðskáli, Oyndarfjørður, Oyrarbakki, Oyri, Rituvík, Saltnes, Selatrað, Skálafjørður, Skipanes, Strendur, Svínáir, Søldarfjørður, Toftir, Undir Gøtueiði og Æðuvík.
Byggðirnar Syðrugøta, Gøtugjógv og Norðragøta standa þar sem fornbýlið Gata, bústaður Þrándar í Götu, sem er ein aðalpersóna Færeyinga sögu, átti heima um árið 1000.
Sunnan Fuglafjarðar er volg uppspretta sem kallast Varmakelda og er eini staðurinn á Færeyjum þar sem jarðhita er að finna. Sagt er að vatnið úr uppsprettunni sé mikil heilsubót og við hana safnast fólk saman til að fagna sumarsólstöðum ár hvert.
Út af nyrsta odda Austureyjar standa tveir drangar, Risin (71 m) og Kellingin (68 m) upp úr sjó. Risin er mun breiðari en Kellingin mjó og gat í gegnum hana neðst og er talið að hún muni hrynja í sjó innan tíðar. Þjóðsögur segja að í fyrndinni hafi tröllin á Íslandi viljað koma höndum yfir Færeyjar og hafi sent þessi skötuhjú þangað til að sækja þær. Þau komu að Eiðiskolli, nyrst á Austurey og kerlingin klifraði upp með reipi til að binda eyjarnar saman svo að risinn gæti tekið þær á bakið, en alltaf þegar hún setti reipið utan um Eiðiskoll og herti að brotnaði úr fjallinu og reipið losnaði. Við þetta voru þau að bjástra alla nóttina án árangurs og gleymdu tímanum og þegar fyrstu sólargeislarnir skinu á þau urðu þau að steini. Þarna hafa þau staðið síðan og starað með löngunaraugum heim til Íslands.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.