heimsálfa From Wikipedia, the free encyclopedia
Afríka er önnur stærsta heimsálfa jarðar á eftir Asíu og er einnig sú næstfjölmennasta.[1] Hún er um það bil 30,3 milljón ferkílómetrar að flatarmáli (að meðtöldum eyjum) og þekur 20,3% af þurrlendi jarðar.[2] Þar búa tæplega 1,3 milljarðar manna sem er um 16% alls mannfjölda heims. Íbúar Afríku eru með þeim yngstu í heimi;[3][4] miðaldur árið 2012 var aðeins 19,7 ár borið saman við miðaldur heimsins sem er 30,4 ár.[5] Afríka býr yfir miklum og fjölbreyttum náttúruauðlindum, en er samt fátækasta heimsálfan miðað við höfðatölu, að hluta vegna landfræðilegra takmarkana, arfleifðar nýlendustefnu Evrópuveldanna og Kalda stríðsins,[6][7][8][9][10] arðráns vestrænna ríkja og Kína, og ólýðræðislegra og skaðlegra stjórnarhátta.[11] Þrátt fyrir þessar takmarkanir hafa hagkerfi margra Afríkulanda vaxið hratt síðustu áratugi.
Afríka afmarkast af Miðjarðarhafinu í norðri, Súesskurðinum (Súeseiðinu) í norðaustri, Indlandshafi í austri, Suður-Íshafinu í suðri og Atlantshafi í vestri. Madagaskar og nokkrir stórir eyjaklasar teljast hlutar álfunnar. Í Afríku eru 54 fullvalda ríki, átta heimastjórnarsvæði og tvö lönd sem eru sjálfstæð í raun en njóta takmarkaðrar alþjóðlegrar viðurkenningar. Stærsta land Afríku að flatarmáli er Alsír en Nígería er fjölmennasta landið. Afríkusambandið er samstarfsvettvangur Afríkulanda með höfuðstöðvar í Addis Ababa.
Afríka er eina heimsálfan sem er staðsett í öllum fjórum jarðarhvelunum, þar sem bæði núllbaugur og miðbaugur liggja um álfuna. Hún er auk þess eina heimsálfan sem nær frá heittempraða beltinu í norðri að heittempraða beltinu í suðri.[12] Stærstur hluti Afríku og flest löndin eru staðsett á norðurhveli. Flest lönd Afríku eru í hitabeltinu, fyrir utan hluta Vestur-Sahara, Alsír, Líbíu, Egyptalands, norðurodda Máritaníu, Marokkó, Ceuta, Melilla og Túnis, sem eru norðan við nyrðri hvarfbaug. Syðst í álfunni eru suðurhlutar Namibíu, Botsvana, stærstur hluti Suður-Afríku, Lesótó og Esvatíní, og suðuroddar Mósambík og Madagaskar staðsett sunnan syðri hvarfbaugs.
Afríka býr yfir mjög mikilli líffjölbreytni og er heimkynni flestra tegunda risadýra, þar sem álfan varð minnst fyrir áhrifum útdauða stórdýra á Kvartertíma. Afríka glímir samt við fjölmargar umhverfisáskoranir, eins og eyðimerkurmyndun, skógeyðingu, vatnsskort og fleira. Talið er að þessi vandamál muni versna enn frekar vegna loftslagsbreytinga. Milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar telur Afríku vera þá heimsálfu sem er í mestri hættu vegna loftslagsbreytinga.[13][14]
Saga Afríku er löng, flókin og að hluta til lítið rannsökuð.[15] Almennt er viðurkennt að Afríka, sérstaklega Austur-Afríka, sé fæðingarstaður mannapa og mannkyns. Elstu tegundir af mannætt og forfeður þeirra komu fram á sjónarsviðið í Afríku fyrir um 7 milljónum ára. Þeirra á meðal eru Sahelanthropus tchadensis, Australopithecus africanus, Australopithecus afarensis, Homo erectus, Homo habilis og Homo ergaster. Elstu leifar nútímamanna, Homo sapiens, hafa fundist í Eþíópíu, Suður-Afríku og Marokkó, og eru allt að 300.000 ára gamlar. Talið er að Homo sapiens hafi þróast í Afríku fyrir 350-260 þúsund árum síðan.[16][17][18][19][20]
Egyptaland hið forna og Karþagó eru forn siðmenningarsamfélög sem urðu til í Norður-Afríku. Löng og flókin saga menningarsamfélaga, þjóðflutninga og verslunarleiða í Afríku hefur skapað fjölda þjóðflokka með fjölbreytta menningu og tungumál. Áhrif Evrópuríkja í álfunni fóru vaxandi frá 16. öld og alþjóðleg þrælaverslun varð til þess að stórir hópar fólks af afrískum uppruna settust að í Ameríku. Seint á 19. öld lögðu Evrópuríkin nær alla álfuna undir sig og arðrændu náttúruauðlindir og íbúa hennar. Flest nútímaríki Afríku urðu til þegar evrópskar nýlendur fengu sjálfstæði eftir miðja 20. öld.
Nafnið Afríka er komið frá Rómverjum sem notuðu heitið Africa terra („land Afri“ sem er fleirtala af Afer) fyrir norðurströnd álfunnar og skattlandið Afríku með höfuðborgina Karþagó, sem var þar sem nú er Túnis.[21]
Uppruni nafnsins er á huldu. Orðið Afer getur verið til komið af eftirfarandi ástæðum:
Sagnfræðingurinn Leó Afríkanus (1495–1554) taldi nafnið komið af gríska orðinu phrike (φρικε, sem merkir „kuldi og hrollur“) ásamt neitunarforskeytinu a- og merkti þannig „land laust við kulda og hroll“. En hljóðbreytingin úr ph í f hefur átt sér stað í kringum fyrstu öld, svo þetta getur því ekki verið uppruni nafnsins.
Egyptaland var talið hluti Asíu af fornmönnum. Fyrstur til að telja það með Afríku var landafræðingurinn Ptólemajos (85–165) sem notaði Alexandríu sem núllbaug og gerði Súeseiðið að mörkum Asíu og Afríku. Eftir því sem Evrópumenn uppgötvuðu raunverulegt umfang álfunnar, óx inntak nafnsins með þeirri þekkingu.
Afríka var stundum nefnd „Suðurálfa“ á íslensku áður fyrr.
Afríka er stærst af þeim þremur meginlöndum sem teygja sig yfir á suðurhvelið frá stærsta landflæmi jarðar, Afró-Evrasíu. Mörk álfunnar eru Miðjarðarhafið í norðri, Súesskurðurinn í norð-austri, Indlandshaf og Rauðahaf í austri, Suður-Íshafið í suðri og Atlantshafið í vestri. Afríka og Asía tengjast um Súeseiðið, sem er 163 km breitt, og aðeins Súesskurðurinn skilur þar á milli.[22] Stundum er Sínaískagi, sem tilheyrir Egyptalandi, líka talinn til Afríku.[23]
Strönd Afríku er um 26.000 km á lengd og er tiltölulega jöfn, sem sést á því að Evrópa, sem er ekki nema um þriðjungur af flatarmáli Afríku, er með 32.000 km strandlengju.[24] Heimsálfan er um 8000 km löng frá norðri til suðurs (á milli 37°21'N og 34°51'15"S) og 7400 km breið frá vestri til austurs (17°33'22"W til 51°27'52"E). Nyrsti punktur álfunnar er Ras ben Sakka í Túnis, syðsti punkturinn er Agúlhashöfði í Suður-Afríku.[25] Vestasti punkturinn er Almadihöfði á Grænhöfðaeyjum og sá austasti er Raas Hafun-höfði í Sómalíu.[24] Stærsta ríki Afríku er Alsír, en það minnsta eru Seychelles-eyjar undan austurströndinni.[26] Minnsta ríkið á meginlandinu er Gambía.
Miðbaugur liggur í gegnum álfuna og mestur hluti hennar er því í hitabeltinu. Það er mikið um eyðimerkur og óbyggðir og þurrkar og úrhellisrigning gera búsetu á ýmsum svæðum erfiða. Í kringum miðbaug eru stórir regnskógar sem fara minnkandi vegna skógeyðingar.[27] Á gresjum Afríku lifa margir stórir stofnar villtra dýra og þar búa langflestar tegundir stórdýra, þar sem álfan varð fyrir minnstum áhrifum af fjöldaútdauðanum við lok kvartertímabilsins, þegar margar tegundir stórdýra sem lifðu á pleistósen dóu út. Í Afríku eru yfir 3000 verndarsvæði, en ýmsar ógnir steðja að líffjölbreytni í Álfunni. Loftslag í Afríku er mjög fjölbreytt, allt frá hitabeltisloftslagi að kaldtempruðu loftslagi í hæstu fjöllum.
Stærstur hluti Afríku liggur á Afríkuflekanum, sem er stór jarðfleki undir Afríku (fyrir utan austasta jaðarinn) og úthafinu við vestur- og suðurströndina. Í vestri mætir hann Norður-Ameríkuflekanum og Suður-Ameríkuflekanum (við Atlantshafshrygginn); Arabíuflekanum og Sómalíuflekanum í austri; Evrasíuflekanum, Eyjahafsflekanum og Anatólíuflekanum í norðri; og Suður-Íshafsflekanum í suðri. Fyrir 60 til 10 milljónum ára tók Sómalíuflekann að reka frá Afríkuflekanum og Sigdalurinn mikli myndaðist á Austur-Afríkurekbeltinu.[28] Þar eru hæstu fjöll Afríku, eins og Kilimanjaro (5895 metrar), Kenýafjall (5199 metrar) og Stanleyfjall (5109 metrar). Þar eru líka stærstu stöðuvötn Álfunnar, Viktoríuvatn, Tanganjikavatn og Malavívatn. Stærstu fljót Afríku eru Nílarfljót sem rennur út í Miðjarðarhaf, Kongófljót, Nígerfljót og Órangefljót sem renna út í Atlantshaf, og Sambesífljót sem rennur út í Indlandshaf. Stærstu fossar Afríku, Viktoríufossar, eru í Sambesífljóti, en það fer raunar eftir því hvort hinir vatnsmiklu Boyoma-fossar í Lúalabafljóti eru skilgreindir sem fossar eða flúðir.
Í Afríku eru töluð yfir þúsund tungumál (um tvö þúsund samkvæmt UNESCO).[29] Flesta málanna eru af afrískum uppruna, þótt sum þeirra hafi borist frá Evrópu eða Asíu. Fjöltyngi er útbreitt í Afríku og algengt að íbúar tali fleiri en eitt Afríkumál reiprennandi, auk einhvers Evrópumáls. Í álfunni eru fjórar aðalættir tungumála upprunnar:
Þegar nýlendutímanum lauk í Afríku, tóku nær öll Afríkuríkin upp eitthvert Evrópumál sem ríkismál, þótt innlend tungumál fengju opinbera stöðu innan nokkurra þeirra (til dæmis svahílí, jórúba, igbó og hása). Enska og franska eru mjög víða notuð í opinberri þjónustu, menntakerfinu og fjölmiðlum. Að auki tala milljónir Afríkubúa arabísku, portúgölsku, spænsku og afríkönsku. Ítalska og þýska eru sums staðar töluð í fyrrum nýlendum þessara ríkja.
Í Afríku eru 56 fullvalda ríki.[31] Að auki eru þar tvö yfirlýst ríki sem njóta takmarkaðrar alþjóðlegrar viðurkenningar (Sahrawi-lýðveldið og Sómalíland), tvær hjálendur (Frönsku suðlægu landsvæðin og Sankti Helena, Ascension-eyja og Tristan da Cunha) og tíu lönd sem eru héruð innan ríkja utan Afríku (Kanaríeyjar, Mayotte, Réunion o.s.frv.).
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.