Remove ads
Land í sunnanverðri Afríku From Wikipedia, the free encyclopedia
Suður-Afríka er land í suðurhluta Afríku og nær yfir suðurodda álfunnar. Það er rúmlega 1,2 milljón ferkílómetrar að stærð og á landamæri að Namibíu, Botsvana, Simbabve, Mósambík og Svasílandi. Lesótó er sjálfstætt ríki innan landamæra Suður-Afríku. Suður-Afríka á strandlengju að Suður-Atlantshafi í vestri og Indlandshafi í austri. Íbúar Suður-Afríku eru tæplega 60 milljónir og landið er fjölmennasta landið sem er alfarið sunnan miðbaugs. Suður-Afríka hefur þrjár höfuðborgir þar sem framkvæmdavaldið er í Pretoríu, löggjafinn í Höfðaborg og dómsvaldið í Bloemfontein. Stærsta borg landsins er Jóhannesarborg. Suður-Afríka er fjölþjóðlegt samfélag þar sem íbúar tilheyra mörgum ólíkum þjóðarbrotum sem tala ólík tungumál. Í stjórnarskrá Suður-Afríku eru ellefu tungumál skilgreind sem opinber tungumál landsins. Tvö þessara tungumála eru af evrópskum uppruna: enska og afrikaans sem þróaðist út frá hollensku. Enska er almennt notuð á opinberum vettvangi en hún er þó aðeins fjórða algengasta móðurmálið.
Lýðveldið Suður-Afríka | |||||||||||||||||||||||
Heiti á opinberum málum
| |||||||||||||||||||||||
Fáni | Skjaldarmerki | ||||||||||||||||||||||
Kjörorð: !ke e: ǀxarra ǁke (xam) Eining í fjölbreytni eða bókst. Ólíkt fólk sameinist | |||||||||||||||||||||||
Þjóðsöngur: Þjóðsöngur Suður-Afríku | |||||||||||||||||||||||
Höfuðborg | Höfðaborg (löggjafinn) Pretoría (stjórnsýslan) Bloemfontein (dómsvaldið) | ||||||||||||||||||||||
Opinbert tungumál | Afríkanska, enska, súlúmál, xhosa, svasí, ndebele, suður-sótó, norður-sótó, tsonga, tsvana, venda | ||||||||||||||||||||||
Stjórnarfar | Lýðveldi | ||||||||||||||||||||||
Forseti | Cyril Ramaphosa | ||||||||||||||||||||||
Varaforseti | Paul Mashatile | ||||||||||||||||||||||
Sjálfstæði | frá Bretlandi | ||||||||||||||||||||||
• Suður-Afríkusambandið | 31. maí 1910 | ||||||||||||||||||||||
• Lýðveldi | 31. maí 1961 | ||||||||||||||||||||||
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
24. sæti 1.221.037 km² 0,38 | ||||||||||||||||||||||
Mannfjöldi • Samtals (2019) • Þéttleiki byggðar |
23. sæti 59.622.350 42,4/km² | ||||||||||||||||||||||
VLF (KMJ) | áætl. 2021 | ||||||||||||||||||||||
• Samtals | 748 millj. dala (32. sæti) | ||||||||||||||||||||||
• Á mann | 12.351 dalir (96. sæti) | ||||||||||||||||||||||
VÞL (2019) | 0.709 (114. sæti) | ||||||||||||||||||||||
Gjaldmiðill | Rand (R) | ||||||||||||||||||||||
Tímabelti | UTC+2 | ||||||||||||||||||||||
Ekið er | vinstra megin | ||||||||||||||||||||||
Þjóðarlén | .za | ||||||||||||||||||||||
Landsnúmer | +27 |
Um 80% íbúa Suður-Afríku teljast til afrískra þjóðarbrota sem tala nokkur ólík bantúmál. Um 20% íbúa eiga evrópskan, asískan eða blandaðan uppruna. Öllum þjóðarbrotum og málahópum er tryggt sæti á suðurafríska þinginu. Stjórn landsins var í höndum hvíts minnihluta til ársins 1994. Stjórn Suðurafríska þjóðarflokksins rak aðskilnaðarstefnu frá 1948 þar sem fólk af ólíkum kynþáttum var aðskilið. Þeldökkir íbúar landsins misstu síðan borgararéttindi sín, og þar með kjörgengi og kosningarétt, árið 1970. Vegna aðskilnaðarstefnunnar var landið beitt viðskiptaþvingunum. Eftir langvinn átök við Afríska kongressflokkinn og aðra baráttuhópa hóf minnihlutastjórnin að draga úr aðskilnaðarstefnunni frá miðjum 9. áratugnum og hún var formlega lögð af árið 1994. Síðan þá hefur landið búið við fulltrúalýðræði.
Suður-Afríka er þróunaland og hefur verið skilgreint sem nýiðnvætt land af Alþjóðabankanum. Landið er með annað stærsta hagkerfi Afríku og það 32. stærsta í heimi. Í Suður-Afríku eru flestar skráðar heimsminjar í Afríku. Á heimsvísu er Suður-Afríka miðveldi. Landið á aðild að Breska samveldinu og G20. Glæpir, fátækt og ójöfnuður eru útbreidd vandamál. Um fjórðungur þjóðarinnar er án atvinnu og lifir á undir 1,25 dollurum á dag. Loftslagsbreytingar eru áhrifavaldur í Suður-Afríku: Landið er 14. mesti losandi gróðurhúsalofttegunda í heimi vegna kolaiðnaðar síns, og er líka eitt þeirra landa sem er í mestri hættu á að lenda í vatnsskorti vegna hækkandi meðalhita.
Landið dregur nafn sitt einfaldlega af því að það er syðst í Afríku. Landið varð upphaflega til þegar Bretar sameinuðu fjórar nýlendur, Natal, Höfðanýlendu, Transvaal og Fríríkið Óraníu, í Suður-Afríkusambandið árið 1910. Frá 1961 hefur opinbert heiti landsins verið „Lýðveldið Suður-Afríka“ og frá 1994 hefur opinbert heiti landsins verið á 11 opinberum tungumálum þess.
Almennt er landið kallað Mzansi meðal bantúmælandi íbúa, úr xhosa uMzantsi sem merkir „suður“.[1][2] Sumir afrískir þjóðernissinnar vilja heldur nota heitið Azania.[3]
Suður-Afríka er syðsta land Afríku, með yfir 2.500 km strandlengju við tvö úthöf: Atlantshaf og Indlandshaf. Landið er 1.219.912 km² að stærð og er því 24. stærsta land heims. Það er um það bil jafnstórt og Kólumbía, tvisvar sinnum stærra en Frakkland, þrisvar sinnum stærra en Japan og fjórum sinnum stærra en Bretland.
Hæsti tindur Suður-Afríku er Mafadi í Drakensberg-fjöllum sem er 3.450 metrar á hæð. Ef Játvarðseyjar eru undanskildar liggur Suður-Afríka milli 22. og 35. breiddargráðu suður, og 16. og 33. lengdargráðu austur.
Inni í landi er Suður-Afríka að mestu flöt háslétta í 1.000 til 2.100 metra hæð. Hún er hæst í austri en lækkar svo rólega til vesturs og norðurs, og aðeins minna í suður og suðvestur. Við jaðar hásléttunnar er Klettabeltið mikla. Drakensberg-fjöll mynda austasta og hæsta hluti þess.[4]
Suður- og suðvesturhlutar hásléttunnar, í um 1.100 til 1.800 metra hæð, og sléttan neðan við hann, í um 700 til 800 metra hæð, er þekktur sem Great Karoo. Til norðurs rennur sléttan saman við þurra gresjuna í Búskmannalandi og þar fyrir norðan er svo Kalaharíeyðimörkin. Hæsti hluti hásléttunnar í miðausturhlutanum nefnist Highveld. Á þessu landsvæði, sem nýtur nægilegrar úrkomu, er stærst hluti ræktarlands Suður-Afríku og mesta þéttbýlissvæðið (Gauteng). Norðan við Highveld, við 25°30'S, lækkar hásléttan niður að Bushveld og þaðan niður í Limpopo-láglendið eða Lowveld.
Neðan við klettabeltið mikla, frá norðaustri, liggur Limpopo Lowveld, sem rennur saman við Mpumalanga Lowveld í suðri, neðan við Drakensberg-fjöll. Þetta svæði er heitara og þurrara en hálendið ofan við klettabeltið. Stór hluti láglendisins er Kruger-þjóðgarðurinn í héruðunum Limpopo og Mpumalanga, en hann þekur 19.633 km². Sunnan við Lowveld eykst úrkoma þegar komið er inn í KwaZulu-Natal þar sem er heitt og rakt hlýtemprað loftslag við ströndina. Drakensberg-fjöll mynda landamæri KwaZulu-Natal og Lesótó. Við rætur Drakensberg á þessum stað er temprað loftslag ríkjandi.
Sunnan og suðvestan við Klettabeltið mikla eru nokkrir fjallgarðar sem saman nefnast Höfðafjöll og liggja samsíða ströndinni og Klettabeltinu mikla.[5][6] Milli fjallgarðanna Outeniqua og Langeberg í suðri og Swartberg í norðri, þar sem landið er í um 500 metra hæð, nefnist það Little Karoo. Þar er þurrt kjarrlendi, svipað og í Great Karoo, nema hvað röndin við rætur Swartberg fær meiri úrkomu en þar. Little Karoo er þekkt fyrir strútabúgarðana í kringum Oudtshoorn. Láglendið norðan við Swartberg norður að Klettabeltinu mikla er hluti af Great Karoo og er nánast eins og landið ofan við klettabeltið hvað gróður og veðurfar snertir. Mjó strandlengjan sunnan við Outeniqua og Langeberg fær meiri úrkomu, sérstaklega við bæina George, Knysna og Petterberg Bay, sem eru þekktir sem Garðaleiðin. Þar eru stærstu upprunalegu skógarnir í Suður-Afríku, sem annars er almennt lítt skógi vaxið land.
Út frá suðvesturhluta landsins gengur Höfðaskagi með Góðrarvonarhöfða. Þar norður af liggur strandlengjan við Atlantshaf allt að Óraníufljóti við landamæri Namibíu. Á Höfðaskaga er miðjarðarhafsloftslag ríkjandi og það er eini hluti Afríku sunnan Sahara þar sem mest úrkoma er að vetrarlagi.[7][8] Höfðaborg og nærliggjandi bæir liggja á Höfðaskaga þar sem 3,7 milljónir búa á stórborgarsvæðinu, samkvæmt manntali frá 2011.
Við strandlengjuna norðan við Höfðaskaga liggja Höfðafjöll í norður-suðurátt en minnka eftir því sem norðar dregur þar til eini fjallgarðurinn ofan við ströndina verður Klettabeltið mikla. Syðsti hluti strandlengjunnar nefnist Swartland og Malmesbury-sléttan, sem er mikilvægt hveitiræktarsvæði sem reiðir sig á vetrarrigningarnar. Norðar nefnist landið Namaqualand[9] sem verður smám saman þurrara eftir því sem norðar dregur. Það litla regn sem þar fellur fellur aðallega að vetri til[8] sem skapar litríkt blómskrúð í kjarrlendinu á vorin (ágúst-september).
Ein útlenda tilheyrir Suður-Afríku, Játvarðseyjar, sem eru Marioneyja (290 km²) og Eyja Játvarðs prins (45 km²), í Indlandshafi um það bil miðja vegu milli Suður-Afríku og Suðurskautslandsins á 46. breiddargráðu suður.
Suður-Afríka skiptist í níu héruð sem hvert hefur eigið löggjafarþing. Kosningar til héraðsþings fara fram á fimm ára fresti. Þingið velur héraðsforseta sem skipar framkvæmdaráð. Vald framkvæmdaráðsins er skilgreint í stjórnarskrá og snýst aðallega um heilbrigðismál, menntamál, opinbert húsnæði og almenningssamgöngur.
Héruðin skiptast í 52 umdæmi: 8 stórborgarumdæmi og 44 hverfisumdæmi. Hverfisumdæmin skiptast síðan í 226 sveitarfélög. Stórborgarumdæmin hafa með höndum bæði umdæmisstjórn og sveitarstjórn.
Hérað | Höfuðstaður | Stærsta borg | Flatarmál (km2) | Íbúafjöldi (2013) |
---|---|---|---|---|
Austurhöfði | Bhisho | Port Elizabeth | 168.966 | 6.620.100 |
Fríríkið | Bloemfontein | Bloemfontein | 129.825 | 2.753.200 |
Gauteng | Jóhannesarborg | Jóhannesarborg | 18.178 | 12.728.400 |
KwaZulu-Natal | Pietermaritzburg | Durban | 94.361 | 10.456.900 |
Limpopo | Polokwane | Polokwane | 125.754 | 5.518.000 |
Mpumalanga | Nelspruit | Nelspruit | 76.495 | 4.128.000 |
Norðvesturhérað | Mahikeng | Rustenburg | 104.882 | 3.597.600 |
Norðurhöfði | Kimberley | Kimberley | 372.889 | 1.162.900 |
Vesturhöfði | Höfðaborg | Höfðaborg | 129.462 | 6.016.900 |
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.