Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Strandasýsla var ein af sýslum Íslands. Sýslur eru ekki lengur stjórnsýslueiningar á Íslandi, en nafnið er enn notað til að vísa til svæðisins.
Strandasýsla er á Vestfjörðum og nær frá Holtavörðuheiði í suðri að Geirólfsgnúpi í norðri. Íbúafjöldi sýslunnar var 721 í árslok 2020. Strandir eru heiti á byggðinni og svæðinu sem liggur norður meðfram vestanverðum Hrútafirði og Húnaflóa þar til Hornstrandir taka við.
Vestan megin á Strandasýsla mörk að Norður-Ísafjarðarsýslu, Austur-Barðastrandarsýslu og Dalasýslu. Austan megin er Húnaflói og Vestur-Húnavatnssýsla. Suðurendi sýslunnar teygir sig upp á Holtavörðuheiði þar sem hann mætir sýslumörkum Mýrasýslu.
Stærsti þéttbýlisstaður Strandasýslu er þorpið Hólmavík við Steingrímsfjörð um miðbik Stranda með 311 íbúa (1. jan. 2021). Þar er meðal annars rækjuvinnsla og þó nokkur útgerð. Annar þéttbýliskjarni við norðanverðan Steingrímsfjörð er Drangsnes með 72 íbúa (1. jan. 2021) og við Hrútafjörð er Borðeyri. Á Steingrímsfirði, úti fyrir Drangsnesi, er eyjan Grímsey. Akvegur fær öllum bílum liggur að Ingólfsfirði, norðan Trékyllisvíkur, en jeppavegur nær alla leið í Ófeigsfjörð.
Í fjörunni á Ströndum er mikið um rekavið sem voru verðmætustu hlunnindi svæðisins fyrr á öldum. Svæðið skiptist áður fyrr nokkuð í tvennt við Bjarnarfjörð eða þar um bil hvað varðar atvinnulíf þar sem suðurhlutinn byggði á hefðbundnum sauðfjárbúskap, en í norðurhlutanum er meira um hlunnindabúskap, helst við nýtingu rekaviðar auk selveiði og æðardúntekju.
Í þjóðsögum gengur mikið galdrarykti um Strandamenn, sem kannski er ekki tilviljun þegar á það er litið að óvenjustór hluti þeirra galdramála sem upp komu í galdrafárinu á Íslandi á 17. öld tengdust Ströndum og Vestfjörðum.
Merki Strandasýslu, líkt og merki flestra annarra sýslna á Íslandi, var teiknað af Tryggva Magnússyni fyrir Alþingishátíðina 1930, en hann var frá Bæ í Steingrímsfirði. Merkið er hinn þekkti galdrastafur, Ægishjálmur, og vísar til galdramálanna og þjóðsagna um Strandamenn.
Fólk sem býr á Ströndum kallar sig Strandamenn. Strandasýsla nær einnig vestur í Djúp, en Langadalsströnd frá Kaldalóni og austanverður Ísafjörður eru hluti af Strandabyggð. Fólkið sem þar býr kallar sig Djúpverja.
Í Strandasýslu eru fjögur sveitarfélög (frá suðri til norðurs):
Húnaþing vestra (að hluta) · Strandabyggð · Kaldrananeshreppur · Árneshreppur
Í sýslunni eru þrjú þorp (frá suðri til norðurs):
Borðeyri (~15 íb.) · Hólmavík (311 íb.) · Drangsnes (72 íb.)
Vísir að þéttbýli myndaðist á 20. öld í Djúpavík og Gjögri við Reykjarfjörð og einnig á Eyri í Ingólfsfirði. Nú er aðeins heilsársbúseta í einu húsi í Djúpavík á þessum stöðum. Verslunarstaður var um aldir á Kúvíkum í Reykjarfirði.
Strandir draga nafn sitt af langri strandlengjunni sem liggur frá botni Hrútafjarðar norður eftir Vestfjarðakjálkanum austanverðum. Suðurhluti sýslunnar einkennist af aflíðandi fjallshlíðum og liggja fjórir heiðarvegir vestur yfir heiðar um Laxárdalsheiði, Steinadalsheiði, Tröllatunguheiði og Steingrímsfjarðarheiði. Þessar leiðir liggja yfir í Dali, Gilsfjörð, Reykhólahrepp og Ísafjarðardjúp. Lág klettabelti, grýttir móar og hólmar einkenna þetta svæði. Norðan við Bjarnarfjörð verða klettabeltin hærri og ná sums staðar fram í sjó, líkt og er einkennandi fyrir Vestfjarðakjálkann. Þar eru „Strandafjöllin“ sem sjást vel frá Skagaströnd. Hæst er Háafell, sunnan Reykjarfjarðar. Norðvestan við Strandafjöllin á sýslumörkum Strandasýslu og Norður-Ísafjarðarsýslu (þar sem Hornstrandafriðlandið hefst) er Drangajökull sem verður hæstur 925 metra yfir sjávarmáli.
Vegna þess hve aflíðandi fjallshlíðarnar eru á sunnanverðum Ströndum eru ekki skörp skil milli ræktarlands og hálendis. Í fjörunum er fjölbreytt dýralíf, selur setur svip á fjöruna og nokkur selalátur eru úti fyrir ströndinni. Æðarvarpi er víða sinnt vel. Eitt af því sem einkennir Strandir eru fjölbreyttar fuglahræður sem settar eru upp til að halda vargi frá æðarvarpinu og laða að æðarfugl. Þær eru settar saman úr rekaviði og ýmsu dóti úr fjörunni. Hvalur sést oft elta átu og smáfiska inn í Steingrímsfjörð og þar er haldin skrá um þegar fólk verður vart við hvali.
Strandavíðir er hraðvaxta afbrigði gulvíðis sem var fenginn til ræktunar frá Tröllatungu í Steingrímsfirði. Hann var því kallaður „tröllavíðir“ upphaflega, áður en farið var að nota það nafn á eitt afbrigði alaskavíðis. Trjáplöntur má víða sjá við bæi á Ströndum, en þar eru fáir ræktarskógar þótt skjól sé gott. Í Bjarnarfirði hefur þó verið skógræktarverkefni um nokkurt skeið.
Í Kálfanesi, en þorpið Hólmavík byggðist úr landi hennar, vex afbrigði af brenninetlu sem er kölluð „stórnetla“. Líklegt er að hún hafi verið flutt til landsins og ræktuð sem lækningajurt. Bæði Björn Halldórsson í Sauðlauksdal og Ólafur Olavius nefna netluna í ritum sínum, sá fyrri segir að hún sé góð við hósta og hryglu sé hún menguð með hunangi, en sá síðari segir að hún henti vel til að húðstrýkja galdramenn sem láti þá af þeirri iðju.
Strandir eru fyrst og fremst þekktar sem sauðfjárræktarsvæði þótt fjölbreyttari kvikfjárrækt sé stunduð í Hrútafirði og hlunnindabúskapur hafi ráðið úrslitum fyrir byggðirnar norðan Reykjarfjarðar fyrr á öldum. Strandir norðan Bitrufjarðar eru riðulaust svæði og þangað er gjarnan sótt sauðfé þegar fé er fengið að nýju á svæði eftir niðurskurð.
Helstu firðir, víkur og sveitir á Ströndum eru (frá suðri til norðurs):
Hrútafjörður · Bitrufjörður · Kollafjörður · Steingrímsfjörður (Tungusveit, Hólmavík, Staðardalur, Selströnd) · Bjarnarfjörður · Balar · Kaldbaksvík · Veiðileysa · Reykjarfjörður (Gjögur) · Trékyllisvík (Víkursveit) · Norðurfjörður · Ingólfsfjörður · Ófeigsfjörður · Eyvindarfjörður · Drangavík · Bjarnarfjörður (nyrðri) · Skjaldabjarnarvík
1 | Hringvegurinn | Holtavörðuheiði – Hrútafjarðarbotn | |
68 | Innstrandavegur | Hrútafjarðarbotn – Hrófá í Steingrímsfirð | |
61 | Djúpvegur | Gautsdalur í Reykhólasveit – Steingrímsfjörður - Steingrímsfjarðarheiði – Ísafjarðardjúp | |
59 | Laxárdalsheiði | Hrútafjörður – Hvammsfjörður. | |
641 | Krossárdalsvegur | Bitrufjörður – Krossárdalur. | |
690 | Steinadalsheiði | Kollafjörður – Gilsfjörður. | |
605 | Tröllatunguheiði | Steingrímsfjörður v. Húsavík – Geiradalur | |
608 | Þorskafjarðarheiði | Steingrímsfjarðarheiði – Þorskafjörður | |
643 | Strandavegur | Steingrímsfjörður v. Staðará – Norðurfjörður | |
645 | Drangsnesvegur | Steingrímsfjörður v. Bassastaðaháls – Drangsnes - Bjarnarfjörður v. Bakka | |
647 | Munaðarnesvegur | Norðurfjörður – Munaðarnes | |
649 | Ófeigsfjarðarvegur | Trékyllisvík – Ingólfsfjörður – Ófeigsfjörður |
Syðst í Strandasýslu liggur Hringvegurinn frá sýslumörkum við Mýrasýslu að botni Hrútafjarðar. Í botni Hrútafjarðar eru gatnamót hans og Innstrandavegar, sem liggur norður eftir vestanverðum Hrútafirði, um Bitru og Kollafjörð og inn Steingrímsfjörð vestanverðan. Haustið 2009 opnaði nýr heilsárs vegur um Gautsdal við Króksfjörð og Arnkötludal yfir í Steingrímsfjörð á Ströndum. Hann stytti leiðina frá suðvesturhorni landsins að Hólmavík og á norðanverða Vestfirði um 40 kílómetra. Hann er hluti Djúpvegar, sem liggur framhjá Hólmavík, yfir Steingrímsfjarðarheiði og um Ísafjarðardjúp, allt til Bolungarvíkur. Í botni Steingrímsfjarðar er einnig hægt að beygja norður Strandir um Strandaveg norður í Bjarnarfjörð, Reykjarfjörð, Norðurfjörð og Ingólfsfjörð.
Nokkrir fleiri stuttir vegir eru í Strandasýslu s.s. inn í Miðdal í Steingrímsfirði, inn í Selárdal í Steingrímsfirði og inn í Sunndal og Goðdal í Bjarnarfirði. Þar að auki eru tæpir 30 km af Snæfjallastrandarvegi inn Langadalsströnd við Djúp að Kaldalóni í Strandabyggð.
Djúpvegur er allur malbikaður, en hluti Innstrandavegar (39 km af 106 km) og langmestur hluti Strandavegar eru malarvegir. Djúpvegi er haldið opnum 6 daga í viku yfir veturinn og Innstrandavegur er opnaður 5 daga í viku, en Strandavegur norður í Árneshrepp er ekki opnaður yfir háveturinn.
Tveir flugvellir eru á Ströndum, á Hólmavík (ICAO: BIHK) og Gjögri (ICAO: BIGJ). Áætlunarflug er á Gjögur allan ársins hring.
Í Landnámu eru nefndir einir sextán landnámsmenn á Ströndum. Þeirra helstir eru Þorvaldur Ásvaldsson, faðir Eiríks rauða sem nam land á Dröngum, Önundur tréfótur sem nam land í Kaldbaksvík, Björn sá sem Bjarnarfjörður heitir eftir, faðir Svans á Svanshóli og móðurafi Hallgerðar langbrókar, og Steingrímur trölli sem nam land í Steingrímsfirði og bjó á Tröllatungu.[1] Strandir voru ekki með sérstakt þing heldur sóttu Strandamenn til Þorskafjarðarþings í Barðastrandarsýslu.
Strandir koma við sögu í Íslendingasögum eins og Njálu, Þorgils sögu og Hafliða og Eyrbyggju. Til eru nokkrar þjóðsögur um Guðmund biskup góða á Ströndum en hann mun hafa orðið skipreika í Skjaldabjarnarvík 1180 og síðar á ævinni flúið á Strandir undan ofsóknarmönnum sínum. Í Sturlungu segir frá því hvernig Þórður kakali bjó skip sín við Árnesey í Trékyllisvík og hugðist halda með þau í Eyjafjörð en mætti þess í stað flota Kolbeins unga í Flóabardaga á Húnaflóa.
Strandasýsla er fyrst nefnd í heimildum frá 1553. Til forna þekktist að hún væri kölluð Balasýsla.
Frá 17. öld eru heimildir um baskneska hvalveiðimenn á Húnaflóa og nýleg fornleifarannsókn á Strákatanga við norðanverðan Steingrímsfjörð bendir til að þar hafi verið hvalstöð. Jón lærði Guðmundsson, sem var frá Ófeigsfirði, ritar á einum stað að baskar hafi fyrst komið á Strandir árið 1613 og hafi átt vinsamleg samskipti við íbúana. Hvalveiðar höfðu þá minnkað á hefðbundnum veiðisvæðum baskanna við Nýfundnaland og hvalurinn færst norðar.
Um miðja 17. öld má segja að hefjist brennuöld í Íslandssögunni þegar þrír menn voru brenndir á báli fyrir galdur í Trékyllisvík á Ströndum, dagana 20. og 25. september 1654. Ýmis fleiri galdramál komu upp á Ströndum og þar var síðasta galdramálið sem lyktaði með líflátsdómi tekið fyrir á Hrófbergi í Steingrímsfirði 1690. Konungur breytti dómnum í ævilanga útlegð 1691 sem markar endalok brennualdar.
Nokkrar þekktar verstöðvar voru á Ströndum um aldir, eins og t.d. Skreflur og Gjögur. Eini verslunarstaðurinn þar á tímum einokunarverslunarinnar var á Kúvíkum í Reykjarfirði. Gjögur við norðanverðan Reykjarfjörð var upphaflega verstöð en vísir að þorpi tók að myndast þar í kringum hákarlaveiðar um aldamótin 1900. Hákarlalýsi var þá verðmæt útflutningsvara. Thorarensenættin var áberandi í verslunarrekstri á Kúvíkum og á Gjögri.
Borðeyri við Hrútafjörð varð síðan löggiltur verslunarstaður árið 1846 og tveimur árum síðar kom þangað fyrsta verslunarskipið. Meðal fyrstu kaupmanna þar var Richard P. Riis sem reisti þar verslunarhús sem enn standa. Hann hóf síðan verslun á Hólmavík í Steingrímsfirði sem tók að byggjast upp um 1895, fimm árum eftir að staðurinn varð löggiltur verslunarstaður. Brátt varð þorpið að höfuðstað sýslunnar og þar var staðsettur héraðslæknir frá 1903, grunnskóli reistur 1910 og sýslumannsembættið frá 1938. Það sem lengi var elsta starfandi kaupfélag landsins, Kaupfélag Steingrímsfjarðar, var stofnað 1898 og rak verslun á staðnum með útibú á Drangsnesi og Norðurfirði. Verslunarreksturinn var leystur upp árið 2020. Utar með firðinum tók síðan að myndast þorp á Drangsnesi í kringum viðskipti með fisk á 3. áratug 20. aldar.
Síldveiðar höfðu mikil áhrif á byggð á Ströndum á 20. öld og verksmiðjuþorp byggðust upp í kringum síldveiðar, síldarsöltun og -bræðslu í Ingólfsfirði og á Djúpavík. Fyrsta „síldarævintýrið“ varð þegar byggð voru upp fyrirtæki í kringum síldarsöltun á árunum 1917–1919 en þau fóru á hausinn í heimskreppunni. Seinna síldarævintýrið varð í Djúpavík og stóð frá 1934 til 1954. Þar var reist stærsta síldarverksmiðja landsins á örskömmum tíma og íbúar þorpsins voru um 500 talsins þegar mest var. Starfsemin stóð með miklum blóma til 1944 en fór minnkandi eftir það. Síldarbræðslunni og starfsemi verksmiðjunnar var síðan hætt þegar síldin hvarf úr Húnaflóa og þorpið fór smám saman í eyði. Frá 1985 hefur búið þar ein fjölskylda og rekið gistihús í eyðiþorpinu. Eftir að síldarárunum lauk tók líka að fækka verulega í Árneshreppi sem nú er fámennasta sveitarfélag Íslands með aðeins einn tíunda af þeim íbúafjölda sem þar bjó um aldamótin 1900.
Mikil fólksfjölgun varð á Hólmavík og Drangsnesi fram undir miðja 20. öld líkt og á mörgum fleiri stöðum vegna aukinnar vinnu við sjávarútveg. Mest bjuggu um 2100 manns í allri sýslunni 1940. Langvinnur aflabrestur upp úr miðri öldinni olli nokkurri fólksfækkun, en aftur tók að fjölga nokkuð þegar rækjuveiðar hófust í Húnaflóa um 1970 og rækjuvinnsla var sett upp á Hólmavík. Eftir 1990 hefur íbúum fækkað umtalsvert.
Margir þekktir einstaklingar hafa gegnt stöðu sýslumanns í Strandasýslu í gegnum tíðina. Ari Magnússon í Ögri hélt sýsluna með Ísafjarðarsýslu í upphafi 17. aldar og lét hana síðan hálfa eftir við Þorleif Kortsson, mág sinn. Eftir lát Ara fékk Þorleifur sýsluna alla og bjó á stórbýlinu Bæ í Hrútafirði. Síðar tók Rögnvaldur Sigmundsson við sýslunni, en hann bjó á Skarðströnd. Hann var sjálfur hlutaðeigandi í galdramáli og kom síðar að máli Klemusar Bjarnasonar úr Steingrímsfirði sem var sá síðasti sem dæmdur var til lífláts fyrir galdur. Eftir Rögnvald fékk Jón Magnússon, bróðir Árna Magnússonar, sýsluna. Einnig hélt Páll Vídalín sýsluna um tíma ásamt Dalasýslu.
Halldór Jakobsson hélt sýsluna um þrjátíu ára skeið eftir miðja 18. öld og bjó að Felli í Kollafirði. Hann var þekktur fyrir sagnaritun og skrautlegan embættisferil, en hann þótti drykkfelldur. Frægt varð þegar hann bauð upp nokkra hluti úr strandi skipsins Fortuna 1787 án auglýsingar og keypti þá sjálfur. Hann var líka gagnrýndur harðlega þegar Fjalla-Eyvindur slapp úr haldi hjá honum.
Fyrsta konan sem skipuð var sýslumaður á Íslandi var Hjördís Björk Hákonardóttir sem skipuð var sýslumaður í Strandasýslu árið 1979 og gegndi því starfi til 1983. Tekin var up ný skipan á embættum sýslumanna árið 1989 og við það varð sýslumaður Strandasýslu að Sýslumanninum á Hólmavík en umdæmi hins nýja embættis féll alfarið að mörkum hinnar hefðbundnu Strandasýslu fyrst um sinn eða þangað til Nauteyrarhreppur við Ísafjarðardjúp sameinaðist Hólmavíkurhreppi árið 1994 og bættist þannig við umdæmi sýslumannsins á Hólmavík. Umdæmið minnkaði svo aftur þegar Bæjarhreppur í Hrútafirði sameinaðist Húnaþingi vestra. Önnur uppstokkun á embættum sýslumanna var gerð 2014 og við það lagðist sérstakt sýslumannsembætti á Ströndum af og varð hluti af stærra embætti sýslumannsins á Vestfjörðum sem hefur skrifstofu á Hólmavík.
Strandasýsla var sérstakt kjördæmi með einn þingmann frá 1844 til 1959 þegar hún varð hluti af Vestfjarðakjördæmi. Sýslan er nú hluti af Norðvesturkjördæmi.
Þingmenn sýslunnar voru (1) Ásgeir Einarsson (1845–1864), (2) Torfi Einarsson (1864–1877), (3) Björn Jónsson (1879), (4) Ásgeir Einarsson (1881–1885), (5) Páll Ólafsson (1886–1891), (6) Guðjón Guðlaugsson (1893–1908 fyrir Heimastjórnarflokkinn), (7) Ari Arnalds (1908–1911 fyrir Sjálfstæðisflokkinn eldri), (8) Guðjón Guðlaugsson (1911–1913 fyrir Sambandsflokkinn), (9) Magnús Pétursson (1914–1923 fyrir Sjálfstæðisflokkinn eldri), (10) Tryggvi Þórhallsson (1923–1934 fyrir Framsóknarflokkinn) og (11) Hermann Jónasson (1934–1959 fyrir Framsóknarflokkinn). Tveir þeir síðustu urðu báðir forsætisráðherrar meðan þeir gegndu þingmennsku fyrir kjördæmið. Hvorugur þeirra var þó ættaður úr sýslunni.
Strandir voru sérstakt prófastsdæmi, Strandaprófastsdæmi, sem heyrði undir Skálholtsstifti. Það var lagt niður 1970 og eftir það tilheyrðu prestaköll sýslunnar Húnavatnsprófastsdæmi. Á Ströndum er nú aðeins eitt prestakall, Hólmavíkurprestakall, og átta sóknir: Árnessókn, Drangsnessókn, Hólmavíkursókn, Kaldrananessókn, Kollafjarðarnessókn, Nauteyrarsókn, Óspakseyrarsókn og Melgraseyrarsókn.
Átta kirkjur eru á Ströndum: á Prestbakka, Óspakseyri og Kollafjarðarnesi, Hólmavíkurkirkja, Staðarkirkja, á Kaldrananesi og tvær kirkjur í Árnesi. Elsta kirkjan er eldri Árneskirkjan sem var reist 1850 og er jafnframt elsta hús sýslunnar. Næstelstar eru kirkjan á Kaldrananesi, reist 1851, og Staðarkirkja í Steingrímsfirði reist 1855. Kirkjan á Kollafjarðarnesi er elsta steinsteypta hús sýslunnar, byggð árið 1909. Á Drangsnesi er kapella í Grunnskólanum.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.