Remove ads
borg í Þýskalandi From Wikipedia, the free encyclopedia
Leipzig er stærsta borgin í þýska sambandslandinu Saxlandi með um 600 þúsund íbúa (2019). Borgin reis sem miðstöð verslunar þar sem árnar Pleiße, Weiße Elster og Parthe mætast. Háskólinn í Leipzig var stofnaður árið 1409 og fyrsta langlínujárnbrautin í Þýskalandi var lögð milli Leipzig og Dresden árið 1839. Leipzig var á árum áður höfuðborg prentlistarinnar. Í borginni bjó og starfaði tónskáldið Johann Sebastian Bach mestan hluta ævi sinnar.
Leipzig liggur sunnarlega í gamla Austur-Þýskalandi, um 60 km fyrir norðan tékknesku landamærin, en 90 km fyrir vestan pólsku landamærin. Næstu stærri borgir eru Halle til norðvesturs (20 km), Chemnitz til suðvesturs (80 km) og Dresden til austurs (100 km).
Skjaldarmerki Leipzig er lóðrétt tvískiptur skjöldur. Til vinstri er svart ljón á gulum grunni, en ljónið er tákn markgreifans af Meissen. Til hægri er tvær blár lóðréttar línur á gulum grunni. Þær eiga að merkja súlur markgreifans frá Landsberg. Merki þetta kom fyrst fram 1468 sem innsigli en varð svo að skjaldarmerki.
Borgin hét upphaflega Lipzc eða Libzi og er dregið af slavneska orðinu libc, sem merkir þar sem linditrén vaxa. [1] Leipzig hefur stundum verið nefnd Hlaupsigar á íslensku.
Leipzig er upphaflega slavneskt þorp. Í landnámi germana er kristni stofnuð þar. 1015 kemur Leipzig fyrst við skjöl, en þá lést Eido I biskup af Meissen þar. Lítið er vitað um bæinn eftir það, en 1165 veitti markgreifinn Otto hinn ríki frá Meissen bænum borgarréttindi. 1409 var háskólinn í borginni stofnaður og kallaðist þá Alma Mater Lipsiensis. Hann er með allra elstu háskólum á þýskri grundu. Leipzig er einnig elsta sýningarborg heims (Messestadt), en þar fór fyrsta sýning á handiðnum og öðrum vörum fram 1497. Það var Maximilian keisari sem veitti borginni sýningarréttindin. 1439 keypti greifinn Friðrik hinn þrætugjarni markgreifadæmið Meissen og varð Leipzig því hluti af kjörfurstadæminu Saxlandi.
1517 hóf Marteinn Lúther mótmæli sín gegn kaþólsku kirkjunni. Hann stóð í stappi við kirkjumenn og aðra lærða um gagnrýni sína í tvö ár. En 1519 bauð háskólinn í Leipzig báðum aðilum að hittast og útkljá málin sín í milli. Fyrir hönd kaþólsku kirkjunnar mætti Johannes Eck og átti hann í kappræðum við Lúther frá 27. júní til 16. júlí. Aðalumræðuefnin voru þrenn. Í fyrsta lagi var tekist á um óskeikulleika páfans, en Lúther var þeirrar meiningar að sannleikurinn ætti að grundvallast á ritningunni, ekki á manneskju. Í öðru lagi var rökrætt um frelsun. Meðan Eck staðhæfði að maðurinn frelsist af verkum (með sakramentunum og boðorðunum), staðhæfði Lúther að maðurinn frelsist af náð einni saman. Loks var tekist á um aflátssöluna, en Lúther fordæmdi hana fullum hálsi. Báðir aðilar hrósuðu sigri þegar kappræðunum lauk 16. júlí. En þó að segja mætti að hvorugum aðila hafi gengið betur, þá var ljóst að með þessum fundi var klofningurinn milli Lúthers og kaþólsku kirkjunnar endanlega fullkomnaður. Siðaskiptin sjálf urðu ekki í borginni fyrr en 1539. Það var Lúther sjálfur, ásamt siðaskiptamanninum Justus Jonas, sem komu þeim á með predikunum sínum og atorku.
Í 30 ára stríðinu var Leipzig lengi vel utan við atburði. En 1631 átti sér stað stórorrustan við Breitenfeld, við norðurjaðar borgarinnar. Þar leiddu saman hesta sína sameinaður her Svía og saxa með undir stjórn Gústafs Adolfs með 47 þús manns annars vegar og keisaraher undir stjórn Tillys með 40 þús manns hins vegar. Orrustan var hörð, en að lokum báru Svíar sigur úr býtum. Tilly særðist og féll af hesti sínum. Fall kaþólskra var gífurlegt, en margir gengu einnig í lið með Svíum. Í kvöldhúminu tókst Tilly að komast undan til borgarinnar Halle, en aðeins 600 manns voru þá enn með honum. Þetta var stærsti ósigur Tillys í 30 ára stríðinu. Ári síðar fór önnur stórorrusta fram milli sömu aðila við Lützen, um 10 km fyrir suðaustan Leipzig. Að þessu sinni fór Wallenstein sjálfur fyrir keisarahernum. Orrustan var hörð og mannfall mikið á báða bóga. Þar féll Gústaf Adolf, en hvorugur aðilinn náði að sigra í orrustunni. Svíar sátu í Leipzig frá 1642 til 1650. Á árinu sem Svíar yfirgáfu borgina var gefið út dagblaðið Einkommende Zeitung og er það elsta dagblað heims.
Þegar Leipzig fékk sína fyrstu götulýsingu 1701 var hún kölluð ‘Litla París.’ Stórsýningar voru í gangi á vissum árum og var borginni mikil lyftistöng. Í Leipzig voru ýmsir listamenn að námi og að starfi. Þar má nefna tónskáldið Georg Philipp Telemann, en hann nam tónlist í borginni í upphafi 18. aldar og stofnaði tónlistarskólann Collegium musicum. 1723-1750 var Johann Sebastian Bach búsettur í borginni og starfaði sem organisti og tónlistarstjóri í Tómasarkirkjunni. Það var á þessum tíma sem Bach samdi sín þekktustu verk, s.s. Jóhannesarpassíuna, Matteusarpassíuna, Jólaóratoríuna og H-moll messuna. Þjóðskáldið Goethe nam við háskólann í Leipzig 1764-68. Nokkuð seinna, 1835-1847, var Felix Mendelssohn Bartholdy tónlistarstjóri borgarinnar.
Sökum aðstoðar saxa við Frakka leyfði Napoleon Saxlandi að verða konungsríki 1806. Landið var þá örlítið stærra en Saxland er í dag. Eftir hrakfarir Napoleons í Rússlandi veturinn 1812-13 dró til stórorrustu við Leipzig. Frakkar höfðu lagt leið sína til Saxlands, enda var konungur landsins vilhollur Frökkum. Saxar gengu í raðir Frakka, en andspænis þeim stóðu Prússar, Austurríkismenn, Rússar og jafnvel Svíar. Fleiri þjóðarbrot voru í báðum liðum, en fræðimenn telja að um 600 þús manns hafi tekið þátt í þessari orrustu. Hún stóð í þrjá daga, frá 16. – 19. október 1813. Það var ekki fyrr en á þriðja degi að bandamenn náðu að hrekja Frakka á brott, en þetta var mesti ósigur Napoelons fram að þessu á orrustuvellinum. Ósigur þessi varð þess valdandi að Frakkar voru hraktir burt af þýskri grundu. Auk þess hertóku bandamenn Leipzig sem Frakkar höfðu haldið. Blücher herforingi lét handtaka Friðrik Ágúst I, konung Saxlands, vegna landráðs og flytja hann til Prússlands. Aðrir merkir atburðir 19. aldar var opnun fyrstu langlínujárnbrautar Þýskalands 1839, en hún gekk milli Leipzig og Dresden.
Í upphafi 20. aldar óx Leipzig gríðarlega. Íbúafjöldinn náði ekki 100 þús fyrr en 1871, en var kominn 750 þús á 4. áratugnum. Leipzig var þar með 5. stærsta borg Þýskalands. Borgin varð fyrir gífurlegum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. 18. apríl 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina, en þeir skiluðu henni til Sovétmanna 2. júlí, enda var hún á sovéska hernámssvæðinu. Með hertökunni var blómatími borgarinnar endanlega liðinn. Sem hluti af Austur-Þýskalandi átti Leipzig erfitt uppdráttar, bæði í atvinnumálum og efnahagsmálum. Leipzig hafði aldrei verið mikil iðnaðarborg, enda sérhæft sig í þjónustu. 1982 hóf presturinn Günter Johannsen þögul mótmæli á mánudögum ásamt söfnuði sínum í Nikulásarkirkjunni gegn ofríki kommúnista. Nokkrum árum síðar höfðu mótmæli þessi aukist, enda vel sótt af fólki utan safnaðarins. 1989 fengu mótmælin pólitískt vægi er allt að 400 þús manns tóku þátt, en þau voru mikilvægur liður í falli Berlínarmúrsins og sameiningu Þýskalands. Í dag er Leipzig enn mikilvæg háskóla- og sýningarborg (Leipziger Messe). Stórfyrirtæki sem opnað hafa starfsemi þar eru m.a. BMW, Porsche, Siemens og Amazon.
Þýska knattspyrnusambandið (DFB) stofnað í Leipzig árið 1900. Fyrsta þýska knattspyrnuleiktíðin hófst 1902 og lauk vorið 1903. Fyrsti þýski meistarinn varð VfB Leipzig, en félagið hefur þrisvar alls orðið þýskur meistari (síðast 1913). Á tímum kommúnisma var heiti félagsins breytt í Lokomotive Leipzig. Sem slíkt varð það fjórum sinnum austurþýskur bikarmeistari og komst í úrslit Evrópukeppni bikarhafa 1987 (tapaði þá fyrir Ajax Amsterdam). Íþróttaleikvangur borgarinnar heitir Zentralstadion og á aðsóknarmet í Þýskaland, en árið 1958 komu 120 þús manns að sjá Wismut Karl-Marx-Stadt leika gegn 1. FC Kaiserslautern.
RB Leipzig er knattspyrnufélag sem stofnað var 2009. Það spilar í Bundesliga.
Leipzig viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:
|
Í háskólanum hafa margir þekktir einstaklingar stundað nám. Þeirra á meðal eru: Tycho Brahe, Goethe, Gottfried Wilhelm von Leibniz, Friedrich Nietzsche, Georg Friedrich Telemann, Richard Wagner og Angela Merkel.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.