Remove ads
íslenskur stjórnmálamaður og ritstjóri, lögfræðingur, sýslumaður, blaðaútgefandi og kaupmaður From Wikipedia, the free encyclopedia
Skúli Thoroddsen (f. í Haga á Barðaströnd, A.-Barð. 6. janúar 1859 - d. í Reykjavík 21. maí 1916) var íslenskur stjórnmálamaður, alþingismaður, sýslumaður, ritstjóri, blaðaútgefandi og kaupmaður.
Skúli var sonur Jóns Thoroddsen, sýslumanns og skálds, og konu hans Kristínar Ólínu Þorvaldsdóttur Sívertsen, dóttur Þorvaldar Sívertsen alþingismanns og umboðsmanns í Hrappsey, og konu hans Ragnhildar Skúladóttur. Bræður hans voru þeir Þorvaldur Thoroddsen land- og jarðfræðingur, Þórður Thoroddsen héraðslæknir, alþingismaður, bæjarfulltrúi og féhirðir í Íslandsbanka, og Sigurður Thoroddsen landsverkfræðingur og yfirkennari við Lærða skólann.
Skúli lauk stúdentsprófi úr Lærða skólanum 1879 og lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1884 „með einkunninni laudabilis, 99 stigum, eða góðri 1. einkunn. Hann hlaut laud í 6. greinum af 8. Voru þess fá dæmi eða engin dæmi, að Íslendingur hefði lokið embættisprófi í lögfræði á jafn skömmum tíma, hálfu fimmta ári, eftir þeirri tilhögun, sem þá var höfð a lagakennslu.“ (JG). Eftir að hann sneri heim frá Danmörku var hann skipaður málaflutningsmaður við landsyfirdóminn 1. ágúst 1884. Hann tók við sýslumannsembætti Ísafjarðarsýslu 1885, þá aðeins 26 ára gamall. Hann var sýslumaður og bæjarfógeti á Ísafirði í átta ár, eða frá 1885 til 1892. Honum var vikið úr starfi 1892 eftir svokölluð Skúlamál. Hann var sýknaður í Hæstarétti árið 1895 og á ný boðið sýslumannsembætti sem hann hafnaði. Sama ár var honum því veitt lausn með eftirlaunum, og jafnframt veittar skaðabætur. Mál þetta er talið eitt svæsnasta hneykslismál íslenskrar réttarsögu. Í bréfi Finns Jónssonar til föður síns, 14. janúar 1884, flytur hann fréttir af Skúla: „Nú er Skúli Thoroddsen búinn að gera skriflegt próf og stendur hann þar á beinhörðu láði, svo að það er ugglaust, að hann fær 1. karakter. Þar er maður, sem er gáfaður, skarpvitur, duglegur og óvæginn við allt, hávaðamaður í öllu skaplyndi eins og Gunnlaugur ormstunga, og erfiður verður hann Magnúsi [Stephensen] og þeim sinnum.“ (JG).
Skúli sat á Alþingi fyrir Eyfirðinga á árunum 1890-1892, fyrir Ísfirðinga 1892-1902 og Norður-Ísfirðinga 1903-1915. Þá var hann forseti sameinaðs þings á árunum 1909 til 1911. Á þingi beitti hann sér meðal annars fyrir rýmkun kosningaréttar og afnámi vistarbands. Þá var hann skipaður í milliþinganefndina 1907 og barðist gegn uppkastinu. Hann var einnig yfirskoðunarmaður landsreikninga 1908-1913. Hann lét og mikið til sín taka um kvenréttindi og skólaskyldu.
Skúli stjórnaði kaupfélagi á Ísafirði 1888-1901, það annaðist meðal annars saltfisksölu til Miðjarðarhafslanda. Hann rak einnig verslun á Ísafirði 1895-1915. Hann stóð að útgáfu Þjóðviljans á árunum 1886 til 1915, frá 1892 sem eigandi og ritstjóri.
Skúli keypti Bessastaði á Álftanesi árið 1898 og rak þar bú á árunum 1901-1908. Þar lét hann reisa prentsmiðju og útgáfu, og hélt einkaskóla, auk þess sem hann stýrði blaði sínu og versluninni á Ísafirði. Árið 1908 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur, að Vonarstræti 12, og átti þar heima síðan. Skúli andaðist fyrir aldur fram, úr magasári. Eftir lát Skúla bjó Theodóra ekkja hans þar áfram til ársins 1930.
Eiginkona Skúla var Theodóra Thoroddsen skáldkona (1. júlí 1863 - 23. febr. 1954) og gengu þau í hjónaband 11. október 1884. Fundum þeirra Skúla og Theodóru bar fyrst saman 14. mars 1884 á heimili Jóns Árnasonar, landsbókavarðar og þjóðsagnasafnara, og Katrínar Þorvaldsdóttur Sívertsen, móðursystur hans, en Theodóra og Skúli voru þremenningar að frændsemi. Sat Skúli, þá nýkominn frá Kaupmannahöfn, og borðaði baunir þegar Theodóra kom inn úr dyrum. Felldu þau þegar í stað hugi saman; hann sagði hana glaðværa, greinda og hreinskipta. Henni fannst ungi hægláti lögfræðingurinn álitlegur, myndarlegur á velli og með glæsilegt embættispróf að baki. Þau gerðu sér ávallt dagamun 14. mars ár hvert með að hafa baunir á borðum og kölluðu Baunadag; hann var þeirra heilladagur. Skúli og Theódóra eignuðust 13 börn.Tólf náðu fullorðinsaldri og urðu nokkur börn þeirra þjóðkunn af störfum sínum; börn þeirra eru: Unnur húsfreyja, Guðmundur, prófessor og yfirlæknir, Þorvaldur lést í frumbernsku, Skúli, yfirdómslögmaður og alþingismaður (yngstur allra fulltrúa sem setið höfðu á þingi Íslendinga síðan það var stofnað), Þorvaldur fór til Vesturheims, Kristín Ólína yfirhjúkrunarkona og skólastýra, Katrín læknir, alþingismaður og bæjarfulltrúi, Jón lögfræðingur og skáld, Ragnhildur húsfreyja, Bolli borgarverkfræðingur, Sigurður verkfræðingur og alþingismaður, Sverrir bankafulltrúi og María Kristín húsfreyja. Afkomandi Theodoru og Skúla er Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Skúli og Theodóra voru þekkt fyrir að ala börn sín upp á mun frjálslegri hátt en tíðkaðist á þeim tíma og var jafnan mikið um að vera og mikill gestagangur á heimilinu, sem var annálað rausnar- og menningarheimili. Einn afkomandi þeirra hjóna, Ármann Jakobsson, sendi árið 2008 frá sér skáldsöguna Vonarstræti, sem er byggð á tímabili úr ævi þeirra. Ævisaga Skúla, skrifuð af Jóni Guðnasyni, kom út í tveimur bindum á árunum 1968 og 1974.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.