Bessastaðir
aðsetur forseta Íslands From Wikipedia, the free encyclopedia
Remove ads
aðsetur forseta Íslands From Wikipedia, the free encyclopedia
Bessastaðir á Álftanesi í Garðabæ á Suðvesturlandi eru aðsetur forseta Íslands.
Bessastaðir | |
---|---|
Land | Ísland |
Sveitarfélag | Garðabær |
Hnit | 64°06′21″N 21°59′44″V |
breyta upplýsingum |
Á Bessastöðum er þyrping nokkurra húsa: Bessastaðastofa, Norðurhús, þjónustuhús og Suðurálma eru portbyggðar byggingar. Suðurálma samanstendur af móttökuhúsi, bókhlöðu og tengibyggingu við þjónustuhús. Bessastaðastofa er elsta húsið á jörðinni. Móttökuhús er byggt við hana árið 1941 og tengt á milli með blómaskála sem nemur við suðurgafl Bessastaðstofu og gerður er eftir hugmynd ríkisstjórafrúarinnar, Georgíu Björnsson. Samsíða móttökuhúsinu er bókhlaðan, sem byggð var árið 1968 og gengt er úr henni í borðsal Bessastaðastofu. Bessastaðakirkja stendur fremst en handan portbyggðu húsanna eru forsetahús og ráðsmannshús. Fjær stendur bílageymsla, sem áður var fjós. Sambyggð hlaða gegnir enn sama hlutverki og áður en hlöðuloftið er nú geymsla. Búskapur var á Bessastöðum til ársins 1968.
Bessastaðanes er allstórt og þar má sjá á yfirborði menjar um ýmsa starfsemi. Örnefni vísa til þess að hluta, svo sem Skothús, Prentsmiðjuflöt og Sjóbúðarflöt.
Saga Bessastaða nær allt aftur til landnámsaldar, samkvæmt fornleifarannsóknum sem fram fóru á staðnum á 9. og 10. áratug 20. aldar og sem studdar eru rituðum heimildum að nokkru. Bessastaðir hafa ávallt verið mikilvægir í sögu þjóðarinnar og jafnan verið aðsetur höfðingja og háembættismanna. Snorri Sturluson átti jörðina þó svo að óvíst sé að hann hafi nokkru sinni búið þar sjálfur. Eftir víg hans árið 1241, rann jörðin með öllum gögnum og gæðum undir Noregskonung. Hún varð fyrsta jörðin á Íslandi til þess að komast í konungseigu. Hirðstjórar konungs sátu á Bessastöðum og síðar amtmenn og stiftamtmenn ásamt landfógetum. Nafntogaðasti og jafnfram mögulega verst þokkaði hirðstjórinn var Páll Stígsson en meðal merkustu landseta var Magnús Gíslason (amtmaður) sem þótti milt og gott yfirvald. Magnús var fyrsti Íslendingurinn sem gegndi stöðu amtmanns og hann átti frumkvæði að byggingu steinhúsanna tveggja á 18. öld sem enn standa. All veglegir legsteinar þeirra beggja eru múraðir inn í veggi Bessastaðakirkju.
Bessastaða er vitanlega getið í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 en þar er getið um að landskuld ýmissa annarra jarða á Álftanesi og leigukúgildi "betalist" í tunnum kola og smjöri. Um Bessastaði sjálfa segir m.a.: "Jarðarinnar dýrleiki þykjast menn heyrt hafa að verið hafi xii [hundruð]. Eigandinn er kóngl. Majestat. Hjer er amptmannsins residens og fóetans þá so til hagar. Landskuld er hjer engin nje hefur verið í nokkur hundruð ár.[1]
Ólafur Stephensen, stiftamtmaður, sat ekki á Bessastöðum og hann lét staðinn eftir til skólahalds fyrir Lærða skólann sem þá var nefndur Hólavallaskóli árið 1805. Eftir það nefndist hann Bessastaðaskóli, allt til ársins 1846 að hann fluttist í Lækjargötu í Reykjavík og heitir nú Menntaskólinn í Reykjavík. Grímur Thomsen, sem var fæddur og uppalinn á Bessastöðum þar sem faðir hans var skólaráðsmaður, fékk jörðina með konungsúrskurði 28. júní 1867 í skiptum fyrir Belgsholt í Borgarfirði og bjó þar og rak bú í tæp þrjátíu ár til æviloka 1896. [2] Þá eignaðist Landsbanki Íslands staðinn og tveimur árum síðar var hann seldur. Kaupandi var Skúli Thoroddsen,ritstjóri og alþingismaður. Skúli bjó á Bessastöðum ásamt fjölskyldu sinni í tíu ár. Eftir það bjuggu Jón H. Þorbergsson bóndi, Björgúlfur Ólafsson læknir og Sigurður Jónasson forstjóri í Bessastaðastofu en sá síðastnefndi afhenti ríkinu jörðina að gjöf árið 1941 svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur.
Bessastaðastofa var byggð á árunum 1761 til 1766 sem embættisbústaður Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Það var danska stjórnin sem lét byggja húsið en ástand eldra embættisseturs var orðið afar bágborið. Kostnaðurinn nam 4.292 ríkisdölum og 77 skildingum. Þar í reiknast ýmis kostnaður sem til féll vegna vandamála sem upp komu á byggingartímanum. Miklu dýpra var niður á fastan grunn og fór jafnmikið grjót í sökkul hússins og í veggi þess, byggingartíminn varð mjög langur og kostnaðarsöm mistök voru gerð við þakið.[3] Engar teikningar hafa fundist af Bessastaðastofu en talið er að húsameistarinn Jakob Fortling hafi teiknað hana. Bessastaðastofa hefur frá byggingu hússins tekið allmiklum breyting í gegnum tíðina, utan sem innan.
Að áliðinni 20. öld þótti kominn tími til umfangsmikilla viðgerða og endurnýjunar húsanna á Bessastöðum og kallaði ástand Bessastaðastofu á miklar endurbætur. Af heimildum og fyrri rannsóknum þótti ljóst að vænta mætti þess að mannvistarleifar kæmu í ljós við framkvæmdir en þær hófust árið 1989 undir stjórn Bessastaðanefndar (sem skipuð var um endurbæturnar). Sú varð raunin, en miklu meira en menn óraði fyrir og mannvistarlög voru mörg, hvert ofan á öðru.[4] Að endingu spannaði fornleifarannsóknin á Bessastöðum níu ár og varð ein hin umfangsmesta sem fram hafði farið á Íslandi. Samkvæmt rannsóknum nær búseta á Bessastöðum allt aftur á landnámsöld. Auk mannvirkjaleifa, fannst allmikið af gripum við fornleifarannsóknina á Bessastöðum. Þá öfluðu vísindamenn stærsta safns fornvistfræðilegra gagna sem fundist höfðu í einum uppgreftri hérlendis fram að því.
Við upphaf húsaviðgerðarinnar, var kjallarinn undir Bessastaðastofu grafinn út og fornminjum komið fyrir þar, svo sýna mætti áhugasömum. Þann sóma sem fornminjum staðarins er sýndur með gerð fornleifakjallarans og útfærslu hans, má ekki síst þakka velvilja og skilningi þáverandi forseta, sem var Vigdís Finnbogadóttir. Fyrirhugaður vínkjallari undir húsinu vék fyrir fornleifakjallaranum. Um leið jókst þýðing setursins þar sem unnt varð að sýna gestum forseta raunverulegar menjar um sögu staðarins og veita innsýn að nokkru leyti inn í daglegt líf æðstu embættismanna landsins árhundruð aftur í tímann.
Bessastaðanefnd og Þjóðminjasafn Íslands sameinuðust um frágang kjallarans sem sýningarhæfs rýmis og útstillingu muna. Frágangi hans var endanlega lokið um mitt árið 1994. Þarna má skyggnast nokkrar aldir aftur í sögu Bessastaða og meðal annars er gengt meðfram austurvegg bústaðar landfógeta frá fyrstu áratugum 18. aldar og má sjá inn á gólf hússins. Það var gert af bindingsverki og gefið er sýnishorn af því hvernig veggir slíkra bygginga voru gerðir en fyrirmyndin er allgömul og kemur frá Evrópu þó svo að hús úr bindingsverki hafi ekki reynst mjög vel hérlendis né verið endingargóð.
Allir þeir munir sem eru til sýnis, fundust á staðnum og sem dæmi um þá helstu má nefna:
Flestir brenndu leirmunanna voru brot úr leirkerjum frá 17. - 19. öld en eitt brotanna er frá 15. öld. Meira en 100 brot úr krítarpípum fundust, flest frá 18. öld Pípuhausar voru litlir því tóbak var dýrt. Glerið sem fannst, svo sem glasabrot, sýna stöðu Bessastaða sem höfðingjasetur því annað eins var ekki að finna á bæjum. Elsta glerbrotið var úr mannvistarlagi frá 15. eða 16. öld. Meðal óvenjulegust muna voru lítill tálgukarl úr beini og hafa verið leiddar að því líkur að hér sé um að ræða e.t.v. leikfang barns eða taflmann. Allmargir járnmunir fundust, svo sem naglar, hnífur, sylgja og reisla.[5]
Þá má nefna að í fornleifakjallaranum er fallbyssa sem talin er vera frá 15. öld, sem fannst í jörðu á Bessastöðum árið 1888. Trúlega var byssan notuð staðnum til varnar er einnig mögulega til erfðahyllingar þegar við átti. Byssan er trúlega sú næstelsta sem til er hérlendis. Hún er gerð af sex járnhólkum og eru járngjarðir utan um samskeyti þeirra. Mögulega vantar eitthvað á lengd byssunnar. Enn eldri er byssa sem einnig fannst í Bessastaðalandi, en hlaup hennar er gert af járnstöfum sem mynda sívalning sem járngjarðir eru felldar utanum. Sú er varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.
Vinnumannaskálinn á Bessastöðum var kallaður Þrælakistan, svarthol konungs í Konungsgarði, og var ætlaður afbrotamönnum. Menn vissu lengi vel ekki hvar hún hefði verið. En árið 1993 stóð yfir uppgröftur í grennd við Bessastaði. Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur taldi þá hugsanlegt að Þrælakistan hafi komið í ljós við rannsóknina rétt austan við Bessastaðastofu. Þar fannst niðurgrafin rúst og voru veggirnir gerðir úr stórum björgum, og er líklegt að hún hafi verið þar. Þegar uppgreftrinum lauk varð þessi hugsanlega Þrælakista að vínkjallara Bessastaða. Í Íslandsklukkunni eftir Halldór Laxness er minnst á Þrælakistuna:
„Allir munu vera okkar vinir, sagði hún; því fólkinu líður vel. Og þrælakistan leggjast niður á Bessastöðum, sagði hann. Því í landi þar sem fólkinu líður vel eru ekki framdir glæpir. Og við ríðum um landið á hvítum hestum, sagði hún“. |
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.