Maður (fræðiheiti: Homo sapiens „hinn vitiborni maður“) er algengasta og útbreiddasta tegund fremdardýra á jörðinni. Helstu einkenni manna eru að þeir ganga uppréttir á tveimur fótum og þeir eru með afar þróaðan og flókinn heila sem hefur gert þeim kleift að þróa flókin verkfæri, tungumál og menningu. Vitsmunir og frjálsar hendur hafa leitt til þess að þeir nota fleiri verkfæri, og í meiri mæli, en nokkur önnur þekkt dýrategund. Menn eru sérstaklega leiknir í því að nýta sér samskiptakerfi til sjálfstjáningar og skoðanaskipta. Menn mynda samfélög og mannleg tengsl sem einkennast af gildum, venjum og siðum. Líkt og önnur fremdardýr eru menn forvitnir að eðlisfari. Forvitni og áhugi mannsins á að skilja og móta umhverfi sitt og skýra náttúrufyrirbæri hafa leitt til þróunar vísinda, heimspeki, trúarbragða og fleiri sviða þekkingar.
Maður Tímabil steingervinga: Chiban-nútími | ||||||||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Fullorðinn karl (til vinstri) og kona (til hægri). | ||||||||||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||||||||||
| ||||||||||||||||||||||
Þéttleiki mannabyggðar á jörðinni. | ||||||||||||||||||||||
Sumir vísindamenn miða upphaf mannsins við það þegar ættkvíslin Homo kom fram á sjónarsviðið fyrir 2,8 milljón árum, en almennt er heitið „maður“ notað um einu manntegundina sem enn er til, Homo sapiens, sem merkir „vitiborni maðurinn“. Homo sapiens er talinn hafa þróast út frá Homo heidelbergensis fyrir um 300.000 árum einhvers staðar við Horn Afríku. Hann breiddist síðan þaðan út um heiminn og ruddi öðrum tegundum frummanna úr vegi. Lengst af í sögu sinni hafa menn verið veiðimenn og safnarar en í Nýsteinaldarbyltingunni, sem hófst í Suðvestur-Asíu fyrir um 13.000 árum tóku menn upp landbúnað og fasta búsetu. Þegar samfélög manna stækkuðu urðu til flóknari stjórnkerfi og siðmenningarsamfélög risu og hnigu. Mannkyni hefur fjölgað stöðugt og fjöldi manna náði 8 milljörðum árið 2022.[1]
Líffræðileg fjölbreytni mannkyns ræðst meðal annars af erfðavísum og umhverfi. Þótt einstaklingar geti verið mjög ólíkir hvað varðar útlit, líkamsstærð og fleira, eru 99% af erfðavísum manna þeir sömu. Mestu erfðafræðilegu fjölbreytni manna er að finna í Afríku. Menn sýna tvíbreytni og þróa kyneinkenni við kynþroska sem verða grundvöllur flokkunar fólks í karla og konur. Konur geta orðið óléttar og ganga gegnum tíðahvörf og verða ófrjóar um 50 ára aldur. Fæðing barna er konum mjög erfið og hættuleg. Börn manna eru algerlega háð umönnun við fæðingu. Bæði karlar og konur annast börnin að jafnaði, en hefðbundin kynhlutverk eru mjög ólík eftir því hvaða samfélög eiga í hlut og taka auk þess sífelldum breytingum.
Menn eru alætur og fá næringu úr mjög fjölbreyttri fæðu úr dýra-, jurta- og svepparíkinu. Allt frá tímum Homo erectus hefur maðurinn getað kveikt eld og matreitt fæðu sína. Mennirnir eru eina dýrategundin sem kann að kveikja eld, sem matreiðir fæðu sína, klæðir sig og notar ýmsar aðrar tæknilegar aðferðir til að lifa af. Menn geta lifað allt að átta vikur án matar og þrjá til fjóra daga án vatns. Menn eru að mestu dagdýr og sofa að jafnaði sjö til níu tíma á sólarhring.
Framheilabörkur mannsheilans, sá hluti heilans sem tengist hugrænni getu, er stór og þróaður. Menn búa yfir mikilli greind, atburðaminni, sjálfsvitund og hugarkenningu. Mannshugurinn er fær um innsæi, hugsun, ímyndun, vilja og tilvistarhugmyndir. Þetta hefur gert manninum kleyft að þróa tækni með rökleiðslu og flutningi og uppsöfnun þekkingar milli kynslóða. Tungumál, list og viðskipti eru meðal þess sem einkennir manninn. Samskipti fólks á viðskiptaleiðum hafa breitt út atferli og úrræði sem veita fólki hlutfallslega yfirburði í lífsbaráttunni.
Skilgreining og heiti
Allt núlifandi fólk tilheyrir tegundinni Homo sapiens sem Carl Linnaeus nefndi svo í bókinni Systema Naturae á 18. öld.[2] Heitið á ættkvíslinni, Homo, er dregið af latneska orðinu homō sem getur vísað til karla og kvenna.[3] Tegundarheitið Homo sapiens merkir „vitur maður“ (oftast þýtt sem „hinn vitiborni maður“).[4] Í almennu tali á orðið „maður“ aðeins við um Homo sapiens.[5] Vísindamenn eru ekki á eitt sáttir um það hvort skilgreina eigi aðrar manntegundir, einkum neanderdalsmenn, sem undirtegundir H. sapiens eða ekki.[6]
Íslenska orðið „maður“ er dregið af fornnorræna orðinu maðr sem kemur af gotneska orðinu manna sem er af óvissum uppruna.[7][8] Líkt og í mörgum öðrum málum getur orðið vísað bæði til tegundarinnar (eins og í samsetningunum „mannkyn“ og „manndráp“) og til karla sérstaklega (eins og í setningunum „maður og kona“ og „maðurinn minn“).[9]
Þróun
Menn teljast til mannapa (Hominoidea).[10] Gibbonapar og órangútanar voru með fyrstu núlifandi tegundunum sem skildu sig frá ættleggnum. Á eftir þeim fylgdu górillur og síðast simpansar. Menn tóku að skilja sig frá simpönsum fyrir 8-4 milljónum ára, seint á Míósen.[11][12][13] Sumir erfðafræðingar hafa stungið upp á þrengra bili fyrir 8-7 milljón árum síðan.[14] Á þeim tíma myndaðist litningur 2 með samruna tveggja litninga, þannig að menn fengu 23 litninga samanborið við 24 hjá öðrum öpum.[15]
Hominoidea (mannapar) |
| ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
Ættkvíslin Homo þróaðist út frá ættkvísl suðurapa (Australopithecus). Elstu steingerðu leifar manna eru um 2,8 milljón ára gamlar (LD 350-1) frá Eþíópíu. Elstu tegundirnar sem lýst hefur verið eru Homo habilis og Homo rudolfensis sem komu fram á sjónarsviðið fyrir 2,3 milljón árum. Tegundin kemur fram samhliða þróun verkfæra úr steini.[16] Tegundin Homo erectus („hinn upprétti maður“) varð til fyrir 2 milljónum ára og var fyrsti frummaðurinn sem flakkaði frá Afríku og dreifðist um Evrasíu.[17] H. erectus var líka fyrsti maðurinn með einkennandi líkamsbyggingu manna. H. sapiens þróaðist fyrir 300.000 árum út frá eldri manntegund sem er kölluð ýmist Homo heidelbergensis eða Homo rhodesiensis, afkomanda H. erectus í Afríku. H. sapiens breiddist út frá Afríku og lagði smátt og smátt undir sig búsvæði eldri manntegunda.[18][19][20]
Útbreiðsla H. sapiens virðist hafa farið fram í minnst tveimur „bylgjum“, fyrst fyrir 130 til 100.000 árum, og síðan fyrir um 70 til 50.000 árum.[21][22] Tegundin nam land á flestum stórum eyjum og meginlöndum og kom til Ástralíu fyrir 65.000 árum,[23] Ameríku fyrir um 15.000 árum, og náði fjarlægum eyjum eins og Hawaii, Páskaeyju, Madagaskar, Íslandi og Nýja-Sjálandi milli 300 f.o.t. og 1250 e.o.t.[24][25]
Þróun mannsins var ekki línuleg og fólst meðal annars í blöndun milli frummanna og nútímamanna.[26][27][28] Erfðarannsóknir hafa sýnt fram á að blöndun milli tiltölulega aðskildra þróunarlína manntegunda hafi verið algeng í þróunarsögunni.[29] Þessar rannsóknir benda til þess að erfðaefni frá neanderdalsmönnum sé til staðar í öllum hópum manna utan Afríku og að allt að 6% erfðaefnis nútímamanna sé komið frá frummönnum.[26][30][31]
Þróun mannsins fólst í mörgum formfræðilegum, atferlislegum, þróunarfræðilegum og lífeðlisfræðilegum breytingum sem hafa átt sér stað frá því þróunarlínan greindist frá þróunarlínu simpansa. Einna stærstu breytingarnar fólust í þróun tvífætlingsstöðu, stærri heila og minni tvíbreytni (síbernsku). Innbyrðis tengsl þessara breytinga eru umdeild.[32]
Líffræði
Líkamsbygging og líffærafræði
Í meginatriðum samsvarar líkamsbygging manna líkamsbyggingu annarra dýra. Mannslíkaminn er samsettur úr fótum, búk, höndum, hálsi og höfði. Í líkama fullorðins „meðalmanns“ eru um 30 billjón (30×1012) mennskar frumur, meðan örverumengi mannsins er talið innihalda að minnsta kosti jafnmargar frumur.[33] Helstu líffærakerfin í mannslíkamanum eru taugakerfið, blóðrásarkerfið, meltingarkerfið, innkirtlakerfið, ónæmiskerfið, hörundskerfið, sogæðakerfið, vöðva- og beinakerfið, æxlunarkerfið, öndunarkerfið og þvagkerfið.[34][35] Menn hafa hlutfallslega minni góm og miklu minni tennur en önnur fremdardýr. Menn eru einu fremdardýrin sem hafa stuttar og tiltölulega flatar vígtennur. Tennur í mönnum sitja þétt og hjá ungum einstaklingum lokast bil vegna tannmissis fljótt. Menn eru smám saman að missa innstu endajaxlana og sumir einstaklingar fá þá aldrei.[36]
Menn eiga það sameiginlegt með simpönsum að vera með leifar af hala, botnlanga, sveigjanlega axlarliði, fingur sem grípa og andstæða þumla.[37] Ef undan eru skilin tvífætlingsstaðan og heilastærðin felst aðalmunurinn á mönnum og simpönsum í lyktarskyni, heyrn og meltingu prótína.[38] Þéttleiki hársekkja er svipaður hjá mönnum og öðrum öpum, en það eru mest líkhár sem eru svo þunn að þau eru næstum ósýnileg.[39][40] Menn eru með um það bil 2 milljónir svitakirtla á öllum líkamanum, miklu fleiri en simpansar sem eru aðallega með svitakirtla í lófum og á iljum.[41]
Meðalhæð kvenna á heimsvísu er talin vera um 159 cm, en meðalhæð karla um 171 cm.[42] Eftir miðjan aldur dregst hæð sumra einstaklinga örlítið saman, en hæðin helst nokkuð stöðug fram á gamals aldur.[43] Í gegnum söguna hafa hópar fólks orðið hærri, líklega vegna betri næringar, heilsu og lífsskilyrða.[44] Meðallíkamsþyngd fullorðinna kvenna er 59 kg, en 77 kg hjá körlum.[45][46] Líkt og margt annað í líkamsbyggingu manna eru bæði hæð og þyngd mjög breytileg milli einstaklinga og ráðast af bæði erfðum og umhverfisaðstæðum.[47][48]
Menn eru færir um að kasta hlutum miklu hraðar og nákvæmar en önnur dýr.[49] Menn eru líka með hraðskreiðustu langhlaupurum dýraríkisins þótt mörg dýr slái þeim við á styttri vegalengdum.[50][38] Þynnri hár og virkari svitakirtlar draga úr hættu á hitaörmögnun í langhlaupum.[51]
Erfðafræði
Líkt og flest önnur dýr eru menn tvílitna heilkjörnungar. Hver líkamsfruma er með 23 litningapör þar sem hvor litningur í pari er frá öðru foreldri einstaklingsins. Kynfrumurnar hafa aðeins eitt sett litninga sem er blandað úr báðum litningapörum. Af þessum 23 litningapörum eru 22 frílitningar og eitt par kynlitninga. Líkt og önnur spendýr eru menn með XY-kynákvörðun þannig að konur eru að jafnaði með XX og karlar með XY.[52] Gen og umhverfi hafa áhrif á breytileika í útliti, líkamsbyggingu, mótstöðu gegn vissum sjúkdómum og andlegum hæfileikum. Samspil erfða og umhverfis við mótun tiltekinna einkenna er ekki vel þekkt.[53][54]
Þótt engir tveir einstaklingar (ekki einu sinni eineggja tvíburar) séu erfðafræðilega eins,[55] eru erfðafræðileg líkindi milli manna svo mikil að erfðaefni hvaða tveggja manna sem er er að meðaltali milli 99,5% og 99,9% það sama.[56][57] Þetta gerir það að verkum að menn eru einsleitari en aðrir mannapar, þar á meðal simpansar.[58][59] Þessi litli breytileiki hjá mönnum miðað við önnur dýr bendir til þess að erfðaþröng hafi átt sér stað á Síð-Pleistósen (fyrir um 100.000 árum), þar sem fjöldi manna hafi minnkað niður í nokkur pör.[60][61] Náttúruval hefur síðan haldið áfram að móta mannkynið og vísbendingar eru um stefnubundið val einhvern tíma á síðustu 15.000 árum.[62]
Erfðamengi mannsins var fyrst kortlagt í heild sinni með raðgreiningu árið 2001[63] og árið 2020 var búið að raðgreina hundruð þúsunda erfðamengja.[64] Árið 2012 hafði verkefnið International HapMap Project borið saman erfðamengi 1.184 einstaklinga úr 11 hópum og fundið 1,6 milljón dæmi um einkirnabreytileika.[65] Mestur breytileiki í erfðamengi manna virðist vera meðal afrískra hópa (allt að 100.000 staðbrigði af 67,3 milljón erfðabrigðum sem Human Genetic Diversity Project fann, eða um 0,15%). Flest erfðabrigði sem finnast annars staðar í heiminum er líka að finna í Afríku, en nokkur fjöldi staðbrigða virðist líka vera til staðar annars staðar, sérstaklega í Eyjaálfu og Ameríku (tugir þúsunda).[66] Flest staðbrigði eru þó sjaldgæf innan sinna svæða, svo mestur erfðabreytileiki milli einstaklinga stafar af erfðabrigðum sem finnast um allan heim.[67] Árið 2010 var talið að menn hefðu um það bil 22.000 gen.[68] Með því að bera saman mtDNA sem aðeins erfist frá móður, hafa erfðafræðingar ályktað að síðasta sameiginlega formóðir alls mannkyns, sem skildi erfðamark sitt eftir hjá öllum núlifandi mönnum, hafi verið uppi fyrir um 90.000 til 200.000 árum.[69][70][71]
Æviskeið
Æxlun manna á sér venjulega stað með innri frjóvgun við samfarir, en getur líka farið fram með tæknifrjóvgun.[72] Meðalmeðganga stendur í 38 vikur, en eðlileg meðganga getur verið breytileg um allt að 37 daga.[73] Fósturvísirinn vex fram að 9. viku, en þá er hann skilgreindur sem fóstur.[74] Menn geta komið fæðingu af stað eða framkvæmt keisaraskurð ef læknar telja þörf á að barnið fæðist fyrir tímann.[75] Í þróuðum ríkjum eru nýburar oftast 3-4 kg að þyngd og 47-53 cm að lengd við fæðingu.[76][77] Í þróunarríkjum er lág fæðingarþyngd algeng og á þátt í hærri tíðni ungbarnadauða í þeim löndum.[78]
Miðað við aðrar tegundir er fæðing mjög hættuleg mönnum, og mun meiri hætta á vandamálum og dauða móður og barns.[79] Stærð höfuðs fóstursins er hlutfallslega mun nær stærð mjaðmagrindarinnar en hjá öðrum fremdardýrum.[80] Ástæður þessa eru ekki með öllu ljósar. Oft hefur þetta verið skýrt með því að þróun tvífætlingsstöðu og stækkun heilans hafi valdið þessari fæðingarklemmu, en nýlegar rannsóknir benda til þess að ástæðurnar gætu verið flóknari.[80][81] Þetta leiðir til sársaukafullrar fæðingar sem getur tekið yfir 24 tíma.[82] Líkurnar á vel heppnaðri fæðingu jukust mikið á 20. öld með þróun læknisfræði í auðugri löndum. Í öðrum heimshlutum er náttúruleg fæðing enn hættuleg og tíðni mæðradauða um 100 sinnum hærri en í þróuðum ríkjum.[83]
Bæði kynin annast börn manna, ólíkt öðrum fremdardýrum þar sem móðirin sér aðallega um ungviðið.[84] Ungabörn eru háð umönnun við fæðingu. Þau vaxa í nokkur ár og verða venjulega kynþroska 15 til 17 ára gömul.[85][86][87] Ævi manna er gjarnan skipt í nokkur æviskeið. Algengt er að tala um ungabörn, börn, unglinga, fullorðið fólk og aldraða.[88] Lengd þessara æviskeiða er breytileg eftir menningarsvæðum og tímabilum, en markast meðal annars af vaxtarkipp á kynþroskaskeiðinu skömmu áður en einstaklingur verður fullvaxta.[89] Konur ganga gegnum tíðahvörf og verða ófrjóar um 50 ára aldur.[90] Stungið hefur verið upp á því að tíðahvörfin auki möguleika kvenna á að eignast afkomendur með því að gefa þeim tækifæri til að einbeita sér að þeim börnum sem fyrir eru, og síðan þeirra börnum (ömmutilgátan), fremur en halda áfram að eiga börn fram á gamals aldur.[91][92]
Ævilengd hvers einstaklings ræðst af tveimur meginþáttum: erfðum og lífstíl.[93] Af ýmsum ástæðum, meðal annars líffræðilegum, lifa konur að jafnaði fjórum árum lengur en karlar.[94] Árið 2018 voru lífslíkur stúlkna við fæðingu áætlaðar 74,9 ár á heimsvísu, samanborið við 70,4 ár hjá drengjum.[95][96] Mikill munur er á lífslíkum eftir landsvæðum sem fer að mestu saman við efnahagsþróun. Lífslíkur stúlkna í Hong Kong eru þannig til dæmis 87,6 ár og drengja 81,8 ár, meðan í Mið-Afríkulýðveldinu eru lífslíkur stúlkna aðeins 55,0 ár og drengja 50,6 ár.[97][98] Almennt eykst hlutfall aldraðra í þróuðum ríkjum, þar sem miðaldur er í kringum 40 ár. Í þróunarríkjum er miðaldur milli 15 og 20 ár. Í Evrópu er til dæmis einn af hverjum fjórum 60 ára og eldri, meðan þetta hlutfall er aðeins einn af tuttugu í Afríku.[99] Fjöldi tíræðra (fólks sem náð hefur 100 ára aldri) í heiminum var talinn standa í 210.000 árið 2002, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum.[100]
Æviskeið manna | ||||
---|---|---|---|---|
Ungabörn, drengur og stúlka | Börn, drengur og stúlka | Ungt fólk, piltur og stúlka | Fullorðinn karl og kona | Gamall karl og kona |
Búsvæði og útbreiðsla
Fyrstu bústaðir manna voru reistir í námunda við vatn og aðrar náttúruauðlindir sem þeir gátu nýtt sér til viðurværis, eins og veiðidýr og ræktarland fyrir jarðrækt og húsdýr.[101] Nútímamenn hafa þróað mikla getu til að breyta búsvæðum sínum sér í hag með tækni, eins og áveitum, borgarskipulagi, byggingartækni, skógeyðingu og eyðimerkurmyndun.[102] Mannabyggð er áfram viðkvæm fyrir náttúruhamförum, sérstaklega ef hún er staðsett á hættusvæðum og þar sem byggingar eru af litlum gæðum vegna fátæktar.[103] Hópamyndun og markviss breyting búsvæða hafa meðal annars þau markmið að veita vörn, safna saman þægindum og auðlegð, auka við fæðuframboð, bæta fagurfræði, auka þekkingu og efla vöruskipti.[104]
Menn hafa mikla aðlögunarhæfni, þrátt fyrir að hafa lítið þol gagnvart ýmsum aðstæðum óstuddir af tækni.[105] Með nýsköpun hafa menn aðlagað þolmörk sín að alls konar hitastigi, rakastigi, og hæð.[105] Afleiðingin er sú að menn hafa dreifst um alla Jörðina og finnast nær alls staðar, frá hitabeltisregnskógum að eyðimörkum að köldum pólsvæðum og menguðum iðnaðarborgum. Flestar aðrar dýrategundir eru bundnar við nokkur landfræðileg svæði vegna takmarkaðrar aðlögunarhæfni.[106] Mannkynið dreifist samt ekki jafnt um yfirborð Jarðar, þar sem þéttleiki byggðar er breytilegur frá einu svæði til annars og stór svæði eru nær óbyggð, eins og Suðurskautslandið og hafsvæðin.[105][107] Flest fólk (61%) lifir í Asíu; aðrir lifa í Ameríku (14%), Afríku (14%), Evrópu (11%) og Eyjaálfu (0.5%).[108]
Á síðustu öld hefur mönnum tekist að kanna jaðarsvæði eins og Suðurskautslandið, hafdjúpin og geiminn.[109] Mannabyggð á þessum erfiðu svæðum er mjög takmarkandi og dýr, oftast tímabundin og sett upp í vísindalegum eða hernaðarlegum tilgangi, eða fyrir ábatasaman iðnað.[109] Menn hafa heimsótt Tunglið og kannað aðra hnetti með manngerðum sjálfstýrðum geimförum.[110][111][112] Frá aldamótunum 2000 hefur verið stöðug mannabyggð í geimnum, í Alþjóðlegu geimstöðinni.[113]
Áætlað er að fjöldi manna þegar landbúnaður kom fram á sjónarsviðið um 10.000 f.o.t. hafi verið milli 1 milljón og 15 milljónir.[114][115] Milli 50 og 60 milljónir manna bjuggu í Rómaveldi á 4. öld.[116] Kýlapest, sem kemur fyrst fyrir í heimildum frá 6. öld, minnkaði mannfjöldann um helming, og í Svartadauða létust 75-200 milljónir í Evrasíu og Norður-Afríku.[117] Talið er að mannfjöldinn hafi náð 1 milljarði árið 1800. Síðan þá hefur hann aukist með veldisvexti. Hann náði 2 milljörðum árið 1930 og þremur árið 1960, fjórum árið 1975, fimm árið 1987 og sex milljörðum árið 1999.[118] Mannfjöldinn fór yfir 7 milljarða árið 2011 og náði 8 milljörðum að talið er 15. nóvember 2022.[119] Samanlagður lífmassi kolefnis alls fólks á Jörðinni árið 2018 var áætlaður 60 milljón tonn, um tíu sinnum meiri en lífmassi allra villtra spendýra.[120]
Árið 2018 bjuggu 4,2 milljarðar manna (55%) í þéttbýli, miðað við 751 milljón árið 1950.[121] Þéttbýlustu svæðin er að finna í Norður-Ameríku (82%), Suður-Ameríku (81%), Evrópu (74%) og Eyjaálfu (68%), en um 90% af dreifbýlisbúum heims búa í Afriku og Asíu.[121] Líf í borgum felur í sér ýmis konar áskoranir eins og mengun og glæpi,[122] sérstaklega í miðborgum og fátækrahverfum. Áætlað er að bæði heildarmannfjöldinn og hlutfall íbúa í þéttbýli muni aukast mikið á næstu áratugum.[123] Menn hafa mjög mikil umhverfisáhrif. Þeir eru topprándýr og eru sjaldan fæða annarra rándýra.[124] Mannfjöldaþróun, iðnvæðing, landbúnaður, ofneysla og brennsla jarðefniseldsneytis hafa leitt til umhverfisspjalla sem hafa meðal annars drifið áfram yfirstandandi fjöldaútdauða annarra lífvera.[125][126] Menn eru meginástæða núverandi loftslagsbreytinga[127] sem gætu hraðað Hólósenútdauðanum.[128][125]
Tilvísanir
Wikiwand in your browser!
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.