From Wikipedia, the free encyclopedia
Ferðaþjónusta á Íslandi er ört vaxandi atvinnugrein sem hefur öðlast aukið mikilvægi undanfarin ár. Árið 2002 var ferðaþjónusta næstmikilvægasta útflutningsgreinin á Íslandi á eftir sjávarútvegi og árið 2017 hafði hún tekið fram úr útflutningi sjávarafurða og var orðin mikilvægasta útflutningsgrein landsins. Heimsóknum erlendra ferðamanna til Íslands fjölgaði lengi eftir veldisfalli. Þótt fáir sæki landið heim í samanburði við önnur Evrópulönd er hlutfall ferðafólks hátt miðað við íbúafjölda. Árið 2022 var fjöldi erlendra ferðamanna 2,1 milljón. Til samanburðar komu rétt rúmlega 300 þúsund erlendir gestir til landsins um Keflavíkurflugvöll árið 2003.
Samkvæmt Hagstofu Íslands var hlutur ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu 7,4% árið 2022[1] og hlutfall af útflutningstekjum 23%.[2] Árið 2020 voru fyrirtæki í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi rúmlega 4 þúsund talsins og hlutfall mannafla starfandi í þessum geira 11%. Árið 2022 var ársvelta ferðaþjónustufyrirtækja 750 milljarðar króna.
Ferðaþjónustan átti stóran þátt í endurreisn íslensks efnahagslífs eftir Bankahrunið 2008. Hún varð að sama skapi fyrir miklu áfalli í Kórónaveirufaraldrinum 2019-2021. Hinn mikli vöxtur greinarinnar á stuttum tíma hefur leitt til ásakana um neikvæð ruðningsáhrif á aðrar atvinnugreinar, þar sem aukin eftirspurn eftir mannafla í ferðaþjónustu hafi leitt til verðbólgu og aukinnar eftirspurnar á fasteignamarkaði.[3][4] Bent hefur verið á að hlutfall íbúða í Reykjavík í skammtímaleigu í gegnum veffyrirtæki eins og Airbnb er margfalt hærra en í öðrum evrópskum höfuðborgum.[5] Þessi mikli vöxtur hefur líka valdið áhyggjum af því að uppbygging innviða haldi ekki í við hann, sem geti leitt til slysahættu og hættu á að náttúruperlur skemmist vegna of mikils ágangs.[6]
Helstu greinar ferðaþjónustu á Íslandi eru náttúrutengd ferðaþjónusta, ævintýraferðamennska og menningartengd ferðaþjónusta auk ýmissar starfsemi í kringum námsferðir, viðskiptaferðir, ráðstefnuferðir, tónleikaferðir, komur skemmtiferðaskipa, og þar fram eftir götunum. Nýjar greinar ferðaþjónustu sem hafa rutt sér til rúms á 21. öld eru kvikmyndaferðamennska og hinsegin ferðaþjónusta.
Helstu áfangastaðir ferðafólks á Íslandi eru meðal annars Reykjavík, Þingvellir, Gullfoss, Geysir, Jökulsárlón, Bláa lónið, Skógar, Skaftafell og Ásbyrgi. Gullni hringurinn á Suðurlandi og Demantshringurinn á Norðurlandi eru þekktar ferðaleiðir sem tengja saman nokkrar náttúruperlur. Aukin umferð til staða eins og Kirkjufells, Seljalandsfoss, Sólheimasands og Reynisfjöru hefur valdið vandræðum þar sem innviði vantar og alvarleg slys hafa orðið á ferðafólki á þessum stöðum.
Ferðafélag Íslands er elsta ferðafélag landsins, stofnað árið 1927. Meðal stærstu ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi eru opinbera hlutafélagið Isavia, flugfélögin Icelandair og Play Air, rútufyrirtækin Hópbílar og Reykjavík Excursions, Bílaleiga Akureyrar, hótelkeðjan Center Hotels, afþreyingarfyrirtækið Bláa lónið, smásöluverslanir Nordic Store og Icewear, og fleiri.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.