From Wikipedia, the free encyclopedia
Gíbraltar er höfði norðan við Gíbraltarsund í Suðvestur-Evrópu með landamæri að Spáni. Á Gíbraltar er Gíbraltarhöfði sem myndar annan hluta af súlum Herkúlesar og tengir Norður-Atlantshafið við Miðjarðarhafið.
Gibraltar | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Þjóðsöngur Gíbraltar | |
Höfuðborg | Gíbraltar |
Opinbert tungumál | enska |
Stjórnarfar | Breskt handanhafssvæði |
Konungur | Karl 3. |
Landstjóri | Sir David Steel |
Aðalráðherra | Fabian Picardo |
Bresk hjálenda | |
• Hertekið | 4. ágúst 1704 |
• Gefið eftir | 11. apríl 1713 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
241. sæti 6,5 km² 0 |
Mannfjöldi • Samtals (2012) • Þéttleiki byggðar |
222. sæti 30.001 4.328/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2011 |
• Samtals | 1 millj. dala |
• Á mann | 27.468 dalir |
VÞL (2008) | 0.961 (20. sæti) |
Gjaldmiðill | sterlingspund (£) |
Tímabelti | UTC+1 (+2 á sumrin) |
Þjóðarlén | .gi |
Landsnúmer | +350 |
Gíbraltar er undir yfirráðum Breta frá því breskur og hollenskur floti náði höfðanum á sitt vald árið 1704 í Spænska erfðastríðinu. Tanginn var síðan fenginn Bretum til eignar „að eilífu“ með Utrecht-sáttmálanum árið 1713. Ýmsir konungar Spánar reyndu að ná höfðanum aftur en án árangurs. Spánverjar gera því formlegt tilkall til Gíbraltar. Íbúar kusu um sameiningu við Spán árið 1969 og aftur árið 2002 en yfirgnæfandi meirihluti valdi að vera áfram hluti Bretlands í bæði skiptin. Þríhliða viðræður um stjórn svæðisins hófust árið 2006.
Lengi vel var Gíbraltar mikilvæg flotastöð breska flotans en nú byggist efnahagur landsins aðallega á fjármála- og ferðaþjónustu. Gíbraltar er með heimastjórn en utanríkis- og varnarmál eru í höndum Breta.
Heiti Gíbraltar er spænsk útgáfa arabíska heitisins Jabal ṬTāriq (جبل طارق) sem merkir Tariq-fjall. Það vísar til Gíbraltarhöfða sem Úmajadar nefndu eftir herforingjanum Tariq ibn-Ziyad sem leiddi fyrstu herförina yfir sundið árið 711, áður en aðalher Úmajada fylgdi á eftir undir stjórn kalífans Al-Walid 1. Eldra latneskt heiti höfðans er Mons Calpe, önnur af Súlum Heraklesar.
Í Gorhamshelli hafa fundist yngstu leifar Neanderdalsmanna í Evrópu, frá því fyrir 28-24.000 árum. Á sögulegum tíma eru Föníkar þeir fyrstu sem reistu byggð á höfðanum. Gíbraltar var þekkt sem önnur af Súlum Heraklesar eftir grísku goðsögunni um það hvernig Herakles bjó til Gíbraltarsund. Karþagóar og Rómverjar reistu þar líka byggðir. Eftir fall Rómaveldis varð höfðinn um stutt skeið hluti af ríki Vandala og síðar Konungsríki Vísigota frá 414 þar til Úmajadar hófu að leggja Hispaniu undir sig árið 711.
Árið 1160 lét soldáninn Abd al-Mu'min reisa virki og varanlega byggð á höfðanum. Byggðin var nefnd Medinat al-Fath, „Sigurborg“. Þegar bærinn var byggður kom soldáninn þangað og bjó þar í tvo mánuði. Það eina sem enn stendur af virkinu er Lotningarturninn í Márakastalanum. Eftir 1274 var bærinn undir stjórn Nasrída 1237 og 1374, Marínída 1274 og 1333, og Kastilíu 1309. Árið 1462 lagði Juan Alonso de Guzmán, hertogi af Medina Sidonia, bæinn undir sig.
Eftir sigur Guzmáns tók Hinrik 4. af Kastilíu upp titilinn konungur Gíbraltar og gerði höfðann hluta af mörkinni Campo Llano de Gibraltar. Sex árum síðar fékk hertoginn af Medina Sidonia höfðann aftur og seldi hann árið 1474 til hóps kristnaðra gyðinga frá Córdoba í staðinn fyrir uppihald setuliðs í tvö ár. Eftir það voru þeir hraktir burt. Árið 1501 gekk Gíbraltar aftur til spænsku krúnunnar og Ísabella af Kastilíu gaf bænum skjaldarmerkið sem hann notar enn.
Árið 1704, í Spænska erfðastríðinu, lagði sameinaður floti Bretlands og Hollands bæinn undir Karl 6. af Austurríki sem stefndi að því að verða Spánarkonungur. Í kjölfarið flúðu íbúar bæjarins til nærliggjandi héraða. Með Utrecht-sáttmálanum 1711 fékk Bretland Gíbraltar í sinn hlut gegn því að draga sig úr stríðinu. Spánarkonungur reyndi að leggja höfðann aftur undir sig með umsátri árin 1727 og löngu umsátri 1779-1783 meðan Bandaríska frelsisstríðið stóð, en án árangurs.
Breski flotinn rak flotastöð á höfðanum sem gegndi mikilvægu hernaðarlegu hlutverki í orrustunni við Trafalgar og Krímstríðinu. Þegar Súesskurðurinn var opnaður jókst mikilvægi Gíbraltar enn sem áfangastaðar á sjóleiðinni frá Bretlandi til Egyptalands. Á síðari hluta 19. aldar voru höfnin og varnarvirkin á höfðanum mikið endurbætt.
Í Síðari heimsstyrjöld voru íbúar Gíbraltar fluttir burt, aðallega til Bretlands, en líka til Marokkó, Jamaíku og Madeira og höfðanum var breytt í öflugt virki. Felixáætlun Þjóðverja sem gekk út á að ná höfðanum strandaði á tregðu Francos við að hleypa þýskum her inn í Spán.
Árið 1967 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Gíbraltar skyldi verða hluti Spánar eða áfram undir breskri stjórn. Yfirgnæfandi meirihluti íbúa kaus að vera áfram undir breskri stjórn. Í kjölfarið var gefin út ný stjórnarskrá Gíbraltar þar sem landið er sagt hluti Bretlands. Eftir þetta lokaði Spánn landamærum sínum að Gíbraltar og sleit á öll samskipti við landið. Landamærin voru opnuð aftur að hluta árið 1982 og að fullu árið 1985 eftir inngöngu Spánar í Evrópusambandið.
Árið 2002 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um aðkomu Spánar að stjórn Gíbraltar þar sem yfirgnæfandi meirihluti (98%) hafnaði henni. Árið 2006 hófust þríhliða viðræður milli Bretlands, Spánar og Gíbraltar sem bundu enda á ýmsar takmarkanir á flugsamgöngum, tollum, fjarskiptum, lífeyri og menningarsamstarfi.
Gíbraltar er bresk hjálenda. Frá 1981 hafa íbúar Gíbraltar haft fullgildan breskan ríkisborgararétt. Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá nýtur Gíbraltar sjálfstjórnar í eigin málum og hefur eigið þing sem er skipað 17 kjörnum fulltrúum og þingforseta. Ríkisstjórn Gíbraltar er skipuð tíu ráðherrum. Karl 3. Bretakonungur er þjóðhöfðingi en landstjóri Gíbraltar er fulltrúi hans. Hann ber ábyrgð gagnvart varnarmálaráðuneyti Bretlands en hefur samráð við þing Gíbraltar. Drottningin sér um skipan dómara í samráði við ríkisstjórnina.
Gíbraltar er hluti af Evrópusambandinu í gegnum European Communities Act 1972 sem breskt yfirráðasvæði með undanþágur frá ýmsum sviðum eins og tollabandalaginu og sameiginlegu landbúnaðarstefnunni. Íbúar Gíbraltar fengu kosningarétt til Evrópuþingsins árið 2006 sem hluti kjördæmisins Suðvestur-Englands.
Landsvæði Gíbraltar nær yfir 6,843 ferkílómetra svæði. Landamærin við Spán eru 1,2 kílómetrar að lengd. Bærinn La Línea de la Concepción í Cádiz-héraði liggur við landamærin Spánarmegin. Landið Spánarmegin er kallað Campo de Gibraltar („Gíbraltarsveit“). Strandlengjan við Gíbraltar er 12 kílómetrar á lengd. Gíbraltar skiptist í tvær hliðar: vestan megin er aðalbyggðin, Westside, en austan megin eru byggðirnar Sandy Bay og Catalan Bay. Gíbraltar er ekki með neinar aðskildar stjórnsýslueiningar en skiptist í sjö íbúabyggðir.
Gíbraltar hefur nær engar náttúruauðlindir og lítið af ferskvatnsbrunnum. Þar til nýlega var regnvatni safnað í stórar vatnsþrær inni í klettinum. Tvær borholur sjá byggðinni fyrir vatni en auk þeirra eru tvær afsöltunarstöðvar sem vinna ferskvatn úr sjó.
Gíbraltarhöfði er 426 metrar á hæð og er myndaður úr kalksteini frá Júratímabilinu. Undir höfðanum er mjó strandlengja. Tíundi hluti landsvæðisins er manngerð landfylling. Á höfðanum eru margir vegir og veggöng sem flest eru rekin af breska hernum og lokuð almenningi.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.