Remove ads
42. varaforseti Bandaríkjanna From Wikipedia, the free encyclopedia
Walter Frederick „Fritz“ Mondale (5. janúar 1928 – 19. apríl 2021) var bandarískur stjórnmálamaður úr Demókrataflokknum. Hann var varaforseti Bandaríkjanna frá 1977 til 1981, í forsetatíð Jimmy Carter. Áður hafði Mondale setið á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Minnesota frá 1964 til 1976. Mondale var frambjóðandi Demókrata í forsetakosningunum 1984 en þar galt hann sögulegt afhroð á móti sitjandi forsetanum Ronald Reagan og vann aðeins heimafylki sitt, Minnesota, auk höfuðborgarinnar. Mondale dró sig að mestu úr stjórnmálum eftir ósigurinn en hann var sendiherra Bandaríkjanna í Japan frá 1993 til 1996.
Walter Mondale | |
---|---|
Varaforseti Bandaríkjanna | |
Í embætti 20. janúar 1977 – 20. janúar 1981 | |
Forseti | Jimmy Carter |
Forveri | Nelson Rockefeller |
Eftirmaður | George H. W. Bush |
Öldungadeildarþingmaður fyrir Minnesota | |
Í embætti 30. desember 1964 – 30. desember 1976 | |
Forveri | Hubert Humphrey |
Eftirmaður | Wendell Anderson |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 5. janúar 1928 Ceylon, Minnesota, Bandaríkjunum |
Látinn | 19. apríl 2021 (93 ára) Minneapolis, Minnesota, Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarískur |
Stjórnmálaflokkur | Demókrataflokkurinn |
Maki | Joan Adams (g. 1955; d. 2014) |
Börn | 3 |
Háskóli | Macalester-háskóli Háskólinn í Minnesota (BA, LLB) |
Starf | Lögfræðingur, stjórnmálamaður, sendiherra |
Undirskrift |
Walter Mondale fæddist þann 5. janúar 1928 og var uppalinn í Minnesota. Hann var af norskri ætt sem hafði áður heitið Mundal. Á unglingsárum sínum varð hann mikill stuðningsmaður Huberts Humphrey, sem var með aðsópsmestu stjórnmálaleiðtogum Demókrataflokksins í Minnesota. Eftir að Mondale lauk háskólanámi og herþjónustu hóf hann þátttöku í stjórnmálum og var árið 1956 kjörinn dómari. Fjórum árum síðar var Mondale kjörinn dómsmálaráðherra Minnesota og varð hann þá yngsti maðurinn sem hafði gegnt því embætti.[1]
Í forsetakosningunum 1964 var Hubert Humphrey kjörinn varaforseti Bandaríkjanna og var Mondale þá útnefndur til að taka við sæti hans á öldungadeild Bandaríkjaþings. Á tíma sínum á öldungadeildinni var Mondale talsmaður verkamanna og farandverkafólks og talaði fyrir auknum ríkisútgjöldum til menntamála. Hann var talinn ötull stuðningsmaður efnahagsstefna í anda nýju gjafarinnar sem Franklin D. Roosevelt hafði boðað á forsetatíð sinni.[2] Auk þess beitti hann sér fyrir afléttingu á kynþáttaaðskilnaði í bandarískum skólum með því að láta aka nemendum milli skólahverfa.[3] Mondale var endurkjörinn á öldungadeildina í kosningum árin 1968 og 1972.[1]
Eftir að Jimmy Carter vann tilnefningu Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 1976 valdi hann Mondale sem varaforsetaefni sitt. Carter og Mondale sigruðu sitjandi forsetann Gerald Ford og varaforsetaefni hans, Bob Dole, í kosningunum. Mondale tók við embætti varaforseta Bandaríkjanna við hlið Carters þann 20. janúar 1977.
Mondale þótti auka mikilvægi varaforsetaembættisins verulega með því að taka virkari þátt í mótun og framkvæmd stjórnarstefnu en forverar sínir. Hann var fyrstur varaforseta Bandaríkjanna til að starfa daglega með forsetanum í Hvíta húsinu, en hann hafði gert virka þátttöku í stjórnarstörfum skilyrði fyrir því að þiggja sæti á kjörseðlinum með Carter.[4] Carter og Mondale greindi þó á um tiltekin málefni á stjórnartíð þeirra. Meðal annars var Mondale ósamþykkur útflutningsbanni sem Carter lagði á korn frá Bandaríkjunum til Sovétríkjanna eftir að Sovétmenn gerðu innrás í Afganistan árið 1979. Hann reyndi jafnframt án árangurs að sannfæra Carter um að taka aukið tillit til frjálslyndari hluta Demókrataflokksins við gerð fjárlaga.[2] Mondale fór í margar opinberar heimsóknir á vegum Bandaríkjastjórnar á varaforsetatíð sinni. Meðal annars kom hann til Íslands árið 1977 og aftur 1979 og fundaði þá með forsætisráðherrum landsins, Geir Hallgrímssyni og Ólafi Jóhannessyni.[5][6]
Carter og Mondale töpuðu endurkjöri í forsetakosningunum 1980 á móti frambjóðendum Repúblikana, Ronald Reagan og George H. W. Bush, og létu því af embætti í byrjun næsta árs. Mondale gaf kost á sér í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar 1984 og náði að tryggja sér útnefningu flokksins eftir nokkuð tvísýna kosningabaráttu. Meðal mótframbjóðenda hans voru öldungadeildarþingmanninn Gary Hart og Jesse Jackson, sem var talinn fyrstur svartra Bandaríkjamanna til að eiga raunhæfan möguleika á að ná kjöri á forsetastól.[7]
Eftir að Mondale tryggði sér útnefningu Demókrata valdi hann fulltrúadeildarþingkonuna Geraldine Ferraro sem varaforsetaefni sitt í kosningunum. Var þetta í fyrsta sinn sem kona var á kjörseðli annars stóru stjórnmálaflokkanna í bandarískum forsetakosningum.[8] Í aðdraganda kosninganna gagnrýndi Mondale Ronald Reagan forseta fyrir mikinn fjárhagshalla og herskáa utanríkisstefnu. Hann lofaði því að halda árlega fundi með Sovétmönnum til að ræða afvopnunarmál og að fjárframlög til varnarmála myndu ekki hækka um meira en fjögur prósent á ári.[9] Mondale studdi jafnframt staðfestingu á jafnréttisviðaukanum við bandarísku stjórnarskrána.[10]
Í forsetakosningunum 1984 galt Mondale afhroð gegn Reagan. Mondale vann aðeins nauman sigur í höfuðborginni og í heimafylki sínu, Minnesota, en tapaði í öllum öðrum fylkjum landsins. Mondale skýrði ósigur sinn meðal annars á því að hann hefði verið of neikvæður í kosningabaráttunni[11] og að honum hefði ekki tekist eins vel og Reagan að nýta sér sjónvarp og fjölmiðla til að ná tengslum við kjósendur.[12]
Mondale sneri heim til Minnesota árið 1986 og hætti þá afskiptum af opinberu lífi. Hann hóf störf hjá lögmannsstofunni Dorsey & Whitney og stýrði um hríð Asíudeild stofunnar. Hann var sendiherra Bandaríkjanna í Japan frá 1993 til 1996 þegar Bill Clinton var forseti Bandaríkjanna. Árið 2002 var Mondale fenginn til að bjóða sig aftur fram á öldungadeild Bandaríkjaþings eftir að frambjóðandi Demókrata, Paul Wellstone, lést í flugslysi stuttu fyrir kosningar.[3] Mondale tapaði kosningunum og bauð sig aldrei aftur fram til opinbers embættis.
Mondale lést þann 19. apríl 2021, þá 93 ára að aldri.[12]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.