Norður-Ameríka

heimsálfa From Wikipedia, the free encyclopedia

Norður-Ameríka

Norður-Ameríka er heimsálfa sem liggur nær öll á norðurhveli og vesturhveli jarðar. Hún er norðurhluti landflæmisins Ameríku sem nær líka yfir Suður-Ameríku. Norður-Ameríka markast af Norður-Íshafi í norðri, Karíbahafi í suðri, Kyrrahafi í vestri og Atlantshafi í austri. Grænland er landfræðilega hluti af Norður-Ameríku því það liggur á Norður-Ameríkuflekanum.

Thumb
Heimskort sem sýnir staðsetningu Norður-Ameríku.

Norður-Ameríka er 24,7 milljón ferkílómetrar að stærð. Hún þekur um 16,5% af þurrlendi jarðar og 4,8% af yfirborði jarðar. Hún er þriðja stærsta heimsálfan, á eftir Asíu og Afríku, og fjórða fjölmennasta heimsálfa jarðar, á eftir Asíu, Afríku og Evrópu. Árið 2013 var talið að 579 milljónir byggju í álfunni, í 23 fullvalda ríkjum, sem eru 7,5% mannkyns.

Menn námu land í Norður-Ameríku undir lok síðustu ísaldar með því að fara yfir Beringssund á landbrú frá Asíu, fyrir um það bil 40.000 til 17.000 árum síðan. Talið er að tímabil svokallaðra fornindíána hafi staðið þar til fyrir um 10.000 árum þegar Forntímabil Ameríku hófst. Klassíska tímabilið í Ameríku stóð frá 6. til 13. aldar, en Forkólumbíska tímabilinu lauk árið 1492. Þá hófst Landafundatímabilið sem einkenndist af landnámi Evrópubúa og innflutningi þræla frá Afríku. Elstu vísanir í Norður-Ameríku í evrópskum ritum er að finna í Íslendingasögum sem segja frá atburðum í kringum árið 1000. Íbúasamsetning Norður-Ameríku endurspeglar þjóðflutninga fólks alls staðar að úr heiminum, auk frumbyggja.

Arfur nýlendutímabilsins lýsir sér meðal annars í því að flestir íbúar Norður-Ameríku tala Evrópumál eins og ensku, spænsku og frönsku, og menning þeirra byggist á vestrænum hefðum. Víða í Norður-Ameríku búa þó frumþjóðir með sérstaka menningu og tungumál.

Heiti

Almennt er viðurkennt að heimsálfan Ameríka var nefnd eftir ítalska landkönnuðinum Amerigo Vespucci af þýsku kortagerðarmönnunum Martin Waldseemüller og Matthias Ringmann.[1] Vespucci kannaði Suður-Ameríku milli 1497 og 1502 og varð fyrstur til að stinga upp á því að Ameríka væri ekki Austur-Indíur heldur áður óþekkt meginland. Árið 1507 gaf Waldseemüller út landakort þar sem hann setti orðið „America“ á Suður-Ameríku, þar sem Brasilía er nú, og skýrði heitið í bók sem fylgdi kortinu þannig að það væri dregið „ab Americo inventore“.[2]

Waldseemüller þótti eðlilegast að nefna landið eftir manninum sem uppgötvaði það. Hann notaðist við latneska útgáfu nafnsins, Americus, en breytti því í kvenkyn til samræmis við önnur heimsálfuheiti eins og „Evrópa“ og „Asía“. Nafnið varð því „America“. Síðari kortagerðarmenn tóku að nota sama heiti yfir norðurhluta álfunnar. Árið 1538 setti Gerhard Mercator heitið á allt vesturhvelið á heimskorti sínu.[3]

Mercator kallaði álfuna raunar „Ameríka eða Nýja-Indland“ („America sive India Nova“) á heimskorti sínu árið 1569.[4] Spænsk yfirvöld kölluðu nýlendur sínar í álfunni „Indíur“ („Las Indias“).

Ameríka er stunduð kölluð Vesturálfa í eldri íslenskum ritum.

Landfræði

Norður-Ameríka er á norðurhelmingi landflæmisins sem almennt er kallað Nýi heimurinn, Vesturheimur eða einfaldlega Ameríka (sem er oft talin ein heimsálfa).[5][6][7][8][9][10] Norður-Ameríka er þriðja stærsta heimsálfan að flatarmáli, á eftir Asíu og Afríku.[11][12] Eina landtenging Norður-Ameríku er við Suður-Ameríku um Panamaeiðið. Suðaustanmegin eru mörk heimsálfunnar oftast miðuð við Darién-vatnaskilin meðfram landamærum Kólumbíu og Panama. Nánast allt Panama er því staðsett í Norður-Ameríku.[13][14][15] Sumir landfræðingar vilja heldur miða suðurmörkin við Tehuantepec-eiðið sem útilokar þá Mið-Ameríku.[16] Eyjar Karíbahafsins, eða Vestur-Indíur, eru taldar með Norður-Ameríku.[9] Strönd meginlandsins er löng og óregluleg. Mexíkóflói er stærsta innhafið sem skerst inn í meginlandið, en Hudson-flói kemur þar á eftir. Aðrir stórir flóar eru Lawrence-flói og Kaliforníuflói.

Thumb
Sonora-eyðimörkin í Arisóna.

Áður en Mið-Ameríkueiðið myndaðist var það svæði neðansjávar. Eyjarnar í Vestur-Indíum liggja á sokkinni landbrú sem áður tengdi Norður- og Suður-Ameríku milli Flórída og Venesúela.

Fjölmargar eyjar eru undan ströndum meginlandsins; aðallega Norðurhafseyjar, Bahamaeyjar, Turks- og Caicoseyjar, Stóru Antillaeyjar og Litlu Antillaeyjar, Aleuteyjar (sumar þeirra eru á austurhveli jarðar), Alexanderseyjar, þúsundir eyja við strönd Bresku Kólumbíu og Nýfundnaland. Grænland, sem er heimastjórnarsvæði innan Danmörku, er stærsta eyja veraldar og situr á Norður-Ameríkuflekanum. Bermúda er hins vegar ekki hluti af Norður-Ameríku jarðfræðilega þar sem eyjan myndaðist á Atlantshafshryggnum fyrir um 100 milljón árum. Næsta landflæmi við eyjuna er Hatterashöfði í Norður-Karólínu. Bermúda er samt oftast talin til Norður-Ameríku, sérstaklega vegna sögulegra, stjórnarfarslegra og menningarlegra tengsla við Virginíu og önnur svæði á meginlandinu.

Thumb
Moraine Lake í Banff-þjóðgarðinum.

Stærstur hluti Norður-Ameríku er á Norður-Ameríkuflekanum. Hlutar af Vestur-Mexíkó (þar á meðal Baja California) og Kaliforníu (meðal annars borgirnar San Diego, Los Angeles og Santa Cruz) eru á austurbrún Kyrrahafsflekans, en flekarnir tveir mætast við San Andreas-misgengið. Syðri hluti heimsálfunnar og stór hluti Vestur-Indía liggja á Karíbahafsflekanum, og Juan de Fuca-flekinn og Cocos-flekinn liggja að vesturbrún Norður-Ameríkuflekans.

Norður-Ameríka skiptist í fjögur meginlandsvæði: Slétturnar miklu sem liggja frá Mexíkóflóa að Norður-Kanada; vestrið, sem er jarðfræðilega ungt og fjalllent og nær yfir Klettafjöll, Dældina miklu, Kaliforníu og Alaska; flatlent Kanadahálendið í norðaustri; og fjölbreytt austursvæðið sem nær yfir Appalasíufjöll, ströndina við Atlantshafið og Flórídaskaga. Mexíkó, með sínar löngu hásléttur og fjallgarða, er að mestu hluti vestursins, þótt í austri sé strandslétta við suðurströnd Mexíkóflóa.

Thumb
Nuuk, höfuðborg Grænlands.

Vestari fjöllin skiptast í miðju milli Klettafjalla og Kyrrahafsfjalla í Kaliforníu, Óregon, Washington-fylki og Bresku Kólumbíu, ásamt Dældinni miklu, láglendissvæði með marga minni fjallgarða og eyðimerkur inn á milli. Hæsti tindurinn er Denali í Alaska.

Landfræðistofnun Bandaríkjanna segir að landfræðileg miðja Norður-Ameríku sé 10 km vestan við Balta í Norður-Dakóta og 15 km frá Rugby. Stofnunin segir jafnframt að engin ríkisstofnun hafi opinberlega lýst eða merkt neinn miðpunkt, hvorki í fylkjunum 50, né fyrir Bandaríkin, né fyrir norðurameríska meginlandið. Samt sem áður er einsteinungur í Rugby þar sem á stendur að þar sé miðja meginlandsins. Óaðgengispóll Norður-Ameríku er 1650 km frá næstu strandlengju, milli Allen og Kyle í Suður-Dakóta.[17]

Lönd í Norður-Ameríku

Nánari upplýsingar Fáni, Heiti ...
Fáni HeitiHöfuðborgStærð (km2)FólksfjöldiHeimshluti
Alríkisumdæmi Venesúela (Venesúela)Gran Roque3422.155Karíbahaf
Fáni AngvilluAngvilla (Bretland)The Valley9115.753Karíbahaf
Fáni Antígva og BarbúdaAntígva og BarbúdaSt. John's44293.219Karíbahaf
Fáni ArúbaArúba (Holland)Oranjestad180106.537Karíbahaf
Fáni BahamaeyjaBahamaeyjarNassá13.943407.906Norðanverð Ameríka
Fáni BandaríkjanaBandaríkinWashington D.C.9.629.091336.997.624Norðanverð Ameríka
Fáni Bandarísku JómfrúreyjaBandarísku Jómfrúaeyjar (Bandaríkin)Charlotte Amalie347100.091Karíbahaf
Fáni BarbadosBarbadosBridgetown430281.200Karíbahaf
Fáni BelísBelísBelmópan22.966400.031Mið-Ameríka
Fáni BermúdaBermúda (Bretland)Hamilton5464.185Norðanverð Ameríka
Bonaire (Holland)Kralendijk29412.093Karíbahaf
Fáni Bresku JómfrúreyjaBresku Jómfrúaeyjar (Bretland)Road Town15131.122Karíbahaf
Fáni CaymaneyjaCaymaneyjar (Bretland)George Town26468.136Karíbahaf
Fáni FrakklandsClipperton-eyja (Frakkland)60Mið-Ameríka
Fáni CuraçaoCuraçao (Holland)Willemstad444190.338Karíbahaf
Fáni DóminíkuDóminíkaRoseau75172.412Karíbahaf
Fáni Dóminíska lýðveldisinsDóminíska lýðveldiðSanto Domingo48.67111.117.873Karíbahaf
Fáni El SalvadorEl SalvadorSan Salvador21.0416.314.167Mið-Ameríka
Fáni GrenadaGrenadaSt. George's344124.610Karíbahaf
Fáni GrænlandsGrænland (Danmörk)Nuuk2.166.08656.243Norðanverð Ameríka
Fáni Miðbaugs-GíneuGvadelúpeyjar (Frakkland)Basse-Terre1.628396.051Karíbahaf
Fáni GvatemalaGvatemalaGvatemalaborg108.88917.608.483Mið-Ameríka
Fáni HaítíHaítíPort-au-Prince27.75011.447.569Karíbahaf
Fáni HondúrasHondúrasTegucigalpa112.49210.278.345Mið-Ameríka
Fáni JamaíkaJamaíkaKingston10.9912.827.695Karíbahaf
KanadaKanadaOttawa9.984.67038.155.012Norðanverð Ameríka
Fáni Kosta RíkaKosta RíkaSan José51.1005.153.957Mið-Ameríka
Fáni KúbuKúbaHavana109.88611.256.372Karíbahaf
Martiník (Frakkland)Fort-de-France1.128368.796Karíbahaf
Fáni MexíkósMexíkóMexíkóborg1.964.375126.705.138Norðanverð Ameríka
Fáni MontserratMontserrat (Bretland)Plymouth, Brades1024.417Karíbahaf
Fáni NíkaragúaNíkaragvaManagva130.3736.850.540Mið-Ameríka
Nueva Esparta (Venesúela)La Asunción1.151491.610Karíbahaf
Fáni PanamaPanamaPanamaborg75.4174.351.267Mið-Ameríka
Fáni Púertó RíkóPúertó Ríkó (Bandaríkin)San Juan8.8703.256.028Karíbahaf
Saba (Holland)The Bottom131.537Karíbahaf
Fáni FrakklandsSaint Barthélemy (Frakkland)Gustavia217.448Karíbahaf
Fáni FrakklandsSaint Martin (Frakkland)Marigot5429.820Karíbahaf
San Andrés y Providencia (Kólumbía)San Andrés5377.701Karíbahaf
Fáni Sankti Kristófer og NevisSankti Kristófer og NevisBasseterre26147.606Karíbahaf
Fáni Sankti LúsíuSankti LúsíaCastries539179.651Karíbahaf
Fáni Sankti Pierre og MiquelonSankti Pierre og Miquelon (Frakkland)Saint-Pierre2425.883Norðanverð Ameríka
Fáni Sankti Vinsent og GrenadíneyjaSankti Vinsent og GrenadíneyjarKingstown389104.332Karíbahaf
Sint Eustatius (Holland)Oranjestad212.739Karíbahaf
Fáni Sint MaartenSint Maarten (Holland)Philipsburg3444.042Karíbahaf
Fáni Trínidad og TóbagóTrínidad og TóbagóPort of Spain5.1301.525.663Karíbahaf
Fáni Turks- og CaicoseyjaTurks- og Caicoseyjar (Bretland)Cockburn Town94845.114Norðanverð Ameríka
Alls 24.500.995 583.473.912
Loka

Tilvísanir

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.