Síminn
From Wikipedia, the free encyclopedia
Síminn er íslenskt símafyrirtæki í einkaeigu. Fyrirtækið var áður í ríkiseigu og hét þá Landssími Íslands, stofnað árið 1906. Landsíminn var í fyrstu í gamla barnaskólanum í Reykjavík á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis. Fyrsti yfirmaður Landssímans var Norðmaðurinn Olav Forberg en hann hafði stjórnað lagningu símalína um landið. Fyrstu menntuðu íslensku símamennirnir voru símritarar sem höfðu verið í námi hjá Mikla norræna ritsímafélaginu í Kaupmannahöfn.
Síminn hf. | |
![]() | |
Rekstrarform | Hlutafélag |
---|---|
Slagorð | Þú getur meira með Símanum |
Stofnað | Upprunalega 1906 (sameinað úr Landssíma Íslands, Íslenska sjónvarpsfélaginu og Skipti árið 2005) |
Staðsetning | Ármúli 25 108 Reykjavík |
Lykilpersónur | Jón Sigurðsson, stjórnarformaður María Björk Einarsdóttir, forstjóri |
Starfsemi | Fjarskipti |
Vefsíða | siminn.is |

Landssími Íslands var stofnaður sama ár og sæsímastrengur fyrir ritsíma var lagður frá Skotlandi um Færeyjar til Íslands og kom hann á land á Seyðisfirði. Skeyta- og talsími var lagður frá Seyðisfirði um Akureyri og til Reykjavíkur.
Árið 1935 var síma- og póstþjónustan sameinuð í eitt fyrirtæki.[heimild vantar] Í júní 1996 var samþykkt að breyta Póst- og símamálastofnun ríkisins í hlutafélagið Póstur & sími hf. sem hóf störf í ársbyrjun 1997.[1] Árið 1998 var Landssími Íslands hf stofnaður.[heimild vantar]
Einkavæðing
Haustið 2005 seldi Ríkisstjórn Íslands 98,8% eignarhlut sinn í Landssíma Íslands til Skipta ehf fyrir 66,7 milljarða króna.[2] Salan var mikið gagnrýnd, m.a. vegna þess að engin skilyrði fylgdu sem tryggðu samkeppni á grunnneti Landssímans.[3] Áhyggjurnar raungerðust og árið 2013 gerði Síminn sátt við Samkeppniseftirlitið eftir að hafa misnotað á markaðsráðandi stöðu sína á fjarskiptamarkað og greiddi Skiptir hf. 300 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna þess.[4] Í kjölfarið var Síminn dæmdur í héraðsdómstól til að borga þremur netþjónustufyrirtækjum 111 milljónir króna í skaðabætur, auk kostnaðar, vegna brotanna.[5]
15. október 2015 var Síminn formlega skráður á aðalmarkað Nasdaq Iceland.[6]
Samkeppnisbrot og sektir
Á árunum 2001 til 2012 var Síminn það fyrirtæki sem oftast var sektað af Samkeppniseftirlitinu, eða fimm sinnum fyrir samanlagt 585 milljónir.[7] Hér að neðan má sjá lista yfir hluta þeirra brota er Síminn hefur verið sektaður fyrir.
- Árið 2001 var Síminn sektaður af Samkeppniseftirlitinu um 40 milljónir fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu.[8]
- Árið 2009 var Síminn dæmdur til að borga 60 milljónir í stjórnvaldsekt fyrir að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína í tengslum við tilboð vegna 3G myndlykla til viðskiptavina sinna sumarið 2009.[9]
- Árið 2010 sektaði Samkeppniseftirlitið Símann um 150 milljónir vegna brota við skilyrði sem eftirlitið setti honum vegna fyrri brota og þannig raskað með alvarlegum hætti samkeppni frá minni keppinautum.[10] Sektin var seinna lækkuð í 50 milljónir.[8]
- Árið 2012 var Síminn sektaður um 390 milljónir fyrir markaðsbrot á árunum 2001 til 2007 sem fólst í að taka óeðlilega hátt gjald fyrir að hleypa öðrum símfyrirtækjum inn á kerfi sitt.[11]
- Árið 2019 var Síminn sektaður um 9 milljónir vegna ítrekaðra brota gegn fjölmiðlalögum.[12]
- Í Desember 2024 hafnaði Héraðsdómur að fella niður 76,5 milljón króna sekt fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabankans á Símann vegna upplýsingagjafar varðandi söluna á Mílu.[13]
- Þann 26. febrúar 2025 var Síminn dæmdur í Hæstarétti til að borga 400 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna samkeppnislagabrota í tengslum við sölu á áskriftum á útsendingum á enska boltanum.[14][15]
Tilvísanir
Heimildir
Tenglar
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.