From Wikipedia, the free encyclopedia
Leuven (franska Louvain; þýska Löwen) er borg í Belgíu og jafnframt höfuðborg héraðsins Flæmska Brabant. Í Leuven er elsti og stærsti háskóli Niðurlanda. Íbúar eru 97 þúsund (2013) og eru hollenskumælandi.
Skjaldarmerki | Fáni |
---|---|
Upplýsingar | |
Hérað: | Flæmska Brabant |
Flatarmál: | 56,63 km² |
Mannfjöldi: | 97.692 (1. janúar 2013) |
Þéttleiki byggðar: | 1.725/km² |
Vefsíða: | [óvirkur tengill] |
Lega | |
Leuven liggur við ána Dijle aðeins steinsnar fyrir austan höfuðborgarsvæðið. Næstu stærri borgir eru Brussel til vesturs (20 km), Antwerpen til norðvesturs (45 km) og Hasselt til austurs (50 km).
Leuven er fyrst getið árið 891 í sambandið við orrustuna við Leuven og hét þá Loven. Það er samsett úr orðunum lo og venn. Lo merkir skógur, en venn merkir mýri. Mýrarskógur væri því rétta þýðingin. En sumir er ekki á eitt sáttir um þá útskýringu. Loven merkir einnig að lofa og vilja sumir meina að þar hafi heiðin goð verið heiðruð. Þaðan sé því heiti borgarinnar að finna. Aðrir vilja meina að heitið sé komið af víkingum. Engar sannanir liggja fyrir í neinu þessa atriða. Íbúar Leuvens eru með tvenn gæluheiti. Í fyrsta lagi Pietermannen (Pétursmenn) eftir elstu kirkju borgarinnar, Péturskirkjunni. Í öðru lagi kallast íbúarnir beljuskotmenn (koeienschieters). Nótt eina 1691 töldu borgarbúar að Frakkar væru að ráðast á borgina. Allir sem vettlingi gátu valdið gengu með skotvopn á móti þeim og skutu þangað sem þeir töldu innrásarmenn vera. Morguninn eftir kom í ljós að þeir höfðu skotið niður allar kýr í haga einum. Eftir þetta festist gæluheitið við borgarbúa.
Fáni Leuven samanstendur af þremur láréttum röndum: Rauðri, hvítri og rauðri (eins og austurríski fáninn). Í orrustunni við Leuven 891 barðist Arnúlfur keisari við víkinga. Sagan segir að svo mikil blóð hafi runnið á þeim degi að áin Dijle hafi litast rauð. Þaðan sé fáninn kominn. Hvíta röndin er Dijle, rauðu rendurnar eru blóð.
Skjaldarmerkið er nánast eins (rauð, hvít og rauð rönd) en auk þess eru þrír varðturnar í rauðu hlutunum. Turnarnir tákna sveitarfélögin þrjú sem í dag mynda borgina. Efst á skildinum er gyllta ljón greifanna af Brabant. Megin skjöldurinn er frá 17. öld en hjálminum var bætt við 1845. 1926 var orðunni (franska krossinum) bætt við neðst eftir útreiðina í heimstyrjöldinni fyrri. 1979 var skildinum breytt í síðasta sinn er varðturnunum var bætt við eftir sameiningu við nágrannasveitarfélögin.
Á tímum Rómverja mun þorp hafa staðið á núverandi borgarstæði. Þorpið lifði af fall Rómaveldis og dafnaði á tímum germana. Lítið er vitað um þorpið næstu aldir. Árið 891 kemur það við sögu er víkingar gera strandhögg í nágrenninu. Arnúlfur keisari mætti á staðinn í september á því ári. Í orrustunni við Leuven sigraði Arnúlfur en heimildir greina frá miklu blóðbaði. Á þessum tíma var Leuven höfuðstaður samnefnds greifadæmis. Greifadæmið leystist upp í hertogadæmið Brabant 1183. Leuven hlaut borgarmúra á 12. öld. Þrátt fyrir að Brussel væri höfuðborg Brabants, var Leuven þó mikilvægri efnahagslega í fyrstu. Atvinnuvegir í borginni voru að miklu leyti vefnaður. Um miðja 14. öld fór blómatími Leuven að dvína gagnvart Brussel. Ástæður voru erfiðleikar í vefnaði og erfðastríðið í Brabant.
1425 veitti Marteinn V páfi samþykki sitt um að stofna kaþólskan háskóla í Leuven. Hann er því elsti háskóli Niðurlanda. Brátt varð háskólinn einn sá stærsti og virtasti í Evrópu og var mikil miðstöð menninga og vísinda. Margir þekktir einstaklingar stunduðu nám þar eða kenndu þar, ekki síst á tíma húmanismans í Evrópu á 16. öld. Meðal þekktustu manna 16. aldar sem tengjast skólanum má nefna Erasmus frá Rotterdam (kennari), Hadríanus VI páfi (nemandi, kennari, rektor) og Gerhard Mercator (nemandi). Í sjálfstæðisstríði Hollendinga var nokkrum sinnum setið um Leuven og á tímabili var háskólinn lokaður.
Eftir friðarsamninga 30 ára stríðsins 1648 fór Leuven ört stækkandi. Efnahagslega dafnaði borgin þó ekki fyrr en Habsborgarar réðu landinu um miðja 18. öld. Iðnaði var komið á og grafinn lítill skipaskurður til Antwerpen, þar sem áin Dijle var ekki siglingahæf á þessum stað. Skurðurinn hafði mikla þýðingu fyrir borgina, sem þar með komst í færi við aðrar verslunarborgir. Mesti iðnaður 18. aldar var bjórframleiðsla. 1764 voru 52 brugghús í borginni og var bjórinn fluttur víða um Niðurlönd.
Frakkar hertóku Niðurlönd 1794. Í upphafi voru íbúar Leuven jákvæðir gagnvart þeim. En brátt runnu á þá tvær grímur. Frakkar komu upp almennri herskyldu, lokuðu háskólanum, fluttu listaverk til Parísar, lokuðu kirkjum og klaustrum, og lögðu niður iðngildin. Sumum listaverkum var skilað eftir fall Napoleons. Önnur eru enn týnd. Aðstæður í borginni bötnuðu ekki fyrr en Napoleon hrifsaði til sín völdin. 1803 sótti hann Leuven heim og var almennt hylltur af borgarbúum. Á franska tímanum var byrjað að rífa borgarmúrana niður til að skapa meira pláss. Eftir fall Napoleons drógu Frakkar sig til baka. Í kjölfarið urðu Niðurlönd sjálfstætt konungsríki 1815.
Strax 1817 var háskólinn í Leuven opnaður á ný. Hjól efnahagsins byrjuðu að snúast. En 1830 gerðu Belgar uppreisn gegn Hollendingum og lýstu yfir sjálfstæði. Hollenskur her birtist við dyr Leuven en þeim fáu belgísku hermönnum sem í borginni voru tókst ásamt bændaher að hrekja þá burt á ný. Ári síðar sendu Hollendingar herlið aftur suður til Belgíu, þar sem það sigraði Belga í nokkrum orrustum. 12. ágúst stóðu Hollendingar við borgarmörk Leuven og umkringdu borgina. Í þessari stöðu brást Baldvin I, konungur Belga, skjótt við. Í trássi við þingið hleypti hann frönskum her inn í landið, sem mætti Hollendingum við Leuven. Herirnir stóðu andspænis hvor öðrum. En í stað þess að berjast settust menn niður og sömdu um vopnahlé í smábænum Pellenberg rétt utan borgarmörk Leuven. Að því búnu drógu Hollendingar sig í hlé. Mikill iðnaður spratt upp í Leuven á 19. öld. Byrjað var að brugga bjór á ný, vefnaðariðnaðurinn blómstraði og nú bættist málmiðnaðurinn við. 1837 fékk borgin járnbrautartengingu, fyrst við Mechelen, síðar við Charleroi og Brussel.
1914 enduðu draumar Leuven um fagra framtíð. 19. ágúst hertóku Þjóðverjar borgina, sem og fleiri belgískar borgir. Brátt komu hins vegar upp sögusagnir þess eðlis að Belgar og Bretar væru á leiðinni að frelsa borgina. Mikið hræðsla greip um sig meðal þýskra hermanna. 25. ágúst var svo komið að aðstæður voru orðnar óþolandi í borginni sökum hræðslu. Einn skotthvellur gall við einhvers staðar í borginni og leysti hann ofsahræðslu úr læðingi. Þýskir hermenn gengu hús úr húsi, hröktu borgarbúa út og brenndu íbúðir, byggingar og verksmiðjur niður. Aðeins hinu ægifagra ráðhúsi var hlíft. Meira að segja háskólabyggingin var brennd niður, Péturskirkjan ásamt mörgum listaverkum og hið tignarlega háskólabókasafn. Þar brunnu rúmlega 300 þúsund bindi, mörg þeirra frá liðnum öldum. Í fjóra daga gengu Þjóðverjar berserksgang um borgina og brenndu allt sem brunnið gat. Alls voru 1081 hús bennd niður, 248 íbúar voru skotnir eða létust í brunanum. Heimsbyggðin var hneiksluð. Erlend blöð birtu fyrirsagnir eins og Þýsku húnarnir, Nauðgun Belgíu eða notuðu önnur stóryrði.
Leuven var ekki endurreist fyrr en eftir stríð og tók langan tíma. Háskólinn tók aftur til starfa haustið 1919, ári eftir stríð. Bókasafnið var ekki endurreist fyrr en 1928 með bandarískum fjármunum. Þjóðverjar höfðu skuldbundið sig til að gefa safninu þær bækur sem eyðilögðust, að minnsta kosti eins og kostur var. 1940 riðu næstu ósköpin yfir. Breskt verndarlið sat í borginni þegar Þjóðverjar birtust 13. maí með stórt herlið. Hinir síðarnefndu hófu þegar að skjóta á borgina og í þrjá daga dundi sprengjuregnið yfir. Bretar vörðust með öllum ráðum. Mitt í orrahríðinni varð háskólabókasafnið fyrir sprengjum og brann niður. Síðan það brann síðast 1914 höfðu safninu borist 900 þúsund bindi hvaðanæva að úr heiminum. Þau brunnu öll til kaldra kola. Bretar yfirgáfu borgina 16. maí. Degi síðar hertóku Þjóðverjar hana. Leuven varð fyrir miklum loftárásum bandamanna vorið 1944. Þjóðverjar yfirgáfu hana 3. september en þá lá hún að miklu leyti í rústum.
Það tók aftur langan tíma að endurreisa Leuven. Til að mynda var viðgerðarvinnu í ráðhúsinu ekki lokið fyrr en 1982. Árið 1977 voru nokkrir nágrannabæir sameinaðir Leuven. Við það þrefaldaðist íbúatalan. Nokkur iðnaður er í borginni, sem er víða þekkt fyrir mikla bjórframleiðslu. Þar eru til dæmis höfuðstöðvar Anheuser-Busch InBev, stærsta bjórsamstæða heims. Fyrirtækið framleiðir bjórtegundir eins og Budweiser, Stella Artois, Löwenbräu og tugir annarra.
Docville er heiti á kvikmyndaverðlaunum sem árlega eru veitt í Leuven. Þetta er eina kvikmyndahátíðin í Belgíu sem eingöngu tekur fyrir fræðslumyndir, bæði innlendar sem erlendar.
Í desember er haldin sambærileg stuttmyndahátíð (Internationaal Kortfilmfestival Leuven), þar sem bestu stuttmyndir eru verðlaunaðar í ýmsum flokkum.
Marktrock (markaðsrokk) er fjölmenn tónlistarhátíð í Leuven, haldin á markaðstorginu um miðjan ágúst. Tugir hljómsveita rokka í þrjá heila daga. Með 350 þúsund gesti er þetta ein fjölmennasta tónlistarhátíð Evrópu.
Leuven viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:
|
|
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.