Remove ads
ríki í Suðaustur-Asíu From Wikipedia, the free encyclopedia
Brúnei, opinberlega Land Brúnei, heimili friðar (malasíska: Negara Brunei Darussalam), er land á norðurströnd eyjunnar Borneó í Suðaustur-Asíu. Fyrir utan strandlengju að Suður-Kínahafi er Brúnei að öðru leyti algerlega umlukt Austur-Malasíu (malasíska fylkinu Sarawak), auk þess sem malasíska héraðið Limbang skiptir landinu í tvo hluta. Brúnei er eina fullvalda ríkið sem er að öllu leyti á Borneó; en aðrir hlutar eyjunnar skiptast milli Malasíu og Indónesíu. Íbúar Brúnei voru rúmlega 400.000 árið 2018. Landið er soldánsdæmi þar sem soldán Brúnei er einvaldur, en stjórnkerfi landsins byggist á blöndu af enskum rétti og sjaríalögum, auk íslamskra hefða.
Brúnei Darrússalam | |
برني دارالسلام Negara Brunei Darussalam | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: الدائمون المحسنون بالهدى Sentiasa membuat kebajikan dengan petunjuk Allah (þýðing) Alltaf í þjónustu undir leiðsögn guðs | |
Þjóðsöngur: Allah Peliharakan Sultan | |
Höfuðborg | Bandar Seri Begawan |
Opinbert tungumál | malasíska |
Stjórnarfar | Soldánsdæmi |
Soldán | Hassanal Bolkiah |
Krónprins | Al-Muhtadee Billah |
Sjálfstæði | |
• frá Bretlandi | 1. janúar 1984 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
164. sæti 5.765 km² 8,6 |
Mannfjöldi • Samtals (2019) • Þéttleiki byggðar |
175. sæti 459.500 72/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2019 |
• Samtals | 36,852 millj. dala (125. sæti) |
• Á mann | 85.011 dalir (5. sæti) |
VÞL (2018) | 0.845 (43. sæti) |
Gjaldmiðill | brúneiskur dollar (BND) |
Tímabelti | UTC+8 |
Þjóðarlén | .bn |
Landsnúmer | +673 |
Samkvæmt opinberri sagnaritun á soldánsdæmið rætur sínar að rekja til ríkisins P'o-li innan Srivijaya. Síðar varð það hluti af Majapahit. Brúnei varð soldánsdæmi á 14. öld undir stjórn Muhammad Shah af Brúnei sem þá hafði nýlega snúist til íslam. Ríkið náði hátindi sínum undir soldáninum Bolkiah sem ríkti frá 1485 til 1528. Þá náði soldánsdæmið yfir mestan hluta Borneó, þar á meðal landið sem í dag eru malasísku fylkin Sabah og Sarawak, auk Súlueyja, og eyjanna við norðvesturhluta Borneó. Þetta sjóveldi tók á móti leiðangri Magellans árið 1521 og barðist gegn Spáni í Kastilíustríðinu 1578.
Á 19. öld fór soldánsdæminu að hnigna. Árið 1841 gerði soldáninn breska ævintýramanninn James Brooke að fursta yfir Sarawak eftir að hann hafði brotið á bak aftur uppreisn gegn soldáninum. Breska Norður-Borneófélagið fékk yfirráð yfir Sabah. Árið 1888 varð Brúnei að bresku verndarsvæði og fékk breskan landstjóra árið 1906. Landið var hernumið af Japönum í Síðari heimsstyrjöld. Árið 1959 var ný stjórnarskrá samin og 1962 var lítil vopnuð uppreisn barin á bak aftur með aðstoð Breta.
Landið fékk sjálfstæði frá Bretum 1. janúar árið 1984. Efnahagslíf Brúnei óx hratt frá 8. áratug 20. aldar, aðallega vegna nýtingar gas- og olíulinda. Landsframleiðslan óx um 58% frá 1999 til 2008. Brúnei er ríkt land, en olíu- og gasframleiðsla stendur undir nær helmingi landsframleiðslunnar. Brúnei hefur næsthæstu vísitölu um þróun lífsgæða í Suðaustur-Asíu á eftir Singapúr og er flokkað sem þróað land. Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er Brúnei í fimmta sæti af löndum heims yfir landsframleiðslu á mann miðað við kaupmáttarjöfnuð. Árið 2011 áætlaði sjóðurinn að Brúnei væri eitt af tveimur löndum heims (hitt var Líbía) þar sem opinberar skuldir væru 0% af landsframleiðslu.
Árin 2014 og 2019 komst landið í kastljósið þegar soldáninn Hassanal Bolkiah ákvað að setja múslimum í landinu ströng hegningarlög byggð á sjaríalögum; aflimanir fyrir þjófnað og dauðarefsingu fyrir framhjáhald og samkynhneigð. [1]
Brúnei er land í Suðaustur-Asíu og skiptist í tvo ótengda hluta sem ná samanlagt yfir 5.765 ferkílómetra svæði á eyjunni Borneó. Landið á 161 km landa strandlengju að Suður-Kínahafi, og 381 km landamæri að Malasíu. Landhelgi Brúnei er 500 ferkílómetrar.
Um 97% íbúa búa í vesturhlutanum (héruðunum Belait, Tutong og Brunei-Muara), en aðeins um 10.000 manns búa í fjalllendinu í austurhlutanum (Temburong). Um 150.000 manns búa í höfuðborginni, Bandar Seri Begawan. Aðrir helstu bæir eru hafnarbærinn Muara, olíubærinn Seria og nágrannabær hans, Kuala Belait. Í Panaga á strönd Belait búa margir evrópskir innflytjendur. Þar eru Royal Dutch Shell og breski herinn með íbúðahverfi.
Stór hluti Brúnei er hluti af láglendisregnskógi Borneó sem nær yfir stærstan hluta eyjarinnar. Hálendisregnskógar Borneó eru innar á eyjunni.
Á Borneó ríkir hitabeltisloftslag þar sem kyrrabeltið hefur meiri áhrif en staðvindar. Fellibylir eru því sjaldgæfir. Ásamt öðrum ríkjum Suðaustur-Asíu er Brúnei í hættu vegna hækkandi sjávarborðs sem stafar af loftslagsbreytingum.
Stjórnmál í Brúnei byggjast á stjórnarskrá Brúnei og stjórnmálakenningu sem kölluð hefur verið malasíska íslamska einveldið (Melayu Islam Beraja, skammstafað MIB). MIB byggist á malasískri menningu, íslamskri trú og stjórnkerfi einveldisins. Stjórnkerfi Brúnei byggist á enskum rétti, en íslamskur réttur (sjaríalög) standa honum ofar í sumum tilvikum. Þing Brúnei er starfandi en engar kosningar eru haldnar í landinu. Síðustu þingkosningar í Brúnei fóru fram árið 1962.
Samkvæmt stjórnarskrá Brúnei frá 1959 er hans hátign Paduka Seri Baginda Sultan Haji Hassanal Bolkiah Mu'izzaddin Waddaulah þjóðhöfðingi með fullt framkvæmdavald. Frá uppreisninni 1962 hafa neyðarlög verið hluti af þessu valdi, en þau eru endurnýjuð annað hvert ár. Í Brúnei hafa þannig tæknilega séð verið í gildi herlög frá 1962. Hassanal Bolkiah er jafnframt forsætisráðherra landsins, fjármálaráðherra og varnarmálaráðherra.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.