Antígva og Barbúda eru tveggja eyja eyríki á mörkum Karíbahafs og Atlantshafsins. Þær eru hluti af Litlu-Antillaeyjum. Nærliggjandi eyjar eru Gvadelúp í suðri, Montserrat í suðvestri, Sankti Kristófer og Nevis í vestri og Saint-Barthélemy í norðvestri. Eyjarnar tvær eru Antígva og Barbúda en auk þess tilheyra ýmsar smáeyjar landinu, eins og Redonda og Jórvíkureyja. Sumar þessara smáeyja eru í einkaeigu. Langflestir íbúanna búa á Antígva, þar af um 25 þúsund í höfuðborginni Saint John's.
Antigua and Barbuda | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Each Endeavouring, All Achieving (enska) Hver og einn reynir, allir ná | |
Þjóðsöngur: Fair Antigua, We Salute Thee | |
Höfuðborg | Saint John's |
Opinbert tungumál | enska |
Stjórnarfar | þingbundin konungsstjórn |
Konungur | Karl 3. |
Landstjóri | Rodney Williams |
Forsætisráðherra | Gaston Browne |
Sjálfstæði | frá Bretlandi |
• Aðildarland | 27. febrúar 1967 |
• Sjálfstæði | 1. nóvember 1981 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
182. sæti 440 km² ~0 |
Mannfjöldi • Samtals (2022) • Þéttleiki byggðar |
182. sæti 100.772 186/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2023 |
• Samtals | 2,6 millj. dala (196. sæti) |
• Á mann | 25.449 dalir (59. sæti) |
VÞL (2022) | 0.826 (54. sæti) |
Gjaldmiðill | austurkarabískur dalur (XCD) |
Tímabelti | UTC-4 |
Þjóðarlén | .ag |
Landsnúmer | +1-268 |
Antígva og Barbúda eru fyrir miðju Hléborðseyja sem eru nyrðri hluti Litlu-Antillaeyja. Karíbar náðu eyjunum af Aravökum um 1100. Þeir dóu út í kjölfar landnáms Evrópumanna á 17. öld vegna sjúkdóma og harðræðis. Bretar stofnuðu þar sykurplantekrur og fluttu inn þræla frá Vestur-Afríku. Þrælahald var lagt af árið 1834. Afkomendur þrælanna eru meira en 90% íbúa eyjanna. Þrír fjórðu eru kristnir, þar af tæp 45% í ensku biskupakirkjunni. Enska er opinbert tungumál en flestir tala hléborðsensku, sem er kreólamál byggt á ensku með tökuorð úr Afríkumálum.
Antígva og Barbúda eru viðkvæmar fyrir náttúruhamförum eins og fellibyljum sem hafa valdið miklu tjóni frá 1995. Skortur á vatnsbólum takmarkar þróun landbúnaðar. Ferðaþjónusta er aðalatvinnugreinin á eyjunum. Hún stendur undir helmingi allra starfa og 60% af vergri landsframleiðslu.
Saga
Menn námu fyrst land á Antígva ca. 3000 árum f.Kr.. Fyrst bjuggu Ciboney-indíánar á Antígvu. Seinna tóku Arawakar við af þeim en voru farnir að flytjast burt um 1100 og á 12. öld hröktu Karíbar síðustu Arawakana burt. Árið 1493 komu skip Kristófers Kólumbusar til eyjanna. Á næstu árum voru settar á stofn franskar og spænskar nýlendur á Litlu-Antillaeyjum, en engir Evrópumenn settust að á Antígva og Barbúda.
Árið 1628 tóku Englendingar sér bólfestu á Barbúda (á árunum 1685-1870 átti Codrington-ættin eyjuna), og árið 1632 á Antígvu. Þá komu þangað nýlendustofnendur frá Saint Kitts, undir forystu Edward Warner. Árið 1667 hernámu Frakkar eyjarnar um tíma. Englendingar byrjuðu ad planta tóbaki, sykurreyr og baðmull á eyjunum. Í byrjun unnu Írar við framleiðslu á þessum vörum, en þeir áttu erfitt með að aðlagast hitabeltisloftslaginu. Þá voru fengnir í stað þeirra þrælar frá Afríku. Frumbyggjum eyjanna var útrýmt. Eftir nokkrar þrælauppreisnir (á Antígva 1728), hætti Bretland opinberlega þrælahaldi árið 1734, en það breytti í raun og veru engu um aðstæður þrælanna. Árið 1736 varð næsta þrælauppreisn og þrír uppreisnarleiðtogar voru dæmdir til aftöku á hjóli og steglu. Svartir íbúar þurftu áfram að vinna á plantekrunum, hjá fyrrum eigendum sínum.
Árið 1860 voru báðar eyjar sameinaðar undir nýlendustjórn. Afkomendur þrælanna heimtuðu sjálfstæði. Á 3. áratugi 20. aldar varð ólga meðal verkamanna, sem leiddi til stofnunar stéttarfélaga árið 1939, og aukinna réttinda verkafólks. Árið 1941 stofnuðu Bandaríkin herstöð á Antígvu. Árið 1943 var Verkamannaflokkur Antígvu (ALP - Antigua Labour Party) stofnaður, en eftir seinni heimsstyrjöldinni varð hann einn af mikilvægustu stjórnmálaflokkum í landinu. Á árunum 1958-1962 tilheyrðu báðar eyjar Sambandsríki Vestur-Indía. Árið 1967 fengu eyjarnar sjálfstæði að hluta, sem land í tengslum við Bretland. Árið 1972 var plöntun sykurreyrs hætt, bæði vegna kreppu á sykurmarkaði og líka vegna þróunar í ferðaþjónustu.
Sjálfstæði Antígva og Barbúda
Landið fékk sjálfstæði þann 1.nóvember árið 1981 og varð um leið aðili að Breska samveldinu. Síðasti landstjóri eyjanna, á árunum 1967-1971 og 1976-1981, var Vere Bird formadur ALP. Hann var líka valinn forsætisráðherra nýrra stjórnvalda í sjálfstæðu ríki Antígvu og Barbúdu og hélt því embætti fram til ársins 1994. Allan þann tíma var hagkerfi eyjanna veikt. Ríkissjóður þurfti að berjast við vöruskiptahallann sem fylgdi endurskipulagningu hagkerfisins frá landbúnaði yfir í ferðaþjónustu. Engu að síður, og einnig þrátt fyrir ásakanir um mikla glæpastarfsemi (ólöglegt mansal, vopnabrask, peningaþvætti og spillingu) hélt flokkur Birds meirihlluta á þingi og næsti forsætisráðherra var sonur Vere Bird - sá heitir Lester Bird. Á seinni hluta 10. áratugarins þróaðist hagkerfi eyjanna í takt við þróun í fjármálageiranum. Árið 1997 landið tók landið við um 3000 íbúum eyjunnar Montserrat, sem urðu að flýja heimili sitt vegna eldgoss. En stjórnarandstæðingar (United Progressive Party( UPP)),sigruðu í kosningum árin 2004 og 2009 og Baldwin Spencer varð forsætisráðherra.
Landfræði
Stærstur hluti landsins Antígva og Barbúda liggur á eyjunum tveimur, Antígva og Barbúda. Fyrir utan þær eru stærstu eyjarnar Guiana-eyja og Long Island undan strönd Antígva, og Redonda sem er langt frá báðum eyjum. Redonda er óbyggð klettaeyja.[1]
Kalksteinsmyndanir einkenna landslag á bæði Antígva og Barbúda, sem liggja báðar fremur lágt. Hæsti tindurinn er Boggy Peak. Hann er leifar af eldfjallagíg og nær 402 metra hæð. Boggy Peak er í suðvesturhluta Antígva þar sem landslagið einkennist af lágum hæðum sem urðu til við eldgos.[2][1]
Strandlengja beggja eyja er óregluleg þar sem skiptast á sandstrendur, lón og náttúrulegar hafnir. Rif og flæðisker umkringja eyjarnar á allar hliðar. Úrkoma er lítil og því er lítið um vatnsföll. Hvorug eyjan geymir nægjanleg vatnsból fyrir íbúafjöldann.[2]
Vegna þess hve eyjarnar eru dreifðar er efnahagslögsaga Antígva og Barbúda hlutfallslega stór, eða yfir 110.000 ferkílómetrar.
Stjórnmál
Stjórnsýslueiningar
Antígva og Barbúda skiptist í sex sóknir og tvö yfirráðasvæði:
Sóknir (á Antígva):
- Saint George
- Saint John
- Saint Mary
- Saint Paul
- Saint Peter
- Saint Philip
Yfirráðasvæði:
- Barbúda
- Redonda
Tilvísanir
Wikiwand in your browser!
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.