Alþýðufylkingin

Íslenskur stjórnmálaflokkur From Wikipedia, the free encyclopedia

Alþýðufylkingin

Alþýðufylkingin er íslensk stjórnmálahreyfing sem stofnuð var í Friðarhúsi í Reykjavík 12. janúar árið 2013.[1] Flokkurinn er róttækur vinstri flokkur sem ætlar sér að vera „baráttutæki íslenskrar alþýðu til að bæta hag sinn með því að heimta sitt úr höndum auðstéttarinnar“.[2] Alþýðufylkingunni hefur verið stillt upp sem klofningsframboði úr Vinstri grænum. Forkólfar Alþýðufylkingarinnar, Þorvaldur Þorvaldsson og Vésteinn Valgarðsson voru í stjórn og flokksráði Vinstri grænna en sögðu sig úr flokknum vegna óánægju með hann og ríkisstjórnina. Framboðið var svar við eftirspurn eftir stjórnmálaafli sem staðsetur sig vinstra megin við Vinstri græna.[3]

Staðreyndir strax Alþýðufylkingin ...
Alþýðufylkingin
Thumb
Fylgi 0,2%
Formaður Þorvaldur Þorvaldsson
Stofnár 2013
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Sósíalismi, náttúruverndarstefna, friðarstefna, kvenfrelsisstefna.
Einkennislitur Rauður
Vefsíða althydufylkingin.is
Loka

Flokkurinn bauð fram í alþingiskosningunum 2013, 2016 og 2017. Auk þess í borgarstjórnarkosningunum 2014 og 2018. Í öll þessi skipti hlaut flokkurinn minna en 0,5% atkvæða. Á landsfundi flokksins árið 2018 var samþykkt að stefna ekki lengur á framboðum til alþingis og sveitarstjórnar. Árið 2021 var listabókstafur flokksins gerður óvirkur. Auk þess hefur lítið sem ekkert starf verið innan flokksins síðan árið 2022.

Stefnumál

Alþýðufylkingin berst skilyrðislaust gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu á þeim forsendum að þar ráði auðvaldsskipulag og frjálshyggja ríkjum, og Íslendingar eigi heldur að standa vörð um pólitískt og efnahagslegt fullveldi þjóðarinnar.[4] Flokkurinn mælir með úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu og vill þess í stað að landið beiti sér í þágu friðar og réttlætis á alþjóðavettvangi.

Alþýðufylkingin hefur það að markmiði að jöfnuður og jafnrétti verði raunverulegar stoðir samfélagsins. Til þess þyrfti að efla lýðræði og auka vægi hins félagslega í hagkerfinu á kostnað markaðsvæðingar, en þá verði hægt að reisa velferðarkerfið við og styrkja alla innviði félagskerfisins.

Gæsalappir

Með félagsvæðingu er ekki aðeins átt við ríkisrekstur eða annað félagslegt eignarhald heldur verði markmið rekstrarins annað og víðtækara en bókhaldslegur hagnaður: Hagur almennings og samfélagsins í heild verði í öndvegi, viðkomandi starfsemi lúti lýðræðislegum ákvörðunum og stefnumörkun og enginn geti haft hana sér að féþúfu.“

— Stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar.

Markmiðið verði að heilbrigðisþjónusta og menntun verði án endurgjalds og séu samfélagsleg verðmæti fremur en markaðsvara. Forsenda þess er að létta oki fjármálastarfsemi og að kröfunni um sífellda útþenslu verði létt af hagkerfinu.

Þá segir flokkurinn að einkarekstur eigi rétt á sér í verðmætaskapandi framleiðslu og þjónustu sem teljist ekki til innviða samfélagsins. Atvinnuvegir eigi að vera fjölbreyttir samfara því sem þeir uppfylli þarfir þjóðfélagsins.

Alþýðufylkingin berst fyrir því að auðlindir lands og sjávar verði óframseljanleg sameign þjóðarinnar svo hagnaðurinn skili sér í bættum lífskjörum hennar. Hófleg nýting skuli vera höfð að leiðarljósi og stórauknu fé skuli veitt til þess að auka landgæði og vinna gegn náttúruspjöllum. Varast skal of mikla samþjöppun og einokun bæði hvað landbúnaðinn og ferðaþjónustuna varðar til að koma í veg fyrir rýrnun á landsgæðum.

Framboð

Alþingiskosningar 2013

Alþýðufylkingin fékk úthlutað listabókstafnum R[5] og bauð fram framboðslista í alþingiskosninganna 2013 í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður. Þótt flokkurinn hafi ekki fengið mann kjörinn inn á Alþingi, sögðust félagsmenn stefna á áframhaldandi samstarf og vera komnir til þess að vera.[6] Atkvæði flokksins voru 118, eða um 0,04% af heildarfjölda atkvæða.

Sveitarstjórnarkosningar 2014

Í mars 2014 lýsti Alþýðufylkingin yfir framboði í sveitarstjórnarkosningum og bauð um vorið fram í Reykjavík, þar sem Þorvaldur Þorvaldsson leiddi listann.[7] Hlaut framboðið 219 atkvæði, eða um 0,4%.

Alþingiskosningar 2016

Í september 2016 tilkynnti Alþýðufylkingin að hún mundi bjóða fram til Alþingis sama haust. Bauð flokkurinn fram í öllum kjördæmunum nema norðvesturkjördæmi. Hlaut hann samanlagt 575 atkvæði, eða um 0,3%. Mest var fylgið í norðausturkjördæmi, 0,9%.

Alþingiskosningar 2017

Í Alþingiskosningunum haustið 2017 bauð Alþýðufylkingin fram í fjórum kjördæmum. Reykjavíkurkjördæmi norður, Reykjavíkurkjördæmi suður, Norðausturkjördæmi og Suðvesturkjördæmi.

Sveitarstjórnarkosningar 2018

Í sveitarstjórnarkosningunum 2018 bauð Alþýðufylkingin fram í Reykjavík.[8] Hún fékk 149 atkvæði.

Aukalandsfundur 2018

Flokkurinn hélt aukalandsfund 6.-7. október 2018. Þar var Þorvaldur Þorvaldsson endurkjörinn formaður en varaformaðurinn, Vésteinn Valgarðsson, sté til hliðar og Þorvarður B. Kjartansson var kjörinn varaformaður. Fleiri breytingar urðu á forystunni, en auk þeirra ákvað flokkurinn að stefna ekki að nýju framboði til Alþingis eða sveitarstjórna á næstunni, heldur einbeita sér þess í stað að grasrótarstarfi og starfi með frjálsum félagasamtökum.

Formenn og varaformenn

Nánari upplýsingar Formaður, Kjörinn ...
Formenn Alþýðufylkingarinnar
Formaður Kjörinn Hætti
Þorvaldur Þorvaldsson 12. janúar 2013 Enn í embætti
Loka
Nánari upplýsingar Varaformaður, Kjörinn ...
Varaformenn Alþýðufylkingarinnar
Varaformaður Kjörinn Hætti
Vésteinn Valgarðsson 12. janúar 2013 7. október 2018
Þorvarður B. Kjartansson 7. október 2018 Enn í embætti
Loka

Tenglar

Heimildir

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.