Remove ads
Forsætisráðherra Súdans From Wikipedia, the free encyclopedia
Abdalla Hamdok (f. 1. janúar 1956) er súdanskur embættismaður og fyrrverandi forsætisráðherra Súdans. Hamdok hafði gegnt ýmsum innlendum og alþjóðlegum stjórnsýsluembættum fyrir ráðherratíð sína.[1] Frá nóvember 2011 til október 2018 var hann aðstoðarframkvæmdastjóri Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Afríku (UNECA).[1][2] Starfsfólk UNECA lýsti Hamdok sem „hógværum manni með framúrskarandi og agað hugarfar“.[2] Eftir súdönsku byltinguna í ágúst 2019 var bent á Hamdok sem mögulegt forsætisráðherraefni í lýðræðisvæðingu Súdans.[3][4]
Abdalla Hamdok عبدالله حمدوك | |
---|---|
Forsætisráðherra Súdans | |
Í embætti 21. nóvember 2021 – 2. janúar 2022 | |
Í embætti 21. ágúst 2019 – 25. október 2021 | |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 1. janúar 1956 Al-Dibaibat, Kordofan, Súdan |
Þjóðerni | Súdanskur |
Stjórnmálaflokkur | Óflokksbundinn |
Maki | Muna Abdalla |
Börn | 2 |
Háskóli | Háskólinn í Kartúm Háskólinn í Manchester |
Eftir að fullveldisráð Súdans tók við völdum af herforingjastjórn landsins var Abdalla Hamdok útnefndur forsætisráðherra. Hann tók við embætti þann 21. ágúst 2019.[5]
Þann 25. október 2021 var hann handtekinn af vopnuðum mönnum við valdarán hersins. Uppsögn hans var tilkynnt í kjölfarið. Hamdok var leyft að snúa aftur til valda þann 21. nóvember eftir að súdanskir herforingjar komust að samkomulagi við borgaralegu stjórnmálaflokkana. Hann sagði af sér vegna áframhaldandi mótmæla gegn stjórninni í janúar 2022.
Abdalla Hamdok er með BS-gráðu frá Háskólanum í Kartúm og doktorsgráðu í hagfræðirannsóknum frá Háskólanum í Manchester.[1]
Frá 1981 til 1987 var Hamdok háttsettur embættismaður við fjármálaráðuneyti Súdans.[1]
Á tíunda áratugnum gegndi Hamdok embættum hjá sérfræðiþjónustufélaginu Deloitte & Touche og síðan hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni í Simbabve. Hann vann síðan í nokkur á hjá afríska þróunarbankanum á Fílabeinsströndinni. Hamdok var leiðtogi Stofnunar lýðræðis og kosningaliðsinnis (IDEA) í Afríku og á Mið-Austurlöndum frá 2003 til 2008.[1]
Hamdok vann í stuttan tíma hjá Efnahagsnefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir Afríku frá 2001 til 2002 sem framkvæmdastjóri samþættingar og verslunar.[2] Frá 2011 til 2018 var hann aðstoðarframkvæmdastjóri nefndarinnar.[1][2]
Í september árið 2018 bauð ríkisstjórn Omars al-Bashir Hamdok að gerast fjármálaráðherra en hann afþakkaði boðið.[6]
Í kjölfar súdönsku byltingarinnar 2019 stungu súdanskir stjórnarandstöðuhópar í Bandalagi frelsis og breytinga upp á því í júní og ágúst að Hamdok yrði útnefndur forsætisráðherra til þess að leiða lýðræðisvæðingarferli landsins.[3][4] Samið hafði verið um umbreytingaferlið í stjórnmálasáttmála sem Bandalagið gerði við fráfarandi herstjórn landsins þann 17. júlí 2019[7][8] og drög að stjórnarskráryfirlýsingu höfðu verið undirrituð þann 4. ágúst.[9][10]
Fullveldisráð Súdans útnefndi Hamdok forsætisráðherra þann 20. ágúst í samræmi við ákvæði stjórnarskráryfirlýsingarinnar til að hafa umsjá með umbreytingaferlinu. Hamdok og öðrum leiðtogum millibilsstjórnarinnar er bannað að gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu í þingkosningum sem eiga að fara fram undir lok umbreytingaferlisins árið 2022.[10]
Sem forsætisráðherra skipaði Hamdok eigin ríkisstjórn. Þann 4. október 2019 hreinsaði hann bandamenn al-Bashirs úr stjórnarstöðum í súdönskum ríkisháskólum. Hann leysti 28 kanslara og 35 varakanslara úr embætti og útnefndi 34 varakanslara.[11][12]
Þann 9. mars komst Hamdok lífs af eftir morðtilræði gegn sér í höfuðborginni Kartúm. Nöfn sökudólganna hafa ekki verið gerð opinber. Að minnsta kosti þrjú farartæki urðu fyrir hnjaski í tilræðinu en engan sakaði[13][14] nema einn öryggisvörð sem særðist lítillega.[15]
Nóttina 25. október 2021 var Hamdok handtekinn ásamt fleiri ráðherrum í ríkisstjórn sinni í valdaráni hersins.[16][17] Valdaránið leiddi til fjöldamótmæla gegn herforingjastjórninni þar sem minnst fjörutíu manns voru drepnir. Þann 21. nóvember komust herforingjarnir að samkomulagi við Hamdok og borgaralegu stjórnmálaflokkana um að leyfa Hamdok að snúa aftur í embætti forsætisráðherra.[18]
Hamdok sagði af sér þann 2. janúar 2022 vegna frekari mótmæla gegn stjórninni og krafa um að yfirráð yrðu alfarið færð í hendur borgaralegra stjórnvalda.[19]
Hamdok hefur hvatt til þess að Afríkubúar hverfi frá sjálfsþurftarbúskapi og taki upp „aflrænni og verslunarmiðaðari“ landbúnað. Hann benti árið 2014 að þótt afrísk matvælaframleiðsla gæti vel orðið álfunni sjálfbær líði um 300 milljónir Afríkubúa matarskort. Hamdok benti jafnfamt á að með tilliti til fimmtu stöðuskýrslu Milliríkjanefndarinnar um loftslagsbreytingar, sem hækkun á meðalhita um tvær gráður á selsíus yfir meðalhita fyrir daga iðnbyltingarinnar, kunni hliðarverkanir loftslagsbreytinga á borð við lægri regntíðni að erfiða heimsálfunni að draga úr fátækt. Hamdok stakk upp á bótum á innviðum til að vinna bug á hungri (til dæmis nýjum leiðum til að umbreyta, geyma og flytja umframmatvæli á markaði), notkun „loftlagsupplýsinga“, bættri vatnsstjórnun og aukinni samhæfingu landbúnaðar við þjóðariðnað og vísinda- og rannsóknarstofnanir.[20]
Sem forsætisráðherra tók Hamdok í ágúst 2019 þátt í að velja ráðherra af lista ráðherraefna sem Bandalag frelsis og breytinga hafði afhent honum (að undanskyldum innanríkis- og varnarmálaráðherra, sem herforingjar Fullveldisráðsins fengu að velja). Hamdok frestaði vali sínu á ráðherrum og benti á að of fáar konur hefði verið á listanum. Hann sagðist vilja „taka til greina sanngjarnt hlutfall kvenna“.[12] Að endingu útnefndi Hamdok fjórar konur í ráðherraembætti: Asma Mohamed Abdalla varð utanríkisráðherra,[21] Lina al-Sheikh varð vinnu- og félagsþróunarráðherra,[22] [23] Wala'a Essam al-Boushi varð barna- og íþróttaráðherra og Intisar el-Zein Soughayroun varð ráðherra æðri menntamála.[24]
Í nóvember árið 2019 felldi ríkisstjórn Súdans úr gildi öll lög sem takmörkuðu klæða-, ferða- félaga- og námsfrelsi kvenna. Hamdok hrósaði konum í skilaboðum á samfélagsmiðlum og sagði að lögin hefðu verið „verkfæri kúgunar, auðmýkingar, ofbeldis og yfirgangs gegn borgaralegum réttindum“.[25] Árið 2020 setti Hamdok ný lög til að banna limlestingu á kynfærum kvenna.[26] Með lögunum var 141. gr. glæpalaga Súdans breytt og bannað var að fjarlægja eða limlesta „kynfæri kvenna með því að skera, limlesta eða breyta eðlilegum hlutum þeirra þannig að starfsemi þeirra sé heft að hluta til eða að fullu“.
Hamdok kvæntist hagfræðingnum Munu Abdalla árið 1993 í suðurhluta Manchester. Þau eiga tvo fullorðna syni. Annar þeirra var í námi við Exeter-háskóla árið 2019 og hinn útskrifaðist úr háskóla í Bandaríkjunum síðla á öðrum áratugi 21. aldar.[27]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.