Remove ads
íslenskur prestur og biskup (1133-1193) From Wikipedia, the free encyclopedia
Þorlákur Þórhallsson helgi (1133 – 23. desember 1193) vígðist ungur sem prestur, menntaðist síðan í mörg ár erlendis, innleiddi á Íslandi reglu Ágústínusarkanoka og gerðist ábóti en var síðast biskup í Skálholti frá 1178. Hann vann að siðbót á Íslandi og reyndi að innleiða lög og venjur, sem kirkjan beitti sér fyrir í öðrum löndum. Hann var árið 1198 tekinn í helgra manna tölu á Alþingi, og 1984 útnefndi páfastóll hann verndardýrling Íslands.
Þorlákur helgi | |
---|---|
Fæddur | 1133 |
Dáinn | 23. desember 1193 |
Störf | Skálholtsbiskup |
Titill | Verndardýrlingur Íslands |
Þorlákur fæddist á Hlíðarenda í Fljótshlíð. Foreldrar hans hétu Þórhallur Þorláksson og Halla Steinadóttir. Einnig eru nefndar tvær dætur þeirra, sem hétu Eyvör og Ragnheiður. Það er að skilja, að þetta hafi verið fremur fátækt fólk, því að „Þorlákur var þá ungur að aldri, er þau brugðu búi sínu, faðir hans og móðir."[1] Hann fylgdi móður sinni, og hún var hjá honum á efri árum sínum. Halla kenndi syni sínum ættvísi og mannfræði. Þórhallur hafði verið farmaður, en að öðru leyti er fátt um foreldra Þorláks vitað, nema ættartölur rekja framætt þeirra.[2] Þær ná ekki til hinna frægustu manna úr sögu landsins, þótt sumir séu allkunnir. Þannig var Þorgils örrabeinsstjúpur langa-langafi Þorláks,[3] sem hefur verið þekkt ætt á Suðurlandi. Að því marki sem frændur biskupsins eru nefndir í sögu hans og jarteinum, virðast ýmsir þeirra hafa verið fátækt fólk.
Þorlákur lærði fyrst í Odda hjá Eyjólfi Sæmundssyni fróða. Hann „tók vígslur þegar á unga aldri allar, uns hann varð djákni af Magnúsi biskupi, en hann var þá fimmtán vetra gamall, er biskup andaðist."[4] Magnús Einarsson biskup fórst haustið 1148, og nýr biskup var ekki vígður til Skálholts fyrr en vorið 1152. Á þeim tíma gerðist fátt kennimanna syðra, svo að Björn Gilsson Hólabiskup var fenginn til að vígja hóp manna prestsvígslu á Alþingi. Þar á meðal var Þorlákur, sem hefur vantað mörg ár í venjulegan lágmarksaldur presta, sem var 25 ár. Sú undanþága skýrist sjálfsagt bæði af þessum erfiðu aðstæðum og góðum undirbúningi og hæfni piltsins. Ef hann vígðist sumarið 1152, var hann 19 ára gamall, sem er mikið frávik frá reglunum, og því meira væri það, ef giskað er á eitthvert árið næst á undan.
Sem prestur tók Þorlákur sér í fyrstu „lítil þing, fésöm, og hafði þau nokkra stund, og varð honum bæði gott til fjár og vinsælda, af því að nálega unni honum hugástum hvert barn, er hjá honum var."[5] Tíminn leyfir varla, að hann hafi gegnt þessari þjónustu í sérlega mörg ár, þótt misserum kunni að skipta, enda segir það ekki heldur í sögu Þorláks, né eru raktir neinir sérstakir atburðir í sambandi við þennan tíma.
Þorlákur fór síðan utan og lærði í París og Lincoln á Englandi. Hann var sex vetur í þessari ferð, sem væntanlega gerðist á árabilinu 1155 – 1160 með litlum vikmörkum í báðar áttir. Eyjólfur fóstri Þorláks dó árið 1158. Hann hafði efni til að styrkja piltinn til siglingar og hefur af sínum föður vitað ýmislegt um nám í Frakklandi.
Þess hefur verið getið til, að Þorlákur hafi lært í skóla Viktorsklaustursins í París,[6] sem var frægur og þótti ágætur, en klaustrið heyrði til Ágústínusarreglu, var í strangara lagi og beitti sér fyrir siðbót innan kirkjunnar. Þetta hafa Ásdís Egilsdóttir og fleiri rökstutt.[7] Þar lærðu nokkrir forystumenn í norsku kirkjunni, til dæmis báðir erkibiskuparnir Eysteinn og Eiríkur. Í París var einnig kunnur dómkirkjuskóli. Honum stjórnaði Petrus Lombardus (d. 1160),[8] virtur guðfræðingur og síðast skamma stund biskup í París.
Á þessum árum var Róbert de Chesney (d. 1166)[9] biskup í Lincoln, athafnasamur maður og þótti standa framarlega í kirkjulögum. Hann hafði verið kanoki og hafði marga lærða menn í þjónustu sinni.
Eftir að Þorlákur kom aftur til Íslands, var hann fyrst „með frændum sínum nokkra vetur og hafði þá mjög góðan fjárhlut með höndum",[10] en ekki leyfir tíminn, að það hafi verið margir vetur. Frændurnir álitu, að hann væri fémaður og forsjármaður um flest og eggjuðu hann að biðja sér virðulegrar ekkju, sem bjó í Háfi í Rangárþingi. Þorlákur fór með þeim þangað, og birtist honum þá í draumi göfuglegur maður í sæmilegum búningi, sem mælti: „Veit eg, að þú ætlar þér hér konu að biðja, en þú skalt það mál eigi upp láta koma, af því að það mun eigi ráðið verða, og er þér önnur brúður miklu æðri huguð, og skaltu engrar annarrar fá." Þegar Þorlákur vaknaði, var hann svo horfinn frá þessu máli, að hann bað sér aldrei konu þaðan í frá.[11] Á þessum tíma hafði sú skipan ekki fest rætur á Íslandi og aðeins að takmörkuðu leyti í næstu löndum, að prestar skyldu lifa einlífi, eins og klaustrafólk.
Næst gerðist Þorlákur í sex vetur prestur í Kirkjubæ á Síðu og þjónaði með öðrum presti, sem hét Bjarnhéðinn og var sagður ágætur kennimaður, vitur og vinsæll. „Fór það víða um héruð, hversu ólíkir þeir þóttu flestum mönnum vera í sínum framferðum. Var það þá þegar viturra manna mál, að hvergi myndi vera vænna til að leita en þar, þótt mann þyrfti að ráða til hins mesta vanda á Íslandi...", stendur í Þorláks sögu.[12] Þessi dvöl í Kirkjubæ hefur verið nálægt árunum 1162 – 1168. Þorlákur "kvaðst aldrei sínu ráði betur hafa unað en þá sex vetur, er hann var í Kirkjubæ."[13] Klausturstofnun á þeim bæ í biskupstíð hans varð honum áreiðanlega gleðiefni.
Þorlákur tók árið 1168 þátt í að stofna Þykkvabæjarklaustur í Álftaveri.[14] Hann var í upphafi príor í klaustrinu, uns hann tók um 1170 vígslu sem ábóti. Þarna var regla Ágústínusarkanoka, sem hafði ekki fyrr verið fylgt á Íslandi. „Menn fóru til kanokaseturs Þorláks ábóta úr öðrum munklífum eða reglustöðum, bæði samlendir og útlendir, að sjá þar og nema góðu siðu, og bar það hver frá, er þaðan fór, að hvergi hefði þess komið, að það líf þætti jafn fagurlega lifað sem þar, er Þorlákur hafði fyrir séð."[15] Á þessum tíma voru líklega hafskipasiglingar til Vestur-Skaftafellssýslu. Höfnin hét Minþakseyri. Á korti frá 1595 finnst hún með réttu eða röngu staðsett vestan Kúðafljóts, en þar stóð klaustrið. Satt getur því verið sagt um útlenda gesti, sem hefði auðveldað Þorláki að fá fréttir frá vinum sínum erlendis og halda sambandi við þá, auk þess sem aðdrættir til klaustursins eftir efnum þess og önnur viðskipti hefðu mátt teljast greið. Á árum Þorláks sem ábóti varð þess vart, að fólk varð heilbrigt eftir blessun hans og yfirsöngva en búfé læknaðist af vatnsvígslum hans. Þorlákur vígði nýjan ábóta eftir sig árið 1178. En frá árinu 1175 hafði hann varla tækifæri til að vera langdvölum í klaustri sínu.
Þorlákur var kjörinn biskup á Alþingi 1174, eftir að erkibiskup gerði orð, að kjósa skyldi nýjan Skálholtsbiskup. Einnig voru nefndir í biskupskjörinu Ögmundur Kálfsson ábóti í Flatey og Páll Sölvason prestur í Reykholti. Þorlákur hafði sig lítið í frammi. Þorkell Geirason mælti með honum og sagði: „Meir kostgæfir Þorlákur að gera allt sem best en mæla sem flest." Kosningu var loks skotið til hins fráfarandi biskups, Klængs Þorsteinssonar, sem valdi Þorlák til utanferðar og biskupsvígslu.[16]
Þorlákur var ekki vígður fyrr en í Niðarósi 2. júlí 1178. Hann hafði í fyrstu farið aftur til klausturs síns, en fjárhagir í Skálholti gerðust óhægir og Klængur biskup máttlítill, svo að hann fór loks þangað og hafði þó á biskupsstólnum „mikla skapraun, bæði af viðurvist manna og öðrum óhægindum, þeim er hann átti um að vera, og bar hann þær allar þolinmóðlega."[17] Meðal annars gæti átt við, að Ingveldur Þorgilsdóttir, barnsmóðir og frænka Klængs biskups, hafi verið þar viðloðandi, en barneign þeirra var líklega helsta ástæða biskupaskiptanna.[18] Loks dó Klængur 28. febrúar 1176. Hættuspil þótti á þeim misserum að sigla, því að ófriður var á milli Íslendinga og Norðmanna, en Þorlákur tók af skarið sumarið 1177 og kvaðst ekki skelfast ótta vondra manna.
Þorlákur tók biskupsvígslu af Eysteini Erlendssyni erkibiskupi, en auk hans tóku þátt í henni Eiríkur Ívarsson biskup í Stafangri, sem síðar varð erkibiskup, og Páll biskup í Björgvin.[19] Eysteinn vildi forðast að vígja Íslendingum biskup í trássi við Magnús konung og föður hans, Erling jarl, og bar góð orð á milli. Þeir samþykktu um síðir vígsluna, tóku Þorláki vingjarnlega og skiptust á gjöfum við hann. „Og hafði Sverrir konungur það uppi, er bæði var merkur í máli og spakur að mannviti, að þeim feðgum hefði þá allir hlutir léttast gengið, er þeirra var vingan á milli og Þorlákur var þar í landi, bæði í sóknum og nálega velflest annað."[20] Það mátti Sverrir best vita, því að hann barðist þá til ríkis gegn þeim.
Þorlákur vildi efla kirkjuvald á Íslandi og deildi hart við veraldlega höfðingja, þar á meðal Jón Loftsson í Odda, um forræði yfir kirkjueignum. Kallast það staðamál fyrri. Ítrekað lá nærri, að vopn væru borin á biskup, en óskelfdur var hann jafnan. Honum gramdist, að Jón tók Ragnheiði systur hans frillutaki (sonur þeirra var Páll, eftirmaður Þorláks á biskupsstóli). Loks vægði Jón, og hún var gift Arnþóri austmanni. Aldrei greri þó um heilt á milli Jóns og biskups.[21] Á þessum tíma var Brandur Sæmundsson Hólabiskup. Heimildir greina naumast, að hann hafi blandað sér í átakamál. En árið 1198 tók hann af skarið, að Þorlákur væri heilagur maður.[22] Í biskupstíð Þorláks bannaði kirkjan, að goðorðsmenn fengju prestsvígslu.[23] Hann gekk ríkt eftir siðferðismálum, að menn héldu til dæmis ekki frillur, og við hann eru kennd boð um skriftir. Hann hefur talið fólki hollt að gera allmiklar kröfur til sín, fyrirmæli þessi sem sagt álitin í strangara lagi. Sömuleiðis eru kennd við Þorlák föstuboð. Nokkrir máldagar kirkna eru enn fremur eignaðir honum. Öll þessi skjöl, auk heldur bréf frá Eysteini erkibiskupi, eru prentuð í Íslensku fornbréfasafni.[24] Einnig tóku gildi árið 1179 samþykktir þriðja kirkjuþingsins í Lateran.[25] Þorláks er einna helst minnst fyrir að reyna að bæta siðu presta og almennings.[26] Þrátt fyrir deilur, þótti hann fara vel með vald sitt, og góður fésýslumaður var hann álitinn.[27] Í biskupstíð Þorláks var 1186 stofnað fyrsta nunnuklaustur á Íslandi, Kirkjubæjarklaustur.
Eftir að Þorlákur kom aftur í Skálholt, var fyrsta verk hans „að semja þá af nýju heimamanna siði og hýbýla háttu, þá er héldust um hans daga vel í mörgu lagi".[28] Þótt orðinn væri biskup, hélt hann nálega í öllu kanokareglu, bæði í klæðabúnaði, vökum, föstum og bænahaldi. Hann kenndi prestsefnum, og „jafnan var hann að riti og ritaði ávallt helgar bækur... voru hans varir aldrei kyrrar frá Guðs lofi og bænahaldi..."[29]
Á morgnana var vani Þorláks að syngja „fyrst Credo og Pater noster eftir það, er hann hafði signt sig, og hymnann Jesu nostra redemptio[30]... Þá söng hann Gregoriusbæn, á meðan hann klæddi sig, og þar eftir hinn fyrsta sálm úr saltara... En er hann kom til kirkju, söng hann fyrst lof Heilagri Þrenningu. Eftir það lofaði hann með söngvum þá heilaga menn, er kirkjan var vígð, sú er þá var hann í... Síðan las hann Maríutíðir,[31] og eftir það lagðist hann niður fyrir altari allur til jarðar, þá er eigi var heilagt, og bað lengi fyrir allri Guðs kristni, og hvern dag söng hann þriðjung saltara umfram vanasöng sinn, hvort sem hann var heima eða eigi, og söng fleira milli sálma en aðrir menn. Hann söng fyrst Gloria Patri af Heilagri Þrenningu,[32] þá næst Miserere mei Deus,[33] þá Salvum fac Pater et Domine[34] fyrir öllu kristnu fólki. En ef honum báru til vandamál, söng hann það vers, sem Salómon hinn spaki bað til Guðs á sínum dögum: Mitte mihi, Domine, auxilium de sancto.[35] En er hann gekk frá matborði, söng hann: Benedicam Dominum in omni tempore.[36] En er hann afklæddist til svefns, söng hann... Domine, quis habitabit,[37] og var honum mikið yndi að halda slíkar venjur og vænti, að nokkur mundi eftir hans háttum víkja..."[38] Biskupi „var málið stirt og óhægt", þótt orðin væru sæt og vel saman sett, og var það vinum hans „mikil mannraun".[39] Ef hann stamaði, verður slíks síður vart í söng en mæltu máli.[40]
Postulleg vígsluröð biskupanna þykir varða miklu í rómversk-kaþólsku kirkjunni. Hún er nokkurs konar „andleg ættartala" allar götur til postulanna. Ekki er hér rakið lengra en svo, að Þorláki megi af eigin raun hafa verið kunnug kirkjustefna fyrirrennara sinna. Á þessum árum snérist hún um allmiklar breytingar, oftast kallaðar umbætur, ekki síst að stemma stigu við stjórnsemi aðals og höfðingja í málefnum kristni og kirkju og bæta siðferði.[47]
Á biskupsárum sínum bjó Þorlákur við „margfalda vanheilsu", og síðast langaði hann til að „gefa upp biskupsdóminn og ráðast aftur undir hina sömu kanokareglu. En allsvaldandi Guð lét þetta því eigi framgengt verða, að hann sá hreinlífi hans og góðlífi vel nægjast honum til heilagleika, þó að hvergi minnkaði hans tign fyrir manna augum, sú er hann hafði honum gefið".[48]
Þorlákur lauk haustið 1193 við að vísitera þann landsfjórðung, sem næstur honum var. En í ferðinni tók hann þá sótt, sem dró hann til bana. Hann „lá þrjá mánuði í rekkju og hafði þunga sótt, en aldrei svo harða verki, að hann mætti eigi fyrir öllu ráð gera og skipa, sem hann vildi". Meðal annars kom til hans Þorvaldur Gissurarson, og reiknaði þá „Þorlákur fyrir kennimönnum og höfðingjum fjárhagi staðarins, og hafði allmikið græðst, meðan hann hafði fyrir ráðið... Sjö náttum fyrir andlát sitt kallar hann til sín lærða menn og lét olea[49] sig, og áður hann væri smurður talaði hann langt erindi, þó honum væri málið erfitt..." Hann lauk ræðu sinni með þessum orðum: „Harmið eigi, þó að skilji vorar samvistir, því að eg fer eftir mínum forlögum. Hefi eg jafnan til lítils fær verið, ef eigi hefðu aðrir mér hjálpað. Er yður lítill skaði að mér, en næst eftir mig mun koma mikill höfðingi. Vil eg yður í því hugga, að eg þykjumst víst vita, að eigi mun Guð mig helvítismann dæma." Síðustu orð Þorláks voru þau, að hann beiddist að drekka. Eftir dauðann þóttu ásjóna hans og augu mjög björt. Hann hafði haft mörg sár stór og smá á líkamanum, en þau voru öll gróin.[50]
Lík biskups var borið til kirkju og látið standa í kór í þrjár nætur. Margir voru viðstaddir útförina. Gissur Hallsson talaði yfir moldum biskupsins.[51]
Þorlákur fékk snemma á sig orð sem helgur maður sem gott var að heita á. Hann var tekinn í dýrlinga tölu á Íslandi og áheit á hann leyfð árið 1198. Páll Skálholtsbiskup lýsti því yfir í lögréttu á Pétursmessudag 29. júní. Bein Þorláks voru tekin upp 20. júlí það sama ár. Þá voru komnir í Skálholt þeir Brandur Hólabiskup og Guðmundur prestur Arason, eins og segir í sögu hins síðarnefnda, en hann réð mestu, hvað sungið var við athöfnina. Þorlákur á tvo messudaga á ári: dánardag sinn, Þorláksmessu á vetri 23. desember, og Þorláksmessu á sumri 20. júlí. Þá voru sungnar Þorlákstíðir. Einnig var samin Þorláks saga, sem er til í nokkrum gerðum. Og fjölmörgum sögum um kraftaverk, sem eignuð voru árnaðarorði hans, var safnað saman í Jarteinabækur Þorláks helga. Páll biskup lét gera mikið og vandað Þorláksskrín, sem fór forgörðum eftir siðskipti. Sagt er, að smábrot af helgum dómi biskupsins sé varðveitt í vegg Magnúsardómkirkju í Færeyjum. Búast má við, að kirkjur, sem helgaðar voru Þorláki eða hans var sérstaklega minnst í, svo sem Niðarósdómkirkja, hafi einnig fengið að gjöf einhvern helgan dóm tengdan biskupinum, þótt vitneskju um það skorti.
Heilagur Þorlákur þótti vera dýrlingur alls almennings og bera fram árnaðarorð fyrir snauða ekki síður en ríka, eins og hann í jarðlífinu "lagði mikla stund á að elska fátæka menn. Klæddi hann kalna en fæddi hungraða... lét kalla saman fátæka menn fyrir hinar hæstu hátíðir, tólf eða níu eða sjö, og kom til leynilega að þvo fætur þeirra og þerraði síðan með hári sínu og gaf hverjum þeirra nokkra góða ölmusu, áður á brott færi."[52] Sagt er, að sums staðar í Noregi hafi fátækt fólk átt jafnvel auðveldara með að snúa sér til hans en heilags Ólafs konungs. Og í færeyskri þjóðtrú varð heilagur Þorlákur að nokkurs konar jólasveini.[53] Þar var, eins og á Íslandi, venja að kalla 23. desember Þorláksmessu.[54]
Jóhannes Páll páfi II. útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands 14. janúar 1984.[55] Þannig lagði hann „réttilega áherslu á, að nærvera trúarinnar mótar" þetta land, sagði Benedikt páfi XVI.[56]
Þorlákur helgi er verndari Kristskirkju í Reykjavík. Kaþólska kirkjan á Íslandi kennir við hann heilags Þorlákssókn í Reyðarfirði, sem var stofnuð 28. júlí 2007 og nær yfir Austur-Skaftafellssýslu og báðar Múlasýslur, en sóknarkirkja og klaustur eru á Kollaleiru. Fyrir siðskipti voru meira en fimmtíu íslenskar kirkjur helgaðar heilögum Þorláki. Hin elsta þeirra mun hafa staðið á Stóra-Hofi á Rangárvöllum, og vígsla hennar tengist jartein, sem fólk áleit vera.[57] Kauptúnið Þorlákshöfn í Árnessýslu dregur nafn af biskupinum. Sagt er, að þar hafi áður verið bærinn Elliðahöfn, en í sjóhrakningi hafi bóndinn heitið á Þorlák að breyta nafninu, ef skip hans næði landi.[58] Hitt kann þó að vera eldra, að bærinn hafi fengið nafn af kirkjunni á þeim stað, sem var helguð Þorláki.[59] Enn ber guðshús þjóðkirkjunnar í Þorlákshöfn heiti hans.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.