Ríkisstjórnir Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs 2009-2013
From Wikipedia, the free encyclopedia
Ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur (einnig þekkt sem Velferðarstjórnin og/eða Vinstri stjórnin) voru stjórnarsamband Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sem myndaðist í kjölfar efnahagskreppunnar á Íslandi haustið 2008 og hætti störfum eftir Alþingiskosningar 2013. Eftir að Geir Haarde baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 26. janúar 2009 mynduðu flokkarnir minnihlutastjórn sem tók við völdum sex dögum síðar þann 1. febrúar og varði Framsóknarflokkurinn hana vantrausti. Í kjölfar þingkosninganna 25. apríl 2009 fengu flokkarnir meirihluta og mynduðu nýja ríkisstjórn sem tók við völdum 10. maí 2009.

Ríkisstjórnirnar voru þær fyrstu til að hafa jafnt kynjahlutfall og var Jóhanna Sigurðardóttir fyrsti opinberlega samkynhneigði forsætisráðherra heims. Kjörtímabilið einkenndist af hörðum deilumálum og upplausnarástandi í samfélaginu. Ríkisstjórnarinnar biðu mörg brýn verkefni eftir efnahagshrun Íslands og hefur sá tími sem hún sat verið kenndur við endurreisn. Verkefni ríkisstjórnarinnar einkenndust af viðreisn íslensks efnahagslífs og rannsókn á aðdraganda hrunsins, enda var gengi gjaldmiðilsins veikt, verðbólga og atvinnuleysi hátt og mikill samdráttur á fyrstu árunum eftir hrun. Í tíð hennar var sótt um aðild að Evrópusambandinu, rammaáætlun gerð um virkjanakosti og ráðuneyti voru sameinuð.
Eitt af meginmarkmiðum nýrrar ríkisstjórnar var að endurskoða stjórnarskrána í því skyni að koma í veg fyrir endurtekið hrun. Einnig að finna leið til þess að takast á við lagaleg, félagsleg og fjárhagsleg vandamál sem fjölskyldur og fyrirtæki glímdu við eftir efnahagshrunið. Mjög misjafnar skoðanir voru á því, bæði af hálfu almennings og þingmanna, hvort þeim hefði tekist vel til að leysa úr vandamálum í kjölfar efnahagshrunsins.[1] Almenningur þótti taka langan tíma að koma málum á réttan veg og láta stjórnmálamennina, útrásarvíkingana og bankamennina axla ábyrgð. Það var hugsað mikið til þarfa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, banka og fyrirtækja á meðan skuldir almennings hækkuðu. [2]
Stjórnarmyndun
Þann 26. janúar 2009 tilkynntu Geir Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, að stjórnarsamstarfi flokkanna væri lokið. Viðræður höfðu þá staðið yfir um nokkurt skeið milli flokkanna um mögulegt framhald ríkisstjórnarinnar sem strandaði á kröfu Samfylkingarinnar um að Jóhanna Sigurðardóttir myndi veita nýrri ríkisstjórn forsæti. Í kjölfar stjórnarslita baðst Geir Haarde lausnar fyrir ríkisstjórn sína. Hinn sama dag hófust viðræður á milli Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs um minnihlutastjórn milli þeirra sem varin yrði vantrausti af Framsóknarflokknum.
Ráðherraskipan
Taflan fyrir neðan sýnir þá málaflokka sem ráðherrar í ríkisstjórninni fóru með. Frá og með 1. október 2009 var nafni á Menntamálaráðuneytinu breytt í Mennta- og menningarmálaráðuneytið, einnig var Efnahagsráðuneytinu breytt í Efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu breytt í Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti Íslands og Samgönguráðuneytinu breytt í Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Þann 1. september 2012 var Fjármálaráðuneytinu breytt í Fjármála- og efnhagsráðuneytið og Umhverfisráðuneytinu breytt í Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Á kjörtímabilinu var farið í miklar sameiningar ráðuneyta og heyrðu sjávarútvegs-, landbúnaðar-, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin undir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið frá og með 1. október 2012. Þann 1. janúar 2011 voru dómsmála- og mannréttindaráðuneytið og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sameinuð sem Innanríkisráðuneytið. Þann sama dag voru félags- og tryggingamálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið sameinuð sem Velferðarráðuneytið.
Háleit markmið
Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs setti sér mjög háleit markmið. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar var ekki aðeins lögð áhersla á endurreisn efnahagslífsins, heldur var markið sett á að byggja upp „nýtt Ísland“. Með þessu var ríkisstjórnin að einhverju leyti að bregðast við kröfum mótmælenda þá um veturinn.
Í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar var talað um að auka lýðræði, jöfnuð og gegnsæi. Unnið var eftir nýjum siðareglum í stjórnarráðinu og einnig vildu þeir setja velferðarvakt sem kannaði hvaða leiðir væri hægt að notast við til þess að fylgjast með félagslegum afleiðingum bankahrunsins og hvað væri hægt að gera til þess að mæta þeim vanda.
Stjórnarsáttmálinn kvað á um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins. Kveðið yrði á um:
- Að auðlindir væru í þjóðareign.
- Sett yrði ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur.
- Aðferð við breytingar á stjórnarskrá með sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þá var talað um að lög yrðu sett um skipan og verkefni stjórnlagaþings.
Aðrar stórar breytingar sem rætt var um í stjórnarsáttmálanum var ákvæði um endurskipulagning fjármálastofnana og endurreisn fjármálakerfisins og breytingar á stöðu íslands á alþjóðavettvangi.
Auk markmiða um endurskipulagningu stjórnsýslu og breytingar á íslensku samfélagi var endurreisn efnahagslífsins með aðgerðum í þágu heimila og atvinnulífsins fyrirferðarmikil í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar. Skoða átti alþjóðasamninga og hugsanlegt Evrópusamstarf. Stjórnin skilgreindi sig sem íhaldssama, með ábyrgri stefnu í efnahags- og ríkisfjármálum sem horfir einnig á félagsleg gildi, jöfnuð, kvenfrelsi og réttlæti.[4]
Heimildir
Wikiwand - on
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.