Remove ads
2. forseti Íslands From Wikipedia, the free encyclopedia
Ásgeir Ásgeirsson (fæddur í Kóranesi á Mýrum 13. maí 1894, látinn 15. september 1972) var annar forseti Íslands (1952-1968), en hafði áður verið forsætisráðherra Framsóknarflokksins á árunum 1932-1934.
Ásgeir Ásgeirsson | |||||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Forseti Íslands | |||||||||||||||||
Í embætti 1. ágúst 1952 – 1. ágúst 1968 | |||||||||||||||||
Forsætisráðherra | Steingrímur Steinþórsson Ólafur Thors Hermann Jónasson Emil Jónsson Ólafur Thors Bjarni Benediktsson | ||||||||||||||||
Forveri | Sveinn Björnsson | ||||||||||||||||
Eftirmaður | Kristján Eldjárn | ||||||||||||||||
Forsætisráðherra Íslands | |||||||||||||||||
Í embætti 3. júní 1932 – 28. júlí 1934 | |||||||||||||||||
Þjóðhöfðingi | Kristján 10. | ||||||||||||||||
Forveri | Tryggvi Þórhallsson | ||||||||||||||||
Eftirmaður | Hermann Jónasson | ||||||||||||||||
Alþingismaður | |||||||||||||||||
| |||||||||||||||||
Persónulegar upplýsingar | |||||||||||||||||
Fæddur | 13. maí 1894 Kóranesi á Mýrum, Íslandi | ||||||||||||||||
Látinn | 15. september 1972 (78 ára) Reykjavík, Íslandi | ||||||||||||||||
Stjórnmálaflokkur | Framsóknarflokkurinn (1917-1934) Alþýðuflokkurinn (1937-1952) | ||||||||||||||||
Maki | Dóra Þórhallsdóttir (g. 1917; d. 1964) | ||||||||||||||||
Börn | Þórhallur, Vala og Björg | ||||||||||||||||
Foreldrar | Ásgeir Eyþórsson og Jensína Björg Matthíasdóttir | ||||||||||||||||
Háskóli | Háskóli Íslands | ||||||||||||||||
Starf | Kennari, stjórnmálamaður | ||||||||||||||||
Æviágrip á vef Alþingis |
Foreldrar hans voru Ásgeir Eyþórsson, verslunarmaður og Jensína Björg Matthíasdóttir. Ásgeir útskrifaðist frá Lærða skólanum árið 1912 eftir að hafa gegnt embætti forseta Framtíðarinnar árið 1911[1] og inspectors scholae skólaárið 1911-1912.[2] Hann var guðfræðingur að mennt, hann lauk prófi frá Háskóla Íslands 21 árs gamall og stundaði framhaldsnám í Kaupmannahöfn í eitt ár að því loknu. Ásgeir var biskupsritari Þórhalls Bjarnarsonar biskups og síðar kennari við Kennaraskólann og fræðslustjóri í mörg ár. Hann var þingmaður Vestur-Ísafjarðarsýslu 1923–1952, forseti sameinaðs þings á Alþingishátíðinni 1930, gegndi embætti fjármálaráðherra 1931–1932 og var forsætis- og fjármálaráðherra 1932—1934. Hann var bankastjóri Útvegsbanka Íslands 1938–1952 er hann var kjörinn forseti.
Ásgeir var fyrsti forseti þjóðarinnar sem var kosinn til þess embættis í almennum kosningum. Hann sat í embætti árin 1952 – 1968 eða í fjögur kjörtímabil. Hann fékk aldrei mótframboð og var því ávallt sjálfkjörinn í embætti frá og með 1956. Kona hans var Dóra Þórhallsdóttir frá Laufási við Laufásveg, dóttir Þórhalls Bjarnarsonar biskups.
Hann var alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn 1923-1934, utanflokka 1934-1937 og fyrir Alþýðuflokkinn 1937 til 1952. Forseti Sameinaðs þings 1930 til 1931 og varaforseti þess 1928-1929. Fjármálaráðherra 1931-1932 er hann varð forsætis- og fjármálaráðherra og gegndi hann því starfi til 1934.
Ásgeir Ásgeirsson fæddist árið 1894 í Kóranesi á Mýrum. Hann var annað af níu börnum Ásgeirs Eyþórssonar og Jensínu Bjargar Matthíasdóttur. Faðir Ásgeirs var verslunarstjóri í verslun sem faðir hans, Eyþór Felixson, rak í Straumfirði. Fjölskyldan fluttist þangað þegar Ásgeir Ásgeirsson var tveggja ára en flutti síðan til Reykjavíkur árið 1902 eftir að verslunin fór á hausinn og Eyþór afi Ásgeirs lést.[3]
Ásgeir hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík árið 1906 og varð áberandi í félagslífi og stúdentapólitík skólans. Hann var forseti Framtíðarinnar árið 1911 og síðan inspector scholae árin 1911-1912. Ásgeir hóf síðan guðfræðinám við Háskóla Íslands og útskrifaðist með háa einkunn árið 1915. Á háskólaárum sínum kynntist Ásgeir og trúlofaðist Dóru Þórhallsdóttur, sem hann hitti í starfi hjá Ungmennafélagi Reykjavíkur.[4]
Eftir að Ásgeir lauk guðfræðinámi bauðst honum að gerast prestur að Skútustöðum en Þórhalli Bjarnasyni biskupi, föður Dóru, fannst Ásgeir of ungur til að taka við prestakalli, og neitaði því að vígja hann. Til sárabóta réð Þórhallur Ásgeir þess í stað sem ritara sinn og Ásgeir gegndi því starfi til ársins 1916 en hélt síðan til Kaupmannahafnar til þess að stunda framhaldsnám í guðfræði. Á árum sínum í Kaupmannahöfn missti Ásgeir smám saman metnað fyrir guðfræðinni og afþakkaði tilboð Nathans Söderblom, erkibiskups Uppsala, um að taka við prestakalli í umdæmi hans. Ásgeir sneri heim til Íslands árið 1917 og kvæntist Dóru, unnustu sinni.[5]
Eftir heimkomuna gerðist Ásgeir ritari hjá Landsbankanum en gerðist síðan kennari við Kennaraskólann. Ásgeir hóf einnig þátttöku í íslenskum stjórnmálum sem meðlimur Framsóknarflokksins. Árið 1923 bauð Ásgeir sig fram til alþingis fyrir Framsókn í Vestur-Ísafjarðarsýslu og náði kjöri. Árið 1930 var Ásgeir kjörinn forseti Alþingis. Í því embætti fékk Ásgeir það hlutverk að ávarpa mannfjöldann þegar þúsund ára afmæli Alþingis var fagnað árið 1930 og þótti hann bera af öðrum með ræðusnilld sinni.[5]
Árið 1931 varð Ásgeir fjármálaráðherra Íslands í ríkisstjórn mágs síns, Tryggva Þórhallssonar, í miðri kreppunni miklu. Næsta ár sagði Tryggvi af sér vegna deilna um endurskipulagningu á kjördæmum Íslands og Ásgeir varð forsætisráðherra í hans stað. Í Alþingiskosningum árið 1933 tapaði Framsóknarflokkurinn verulegu fylgi en ríkisstjórn Ásgeirs sat áfram til næsta árs sem bráðabirgðastjórn. Eftir kosninguna klauf Tryggvi sig úr Framsóknarflokknum og stofnaði Bændaflokkinn. Ásgeir fylgdi mági sínum ekki í nýja flokkinn en hann sagði sig úr Framsóknarflokknum og náði árið 1934 kjöri á alþingi sem óflokksbundinn frambjóðandi.[6]
Ásgeir var óflokksbundinn þingmaður frá 1934 til 1937, en þá gekk hann loks til liðs við Alþýðuflokkinn. Ásgeir sat á þingi fyrir Alþýðuflokkinn til ársins 1952 og frá 1938 var hann jafnframt bankastjóri Útvegsbanka Íslands.[6]
Eftir dauða Sveins Björnssonar forseta árið 1952 bauð Ásgeir sig fram til forseta Íslands í forsetakosningunum sem haldnar voru síðar um árið. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sammældust um að styðja séra Bjarna Jónsson vígslubiskup til embættisins. Nafn Ásgeirs hafði oft borið á góma þegar rætt var um mögulega arftaka Sveins í forsetaembætti en Sjálfstæðismenn vildu ekki sjá þingmann Alþýðuflokksins sem forseta og Framsóknarmenn voru honum enn reiðir fyrir að skipta um flokk á fjórða áratuginum. Sér í lagi hafði Hermann Jónasson, formaður Framsóknarflokksins, ímugust á Ásgeiri og kallaði hann „mesta neðanjarðarpólitíkus síðustu ára“ á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins árið 1952 þegar rætt var um forsetaefni.[7] Meðal Sjálfstæðismanna veik Gunnar Thoroddsen borgarstjóri, sem var kvæntur Völu, dóttur Ásgeirs, frá flokkslínunni og studdi tengdaföður sinn í forsetaembættið. Gunnar gerðist síðan kosningastjóri í kosningabaráttu Ásgeirs og tryggði tengdaföður sínum talsvert fylgi.[8] Þegar kom á kjördag vann Ásgeir nauman sigur gegn Bjarna og Gísla Sveinssyni með um 46,7% atkvæða. Stjórnarflokkarnir voru ekki ánægðir með úrslit kosninganna og jafnvel kom til tals að Ólafur Thors segði af sér sem forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins vegna álitshnekkis.[9]
Ásgeir tók við embætti forseta þann 1. ágúst 1952 og rétti stjórnarflokkunum sáttahönd með því að sverja Alþingi og ríkisstjórninni hollustueið.[9] Hermann og Ólafur virtu hann að vettugi og gerðu sitt besta til að halda Ásgeiri fyrir utan svið íslenskra stjórnmála. Hermann gekk svo langt að reyna að koma í veg fyrir að Ásgeir færi erlendis í opinberar heimsóknir.[10] Ásgeir varð engu að síður fyrsti forseti Íslands sem fór í opinberar heimsóknir til Norðurlandanna, en Sveinn Björnsson hafði verið of heilsuveill til að halda í slíkar ferðir á forsetatíð sinni. Ásgeir heimsótti Friðrik 9. Danakonung í Danmörku árið 1954 og þótti sú heimsókn boða að sátt og vinskapur hefði tekist með Dönum og Íslendingum á ný eftir sambandsslitin 1944.[11] Þessi vinskapur var innsiglaður enn frekar þegar Ásgeir tók á móti Friðrik í opinberri heimsókn til Íslands árið 1956. Ásgeir fór einnig í opinberar heimsóknir til Svíþjóðar, Finnlands, Noregs, Kanada, Bandaríkjanna og Ísraels á forsetatíð sinni.[12]
Þrátt fyrir að Ásgeir hefði komist á forsetastól með stuðningi jafnaðarmanna og sósíalista varð mörgum þeirra kalt til forsetans eftir að hann studdi áframhaldandi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu í nýársávarpi sínu árið 1958.[13] Ásgeir hafði stundum áhrif á stjórnarmyndunarviðræður á bak við tjöldin en á heildina litið skipti hann sér þó ekki oft með beinum hætti að stjórnmálum og neitaði að nota synjunarvald forsetans þegar skorað var á hann að gera það.[14]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.