From Wikipedia, the free encyclopedia
Einveldi er tegund stjórnarfars þar sem einvaldurinn — oftast konungur — hefur algjör völd til þess að stýra landinu og íbúum þess. Hann er eina uppspretta og trygging laga og réttar og er því ekki sjálfur bundinn af lögum. Einvaldurinn var talinn hafa vald sitt beint frá Guði og þannig hafa ótakmörkuð völd yfir öllum landsmönnum, jafnvel aðlinum.
Einveldi var ríkjandi stjórnarfar í mörgum Evrópulöndum á 17.–19. öld og eitt besta dæmið um einveldi er stjórnartíð Loðvíks XIV í Frakklandi. Einveldið varð til úr lénsskipulaginu sem áður var ríkjandi en þar var konungurinn aðeins „fremstur meðal jafningja“ í aðalsstétt. Þótt konungstign héldist að jafnaði innan konungsfjölskyldunnar, var konungur valinn á kjörþingum þar sem æðstu aðalsmenn, greifar eða kjörfurstar kusu konung, oft með fyrirvara um samþykkt einhvers konar réttindaskrár, skattafríðinda og annarra skilyrða sem komu aðlinum til góða. Með einveldinu gekk konungstignin í arf samkvæmt fyrirfram ákveðnum reglum um erfðarétt meðlima konungsfjölskyldunnar.
Öflugri og dýrari herir kölluðu á meiri miðstýringu sem varð til þess að smám saman jukust völd einvalda á kostnað aðalsins. Með aukinni verslun og borgamyndun í Evrópu varð einnig meiri losarabragur á þeim nánu tengslum lénsherra, undirsáta og landseta sem verið höfðu við lýði síðan á miðöldum, þannig að staða lénsveldisins veiktist til muna. Einveldisfyrirkomulagið lagði grundvöllinn að þjóðríkjum Evrópu, og ríkisvald eins og við þekkjum það í dag varð til þegar konungur fór að stjórna þegnum sínum án milligöngu aðalsins, í gegnum ráðherra og embættismenn sem hann skipaði sjálfur.
Með því að konungstignin gekk sjálfkrafa til næsta erfingja konungsins, gátu orðið til konungar sem voru óhæfir til að stjórna. Geðveikir einvaldar eins og Georg III. á Englandi og Kristján VII. í Danmörku gátu valdið miklum vandræðum án þess að nokkur gæti komið í veg fyrir valdatöku þeirra eða sett þá af. Einveldistímabilið einkenndist einnig af valdabaráttu milli aðalsins og borgarastéttarinnar sem kepptust um að ná ítökum í ríkisstjórnum einvaldanna.
Hugmyndin um hið upplýsta einveldi varð til með upplýsingunni á 18. öld og einkenndist af áhuga á umbótum og því að auka borgararéttindi. Eftir frönsku byltinguna og frelsisstríð Bandaríkjanna og eftir að þær lýðræðis- og frelsishugsjónir sem lágu til grundvallar þar fóru að njóta meiri vinsælda lét einveldið á sjá. Kröfur um stjórnarskrá sem væri bindandi grundvöllur laga, óháð konungi, urðu háværar á 19. öld, og að lokum vék einveldið fyrir þingbundnu konungsvaldi í flestum konungsríkjum.
Á Íslandi var einveldi Danakonungs staðfest með erfðahyllingunni á Kópavogsfundinum árið 1662. Einveldi var svo afnumið í Danmörku 1849 en staða Íslands var óljós fram til stöðulaganna 1871 og má segja að þá hafi einveldið fyrst verið afnumið á Íslandi.
Á vorum dögum eru einungis örfá ríki eftir í heiminum sem segja má að búi við einveldi, það eru Brúnei, Esvatíní, Katar, Óman, Sádi-Arabía og Vatíkanið.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.