ríki í Mið-Austurlöndum From Wikipedia, the free encyclopedia
Óman (arabíska: العربية), eða Soldánsveldið Óman (سلطنة عُمان, Saltanat Umān), er land á suðausturströnd Arabíuskagans með landamæri að Sameinuðu arabísku furstadæmunum í norðvestri, Sádí-Arabíu í vestri og Jemen í suðvestri. Óman á strandlengju að Arabíuhafi í suðri og Ómanflóa í austri. Landið liggur á hernaðarlega mikilvægum stað við mynni Persaflóa þar sem landhelgi þess og Írans liggja saman. Óman á tvær útlendur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Madha og Musandam sem skagar út í Hormússund.
Soldánsveldið Óman | |
Saltanat Uman سلطنة عُمان | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Nashid as-Salaam as-Sultani | |
Höfuðborg | Múskat |
Opinbert tungumál | arabíska |
Stjórnarfar | Soldánsdæmi |
Soldán | Haitham bin Tariq Al Said |
Krónprins | Theyazin bin Haitham |
Stofnun | |
• Ímamat | 751 |
• Soldánsdæmi | 9. ágúst 1970 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
70. sæti 309.500 km² 0 |
Mannfjöldi • Samtals (2018) • Þéttleiki byggðar |
125. sæti 4.829.473 15/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2018 |
• Samtals | 203,959 millj. dala (67. sæti) |
• Á mann | 47.366 dalir (23. sæti) |
VÞL (2019) | 0.813 (60. sæti) |
Gjaldmiðill | ómanskur ríal |
Tímabelti | UTC+4 |
Þjóðarlén | .om |
Landsnúmer | +968 |
Óman var á áhrifasvæði ýmissa stórvelda í fornöld en þegar höfðingjar snerust til íslam á 7. öld stofnuðu þeir ríki undir stjórn ímams og íbadismi varð ríkjandi trúarbrögð. Portúgalir náðu Múskat á sitt vald árið 1507 og héldu borginni til 1650 fyrir utan stutt skeið þegar Tyrkjaveldi náði henni af þeim. Þeir reistu þar virki til að verja siglingaleiðir sínar. Soldánarnir Nasir bin Murshid og Sultan bin Saif ráku Portúgali burt um miðja 17. öld og árið 1698 ráku þeir Portúgali burt frá Sansibar og öðrum eyjum við austurströnd Afríku. Árið 1737 réðust Persar á Óman og eftir nokkurra ára styrjöld komst núverandi soldánsfjölskylda til valda. Ríkið hagnaðist á þrælaverslun í Afríku og Óman varð stórveldi. Árið 1913 skiptist soldánsdæmið í ímamatið Óman inni í landi og soldánsdæmið Múskat við ströndina. Á 6. áratugnum reyndi soldáninn að auka völd sín í ímamatinu sem leiddi til uppreisnar þar og stríðsins um Jebel Akhdar. Að lokum náði soldáninn yfirtökunum með aðstoð Breta og leiðtogar ímamatsins flúðu til Sádí-Arabíu. Árið 1964 fundust olíulindir í Óman en þær eru þó ekki miklar samanborið við sum nágrannalöndin. Eftir að arabíska vorið hófst 2011 hafa mótmæli gegn soldáninum farið vaxandi. Hann hefur lofað þinginu meiri völdum en um leið beitt aukinni hörku gegn gagnrýni á Internetinu. Sex aðgerðasinnar fengu fangelsisdóma og háar fjársektir árið 2012 fyrir að gagnrýna stjórnina á netinu.
Óman er fjölmenningarríki þar sem íbúar tala minnst tólf ólík tungumál, þar á meðal arabísku, balúkísku, svahílí, úrdú og ensku. Um þrír fjórðu hlutar landsmanna aðhyllast íslam, þar af um helmingur íbadisma. Önnur trúarbröð sem íbúar aðhyllast eru meðal annars hindúatrú, jainismi, búddismi og sóróismi. Landið er einveldi soldánsins og þingið hefur takmörkuð völd þótt það gegni hlutverki við lagasetningu. Óman er aðili að Persaflóasamstarfsráðinu, Sameinuðu þjóðunum og Arababandalaginu.
Nafnið Óman virðist vera það sama og kemur fram hjá Pliníusi eldra sem Omana[1] og hjá Kládíosi Ptólemajosi sem Omanon (Ὄμανον ἐμπόριον á grísku),[2] og vísar í báðum tilfellum líklega til fornu borgarinnar Sohar.[3] Á arabísku er heiti borgarinnar eða héraðsins oft talið dregið af orðinu aamen eða amoun (fólk með fasta búsetu, ólíkt Bedúínum).[3] Ýmsir meintir stofnendur hafa líka verið nefndir sem uppruni heitisins (Oman bin Ibrahim al-Khalil, Oman bin Siba' bin Yaghthan bin Ibrahim, Oman bin Qahtan og Lot í Biblíunni) og enn aðrir skýra það með nafni dals í Jemen við Ma'rib þaðan sem stofnendur borgarinnar, ættbálkurinn Azd, eiga að hafa komið.[4]
Óman liggur milli 16. og 28. breiddargráðu norður og 52. og 60. lengdargráðu austur. Miðhluti Ómans er þakinn stórri malareyðimörk með fjallgarða í norðri (Al Hajar-fjöll) og við suðausturströndina (Dhofar-fjöll).[5][6] Helstu borgir landsins, höfuðborgin Múskat, Sohar og Sur, eru norðan megin við Al-Hajar-fjöll, en Salalah er við suðurströndina. Loftslag í Óman er heitt og þurrt innanlands og rakt við ströndina. Óman var eitt sinn sjávarbotn eins og sést af miklu magni af steingerðum skeljum sem finnast í eyðimörkinni, langt frá núverandi strönd.
Óman á útlendu á Musandamskaga, á hernaðarlega mikilvægum stað í Hormússundi. Sameinuðu arabísku furstadæmin eiga landið milli Óman og útlendunnar.[7] Strandlengjan nyrst í Ómanflóa að Hormússundi nefnist Dibba og skiptist milli Óman og tveggja furstadæma. Hægt er að sigla frá Khasab í Óman til fiskiþorpanna í Musandam.
Önnur útlenda Óman innan Sameinuðu arabísku furstadæmanna er Madha, um hálfa leið milli Musandamskaga og landamæra Óman.[7] Útlendan er hluti af Musandamumdæmi og er um 75 km2 að stærð. Landamæri Madha voru staðfest árið 1969, en norðausturoddi Madha er aðeins 10 metrum frá veginum til Fúdsaíra. Innan Madha er svo útlenda Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Nahwa, sem tilheyrir furstadæminu Sjarja og er 8 km vestan við bæinn Nýja-Madha. Þar eru um 40 hús og heilsugæsla auk símstöðvar.[8]
Eyðimörkin í Óman er mikilvæg uppspretta loftsteina sem notaðir eru við vísindarannsóknir.[9]
Soldánsdæmið skiptist í ellefu umdæmi (muhafazah) sem aftur skiptast í 61 sýslu (wilayah).
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.