Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Stoðir hf. (áður FL Group og enn fyrr Flugleiðir) er íslenskt fjárfestingafélag. Fyrir 10. mars 2005 hét fyrirtækið Flugleiðir og snerist rekstur þess félags lengst af að mestu um flugsamgöngur. Flugleiðir urðu til árið 1973 við sameiningu flugfélaganna Flugfélags Íslands og Loftleiða. Eftir að nafni fyrirtækisins var breytt í FL Group fór rekstur þess smám saman að snúast meira um fjárfestingar og að lokum dró félagið sig að mestu út úr flugrekstri. Nafni félagsins var aftur breytt árið 2008 og heitir það nú Stoðir. Félagið fór fram á greiðslustöðvun þann 29. september 2008 eftir að Ríkissjóður Íslands tilkynnt um áform um yfirtöku á 75% hlut í viðskiptabankanum Glitni sem Stoðir áttu um þriðjungshlut í. Nauðasamningar Stoða voru samþykktir í júní 2009 og kröfuhafar þess tóku félagið yfir. Á árunum 2009-2016 voru nær allar eignir Stoða seldar og söluandvirðið greitt til hluthafa, auk þess sem allar veðskuldir voru greiddar upp. Hópur fjárfesta keypti meirihluta hlutafjár í Stoðum 2017 og eftir að helsta eftirstandandi eign þess, eignarhlutur í Refresco, var seldur í ársbyrjun 2018, hófu Stoðir fjárfestingastarfsemi að nýju. Helstu eignir félagsins eru eignarhlutir í Símanum, Arion banka og TM.
Stoðir | |
Rekstrarform | Hlutafélag |
---|---|
Stofnað | 1. des 1973 |
Staðsetning | Reykjavík |
Lykilpersónur | Jón Sigurðsson, stjórnarformaður
Örvar Kærnested, stjórnarmaður Sigurjón Pálsson, stjórnarmaður Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri |
Starfsemi | Fjárfestingarfélag |
Vefsíða | http://www.stodir.is/ |
Uppruna Stoða má rekja til stofnunar Flugleiða árið 1973, við sameiningu flugfélaganna Flugfélags Íslands og Loftleiða. Flugleiðum var skipt upp þann 10. mars árið 2005 þegar flugrekstur var aðskilinn undir nafni Icelandair og móðurfélagið Flugleiðir fékk nafnið FL Group. Á sama tíma var skipulagi fyrirtækisins breytt þannig að fjárfestingastarfsemi varð aðalverkefni þess. Ragnhildur Geirsdóttir tók við sem forstjóri félagsins í maí 2005.[1] Ragnhildur yfirgaf þó félagið í október 2005 og þá tók Hannes Smárason, þáverandi stjórnarformaður, við forstjórastólnum.
Aðskilnaður FL Group frá Icelandair Group varð endanlega staðreynd 16. október 2006 þegar FL Group seldi allt hlutafé sitt í félaginu.[2]. Með þessu sagði FL Group í raun skilið við þá arfleifð sem það hafði fengið frá Flugleiðum.
Fjárfestingar FL Group í flugrekstri héldu þó áfram. FL Group fjárfesti, í desember 2006, í 5,98% hlutabréfa í bandaríska fyrirtækinu AMR Corporation, móðurfélagi flugfélagsins American Airlines. Kaupverð var yfir 400 milljónir dala eða um 29 milljarðar íslenskra króna.[3] Í febrúar 2007 jók FL Group hlut sinn í 8,63% og varð þar með stærsti hluthafinn í fyrirtækinu. Bréfin lækkuðu verulega á árinu 2007 og í lok nóvember seldi FL Group stærstan hlut eignar sinnar (hélt eftir 1,1%) sem hafði þá rýrnað um 15 milljarða króna á árinu.[4] FL Group gekk frá kaupum á danska lággjaldaflugfélaginu Sterling Airlines af Fons, eignarhaldsfélagi sem var að hluta í eigu Pálma Haraldssonar, þann 23. október 2005. Þann 27. desember 2006 seldi FL Group allt hlutafé sitt í Sterling. Þá fjárfesti FL Group í Easyjet árið 2006 og seldi þann hlut 2007. FL Group átti einnig 22,4% hluta í finnska flugfélaginu Finnair um tíma.
Í apríl 2007 tilkynnti FL Group að bankinn hefði fjárfest í hlutabréfum hjá þýska bankanum Commerzbank, öðrum stærsta banka Þýskalands og einum þeim stærsta í Evrópu. Keypt voru bréf að andvirði 63,5 milljarða íslenskra króna eða 723 milljónir evra sem var um 2,99% hlutur í bankanum.[5] Seinna á árinu var hlutur FL Group aukinn í 3,24% og þá var eignin í Commerzbank næststærsta einstaka eign FL Group.[6] Enn var aukið við hlutaeign FL Group og í lok september 2007 nam hlutdeildin 4,25% að andvirði 69 milljarðar króna.[7] Í byrjun árs 2008 seldi FL Group hluti í Commerzbank, lækkaði eignarhlut sinn úr 4,3% í 2,1% og nam tap vegna gengisfalls 2,6 milljörðum króna.[8]. Í mars 2007 var tilkynnt að FL Group hefði keypt 10% hlut í breska fyrirtækinu Inspired Gaming Group PLC á 15,3 milljónir pund, jafnvirði um 2 milljarða króna.[9]
Í desember 2007 lét Hannes Smárason af störfum sem forstjóri félagsins og við tók Jón Sigurðsson þáverandi aðstoðarforstjóri í kjölfar skipulagsbreytinga á félaginu. Þá var það gert kunnugt að FL Group hyggðist auka hlutafé sitt um 64 milljarða, í 180 milljarða króna.[10][11][12]
Í febrúar árið 2008 greindu stjórnendur FL Group frá því að tap fyrirtækisins á árinu 2007 hafi numið 67,3 milljörðum króna, þar af 63,2 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi. Þetta var mesta tap íslensks fyrirtækis á einu ári en stjórnendur fyrirtækisins ráku tapið að mestu til óróa á erlendum fjármálamörkuðum á síðari hluta ársins.[13]
Í júlí 2008 var FL Group breytt í Stoðir eignarhaldsfélag. Á sama tíma var tilkynnt um áform um að Stoðir keyptu 25 milljarða króna hlut í Baugi Group.[14] Þessar breytingar voru tilraun eigenda félagsins til að endurskipuleggja rekstur þess, en á fyrsta ársfjórðungi ársins 2008 tapaði FL Group 47,8 milljörðum króna[15] og á öðrum ársfjórðungi 11,6 milljörðum,[16] samtals tæplega 60 milljörðum á fyrri helmingi ársins 2008. Helstu eignir Stoða á þessum tíma voru eignarhlutir í Glitni banka, Tryggingamiðstöðinni, Landic Property og Refresco. Kaupin á eignarhlutnum í Baugi gengu hins vegar ekki eftir.
Þann 29. september 2008 var tilkynnt að Stoðir hf. hefði óskað eftir greiðslustöðvun við Héraðsdóm Reykjavíkur[17], eftir að Seðlabankinn tilkynnti um áform sín um að ríkið keypti 75% hlut í viðskiptabankanum Glitni sem Stoðir áttu um þriðjungshlut í. Þessi áform mörkuðu upphaf hruns nær alls íslenska fjármálakerfisins haustið 2008.
Í kjölfarið tóku kröfuhafar félagið yfir og hlutafé fyrri eigenda var þurrkað út í apríl 2009. Nauðasamningar Stoða voru samþykktir af 99% kröfuhafa í júní 2009 en tilgangur nauðasamninganna var að bjarga félaginu frá gjaldþroti, svo hámarka mætti heimtur kröfuhafa.
Á árunum 2009-2016 voru allar eignir Stoða, nema eignarhlutur í Refresco, seldar og söluandvirðið greitt til lánveitenda og hluthafa, auk þess sem allar veðskuldir voru greiddar upp. Alls greiddu Stoðir um 54 milljarða til lánveitenda og hluthafa á árunum 2011-2016. Fjölmörg ágreiningsefni og dómsmál voru jafnframt til lykta leidd.
Hópur einkafjárfesta keypti meirihluta hlutafjár í Stoðum 2017 og eftir að eina eftirstandandi eign félagsins, eignarhluturinn í Refresco, var seldur í ársbyrjun 2018, hófu Stoðir fjárfestingastarfsemi að nýju. Eigið fé Stoða í árslok 2018 nam 17,5 milljörðum króna.
Helstu eignir Stoða eru eignarhlutir í Símanum (14%), Arion banka (5%) og TM (10%).
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.