íslenskur viðskiptabanki From Wikipedia, the free encyclopedia
Íslandsbanki hf. er viðskiptabanki sem starfræktur er á Íslandi. Bankinn rekur 14 útibú á Íslandi auk bankaþjónustu á netinu.[1] Bankinn var stofnaður undir nafninu Nýi Glitnir af ríkinu í október 2008 á grundvelli neyðarlaganna til þess að taka yfir íslenskar eignir og skuldbindingar Glitnis banka.[2]
Íslandsbanki hf. | |
Rekstrarform | hlutafélag |
---|---|
Slagorð | Góð þjónusta breytir öllu |
Stofnað | 2008 sem Nýi Glitnir banki |
Staðsetning | Kópavogur, Ísland |
Lykilpersónur | Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Finnur Árnason, stjórnarformaður |
Starfsemi | Bankastarfsemi |
Vefsíða | www.islandsbanki.is |
Hjá bankanum starfa um 800 manns.[3]
Árið 1990 sameinuðust fjórir bankar, Iðnaðarbanki Íslands, Alþýðubanki Íslands, Verslunarbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands undir nafninu Íslandsbanki. Árið 2000 sameinuðust svo Íslandsbanki og Fjárfestingarbanki atvinnulífsins undir nafninu Íslandsbanki-FBA en í mars 2002 var nafninu aftur breytt, þá í Íslandsbanka.
Í mars 2006 var nafni bankans breytt yfir í Glitnir banki. Árið 2003 hóf Glitnir starfsemi í Lúxemborg (undir nafninu Íslandsbanki), og árið 2004 keypti hann norsku bankana KredittBanken og BNBank. Árið 2006 opnaði bankinn skrifstofu í Shanghai í Kína og Halifax í Kanada.
Vegna alþjóðlegrar fjármálakreppu lenti Glitnir í vandræðum með fjármögnun og því leitaði bankinn til Seðlabankans um aðstoð.[5] Var um það samið að ríkið myndi eignast 75% hlut í bankanum og greiða 600 milljónir evra fyrir. Það samkomulag kom aldrei til framkvæmda heldur var rekstur Glitnis tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu og skilanefnd sett yfir rekstur hans þann 7. október 2008 samkvæmt heimild sem Fjármálaeftirlitinu var veitt með neyðarlögunum. Með sömu lögum var ríkinu veitt heimild til að stofna til nýrra fjármálafyrirtækja til að taka yfir hluta af starfsemi þeirra fyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið tæki yfir. Á grundvelli þeirrar heimildar var Nýi Glitnir banki stofnaður af ríkinu 9. október 2008[6] og tók hann við eignum um skuldbindingum hins fallna Glitnis banka nokkrum dögum síðar. Ekki varð nein röskun á rekstri útibúa eða aðgengi viðskiptavina að innlánsreikningum þrátt fyrir umskiptin. Birna Einarsdóttir var ráðin sem bankastjóri Nýja Glitnis banka en 97 starfsmenn Glitnis banka misstu vinnuna.[7]
20. febrúar 2009 skipti bankinn um nafn og varð Íslandsbanki á ný.[8]
Í lok árs 2011 keypti Íslandsbanki sparisjóðinn Byr og kreditkortafyrirtækið Kreditkort.[4]
Í kjölfar bankahrunsins var mikil óvissa um verðmat á þeim eignum og skuldbindingum sem fluttar voru úr hinum föllnu bönkum yfir í nýju bankana, þar á meðal hinn nýja Íslandsbanka. Því mati lauk 15. apríl 2009 og var þá gert ráð fyrir að það yrði gert opinbert.[9] Það var þó ekki gert heldur fóru viðræður fram milli ríkisins og kröfuhafa Glitnis banka um uppgjör vegna eignanna sem fluttar voru úr gamla bankanum yfir í þann nýja án þess að verðmatið væri gert opinbert. Í desember 2009 lauk því uppgjöri með því að kröfuhafar Glitnis banka tóku við eignarhaldi á 95% í Íslandsbanka en ríkið hélt eftir 5%. 65 milljarðar króna komu inn í bankann sem hlutafé, þar af 3,25 milljarðar frá ríkinu í samræmi við eignarhlut þess.[10] Bankasýsla ríkisins fer með eignarhlut ríkisins í bankanum og skipar einn mann í stjórn hans. Eignarhaldsfélagið ISB Holding ehf. fer með eignarhlut kröfuhafa Glitnis banka og skipar sex stjórnarmenn.[11]
Glitnir hóf málshöfðun í New York gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Lárusi Welding, Þorsteini Jónssyni og endurskoðendafyrirtækinu PricewaterhouseCoopers. Áður hafði slitastjórnin kyrrsett eignir Jóns Ásgeirs. Tilgangur málsóknarinnar er að endurheimta eignir frá þeim stefndu.[12] Dómnum var vísað frá með því skilyrði að stefndu myndu ekki mótmæla lögsögu íslenskra dómstóla, eða aðfarahæfi þeirra erlendis.[13]
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur byrjaði að selja eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka árið 2021. Almennt hlutafjárútboð var haldið frá 7. til 15. júní þar sem 35 prósenta hlutur í bankanum var seldur á 55,3 milljarða króna.[14] Sala á 22,5 prósenta eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka til viðbótar hófst með tilboðsfyrirkomulagi þann 22. mars 2022.[15]
Framkvæmd útboðsins 2022 var harðlega gagnrýnd eftir að listi yfir kaupendur var birtur. Meðal annars var gagnrýnt að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, hefði verið meðal þeirra sem fengu að kaupa eignarhlut í bankanum á verði undir markaðsgengi.[16] Þá var gagnrýnt að aðilar sem voru dæmdir í fangelsi fyrir fjármálamisferli eftir bankahrunið hefðu fengið boð um að taka þátt í útboðinu sem atvinnufjárfestar. Einnig varð umdeilt að starfsmenn eða makar starfsfólks sumra fyrirtækja sem komu að söluráðgjöf í útboðinu hefðu sjálf fengið að kaupa eignarhluta í útboðinu og ásakanir færðar fram um að um væri að ræða innherjaviðskipti.[17][18]
Skýrsla um söluna á Íslandsbanka var birt þann 26. júní 2023. Í henni var komist að þeirri niðurstöðu að Íslandsbanki hefði ekki farið að lögum við söluna í hlutabréfunum og talið var að brotin hefðu verið bæði alvarleg og kerfislæg. Þrjátíu tilboð um hlut í bankanum bárust frá starfsmönnum bankans sjálfs eða aðilum tengdum þeim og voru öll samþykkt. Bankinn var sagður hafa villt um fyrir Bankasýslunni og var dæmdur til að greiða 1,2 milljarða króna í sekt, þá hæstu í sögu Íslands.[19] Málinu var lokið með sátt milli Íslandsbanka og fjármálaeftirlits Seðlabankans og skuldbindingu um úrbætur.[20]
Birna Einarsdóttir bankastjóri sagði af sér stuttu eftir að skýrslan um hlutaútboðið var birt.[21] Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármálaráðherra þann 10. október 2023 eftir að umboðsmaður Alþingis gaf út úrskurð um Íslandsbankasöluna þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Bjarna hefði skort hæfi samkvæmt stjórnsýslulögum til að samþykkja sölu á ríkiseignum þegar faðir hans var meðal kaupenda.[22]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.