listastefna From Wikipedia, the free encyclopedia
Rómantíkin, rómantíska stefnan eða rómantíska tímabilið var listastefna sem var ríkjandi í evrópskri list og menningu frá lokum 18. aldar til miðrar 19. aldar, um það bil frá 1800 til 1850. Einkenni rómantísku stefnunnar voru áhersla á tilfinningar og einstaklingshyggju, upphafning náttúrunnar og efasemdir um iðnvæðinguna, og upphafning fortíðar með áherslu á miðaldir fremur en klassíska tímabilið.[1] Tímabilið tók við af upplýsingunni og var að sumu leyti viðbragð við iðnbyltingunni[2] og vísindalegri rökhyggju.[3] Rómantíska stefnan birtist í listsköpun; myndlist, tónlist og bókmenntum, en má líka sjá stað í sagnaritun, menntun og vísindum á þessum tíma. Rómantískir hugsuðir höfðu áhrif á þróun stjórnmálastefna á 19. öld, eins og íhaldsstefnu, frjálslyndisstefnu, róttækni og þjóðernishyggju.[4]
Stefnan lagði áherslu á tilfinningalífið sem uppsprettu fagurfræði, með áherslu á sterkar tilfinningar eins og hrifningu, ást, ótta og hrylling. Hið háleita var fagurfræðilegt viðmið sem var hægt að finna í óhamdri og villtri náttúru.[5][6] Hún leitaði fanga í alþýðumenningu og lagði líka áherslu á óundirbúna sköpun (eins og spunatónlist). Stefnan skilgreindi sig í andstöðu við upplýsinguna með áherslu sína á fornöldina og endurvakti miðaldahyggju til að flýja þéttbýlisvæðingu og iðnvæðingu sem einkenndi vestræn samfélög 19. aldar í síauknum mæli.
Helstu áhrifavaldar rómantísku stefnunnar voru þýska Sturm und drang-hreyfingin sem kom fram á síðari hluta 18. aldar og lagði áherslu á innsæi og tilfinningar,[7] og franska byltingin sem hafði áhrif á stjórnmálaskoðanir menntafólks um allan heim. Margir af fyrstu rómantísku hugsuðunum voru byltingarsinnar þótt þeir væru sjálfir af yfirstétt.[8] Rómantískir listamenn og gagnrýnendur lögðu áherslu á listamanninn sem „hetju“ sem lyfti samfélaginu á hærra og göfugra plan. Stefnan lagði þannig áherslu á frelsi einstaklingsins til að skapa út frá eigin ímyndunarafli, óháð formrænum reglum sem áður giltu um listsköpun. Sumir voru undir áhrifum frá söguhyggju í anda Hegels og trúðu því að „tíðarandinn“ væri óumflýjanlegur. Á seinni hluta 19. aldar kom raunsæið fram sem viðbrögð við rómantísku stefnunni.[9] Hnignun rómantísku stefnunnar stafaði af mörgum breytingum sem urðu á síðari hluta 19. aldar í menningu og listum, samfélagi og stjórnmálum.[10]
Sverrir Kristjánsson, sagnfræðingur, sagði um rómantísku stefnuna í grein sinni um Bjarna Thorarensen, sem nefndist: Fannhvítur svanur:
Rómantíska stefnan, svo sem hún birtist í upphafi 19. aldar, var tvíhverf í eðli sínu og öllum háttum: hún var andsvar tilfinninga og skáldlegs hugarflugs við flatbotna skynsemisstefnu og nytjatrú, tefldi fram kug og þjóðtungu gegn heimsborgarahætti 18. aldar. Í pólitískum og félagslegum efnum var hún einnig svo tvíbent, að oft brá til beggja vona, hvort hún yrði þjónusta afturhalds eða tendraði neista byltingar, enda dæmin til um hvorutveggja. Í heimi listarinnar gekk hún sér, einkum í Þýskalandi, til húðar í taumlausri einstaklingshyggju og sénídýrkun, svo hátt varð flug hennar, að hún eygði ekki lengur þann jarðneska veruleika, sem var þó hennar móðurskaut. |
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.