blandaður söngkór í Reykjavík (1957-1988) From Wikipedia, the free encyclopedia
Pólýfónkórinn var blandaður kór sem starfaði í Reykjavík frá 1957 til 1988. Stofnandi hans og stjórnandi alla tíð var Ingólfur Guðbrandsson. Kórinn hélt um 400 tónleika á ferli sínum og fór í níu söngferðir út fyrir landsteinana. Tónleikar kórsins voru margir teknir upp af Ríkisútvarpinu[1] og kórinn kom nokkrum sinnum fram í Sjónvarpi. Pólýfónkórinn var fyrstu árin skipaður milli 40 og 50 kórfélögum en síðustu árin oft yfir 100 manns. Þátttakendur voru flestir á jólatónleikum kórsins árið 1978, 150 talsins.
Mikil áhersla var lögð á flutning kirkjulegrar barokk tónlistar frá 16. og 17. öld og kórinn tókst á við stór verkefni á borð við Jólaóratoríu, Jóhannesarpassíu, Mattheusarpassíu og H-moll messu Bachs og Messías Händels. Í nokkrum tilvikum frumflutti kórinn þessi stóru verk á Íslandi og stóð fyrir óstyttum flutningi þeirra í fyrsta sinn hér á landi. Töluverð áhersla var lögð á íslenska og erlenda nútímatónlist og stóð kórinn að frumflutningi nokkurra nútímaverka hér á landi.
Á níunda hundrað kórfélaga komu fram í nafni kórsins,[2] ríflega 100 hljóðfæraleikarar og um 60 einsöngvarar. Flutt voru um 200 tónverk eftir rösklega 70 höfunda. Kórskóli Pólýfónkórsins var starfandi um árabil og kórinn gaf út nokkra tónleika á plötum og geisladiskum. Pólýfónfélagið var stofnað í maí 2006 og hefur staðið fyrir árlegum útgáfum geisladiska með flutningi kórsins.
Uppfærslur kórsins voru oft á tíðum mjög mannmargar og flóknar. Erlendir einsöngvarar og hljóðfæraleikarar voru fengnir til landsins ef þörf var talin á og ekkert til sparað að gera flutning hinna viðameiri tónverka sem áhrifamestan. Til marks um umfang tónleikahaldsins í viðamiklum uppfærslum þá voru flytjendur í fyrstu heildaruppfærslu á Mattheusarpassíu Bachs, í Háskólabíói árið 1982, ríflega 300 talsins.
Kórinn söng í svonefndum Bel canto stíl sem rekja má til ítalskrar sönghefðar og var áberandi í Evrópu á barokk tímanum.[3] Hann hæfði einkar vel þeirri tónlist sem mest áhersla var lögð á hjá kórnum. Þessi söngstíll var þó ekki vel þekktur hér á landi fyrir tilkomu kórsins.[4]
Kórinn dregur nafn sitt af orðinu pólýfón (polyphony) sem táknar marghljóma eða margradda tónlist. Það er notað um ákveðinn stíl í raddsetningu þar sem hver rödd er sjálfstæð laglína en raddir myndi ákveðna samhljóma þegar það á við. Dæmi eru svokallaðir keðjusöngvar, sem eiga að hljóma vel saman, þótt söngvarar byrji ekki á sama tíma. Margradda söngur er ólíkur samröddun (homophony) þar sem laglína er ráðandi en undirraddir hreyfast samhliða aðalrödd og mynda hljóma. Pólýfónísk tónlist nær aftur til 800 en varð áberandi á endurreisnartímanum. Hún þróaðist og varð flóknari í barokktímabilinu og er þá oft nefnd kontrapunktur. Blómatími þessarar tónlistar var 16. og 17. öldin í evrópsku tónlistarlífi hjá tónskáldum eins og Bach, Palestrina og Byrd.[5]
Ingólfur Guðbrandsson tónlistarmaður og ferðamálafrömuður, var stofnandi Pólýfónkórsins og stjórnandi alla tíð. Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1943 og stundaði nám í tungumálum við Háskóla Íslands á árunum 1944-1949. Hann hélt til Englands í tónlistarnám við Guildhall School of Music og lærði einnig ensku og hljóðfræði við University College. Hann var í framhaldsnámi í Tónlistarháskólanum í Köln og dvaldist um skeið við Söngskólann í Augsburg, auk þess sem hann lagði stund á listasögu og listfræði á Ítalíu.
Ingólfur varð kennari í Laugarnesskólanum árið 1943 og bryddaði þar upp á ýmsum nýjungum í tónlistarkennslu. Hann varð síðar námsstjóri tónlistarfræðslu hjá menntamálaráðuneytinu og starfaði sem skólastjóri Barnamúsíkskólans í Reykjavík. Ingólfur stofnaði ferðaskrifstofuna Útsýn árið 1955 og var forstjóri fyrirtækisins allt til ársins 1988. Hann stofnaði ferðaskrifstofuna Prímu og Heimsklúbb Ingólfs eftir það og starfaði á vettvangi ferðamála allt til ársins 2006.
Ingólfur hlaut margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1977 og ítölsku riddaraorðunni Cavaliere della Repubblica Italiana 1977 og 1991. Árið 1972 var hann gerður að heiðursfélaga Félags íslenskra tónmenntakennara. Í febrúar 2009 hlaut hann heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna.[6][7]
Ingólfur var ekki aðeins stofnandi og söngstjóri Pólýfónkórsins heldur var hann metnaðarfullur leiðtogi og drifkrafur kórsins alla tíð. Frá upphafi setti hann markið hátt og náði fljótt nokkurri sérstöðu með kórinn, bæði í verkefnavali og flutningi. Með tímanum urðu verkefnin viðameiri og kórinn stækkaði. Egill Friðleifsson skrifar svo um kórinn og stjórnanda hans árið 1977: „Það er erfitt að hugsa sér íslenskt tónlistarlíf án Pólýfónkórsins. Um tveggja áratuga skeið hefur hann flutt okkur mörg af fegurstu og göfugustu verkum tónbókmenntanna og með því aukið drjúgum við tónmennt þjóðarinnar. Með tilkomu Pólýfónkórsins kvað við nýjan tón — fágaðri og fegurri en áður hafði heyrst hérlendis, og víða má rekja greinileg framfaraspor í íslensku sönglífi til kórsins. Stofnandi og stjórnandi kórsins, Ingólfur Guðbrandsson, er vendipunktur söngsögu þessa lands, sem með hæfni sinni og fádæma dugnaði hefur öðrum mönnum fremur unnið sönglistinni gagn. Það hefur löngum gustað kringum Ingólf, enda hefur hann ekki alltaf þrætt alfaraleiðir. En þegar fjasið og masið og dægurþrasið hljóðnar standa verk hans eftir, óbrotgjarnir minnisvarðar um þrotlausa leit að hinum hreina tón — og verkin lofa meistarann. Hann hefur orðið öðrum hvatning til vandvirkni og aukið mönnum metnað í verkefnavali.“[8]
Pólýfónkórinn var upphaflega skipaður nemendum úr Barnamúsíkskólanum, fyrrum nemendum Ingólfs Guðbrandssonar úr Laugarnesskólanum og nokkrum öðrum félögum.[9] Jón Ásgeirsson, tónskáld, sagði í tilefni 30 ára afmælis kórsins að nemendur Laugarnesskólans undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar hafi bylt rótgrónum hugmyndum manna um söng. „Þessi einstæði barnakór varð um síðir kjarninn í Pólýfónkórnum”.[10] Kórinn hélt tvenna tónleika í Kristskirkju árið 1957, en hafði þá ekki fengið nafn. Fyrstu opinberu tónleikarnir í nafni Pólýfónkórsins voru haldnir í Laugarneskirkju þann 8. apríl 1958.[11] Þar voru á efnisskrá kirkjuleg verk. Í kórnum voru þá 41 kórfélagi á aldrinum 13 til 35 ára og honum til aðstoðar voru fimm hljóðfæraleikarar. Páll Ísólfsson lék einleik á orgel.[12] Í umsögn um tónleikana í Þjóðviljanum segir Björn Franzson; „Þessi kór á miklu og stórmerku hlutverki að gegna í íslenzku tónmenntalífi, að rækja þá tónlist, sem hann hefur valið sér sérstaklega til meðferðar, eins og nafn hans bendir til, en við þá tónlist hafa ekki enn verið tök á að leggja tilhlýðilega rækt hér á landi, þó að til hennar teljist mikið af helztu gersemum tónmenntanna.“[13] Guðni Guðmundsson fjallar um tónleikana í Alþýðublaðinu og segir; „Söngur kórsins var mjög fágaður og féllu raddirnar afar vel saman. Það er verulegur fengur að þessum kór: Tónlistin sem hann flytur er gullfalleg og flutt af næmum smekk“.[14]
Dr. Sigurbjörn Einarsson minnist fyrstu tónleika kórsins þegar hann lítur yfir farinn veg á 30 ára afmæli kórsins 1988; „Þegar Pólyfónkórinn kom fyrst fram, mátti öllum, sem unna sönglist vera ljóst, að þar var íslensk söngvaharpa stillt og knúin með nýjum hætti, af miklum listrænum metnaði, sérstæðu næmi og leikni. Verkefnaval og túlkunarmáti var nýlunda hérlendis, þjálfun radda og söngstjórn með fersku og áhrifamiklu yfirbragði. Það var mér minnisstæð reynsla að njóta hinna fyrstu tónleika kórsins. Svipur og framkoma þessa reifabarns gáfu tilefni til mikilla vona. Þær hafa ræst. Það er óhætt að segja nú, þegar barnsskórnir eru löngu slitnir og kórinn hefur öruggum skrefum sótt fram um árabil, borinn upp af eldmóði, sem engir erfiðleikar hafa náð að slæva.“[15] Páll Ísólfsson segir um kórinn eftir tónleika í Gamla bíói, árið 1959; „Ingólfur Guðbrandsson hefur þegar unnið mikið og gott starf fyrir sönglistina. Pólýfónkórinn ber þessu starfi beztan vottinn. Hann er þegar orðinn svo vel þjálfaður, að unun er að hlusta á hann flytja hin vandsungnu lög eftir meistarana frá 16. og 17. öld en á þeim tíma blómstraði kórsöngurinn og náði í mörgum greinum einna hæst.”[16]
Meðal kórsöngvara á fyrstu árum kórsins voru Þorgerður Ingólfsdóttir, Rut Ingólfsdóttir, Elísabet Erlingsdóttir, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Rúnar Einarsson, Gunnar Kvaran, Einar Sturluson og Hjalti Guðmundsson.[17]
Björn Franzson ritar gagnrýni um kórinn 1960 og segir: „Pólýfónkórinn er stofnaður haustið 1957 og er því ekki nema hálfs þriðja árs eða þar um bil. Samt er hann þegar orðinn mikilvæg stofnun í menningarlífi höfuðstaðarins, stofnun sem margir myndu sakna mjög tilfinnanlega, ef svo illa skyldi til takast, að hún legðist niður. Ber þar einkum þrennt til: Fyrst það, hversu vandlátur og smekkvís kórinn eða stjórnandi hans er í vali verkefna sinna, það annað, að kórinn flytur nær eingöngu þá tegund verðmætrar tónlistar, sem oss myndi gefast lítill kostur að hlýða á, ef hans nyti ekki við, og svo það hið þriðja, hversu hann vandar til flutnings á öllu því, er hann velur sér til meðferðar.“[18]
Árið 1961 var viðburðarríkt í starfi kórsins. Haldnir voru tónleikar í Kristskirkju í apríl og desember, í Gamla bíói og í Keflavík, auk þess sem kórinn fór í sín fyrstu utanlandsferð um sumarið, til Englands og Wales.
Á efnisskrá kórsins í Kristskirkju í apríl 1961 var meðal annars tónverkið Dauðadansinn eftir Hugo Distler og var Lárus Pálsson leikari lesari með kórnum. Jón Ásgeirsson telur að flutningur þessi hafi markað tímamót í flutningi nútímatónlistar hér á landi.[19]
Kórinn tók fyrstur íslenskra kóra þátt í alþjóðlegu kóramóti og söngkeppni sem var haldin í Wales í júlí 1961 undir nafninu "Llangollen International Musical Eisteddfod". Í keppninni varð Ísland þriðja í röðinni af 27 þátttökulöndum.[20] Kórinn kom fram í útvarpi og sjónvarpi í þessari för[21] og söng í nokkrum kirkjum, meðal annars í Pálskirkjunni í London.[22]
Árið 1962 hélt kórinn tónleika í Kristskirkju en þá voru á efnisskrá verkið Messa eftir Gunnar Reyni Sveinsson og verk eftir Johan Bach og Orlando Di Lasso. Jón Þórarinsson segir í umfjöllun um tónleikana; „Söngur kórsins er enn sem fyrr framúrskarandi vel æfður og samstilltur, áferðarfagur og mjúkur.”[23]
Kórinn hélt tónleika í Gamla bíói og á Hótel Sögu í apríl 1963. Flutt var veraldleg tónlist frá 16. og 17. öld, nútímatónlist og negrasálmar frá 20. öld. Um þessa tónleikar segir Jón S. Jónsson; „Það er engum blöðum um það að fletta að Pólýfónkórinn er okkar vandaðasti og fágaðasti kór. Raddirnar eru einstaklega vel þjálfaðar og þá sérstaklega sópranarnir. Kórinn er mjög tónviss, eins og bezt kom fram í lögum Gesualdos og Þorkels. Íslenzkir söngstjórar (að mér meðtöldum) gætu mikið lært af Ingólfi Guðbrandssyni um meðferð og þjálfun radda.“[24] Árið 1964 hélt kórinn ferna tónleika í Reykjavík og eina í Akureyrarkirkju í samvinnu við Tónlistarfélag Akureyrar. Fluttar voru mótettur frá 16. öld, sálmalög í raddsetningu J. S. Bach, nútímatónlist og þjóðlög í raddsetningu Gunnars Reynis Sveinssonar og kaflar úr Jólaóratóríu Bachs, með einsöngvurum og kammerhljómsveit. Í júní söng kórinn í Kristskirkju á Listahátíð í Reykjavík og í september á vegum Musica Nova. Leifur Þórarinsson segir eftir tónleika í Kristskirkju í apríl; „Söngur Pólýfónkórsins vekur ávallt verðskuldaða athygli, þá er hann lætur heyra í sér hér í bæ. Hljómleikar hans undanfarin sex eða sjö ár hafa orðið öllum tónlistarunnendum mikið fagnaðarefni, því þar hefur ávallt mátt heyra vandaða og oft eftirminnilega efnisskrá, flutta af góðri smekkvísi og áhuga. Söngstjórinn Ingólfur Guðbrandsson á hér fyrst og fremst skildar þakkir fyrir, enda má segja, og þar er ekki verið að draga úr afrekum annarra dáindismanna, að starf hans hafi valdið straumhvörfum í söngmálum hér á landi.“[25]
Á vortónleikum kórsins í Kristskirkju árið 1965 flutti kórinn eitt af höfuðverkum kirkjutónlistarinnar Stabat Mater eftir Palestrina og var þetta fyrsti flutningur á verkinu hér á landi. Kórinn var tvískiptur í verkinu og segir Þorkell Sigurbjörnsson í umsögn um tónleikana að flutningur kórsins á því hafi verið þrekvirki.[26] Á sömu tónleikum var einnig kynnt hér á landi verkið Agnus Dei eftir Þorkel Sigurbjörnsson.[27] Kórinn flutti Jólaóratóríu Bachs í Kristskirkju ásamt kammerhljómsveit í desember sama ár. Árið 1966 hélt kórinn tónleika í Gamla bíói þar sem flutt var tónlist frá 16. og 17. öld ásamt nýrri tónlist, innlendri og erlendri.
Tíu ára afmælisárið, 1967, var viðburðarríkt fyrir kórinn. Í janúar söng hann Stabat Mater eftir Szymanowski með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi á þeim tónleikum var Bohdan Wodiczko. Í mars sama ár réðst hann svo í flutning Jóhannesarpassíu Bachs með kammerhljómsveit og fimm einsöngvurum. Tónleikarnir voru haldnir í Kristskirkju og í Laugardalshöllinni. Atli Heimir Sveinsson segir í gagnýni um tónleikana; „Það er mikill viðburður í okkar fábreytta menningarlífi að Jóhannesarpassía Bachs skuli hafa verið flutt hér um páskana. Verkið er eitt mesta afrek í allri menningarsögu vesturlanda og kristninnar.“[28]
Í júlí 1967 hélt kórinn til Belgíu til að taka þátt í Europa Cantat III söngmótinu. Europa Cantat var stofnað árið 1961 og fyrsta mótið var haldið í Passau í Þýskalandi. Þetta var önnur utanlandsferð kórsins og hélt hann sjálfstæða tónleika í Maison de la Culture í Namur auk þess að syngja á kóramótinu. Um 45 félagar voru með í söngförinni. Fyrir utanlandsferðina voru haldnir tónleikar í Austurbæjarbíói með sömu efnisskrá og sungin var í Belgíu.[29] Síðustu tónleikar á afmælisárinu voru haldnir í Bifröst í Borgarfirði að tilstuðlan Tónlistarfélags Borgarfjarðar.
Árið 1968 var ráðist í að frumflytja H-moll messu Bachs á Íslandi, nær óstytta. Kórinn var þá skipaður 62 kórfélögum en auk hans komu fram fjórir einsöngvarar og 30 manna hljómsveit.[30] Halldór Haraldsson segir í umsögn um tónleikana: „Það er ekki lítil ákvörðun að ráðast í það stórvirki að flytja H-moll messu Bachs, þessa svimandi stóru smíð, sem oft er litið á eins og eitt af mikilfenglegustu afrekum mannsandans, eiginlega eitt af furðuverkum veraldar. Það hlýtur því að hafa tekið forvígismann þessa fyrirtækis svolítinn tíma að taka slíka ákvörðun, mikla íhugun, langan og strangan undirbúning. En þetta stóra skref var stigið og það á undraverðum tíma. Á aðeins fjórum mánuðum var verkið æft og síðan flutt hér í fyrsta sinn, 9. apríl að Kristskirkju, Landakoti. Geta má þess að erlendis tekur yfirleitt heilt ár að undirbúa þetta verk.“[31]
Árið 1969 hélt kórinn tvenna tónleika í Kristskirkju. Á þeim fyrri, sem haldnir voru í maí, voru verk eftir Distler, Palestrina, Shütz og Victoria, en á jólatónleikunum var Jólaóratóría Bachs á dagskrá, með hljómsveit og einsöngvurum.
Á norrænu kirkjulistarmóti í Kristskirkju 1970 frumflutti kórinn meðal annars verkið Requiem eftir Pál P. Pálsson ásamt því að flytja verk eftir Hallgrím Helgason. Kórinn fór í sína þriðju utanlandsferð til Austurríkis í júlí, en þar hélt hann sjálfstæða tónleika í Dómkirkjunni í Graz, í tengslum við Europa Cantat IV. Áður hélt hann tónleika með sömu efnisskrá í Kristkirkju. Sungin var kirkjuleg tónlist frá 15.-17. öld, sálmalög úr Mattheusarpassíunni og íslensk tónlist.
Árið 1971 flutti kórinn Magnificat eftir Monteverdi ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói. Stjórnandi þeirra tónleika var Bohdan Wodiczko. Ári síðar frumflutti kórinn Mattheusarpassíu Bachs ásamt barnakór og tveimur kammersveitum í Háskólabíói. Jólaóratoría Bachs var svo flutt í Háskólabíói í desember sama ár.
Árið 1973 markaði tímamót í sögu kórsins því auk þess að halda tónleika í Kristskirkju, Austurbæjarbíói og Skálholtskirkju fór kórinn í tónleikaferð til Danmerkur og Svíþjóðar og söng inn á sína fyrstu hljómplötu. Upptakan var gerð hjá sænska útvarpinu í Stokkhólmi í júní og fyrirtækið RCA gaf plötuna út (sjá YSVL 1-526). Í tilefni útgáfunnar skrifar Haukur Ingibergsson í Morgunblaðið: „Það er sjálfsagt að bera í bakkafullan lækinn að bæta lýsingarorðum við þau, sem fallið hafa á undanförnum árum um söng Pólýfónkórsins. Hann er í einu orði sagt frábær; stílhreinn, fagur, hljómmikill og nákvæmur. Er þar fyrst og fremst að þakka söngstjórn Ingólfs Guðbrandssonar. Er ég ekki alveg viss um að allir geri sér grein fyrir þeirri miklu þakkarskuld, sem íslenzkt tónlistarlíf stendur í við Ingólf, því að ótrúlega elju, vinnusemi og áhuga þarf til að halda saman svo stórum kór sem Pólyfónkórinn er árum saman, jafnvel þótt ekki sé tekið með í reikninginn það háa listræna plan, sem kórinn hefur alla tíð verið á. Það er því ekki að ástæðulausu, að þessi plata skula koma út á alþjóðamarkaði.“[32] Guðmundur Emilsson skrifar um kórinn: „Pólýfónkórinn, undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar, hefur á 16 ára starfsferli sínum verið einhver glæsilegasti fulltrúi íslenzks tónlistarlífs svo sem ummæli innlendra og erlendra gagnrýnanda bera vott um. Kórinn hefur nær undantekningarlaust gert viðfangsefnum sínum, sem vel flest hafa verið brattgeng, dæmalaust góð skil og þannig í raun fegrað og bætt mannlífið hér norður frá. Mun það seint fullþakkað.“[33]
Árið 1974 flutti kórinn Jóhannesarpassíu Bachs í Háskólabíói ásamt kammerhljómsveit og sjö einsöngvurum. Þetta var fyrsti heildarflutningur á verkinu hér á landi. Kórinn var þarna skipaður 100 félögum og hljómsveitin taldi 30 hljóðfæraleikara, undir forystu Rutar Ingólfsdóttur. Ingólfur stjórnaði flutningnum, en einsöngvararnir voru Michael Goldthorpe, tenór, sem söng hlutverk guðspjallamannsins, Sigurður Björnsson, tenór, sem söng aríur, Malcolm King, bassi, sem söng Pílatus og aríur, Halldór Vilhelmsson, bassi, sem fór með hlutverk Krists, Ingimar Sigurðsson, bassi, í hlutverki Péturs, Elísabet Erlingsdóttir, sópran, sem söng aríur og Ruth L. Magnússon, altó, sem söng aríur.[34]
Í mars 1975 flutti kórinn svo Messías eftir Händel í Háskólabíói. Tónleikunum var vel tekið og segir Jón Ásgeirsson í Morgunblaðinu: „Tónleikar Pólýfónkórsins hafa ávallt verið gæddir galdri og stundum all mögnuðum, en aldrei eins miklum og nú, við flutning Messíasar. Frammistaða kórsins var að öllu leyti góð, víða stórglæsileg, hápunktur 18 ára starfs og stórsigur fyrir Ingólf Guðbrandsson sem kórstjóra.“[35] Jón Kristinn Cortes skrifar í Vísi: „Ingólfur Guðbrandsson má vera stoltur af Pólýfónkórnum. Margar perlur tónbókmenntanna hefur kórinn flutt fyrir landsmenn, en ég held að aldrei hafi honum tekist eins vel í heildina eins og með Messías. Að geta æft og haldið saman 150 manna kór er þrekvirki í sjálfu sér, sérstaklega ef þess er gætt, að minnstur hluti kórfólksins er tónlistarmenntaður, og einnig verður að hrósa kórnum fyrir áhuga og elju, því mörg kvöldstundin hefur farið í æfingar, hefi ég aldrei séð eins stífa æfingatöflu og hjá Pólýfónkórnum fyrir þetta verk.“[36] Kórinn flutti Messías aftur í St. Cuthbert's Parish Church í Skotlandi í maí sama ár, ásamt einsöngvurum og hljóðfæraleikurum úr skosku útvarpshljómsveit BBC.
Í apríl 1976 flutti kórinn Messu í H-moll eftir J. S. Bach í Háskólabíói. Þetta var í fyrsta sinn sem þetta stórvirki Bachs er flutt í heild sinni hér á landi. Í kórnum voru 145 manns og kammerhljómsveitin var skipuð 33 hljóðfæraleikurum. Einsöngvarar að þessu sinni voru Guðfinna D. Ólafsdóttir, Ásta Thorstensen, Ruth L. Magnússon, Jón Þorsteinsson, Ingimar Sigurðsson og Halldór Vilhelmsson. Rut Ingólfsdóttir var konsertmeistari hljómsveitarinnar.[37]
Á tuttugu ára afmælisári kórsins 1977 bar margt til tíðinda, ekki síst Ítalíuferð kórsins í júní. Í apríl voru settir upp hátíðartónleikar í Háskólabíói þar sem flutt voru verkin Gloria eftir Vivaldi, Magnificat eftir Bach og Gloria eftir Poulenc. Söngvarar voru um 150 og hljóðfæraleikarar um 50 talsins.[38] Tónleikar þessir þóttu mjög vel heppnaðir. Jón Kristinn Cortes segir að tónleikarnir hafi í alla staði tekist hið besta,[39] Sigurður Steinþórsson segir að þeir hafi verið glæsilegir og „mikilfenglegir“[40] og Egill Friðleifsson segir; „Í upphafskaflanum „Gloria in exelsis Deo” komu þegar fram helstu og bestu kostir kórsins, fegurð og samræmi í tærum hljómunum, mýkt og sveigjanleiki við mótun hendinga og hnitmiðuð framsetning. Má segja að þessi lýsing eigi við um frammistöðu kórsins á tónleikunum í heild. [..] Undirritaður átti þess kost að hlýða á síðasta konsertinn á laugardaginn. Það var ekki aðeins að hvert einasta sæti væri setið, heldur var drjúgt af fólki í göngum og á tröppum hússins, og fagnaðarlæti slík að varla finnst hliðstæða. Mun svo einnig hafa verið dagana á undan.“[41] Tónleikarnir voru teknir upp og hluti þeirra gefinn út á plötu (sjá P.001).
Kórinn hélt síðan tvenna tónleika í Háskólabíói í júní í aðdraganda Ítalíuferðar hans. Á verkefnaskrá þeirra fyrri voru Gloria eftir Vivaldi og Magnificat eftir Bach. Einnig var fluttur Konsert í d-moll eftir Bach, en þar léku María Ingólfsdóttir og Rut Ingólfsdóttir, konsertmeistari, einleik á fiðlu.
Á síðari tónleikunum var óratórían Messías eftir Händel flutt (sjá P.002-4). Öll þessi verk voru síðan flutt á tónleikaferð kórsins á Ítalíu. Einsöngvarar í Ítalíuförinni voru Kathleen Livingstone, Ruth L. Magnússon, Neil Mackie, Michael Rippon, Halldór Vilhelmsson, Margrét Bóasdóttir og Hjálmar Kjartansson. Töluvert var fjallað um söngför kórsins til Ítalíu[42] og þótti hún afar vel heppnuð. Sungið var á sjö stöðum, meðal annars í Markúsarkirkjunni í Feneyjum og Santa Croce í Flórens.
Árið 1978 flutti kórinn Jólaóratóríu Bachs í Háskólabíói með kammersveit og fjórum einsöngvurum. Sá flutningur var gefinn út á tveimur geisladiskum árið 2012. Í apríl ári síðar var flutt kirkjuleg tónlist í Kristskirkju og farið með þá efnisskrá í söngför til London þar sem sungið var í St. Lawrence Jewry kirkjunni.[43] Á efnisskránni voru meðal annars verkin Ave Verum eftir Mozart og verk eftir Bach, Palestrina og David.[44] Í desember sama ár voru haldnir jólatónleikar í Háskólabíói. Á efnisskránni voru Magnificat og Svíta nr. 4 fyrir hljómsveit eftir Bach ásamt köflum úr Messíasi eftir Händel.
Í apríl 1980 var Litla helgimessan (Petite Messe Solennelle) eftir Rossini flutt í Háskólabíói og ári síðar flutti kórinn Jóhannesarpassíu Bachs í heild sinni í Háskólabíói með kammerhljómsveit og átta einsöngvurum.
Flutningur passíunnar hlaut lofsamlega dóma og segir Leifur Þórarinsson í umsögn um tónleikana; „Ég held [..] að sjaldan eða aldrei hafi heyrst hér betri kórsöngur, í það minnsta man ég ekki eftir því. Jafnvægi og blæfegurð raddanna var með ólíkindum og samstillingin eins og best verður á kosið. Auðvitað má fyrst og fremst þakka öruggum smekk og kunnáttu stjórnandans, Ingólfs Guðbrandssonar, sem eftir mínu viti er kórstjóri á heimsmælikvarða. Hvernig hann dró fram aðalatriðin, hér í sópran, þar í innrödd eða bassa, án þess að ofgera nokkru sinni, var ótrúlega fallegt í stóru kórköflunum. Spennan í fjölskrúðugri gagnröddun Bachs var alltaf skýr og átakalaus, fullkomlega eðlileg. Þetta finnst mér þrekvirki, sérstaklega þegar tillit er tekið til hvað kórinn er fjölmennur og að hann er að mestu leyti skipaður áhugamönnum.“[45] Jón Ásgeirsson segir; „Pólýfónkórinn er ein merkasta tónlistarstofnun okkar Íslendinga og eftir aðeins aldarfjórðungsstarf hefur kórinn þegar lagt svo mikið til íslenskrar menningar að aðeins verður jafnað við Sinfóníuhljómsveit Islands. Framlag hans er og merkilegt fyrir þá sök, að fjárhagslega hefur þessi starfsemi, með smáskitlegum undantekningu, verið á ábyrgð kórsins og stjórnanda hans. Stofnun Pólýfónkórsins markar tímamót í flutningi kórtónlistar hér á íslandi, bæði hvað snertir söng og val viðfangsefna og hefur stjórnandi kórsins með atorku og fórnfýsi náð árangri, sem ekki aðeins telst frábær hér uppi á okkar kalda landi, heldur og meðal frægra menningarþjóða.“[46]
Árið 1982 var viðburðarríkt í sögu kórsins. Ekki aðeins var sett upp stærsta uppfærsla kórsins fram að þeim tíma, heildarflutningur á Mattheusarpassíu Bachs, heldur fór kórinn í velheppnaða söngför til Spánar, að undangengnum tónleikum í Háskólabíói. Starfsárinu lauk svo með jólatónleikum í Kristskirkju.
Í flutningi á Mattheusarpassíunni fékk kórinn, sem þá var skipaður 133 manns, til liðs við sig Hamrahlíðarkórinn með 78 félaga og Kór Öldutúnsskóla með 41 félaga. Hljóðfæraleikarar og einsöngvarar voru 50 samtals. Tónleikunum var afar vel tekið og sagði Thor Vilhjálmsson í umsögn sinni: „Það er árvisst undur og kraftaverk að Ingólfur Guðbrandsson ofurhugi flytur okkur hin stærstu kórverk tónbókmenntanna, með sínu vaska liði; og hefur komið sér upp dýrlegu hljóðfæri sem er Pólýfónkórinn, hefur náð að virkja músíkást hugsjónafólks sem leggur á sig ómælda vinnu og sækir æ hærra. Og nú síðast Mattheusarpassían eftir Bach. Þetta gerðist þann dag sem á að vera leiðinlegasti dagur ársins, að sögn; föstudaginn langa. Mikið var gaman þennan dag.“[47] Sigurður Þór Guðjónsson segir: „Mér fallast satt að segja hendur að skrifa um fyrsta flutning Mattheusarpassíunnar í heild á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að þetta verk sé kannski heilagasta tónlist sem sköpuð hefur verið. Þó hafði ég aldrei heyrt verkið í tónleikasal. En nú á föstudaginn langa rann upp sú langþráða stund. Og ég hika ekki við að telja þennan flutning einhverja fegurstu, einstæðustu og upphöfnustu athöfn sem ég hef lifað. Þetta var allt eins og í öðrum heimi.“[48]
Jón Ásgeirsson segir í umsögn sinni; „Það tekur nærri fjóra klukkutíma að flytja allt verkið og með rétt mátulegu kaffihléi, stóð flutningur þess frá því kl. 2 e.h. til 7 um kvöldið eða nærri því og fyrir undirritaðan var þetta aðeins stundarkorn [..]. Ingólfur Guðbrandsson, stjórnandi þessa flutnings, leitaði fanga víða og sparaði hvergi til svo flutningur verksins yrði sem mestur og glæsilegastur. Umhverfis kórinn hans, Pólýfónkórinn, hafði hann skipað Barnakór Öldutúnsskóla, Egils Friðleifssonar, Kór Menntaskólans við Hamrahlíð sem Þorgerður Ingólfsdóttir stjórnar, tveimur kammerhljómsveitum, þar sem saman sátu efnilegir tónlistarnemendur og bestu tónlistarmenn þjóðarinnar, undir handleiðslu Rutar Ingólfsdóttur og Þórhalls Birgissonar, ásamt erlendum tónlistarmönnum, gambaleikaranum Alfred Lessing, söngvurunum Michael Goldthorpe, Ian Caddy, Simon Waughan og íslenskum söngvurum, Elísabetu Erlingsdóttur, Sigríði Ellu Magnúsdóttur og efnilegum söngvurum eins og Kristni Sigmundssyni, Unu Elefsen, Margréti Pálmadóttur og Ásdísi Gísladóttur. Þessum stóra hópi ágætra tónlistarmanna stýrði Ingólfur Guðbrandsson til fangbragða við erfitt og krefjandi tónverk meistara Bach, með þeim árangri að telja verður þessa tónleika tímamót í sögu tónleikahalds á Íslandi og tónleikana í heild mikinn listasigur fyrir fullhugann, bardagamanninn og listamanninn Ingólf Guðbrandsson.“[49] Ríkisútvarpið tók tónleikana upp og kórinn gaf þá út á fjórum hljómplötum árið 1983 (sjá P.005-8).
Fyrir ferð kórsins og kammersveitar til Spánar sem farin var í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu voru haldnir tónleikar í Háskólabíói með sömu efnisskrá og sungin var í ferðinni. Þar bar til tíðinda að frumfluttir voru hlutar úr Óratóríunni Eddu eftir Jón Leifs. Jón Ásgeirsson segir um þann flutning: „Í þessum fáu tónhendingum úr Eddu Jóns Leifs sem Pólyfónkórinn flutti undir stjórn Ingólfs Guðbrandssonar, sá ég ægiþrunginn svip þrumuguðsins Þórs, stórbrotna heimsmynd heiðindómsins, samblædda sögu manns og foldar, frumþætti lífshelgunar, sem er sameiginlegur grunnur allra trúarbragða.“[50] Kaflarnir úr Eddu höfðu mikil áhrif á tónleikagesti á Spáni en á verkefnaskránni þar voru auk þeirra Gloria eftir Poulenc, Vatnamúsík eftir Händel, verk eftir Buxtehude, tveir fiðlukonsertar þar sem Unnur María Ingólfsdóttir og Þórhallur Birgisson léku einleik og kórar úr Messíasi. Tónleikar voru haldnir á fimm stöðum; í Malaga, Marbella, Nerja, Granada og Sevilla. Arnaldur Indriðason sem þá var blaðamaður á Morgunblaðinu fylgdi kórnum á ferðalaginu og skrifar nokkuð ítarlega ferðalýsingu.[51] Upptaka af tónleikum á Spáni var gefin út árið 2007 (sjá POL.013).
Jólatónleikarnir 1982 voru haldnir í Kristkirkju og nú bar svo við að Hörður Áskelsson var stjórnandi á tónleikunum. Sigurður Steinþórsson segir í umsögn sinni; „Frá því er skemmst að segja, að kórinn söng dæmalaust vel og hreint og jafnvægi var næsta fullkomið milli raddanna.“[52]
Árið 1983 hélt kórinn jólatónleika í Kristskirkju, með þátttöku nemenda Kórskólans. Flutt voru verk eftir Schütz, Bach, Schubert, Mendelsohn, Róbert A. Óttósson og Sigvalda Kaldalóns, auk þekktra jólalaga frá Bretlandi og meginlandinu. Einsöngvarar með kórnum voru Kristinn Sigmundsson og Una Elefsen.
Í maí 1984 stjórnaði Ingólfur flutningi kórsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói á Ave verum eftir Mozart, Te deum eftir Verdi og Stabat Mater eftir Rossini. Einsöngvarar voru Denia Mazzola, Claudia Clarich, Paolo Barbicini og Carlo de Bartoli, en þau komu gagngert frá Ítalíu til að taka þátt í þessum flutningi. „Þetta voru frábærir tónleikar og stjórnandi og flytjendur voru hylltir í lokin.“ sagði Jón Ásgeirsson tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins eftir tónleikana.[53]
Þann 23. mars 1985 héldu kórinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands aðra tónleika sína undir stjórn Ingólfs. Þetta voru hátíðartónleikar á 300 ára afmælisdegi Bachs og tekist á við stórvirki hans; H-moll messuna.
ⓘ |
Í gagnrýni Morgunblaðsins segir; „Í heild voru þetta glæsilegir tónleikar og verðugir minningu Bachs og með þeim menningarblæ er ávallt hefur mótað starf Ingólfs Guðbrandssonar og Pólýfónkórsins.“[54] Rögnvaldur Sigurjónsson segir; „Það má teljast til mikilla afreka að æfa þetta margslungna meistaraverk, með leikmenn eins og söngfólk í kórum hér á landi óneitanlega er. En Ingólfur lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna og tókst flutningurinn ótrúlega vel þegar á allt er litið.“[55] Tónleikarnir voru hljóðritaðir og gefnir út af Pólýfónfélaginu árið 2007 (sjá POL.011/12).
Í júlí hélt kórinn síðan með H-moll messuna í söngför til Ítalíu, ásamt ríflega 30 manna kammersveit. Sungið var á opnunarhátíð tónlistarhátíðar í Assisi, í kirkju San Ignazio í Róm, í Santa Croce kirkjunni í Flórens og í Markúsarkirkjunni í Feneyjum.
Í desember 1986 leiddu kórinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands enn saman hesta sína og fluttu Messías eftir Händel í hinni nývígðu Hallgrímskirkju. Um var að ræða fyrsta heildarflutning verksins á Íslandi. Í umfjöllun um tónleikana segir; „Í bráðum þrjátíu ár hefur Pólýfónkórinn staðið fyrir stórtíðindum í flutningi kórtónlistar hér á landi, auk þess sem söngtækni sú sem einkennt hefur kórinn frá upphafi markaði tímamót í söngsögu Íslendinga. [..] Stjórnandanum, Ingólfi Guðbrandssyni, verður seint þakkað framlag hans til söngmenntar í þessu landi. Áheyrendur þakka honum með því að sækja tónleika kórsins af hreinni ástríðu og þörf. Þar í er fólgin sú viðurkenning að starf Ingólfs og Pólýfónkórsins hafi ávaxtast eins og segir í dæmisögunni og sannaðist í glæsilegum flutningi Messíasar að þessu sinni.“[56] Tónleikar þessir voru hljóðritaðir og gefnir út árið 1987 bæði í heild sinni (CD) og á hljómplötu með völdum köflum (sjá POL.008/9 og POL.010). Kórinn söng Messías aftur í Hallgrímskirkju í desember 1987 með kammersveit.
Síðustu tónleikar Pólýfónkórsins voru haldnir í nóvember 1988 í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Fyrirhugað var að halda sönglistahátíð kórsins í apríl í tilefni 30 ára afmælis hans, en af því varð ekki vegna veikinda stjórnandans. Á efnisskránni í nóvember voru verk sem spanna um 400 ára tónlistarsögu en höfundar voru Monteverdi, Bach, Verdi, Bizet, Rossini og Orff.
ⓘ |
Einsöngvarar voru Ásdís Gísladóttir, Elísabet Eiríksdóttir, Elísabet Erlingsdóttir, Erna Guðmundsdóttir, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Gunnar Guðbjörnsson og Kristinn Sigmundsson. Tónleikarnir fengu góðar viðtökur hjá áhorfendum jafnt sem gagnrýnendum.[57][58]Þeir voru teknir upp og gefnir út af Pólýfónfélaginu árið 2008 (sjá POL.015/16).
Með þessum tónleikum lauk löngum og farsælum ferli Pólýfónkórsins.
Í tilefni 30 ára afmælis kórsins skrifuðu nokkrir tónlistarmenn og gagnrýnendur greinar um vegferð kórsins og áhrif hans á íslenskt tónlistarlíf. Jón Ásgeirsson segir:
„Á þeim tíma, þegar Pólýfónkórinn var að kristallast í mótandi höndum Ingólfs, fengust íslenskir kórar með örfáum undantekningum aðeins við flutning á rómantískri tónlist, nefnilega þýsk-danskri söngtónlist, sem er ofur eðlilegt, því flestir fyrstu tónlistarmenn Íslendinga leituðu aðallega menntunar í Danmörku og Þýskalandi. Tvær heimsstyrjaldir styrktu vissa menningarlega stöðnun og einangrun Íslendinga, svo að það var því ekki fyrr en seinni darraðardansinum lauk að tími gafst til að endurmeta allt er laut að mennt og menningu. Breyttur heimur eftirstríðsáranna kallaði á ný gildi og varðandi okkur Íslendinga tókst Ingólfi Guðbrandssyni að sameina þessa nýju heimssýn og starf sitt við Pólýfónkórinn með nýjum söngstíl, nútímatóntúlkun og síðast en ekki síst nýstárlegum viðfangsefnum. Með öðrum orðum, Ingólfi tókst að kippa kórmennt þjóðarinnar upp úr ládeyðu ættjarðarsöngsins og leggja þar með grunninn að nútímalegum kórsöng er átti sér samsvörun við það besta sem gerðist í evrópskri kórmennt samtíðarinnar. [..] Íslensk nútímatónverk voru ekki meðal vinsælustu verkefna íslenskra kóra á þessum tíma og á Pólýfónkórinn því nokkurn hlut að því máli er varðar þróun nútímakórtónlistar, bæði með flutningi erlendra og íslenskra kórverka. Má þar til nefna verk eftir höfunda eins og Jón Leifs, Hallgrím Helgason og fleiri, en Þorkell Sigurbjörnsson, Gunnar Reynir Sveinsson og Páll P. Pálsson sömdu nokkur trúarleg kórverk sérstaklega fyrir Pólýfónkórinn.“[59] |
Egill Friðleifsson segir í grein í Morgunblaðinu;
„Um þessar mundir er þess minnst að þrír áratugir eru liðnir frá því að Pólýfónkórinn hóf fyrst upp raust sína. Stofnun kórsins er einn af vendipunktum íslenskrar tónlistarsögu. Þar kvað við alveg nýjan tón, fágaðri og fegurri en áður hafði heyrst. En það var ekki aðeins söngurinn, verkefnavalið var einnig nýstárlegt, þar sem meistarar fjölröddunarinnar voru fyrirferðarmiklir. Undirritaður minnist margra ógleymanlegra stunda frá fyrstu árunum, en þá fóru tónleikar kórsins gjarnan fram í Kristskirkju við Landakot, sem er frábært hús fyrir kórsöng. Tær tónlist þeirra Orlandi Di Lasso, Palestrina og fleiri snillinga hljómaði líkt og opinberun í fáguðum flutningi kórsins. Raunar hef ég aldrei orðið samur maður eftir að hafa heyrt í kórnum í fyrsta sinn. Hér er ekki um ýkjur að ræða. Silfurtær og upphafinn söngur kórsins umbylti gjörsamlega öllum fyrri hugmyndum mínum um söngmáta og söngstíl og ég hygg að svo hafi verið um fleiri. Seinna stækkaði kórinn og réðst í stærri verkefni, en kórinn hefur frumflutt hér á landi mörg af helstu stórverkum tónbókmenntanna. Stofnandi og stjórnandi kórsins „meistari hins hreina tóns“, Ingólfur Guðbrandsson, hefur unnið þrekvirki með kórnum. Hann getur nú með stolti litið yfir farinn veg og glaðst yfir góðum sigrum. Ingólfur hefur ekki alltaf siglt lygnan sjó og oft hefur gustað í kring um hann. En dugnaður hans, hæfni og úthald ásamt takmarkalausum listrænum metnaði hefur dugað til að stjarna Pólýfónkórsins skín skært á himni hins íslenska listalífs [..].“[60] |
Í tengslum við starfsemi kórins var Kórskóli Pólýfónkórsins starfræktur frá 11. janúar 1971 og allt til ársins 1988. Markmið hans var að kenna áhugasömu fólki raddbeitingu, söng, heyrnarþjálfun, tónheyrn, taktæfingar og nótnalestur.[61] Um var að ræða 10 vikna námskeið og var nemendum skipt upp í byrjenda- og framhaldshóp. Nemendur voru í kringum 100 talsins flest árin.[62] Meðal kennara skólans voru Ruth L. Magnúsdóttir, Einar Sturluson, Lena Rist, Herdís Oddsdóttir, Sigurður Björnsson, Margrét Pálmadóttir, Elísabet Erlingsdóttir, Már Magnússon, Helga Gunnarsdóttir, Garðar Cortes, Jón Karl Einarsson, Kristján Jóhannsson, Friðrik Guðni Þorleifsson og Ingólfur Guðbrandsson. Efnilegir nemendur áttu þess kost að sækju um inngöngu í kórinn og stundum tóku þeir þátt í flutningi kórsins, til dæmis á tónleikum í Kristskirkju í maí 1971. Gunnar Björnsson segir í umfjöllum um tónleikana:
Snemma á þessu ári gekkst Pólýfónkórinn fyrir stofnun Kórskólans, til eflingar starfsemi sinni og söngmennt í borginni almennt. Var þátttaka mjög góð. Í Kristskirkju á sunnudaginn var gaf að líta árangur þessa framtaks. Hann sýndi sig að vera í einu orði sagt stórkostlegur. Þarna virðist vera um algerlega einstakan árangur að ræða. Kórskólinn hefur þegar lyft grettistaki. Það er dásamlegt að hugsa til þess, að á svo stuttum tíma skuli svo vel takast að æfa upp stóreflis kór og undirbúa myndarlega hljómleika. Margir þeirra (og líklega flestir), sem þarna komu fram, hafa í upphafi verið ólæsir á nótur og haft litla sem enga þjálfun í söng. En efniviðurinn hefur reynzt nægilega góður til þess að tryggja afbragðs eftirtekju.[63] |
Fyrsti formaður Pólýfónkórsins var Stefán Þengill Jónsson, múrari og söngkennari. Rúnar Einarsson, rafvirki, tók við hlutverki formanns 1961 og gegndi því í sextán ár. Friðrik Eiríksson, matreiðslumeistari, tók við keflinu 1977 og var formaður kórsins allt til ársins 1985. Kristján Már Sigurjónsson, verkfræðingur, var formaður síðustu starfsár kórsins.
Pólýfónfélagið var stofnað í maí 2006. Formaður var kosinn Ólöf Magnúsdóttir, en aðrir í stjórn voru Halldór Vilhelmsson, Hákon Sigurgrímsson, Guðmundur Guðbrandsson, Hekla Pálsdóttir og Kolfinna Sigurvinsdóttir. Við fráfall Halldórs Vilhelmssonar árið 2009 tók Áslaug Ólafsdóttir sæti hans í stjórn.
Félagið var stofnað með það að markmiði að varðveita margvísleg gögn, nótur og útgefið efni Pólýfónkórsins ásamt því að tryggja varðveislu á tónböndum í safni Ríkisútvarpsins með upptökum af söng kórsins. Félagið hefur þegar gefið út 9 geisladiska með söng kórsins frá 2007 og haft með höndum kynningu þeirra og dreifingu. Félagið hefur einnig styrkt tengsl milli fyrrum kórfélaga með samkomum, kynningum og utanlandsferðum.
Gefnar voru út sex hljómplötur með flutningi kórsins á árunum 1973-1986. Pólýfónfélagið hefur síðan staðið að útgáfu á upptökum sem gerðar voru með kórnum. Alls hafa komið út 15 útgáfur með flutningi Pólýfónkórsins:
Á 30 ára afmælisári kórsins, árið 1987 var gefin út bókin Í ljósi líðandi stundar. Pólýfónkórinn 1957-1987. Kórinn gaf bókina út og söfnun efnis og umsjón útgáfu var í höndum Guðmundar Guðbrandssonar og Sigrúnar Hlínar Sigurðardóttur. Í bókinni er starf kórsins í 30 ár rakið í máli og myndum, umsagnir og kveðjur birtar og blaðaumfjöllun um einstaka tónleika, verkefnaskrá kórsins á tímabilinu og listi yfir söngvara, aðstoðarfólk og kórfélaga. Í bókinni eru myndir og frásagnir af ferðum kórsins út fyrir landsteinana og hugleiðingar kórfélaga og stjórnanda sem líta yfir farinn veg.
Metnaður var lagður í að gera söngskrár vel úr garði, ekki síst þegar um var að ræða stærri tónleika. Oft voru þýðingar á textum í lengri verkum svo að áhorfendur gætu fylgst með söguþræði. Einnig fylgdi með kynning á höfundi og annar viðeigandi fróðleikur. Hljómplötuútgáfunum fylgir einnig fróðleikur um verk og flytjendur.
Höfundur/uppruni | Heiti verks og ártal flutnings |
---|---|
Aichinger, Gregor: |
|
Arheau, Toinot |
|
Bach, Johan |
|
Bach, J. S. |
|
Bartók, Béla |
|
Berlioz, H. |
|
Bizet, G. |
|
Björgvin Guðmundsson |
|
Burkhard, Willy |
|
Buxtehude, Dietrich |
|
David, Joh. Nepomuk |
|
Des Prés. Josquin |
|
Di Lasso, Orlando |
|
Distler, Hugo |
|
Dowland, John |
|
Ensk jólalög |
|
Emil Thoroddsen |
|
Fjölnir Stefánsson |
|
Frönsk jólalög |
|
Gastoldi, Giovanni |
|
Gesualdo, Carlo |
|
Grüber, Franz |
|
Gumpelzheimer, Adam |
|
Gunnar Reynir Sveinsson |
|
Evrópsk þjóðlög í raddsetningu Gunnars Reynis Sveinssonar |
|
Íslensk þjóðlög í raddsetningu Gunnars Reynis Sveinssonar |
|
Hallgrímur Helgason |
|
Hassler, Hans Leo |
|
Hindemith, Paul |
|
Händel, G. F |
|
Isaac, Heinrich |
|
Jannequin, Clément |
|
Jeep, Johann |
|
Jólalag frá 18. öld |
|
Jón Ásgeirsson |
|
Íslensk þjóðlög í raddsetningu Jóns Ásgeirssonar |
|
Jón Leifs |
|
Jón S. Jónsson |
|
Jón Þórarinsson |
|
Karl Ó. Runólfsson |
|
Króatískt þjóðlag |
|
Marenzio, Luca |
|
Monteverdi, Claudio |
|
Morley, Thomas |
|
Mozart, W. A. |
|
Orff, Carl |
|
Palestrina, G. P. |
|
Poulenc, Francis |
|
Praetorius, Michael |
|
Páll P. Pálsson |
|
Páll Ísólfsson |
|
Rossini, Gioacchino |
|
Róbert A. Ottósson, raddsetning á íslenskum þjóðlögum
|
|
Scarlatti, Alessandro |
|
Schein, Johann Hermann |
|
Schröter, Leonhart |
|
Schütz, Heinrich |
|
Sigvaldi Kaldalóns |
|
Slóvenskt þjóðlag |
|
Spænskt þjóðlag |
|
Sveinbjörn Sveinbjörnsson |
|
Svissneskt þjóðlag |
|
Sweelinck, Jan P. |
|
Szymanowski, Karol |
|
Sænskt þjóðlag |
|
Tippet, Michael |
|
Tomkins, Thomas |
|
Vecchi, Orazio |
|
Verdi, G.: |
|
Victoria, Tomás L. |
|
Vivaldi, Antonio |
|
Wagner, R. |
|
Weelkes, Thomas |
|
Þorkell Sigurbjörnsson |
|
Íslenskt tvísöngslag |
|
Ýmsir höfundar |
|
Skráin er ekki tæmandi.
Yfirlit yfir þá staði sem hljómleikar voru haldnir ásamt ártali. Hér eru taldar uppfærslur en ekki tiltekið hve oft hver uppfærsla var flutt.[64]
Tónleikastaðir | Ártal uppfærslu |
---|---|
Akureyrarkirkja |
|
Aquileia, dómkirkjan, Ítalía |
|
Asissi, Ítalía (alþjóðleg tónlistarhátíð) |
|
Austurbæjarbíó |
|
Áskirkja |
|
BBC Radio, London |
|
Bifröst, Borgarfirði |
|
Bíóhöllin, Keflavík |
|
Catedral, Granada, Spánn |
|
Catedral de Málaga, Spánn |
|
Congress Hall, Namur, Belgía |
|
Dómkirkjan, Graz, Austurríki |
|
Dómkirkjan, Lignano, Ítalía |
|
Dómkirkjan, Siena, Ítalía |
|
Fríkirkjan |
|
Gamla Bíó |
|
Hallgrímskirkja |
|
Háskólabíó |
|
Hótel Saga |
|
Iglesia de Marbella, Spánn |
|
Iglesia de Nerja, Spánn |
|
Kirkja San Ignazio, Róm, Ítalía |
|
Kristskirkja, Landakoti |
|
Langgollen, Eisteddfod, Wales |
|
Langholtskirkja |
|
Laugardalshöllin |
|
Laugarneskirkja |
|
Maison de la Cultura, Namur, Belgía |
|
Markúsarkirkjan, Feneyjar, Ítalía |
|
Messiaskirken, Charlottenlund, Danmörk |
|
Pineta kirkjan, Lignano, Ítalía |
|
Sankt Jakobs kyrka, Stokkhólmur, Svíþjóð |
|
San Salvador, Sevilla, Spánn |
|
Santa Corona, Vicenza, Ítalía |
|
Santa Croce, Flórens, Ítalía |
|
Selfosskirkja |
|
Skansen, Stokkhólmur, Svíþjóð |
|
Skálholtskirkja |
|
St. Anne Konsertsal, Kaupmannahöfn, Danmörk |
|
St. Cuthbert's Parish Church, Edinborg, Skotland |
|
St. John's Chapel, Cambridge, England |
|
St. Lawrence Jewry borgarkirkjan, London |
|
St. Mary Aldermary, London |
|
St. Pauls Cathedral, London |
|
Thaxted Church, Cambridgeshire, England |
|
The Viking Service Club, Keflavík |
|
Þjóðhátíð í Reykjavík, útiskemmtun á Arnarhóli |
|
Þjóðleikhúsið |
|
Einsöngvarar með Pólýfónkórnum frá 1957 – 1988 voru:
Undirleikarar og aðstoðarfólk við raddþjálfun og æfingar voru þessir á árunum 1957 – 1987.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.