Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Friðgerður Hulda Jensdóttir (f. 5. janúar 1925) er íslensk ljósmóðir og snyrtifræðingur. Hún var forstöðukona Fæðingarheimilis Reykjavíkur frá 1960-1989 og átti stóran þátt í að innleiða ný viðhorf til fæðinga og þjónustu við sængurkonur hér á landi.
Hulda fæddist á Kollsá í Grunnavíkurhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu. Foreldrar hennar voru Jóhanna Sigríður Jónsdóttir húsmóðir (1898-1990) og Jens Jónsson bóndi (1874-1955).
Hulda nam við Húsmæðraskólann í Katrineholm í Svíþjóð veturinn 1946-1947. Hún lauk námi frá Ljósmæðraskóla Íslands árið 1949 og námi í slökunarfræði frá skóla Ib Andersons í Kaupmannahöfn árið 1953. Hún útskrifaðist sem snyrtifræðingur frá Snyrtiskóla M. Hjálmarsdóttur árið 1983 og sem slökunarnuddfræðingur frá Axelssons Institut í Svíþjóð árið 1997 og fékk réttindi sem viðurkenndur kennari í ungbarnanuddi frá International Association of Infant Massage árið 1998.
Hulda starfaði við skrifstofustörf hjá KEA frá 1942-1946. Um fimm ára skeið að loknu ljósmæðranámi var hún var ljósmóðir á kvennadeild Landspítalans, Söersjúkrahúsinu í Stokkhólmi í Svíþjóð og Fylkisjúkrahúsinu í Tromsö í Noregi. Hulda var umdæmisljósmóðir í Garða- og Bessastaðahreppi frá 1954-1957 og kennari við unglingaskóla frá 1957-1959. Árið 1959 var Hulda ráðin af Reykjavíkurborg til að undirbúa opnun Fæðingarheimilis Reykjavíkur við Eiríksgötu en heimilið tók til starfa í ágúst árið 1960 og var hún forstöðukona þess frá stofnun heimilisins og allt til ársins 1989. Árið 1953 hóf hún að halda námskeið í slökun fyrir verðandi mæður og var brautryðjandi á því sviði. Hulda var stundakennari við Hjúkrunarskóla Íslands frá 1969-1976 og við læknadeild Háskóla Íslands frá 1975-1979. Hún var stofnandi og annar eigandi Mæðrabúðarinnar frá 1966-1976, hún rak verslunina Tuma þumal frá 1980-1990 og var eigandi verslunarinnar Þumalínu, verslunar fyrir mæður og börn frá 1976-2007.[1][2]
Hulda átti stóran þátt í að innleiða ný viðhorf til fæðinga og þjónustu við sængurkonur hér á landi. Hún var ötul við að að kynna nýjar hugmyndir með áherslu á að fæðing væri náttúrulegur atburður sem ætti að eiga sér stað við sem þægilegastar og heimilislegar aðstæður. Á Fæðingarheimilinu var feðrum boðið að vera viðstaddir fæðingar barna sinna en það þótti mikið nýmæli á sínum tíma, systkini nýburanna voru velkomin í heimsókn á Fæðingarheimilið og boðið var upp á námskeið fyrir verðandi mæður og þeim m.a. kennd öndun og slökun. Konum var einnig boðið að fá börn sín í fangið um leið og þau fæddust, en áður tíðkaðist að þau væri þvegin og klædd áður en þau voru lögð í fang móður sinnar. Í fyrstu þóttu þessar nýstárlegu aðferðir Hulda það umdeildar að kvartað var undan starfsaðferðum hennar til Vilmundar Jónssonar landlæknis sem ákvað hins vegar að ekki væri tilefni til að aðhafast nokkuð í málinu.[3]
Hulda var sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2013.[4]
Hulda hefur í gegnum tíðina verið umdeild fyrir baráttu sína gegn þungunarrofi en hún var talskona þess að lög um þungunarrof yrðu þrengd og tækju mið af því að líf kvikni strax við getnað. Hulda var ein af stofnendum samtakanna Lífsvonar og formaður þeirra um árabil en samtökin börðust gegn frelsi kvenna til þungunarrofs. Hulda var varaþingmaður Borgaraflokksins kjörtímabilið 1987-1991 og tók sæti á Alþingi um nokkura mánaða skeið árin 1990 og 1991 og mælti þar fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um fóstureyðingar.[5]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.