stjórnmálahugmyndafræði From Wikipedia, the free encyclopedia
Fasismi er heiti á stjórnmálahugmyndafræði og heimspeki sem byggir á því megin inntaki að þjóð sé ein heild þar sem þjóðríkið, stofnanir samfélagsins og fólkið sé eitt og það sama. Fasismi felur í sér einræðissinnaða stjórnmálastefnu og er í andstöðu við lýðræði og ótakmarkað einstaklingsfrelsi. Hugmyndafræði fasismans byggir að mestu á samsömun ríkis og þjóðar, það er algjöran samruna stofnana ríkisins við fólkið sem þjóðin samanstendur af. Fasismi upphefur rétt ríkisins til ótakmarkaðra afskipta af lífi einstaklingsins, og andstöðu við stéttabaráttu, vegna þess er fasismi álitin tilheyra alræðissinnuðum stjórnmálastefnum.[1]
Orðið fasismi (fascismo á ítölsku) var heiti stjórnmálahreyfingar sem á upptök sín á Ítalíu frá 1922 til 1943 þegar fasistar, undir stjórn Benito Mussolini, voru þar við völd. Orðið á uppruna sinn í Rómaveldi. Nafnið er dregið af latneska orðinu fascis sem merkir „knippi“ ( axarvöndur) og á uppruna sinn í litlum hópum uppgjafarhermanna úr Fyrri heimsstyrjöldinni og atvinnulausra ungmenna (Fasci italiani di combattimento - bókst. „ítölsk bardagaknippi“) sem tókust á við jafnaðarflokkana og samtök verkafólks á þeim umrótstímum sem fylgdu í kjölfar styrjaldarinnar. Þessir hópar fengust við skipuleg verkfallsbrot þegar allsherjarverkföll lömuðu einhver svið þjóðlífsins, líkt og oft gerðist á þessum tímum, og reyndu að hleypa upp baráttufundum verkalýðsfélaga og vinstriflokka með ólátum og slagsmálum.
Fasisma mætti flokka sem andkommúníska stjórnmálahreyfingu eða -flokk sem notast við herafl eða lögreglu til að halda uppi aga. Fasistar sóttu ýmislegt til bolsévismans, svo sem flokksræði þar sem aðeins einn flokkur situr á þingi og mikil afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífinu, þar með talið þjóðnýtingu heilla iðngreina, svo sem orkuiðnaðarins og fjölmiðla. Að auki einkenndist orðræða fasismans af mikilli þjóðernishyggju og kynþáttahyggju sem ásamt tilhneigingu til útþenslustefnu gat leitt til þversagnarkenndra niðurstaðna þegar t.d. þeir sem aðhylltust fasisma í einu landi lentu í þeirri stöðu að nágranni þeirra hugðist leggja land þeirra undir sig í nafni sömu stefnu.
„Fasískar“ stjórnmálahreyfingar, þar á meðal nasismi, dreifðust um Evrópu á millistríðsárunum 1918 - 1939. Fasískar hreyfingar náðu völdum um lengri eða skemmri tíma í mörgum löndum Evrópu, þar á meðal í Þýskalandi, Austurríki, Ungverjalandi, Rúmeníu, á Spáni og í Portúgal. Fasistaflokkar voru líka stofnaðir í Bretlandi og Bandaríkjunum en náðu ekki vinsældum.
Til fasískra stjórnmálahreyfinga upp úr aldamótum 21. aldar teljast meðal annars Gullin dögun í Grikklandi, Fiamma Tricolore, Forza Nuova og Fronte Sociale Nazionale á Ítalíu, BNP í Bretlandi, National Alliance og American Nazi Party í Bandaríkjunum. Pólitískar skoðanir hryðjuverkamannsins Anders Behring Breivik teljast, meðal annars, fasískar. Árið 2013 sendi Breivik, úr fangelsi, inn umsókn um stofnun stjórnmálaflokks með heitið „Norski fasistaflokkurinn og norræna bandalagið“.[2]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.