Eignarfall (skammstafað sem ef.) er fall sem fallorð geta staðið í. Ýmsar forsetningar stýra eignarfalli og í sumum málum stýra ýmsar sagnir eignarfalli. Einnig getur eignarfallið staðið með öðru fallorði og gefið til kynna ákveðin tengsl þess, sem orðið í eignarfalli stendur fyrir, og þess, sem stýrandi orð stendur fyrir.
Nánari upplýsingar Föll í málfræði ...
Loka
Eignarfall getur m.a. gefið til kynna:
- uppruna („menn Rómar“, þ.e. menn frá Róm)
- einkenni („maður margra orða“)
- stærð („tveggja metra langur“)
- heild sem stýrandi orð er hluti af („helmingur þjóðarinnar“)
- eign („bók Halldórs“)
- geranda sagnarmerkingar stýrandi orðs („dómur Jóns“, þ.e. Jón dæmir)
- andlag sagnarmerkingar stýrandi orðs („sýknun Guðmundar“, þ.e. Guðmundur var sýknaður)
- tíma („kvölds og morgna“)
Mörg tungumál hafa eignarfall, þeirra á meðal: arabíska, enska, finnska, georgíska, gríska, hollenska, írska, íslenska, latína, litháíska, pólska, rússneska, sanskrít, og þýska.
Eignarfall er eitt af fjórum föllum í íslensku. Auk þess að vera notað með forsetningum, eins og „til“, og með örfáum sögnum, eins og „sakna“, getur aukafallsliður í eignarfalli verið notaður á eftirfarandi hátt í íslensku:
- Eiginlegt eignarfall: Gefur til kynna eiganda. Dæmi: „Þetta er bók Guðmundar“.
- Eignarfall heildarinnar: Gefur til kynna heildina sem stýrandi orð er hluti af. Dæmi: „Margir þingmannanna“.
- Leiðareignarfall: eignarfall án sérstakt fallvalds sem vísar til ferðarinnar eða leiðarinnar sem farin er, t.d. „fara leiðar sinnar“.
- Tímaeignarfall: Gefur til kynna hvenær eitthvað gerist. Dæmi: „Drengurinn les ljóð kvölds og morgna“.
- Útskýringar- eða skilgreiningareignarfall (genetivus definitivus): Er eignarfall sem skilgreinir eða útskýrir. Dæmi: Gjallarhorn. Eignarfallið Gjallar- er hér ekki fall eignarinnar. Þetta merkir ekki: hornin hennar Gjallar. Gjallarhorn er þá hornið sem er eða heitir Gjöll, hin háværa, enda Gjallarhorn lúður. Þetta sama skilgreinandi eignarfall er trúlega að finna í Fenrisúlfur (úlfurinn Fenrir) og í nútímamáli er það í nokkrum samsetningum, svo sem Ísafjarðarkaupstaður og Akureyrarbær.
Eignarfall í forngrísku getur m.a. verið notað á eftirfarandi hátt:
- Genitivus subiectivus: Eignarfall gerandans; gefur til kynna geranda sagnarmerkingar stýrandi orðs.
- Genitivus obiectivus: Andlagseignarfall; gefur til kynna andlag sagnarmerkingar stýrandi orðs.
- Genitivus possessivus: Eiginlegt eignarfall; gefur til kynna eiganda.
- Genitivus partitivus: Eignarfall heildarinnar; gefur til kynna heildina sem stýrandi orð er hluti af.
- Genitivus descriptivus: Eignarfall lýsingarinnar; lýsir nánar stýrandi orði.
- Genitivus qualitatis: Eignarfall einkennis; gefur til kynna eiginleika sem stýrandi orð hefur.
- Genitivus definitivus: Eignarfall skilgreiningarinnar; getur staðið með stýrandi orði til að skilgreina nánar.
- Genitivus pretii: Eignarfall verðleikans; gefur til kynna hvers virði eitthvað er.
- Genitivus temporis: Tímaeignarfall; gefur til kynna innan hvaða tíma eitthvað á sér stað.
- Genitivus separativus: Eignarfall aðskilnaðarins; gefur til kynna aðskilnað einkum með sögnum sem merkja að hætta, sleppa, mistakast, skorta, þarfnast og vera fjarri.
- Genitivus comparativus: Eingarfall samanburðarins. Gefur til kynna eitthvað sem eitthvað annað er borið saman við.
- Genitivus causae: Eignarfall orsakarinnar; gefur til kynna orsök einhvers.
- Genitivus absolutus: Sjálfstætt eignarfall; nafnorð og lýsingarorð eða lýsingarháttur geta staðið í eingarfalli, málfræðilega ótengt restinni af setningunni og gefið til kynna tíma, skilyrði, orsök, eða viðurkenningu.