Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Þjóðfræði er vísindagrein sem rannsakar alþýðumenningu, aðstæður fólks og samfélag á hverjum tíma og svo tjáningu þess, listfengi og fagurfræði hversdagsins. Á meðal viðfangsefna þjóðfræðinnar eru þjóðsögur og sagnir, efnismenning, heimilis- og atvinnuhættir, þjóðtrú og tónlist, siðir og venjur, hátíðir og leikir, klæðnaður og matarhættir, svo fátt eitt sé nefnt. Áhersla er lögð á hvernig fólk mótar líf sitt og umhverfi undir kringumstæðum sem það hefur ekki mótað sjálft og hvernig fólk lifir í samfélagi hvert við annað í þeim margvíslegu hópum sem það tilheyrir. Þjóðfræði fæst meðal annars við hugmyndir um menningararf, menningareign, menningarlega fjölbreytni og fjölmenningu. Þjóðfræði heyrir í senn til hug- og félagsvísinda. Þjóðfræðirannsóknir á samfélögum fortíðar nýta sér skjalasöfn, handritasöfn og minjasöfn, meðan samtímaþjóðfræði beitir eigindlegum aðferðum, eins og viðtölum, þátttökuathugunum, etnógrafíu og spurningalistum. Þjóðfræði hefur margar sérhæfðar undirgreinar eins og þjóðsagnafræði, þjóðlagafræði, þjóðdansafræði og svo framvegis.
Fyrstu þjóðsagnasöfnin komu út á endurreisnartímanum og áhugi á alþýðumenningu vaknaði á tímum einveldisins. Um leið jókst þörf ríkisvaldsins fyrir beinar upplýsingar um aðstæður alþýðunnar. Opinberar sýningar á litríkum alþýðuhefðum komust þannig í tísku hjá hirðum Evrópu á 17. öld. Á 18. öld tóku ferðabókahöfundar að skrifa um þjóðhætti og tungumál hinna ýmsu þjóðflokka, undir áhrifum frá flokkunarfræði Linnés. Í upphafi 19. aldar hófu Grimmbræður að safna þjóðsögum í Þýskalandi með markvissum hætti og fjölmargir þjóðsagnasafnarar fylgdu í fótspor þeirra um allan heim. Söfnun þjóðfræða var undir áhrifum frá þjóðernishyggju og margir trúðu því að í alþýðumenningunni mætti finna leifar af merkri fornmenningu, jafnvel horfinni gullöld. Margir þjóðfræðisafnarar á þessum tíma voru embættismenn í sveitum. Enska orðið yfir alþýðumenningu, „folklore“, var búið til af breska forngripafræðingnum William Thoms árið 1846, en áður var algengt að nota hugtakið „popular antiquities“ á ensku yfir siði og venjur sveitafólks. Undir lok 19. aldar þróuðu finnskir þjóðfræðingar bæði flokkunarkerfi og sögulegu og landfræðilegu aðferðina til að kortleggja útbreiðslu þjóðsagna frá meintum uppruna. Í Svíþjóð kom fram hugmyndin um staðbrigði; að þjóðsögur löguðu sig að hverjum stað fyrir sig og endurnýjuðu sig þannig stöðugt. Í Bandaríkjunum hófu þjóðfræðingar að rannsaka blöndun menningar ólíkra þjóðarbrota undir merkjum menningarlegrar afstæðishyggju. Fasistar í Evrópu sýndu þjóðfræði mikla athygli vegna tengingar alþýðumenningar við meinta eðlislæga eiginleika þjóða og kynþátta. Þessi tengsl komu óorði á þjóðfræði í þýskumælandi löndum eftir Síðari heimsstyrjöld og ollu því að nafni greinarinnar var sum staðar breytt úr hinu hefðbundna „Volkskunde“ í „Europäische Ethnologie“ eða „Empirische Kulturwissenschaft“. Um leið risu deilur um að hve miklu leyti þjóðfræði ætti að einbeita sér að andlegri menningu eða taka efnismenningu líka með í reikninginn. Á Norðurlöndum var algengt að skipta þessum viðfangsefnum milli tveggja nátengdra en aðskildra greina; annars vegar „folkloristikk“ og hins vegar „etnologi“. Í Bandaríkjunum hafði sviðslistafræði mikil áhrif á þjóðfræði á 7. og 8. áratugnum með áherslu á að lýsa flutningi menningar í félagslegu samhengi fremur en söfnun og flokkun stakra menningarafurða. Opinber þjóðfræði þróaðist sem hagnýting þjóðfræðilegra aðferða í almannaþágu í Bandaríkjunum og Kanada undir lok 20. aldar. Tilkoma Internetsins hafði mikil áhrif á þróun þjóðfræði þar sem hún gerði hefðbundin viðfangsefni fræðigreinarinnar (eins og sögur, brandara, kvæði og hefðir) sýnileg í almannarými og gerði fræðimönnum kleift að kortleggja dreifingu þeirra með nýjum hætti.
Meðal þekktra þjóðfræðinga má nefna Vladimir Propp, Antti Aarne, Karle Krohn, Dag Strömbäck, Bo Almqvist, Vance Randolph, Alan Dundes, Linda Dégh og Charles L. Briggs. Þjóðfræði hefur verið kennd við Háskóla Íslands frá árinu 1972. Byrjað var að kenna þjóðfræði við félagsvísindadeild árið 1980, en hún varð sjálfstæð námsbraut árið 1985 og aðalgrein til BA-prófs þremur árum síðar. Meðal þekktra íslenskra þjóðfræðinga eru Jón Hnefill Aðalsteinsson, Árni Björnsson og Hallgerður Gísladóttir.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.