From Wikipedia, the free encyclopedia
Vísindabyltingin er tímabil í mannkynssögunni sem fyrst og fremst tengt við 16. og 17. öldina þar sem nýjar, byltingarkenndar hugmyndir komu fram og ný vitneskja í mörgum fræðigreinum varð til. Þar ber helst að nefna eðlisfræði, stjörnufræði, líffræði, læknisfræði og efnafræði hvar fornar skoðanir og lögmál tengd náttúruvísundum fengu að víkja fyrir nýjum, er lögðu grunninn að nútíma vísindum.
Samkvæmt flestum málsmetandi mönnum hófst vísindabyltingin í Evrópu undir lok Endurreisnartímans og varði allt fram til loka 17. aldar er tímabil sem nefnist Upplýsingin hófst. Upphaf vísindabyltingarinnar má rekja til birtingar tveggja rita árið 1543 sem gjörbreyttu sýn manna á vísindi. Þau eru De revolutionibus orbium coelestium (Um snúning himintunglana) eftir Nikulás Kópernikus og De humani corporis fabrica (Um efni mannslíkamanns) eftir Andreas Vesalius.
Árið 1939 setti heimspekingurinn og sagnfræðingurinn Alexandre Koyré fram hugtakið „vísindabyltingin“ til að lýsa þessu mikilvæga tímabili mannkynssögunnar. Með þessu heiti er lögð áhersla á þá miklu og öru þróun raunvísinda sem átti sér stað.
Vísindi miðalda voru mikilvægur grundvöllur nútímavísinda. Marxíski sagnfræðingurinn og vísindamaðurinn JD Bernal hélt því fram að „Endurreisnin leiddi til vísindabyltingar sem gerði fræðimönnum kleift að líta á heiminn í öðru ljósi. Trúarbrögð, hjátrú og ótti fengu að víkja fyrir rökfræðilegri þekkingu“. James Hannam viðurkennir að þrátt fyrir að flestir sagnfræðingar telji eitthvað byltingarkennd hafi átt sér stað á þessum tíma, þá sé hugtakið „vísindabylting“ of djúpt í árinni tekið og í raun eitt af þeim skaðvænlegu sögulegu hugtökum sem notuð séu án þess að það útskýri í raun og veru neitt. Unnt væri að kalla hvaða öld sem er frá þeirri tólftu til þeirrar tuttugustu byltingu í vísindum og að hugtakið geri í raun ekkert annað en renna styrkari stoðum undir þá rangtúlkun að ekkert markvert hafi átt sér stað fyrir daga Kóperníkusar í heimi vísindanna. Þrátt fyrir nokkuð ólík sjónarmið gagnvart sumum trúarskoðunum, héldust hinsvegar margir nafntogaðir vísindamenn vísindabyltingarinnar guðræknir um alla sína tíð. Þar á meðal voru Nikulás Kópernikus, Tycho Brahe, Johannes Kepler, Galileo Galilei, René Descartes, Isaac Newton og Gottfried Leibniz.
Á tímum vísindabyltingarinnar varð grundvallarbreyting á vinnubrögðum og vísindalegri hugmyndafræði margra fræðigreina, þar á meðal í stærðfræði, eðlisfræði, stjörnufræði og líffræði. Vísindabyltingin leiddi beint til stofnunnar nokkurra nútíma vísindagreina. Joseph Ben-David skrifaði árið 1984: Aldrei nokkurn tímann hafði áður átt sér stað eins hröð uppsöfnun þekkingar og átti sér stað á 18. öld. Þessi nýja tegund vísindalegrar athafnasemi kom þó aðeins fram í fáeinum löndum í Vestur-Evrópu og var einskorðuð við það litla svæði næstu tvöhundruð árin. (Frá 20. öld hefur vísindaleg þekking hins vegar samlagast um allan heim).
Margir fræðimenn halda því fram að vísindabyltingin hafi ollið grundvallarbreytingu á heimsmynd manna, viðhorfi þeirra til vísindarannsókna og telja vísindabyltinguna þannig marka upphaf nútímavísinda.
Aðrir fræðimenn kjósa að taka ekki eins djúpt í árinni en álíta vísindabyltinguna engu að síður sem grundvallarbreytingu á hugsunarhætti manna. Þá hafa einnig komið fram fræðimenn sem hafna alfarið því að einhvers konar vísindabylting hafi átt sér stað. Félagsfræðingurinn og sagnfræðingurinn Stephen Shaphin heldur því fram í bók sinni, Vísindabyltingin, að ekkert slíkt fyrirbæri hafi átt sér stað. Hann tekur þó fram að þótt margir takast á um réttmæti og raunverulega þýðingu hugtaksins sé það mikilvægt engu að síður til að túlka umfangsmiklar breytingar í heimi vísinda.
Sumir fræðimenn halda fram þeirri skoðun að engin vísindabylting hafi orðið, í þeirri merkingu að um ákveðið tímabil hafi verið að ræða, heldur hafi þróun vísinda verið samfelld. Enn fremur telja sumir að vísindabyltingin, eins og hún er oftast skilgreind, miðist um of af því sem geriðst í Evrópu en horfi fram hjá þróun í vísindum í öðrum heimsálfum, þar á meðal í Indlandi og Kína.
Helstu hugmyndir og merkir vísindamenn sem komu fram á sjónarsviðið á 16. og 17. öld:
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.