Þýskur stjórnmálamaður From Wikipedia, the free encyclopedia
Ursula Gertrud von der Leyen (fædd 8. október 1958) er þýskur stjórnmálamaður og núverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hún var áður varnarmálaráðherra og vinnu- og félagsmálaráðherra Þýskalands.
Ursula von der Leyen | |
---|---|
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins | |
Núverandi | |
Tók við embætti 1. desember 2019 | |
Varaforseti | Frans Timmermans Maroš Šefčovič |
Forveri | Jean-Claude Juncker |
Varnarmálaráðherra Þýskalands | |
Í embætti 17. desember 2013 – 17. júlí 2019 | |
Kanslari | Angela Merkel |
Forveri | Thomas de Maizière |
Eftirmaður | Annegret Kramp-Karrenbauer |
Vinnu- og félagsmálaráðherra Þýskalands | |
Í embætti 30. nóvember 2009 – 17. desember 2013 | |
Kanslari | Angela Merkel |
Forveri | Franz Josef Jung |
Eftirmaður | Andrea Nahles |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 8. október 1958 Ixelles, Belgíu |
Þjóðerni | Þýsk |
Stjórnmálaflokkur | Kristilegi demókrataflokkurinn Evrópski þjóðarflokkurinn |
Maki | Heiko von der Leyen |
Börn | 7 |
Háskóli | Georg-August-háskólinn í Göttingen Háskólinn í Münster Hagfræði- og stjórnmálafræðiháskólinn í London Læknisfræðiskólinn í Hannover |
Undirskrift |
Þann 2. júlí árið 2019 útnefndi leiðtogaráð Evrópusambandsins Ursulu von der Leyen í embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.[1] Evrópuþingið staðfesti útnefningu hennar með naumum atkvæðamun þann 16. júlí sama ár. Von der Leyen tók við af Jean-Claude Juncker í embættinu þann 1. desember sama ár og varð fyrsta konan til að gegna því. Útnefning hennar í embættið var nokkuð umdeild þar sem von der Leyen hafði ekki verið oddviti neins Evrópuflokks í Evrópuþingkosningunum 2019 og leiðtogaráðið sniðgekk oddvita tveggja stærstu flokkabandalaganna með útnefningu hennar.[2]
Von der Leyen var endurkjörin til annars fimm ára kjörtímabils sem forseti framkvæmdastjórnarinnar eftir Evrópuþingskosningar árið 2024.[3]
Ursula von der Leyen fæddist í Ixelles í Belgíu og er dóttir Ernsts Albrecht, stjórnmálamanns úr Kristilega demókrataflokknum. Fjölskyldan bjó í Brussel til ársins 1970 á meðan Ernst vann fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.[4][5] Hún nam ásamt systkinum sínum við Evrópuskólann í Brussel.[4] Eftir heimkomuna til Þýskalands var faðir hennar í mörg ár forsætisráðherra þýska sambandsríkisins Neðra-Saxlands.
Eftir að hafa tekið stúdentspróf nam von der Leyen þjóðhagfræði við Georg-August-háskólann í Göttingen, Hagfræði- og stjórnmálafræðiháskólann í London og Háskólann í Münster á árunum 1977–1980 en útskrifaðist ekki með gráðu.[6] Eftir þjóðhagfræðinámið gekk hún í Læknisfræðiháskólann í Hannover og útskrifaðist með læknispróf árið 1987.[6] Í læknisfræðiskólanum kynntist hún lækninum Heiko von der Leyen, sem hún giftist árið 1986. Hjónin eiga í dag sjö börn.[7] Frá 1992 til 1996 bjó fjölskyldan í Bandaríkjunum.[6] Frá 1996 til 2001 vann hún sem rannsakandi við Læknisfræðiskólann í Hannover.[6]
Árið 2003 var von der Leyen útnefnd í embætti félagsmálaráðherra Neðra-Saxlands í héraðsstjórn Christians Wulff, þrátt fyrir að eiga þá enga fyrri reynslu í stjórnmálum. Árið 2005 varð hún fjölskyldumálaráðherra í fyrstu ríkisstjórn Angelu Merkel. Hún varð síðar vinnumarkaðsráðherra og varnarmálaráðherra Þýskalands frá árinu 2013. Hún hafði setið í miðstjórn Kristilega demókrataflokksins frá árinu 2004.[8] Gagnrýnendur von der Meyen hafa gjarnan haldið því fram að hún eigi þennan skjóta frama sinn fyrst og fremst föður sínum, sem var áhrifamaður innan Kristilega demókrataflokksins, að þakka. Þá hefur gjarnan verið bent á að Christian Wulff sé fjölskylduvinur Albrecht-fjölskyldunnar og að það kunni að hafa haft áhrif á ákvörðun hans um að útnefna von der Leyen í embætti félagsmálaráðherra í Neðra-Saxlandi.[9] Ævisöguritarar von der Leyen, Elisabeth Niejahr og Peter Dausend, hafa aftur á móti bent á að hún hafi verið í senn íhaldssöm og nútímaleg, öguð og sveigjanleg og bæði veraldarvön og kunn heimaslóðum sínum í Neðra-Saxlandi.[8]
Sem fjölskyldumálaráðherra í stjórn Merkels sá von der Leyen um umbætur á þýska foreldrastyrkjakerfinu, sem hafa frá árinu 2007 náð yfir tvo svokallaða „pabbamánuði“. Árið 2009 hlaut von der Leyen uppnefnið „Zensursula“ (sem samsett er úr fornafni hennar og orðinu „zensur“, sem merkir ritskoðun) eftir að hún mælti með því að netþjónustur ættu að loka á vefsíður sem innihéldu barnaklám.[10][11]
Árið 2013 varð von der Leyen fyrsta konan til að gegna embætti varnarmálaráðherra Þýskalands. Í því embætti reyndi hún að vinna bug á fjármagnsskorti þýska hersins en samkvæmt varnarmálafulltrúa þýska þingsins úr Jafnaðarmannaflokknum, Hans-Peter Bartels, hefur það ekki tekist. Þingmaðurinn Alexander Müller úr Frjálsa demókrataflokknum hefur sakað hana um að útnefna vini sína í ýmis ráðgjafarembætti.[5]
Árið 1990 skilaði von der Leyen inn doktorsritgerð sinni undir titlinum C-reaktives Protein als diagnostischer Parameter zur Erfassung eines Amnioninfektionssyndroms bei vorzeitigem Blasensprung und therapeutischem Entspannungsbad in der Geburtsvorbereitung. Löngu síðar varð doktorsritgerð hennar að deilumáli í Þýskalandi þegar vefsíðan „VroniPlag“ tók saman 27 atriði í ritgerðinni þar sem von der Leyen hafði vitnað í eldri ritverk án þess að vísa til heimilda. Læknisfræðiskólinn í Hannover tók mál von der Leyen til rannsóknar og komst að þeirri niðurstöðu að ýmsir vankantar væru á ritgerð hennar en að hún yrði þó ekki svipt doktorsgráðu sinni þar sem hún hefði ekki vísvitandi reynt að villa um fyrir neinum.[12]
Í byrjun júlí árið 2019 útnefndi leiðtogaráð Evrópusambandsins von der Leyen í embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Von der Leyen var útnefnd til málamiðlinar þar sem leiðtogar aðildarríkja ESB gátu hvorki komið sér saman um að útnefna Manfred Weber, oddvita Evrópska þjóðarflokksins í Evrópuþingskosningunum 2019, né Frans Timmermans, oddvita Flokks evrópskra sósíalista. Útnefning von der Leyen kom því flestum í opna skjöldu.[13] Í Þýskalandi leiddi útnefning hennar til deilna innan stjórnarsamstarfs Kristilegra demókrata og Jafnaðarmanna. Hinir síðarnefndu gagnrýndu fyrirkomulagið þar sem von der Leyen hafði ekki verið oddviti í Evrópuþingskosningunum.[14] Ósættið leiddi til þess að Angela Merkel kanslari sat hjá í atkvæðagreiðslu um útnefningu von der Leyen til að forðast að styggja samstarfsflokk sinn frekar. Samkvæmt könnun sem fyrirtækið Forsa gerði í júlí árið 2019 styður aðeins þriðjungur Þjóðverja að von der Leyen verði forseti framkvæmdastjórnarinnar. Aðeins um helmingur aðspurðra taldi að hún hefði réttu eiginleikana til að sinna embættinu.[15]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.