Remove ads
eitt af 16 sambandslöndum Þýskalands From Wikipedia, the free encyclopedia
Neðra-Saxland (þýska: Niedersachsen) er næststærsta sambandsland Þýskalands (á eftir Bæjaralandi) með rúmlega 48 þúsund km². Það er því tæplega helming á við Ísland að stærð. Íbúar eru átta milljónir (2021) og er Neðra-Saxland því fjórða fjölmennasta sambandsland Þýskalands. Höfuðborgin er Hannover.
Fáni Neðra-Saxlands | Skjaldarmerki Neðra-Saxlands |
---|---|
Kjörorð | |
Upplýsingar | |
Opinbert tungumál: | háþýska, lágþýska, frísneska |
Höfuðstaður: | Hannover |
Stofnun: | Nóvember 1946 |
Flatarmál: | 47.614,07 km² |
Mannfjöldi: | 8 milljónir (2021) |
Þéttleiki byggðar: | 164/km² |
Vefsíða: | niedersachsen.de Geymt 2 ágúst 2002 í Wayback Machine |
Stjórnarfar | |
Forsætisráðherra: | Stephan Weil (SPD) |
Lega | |
Neðra-Saxland liggur við Norðursjó norðarlega í Þýskalandi. Það umlykur sambandsríkið Bremen og liggur að auki að 8 öðrum sambandslöndum. Auk þess á Neðra-Saxland landamæri að Hollandi í vestri. Landið er að mestu leyti flatt, enda er meginþorri þess hluti af norðurþýsku lágsléttunni (Norddeutsche Tiefebene). Aðeins syðst er hálendi að finna, en þar eru Harzfjöllin. Mjög fá stöðuvötn eru í sambandslandinu. Þeirra stærst er Steinhuder Meer með aðeins 29 km². Helstu ár eru Saxelfur, Weser og Ems. Öll ströndin tilheyrir Vaðhafinu, en það er sá hluti Norðursjávarins þar sem gríðarlegur munur á flóði og fjöru gætir. Vaðhafið er á heimsminjaskrá UNESCO. Austurfrísnesku eyjarnar í heild tilheyra sambandslandinu. Helstu borgir eru Hannover, Brúnsvík og Osnabrück. Íslendingaborgin Cuxhaven er einnig í sambandslandinu.
Fáni Niedersachsens er þýski fáninn með skjaldarmerkinu fyrir miðju. Skjaldarmerkið sýnir hvítan prjónandi hest á rauðum grunni. Hesturinn er tákn saxa fyrr á tímum. Fáninn var samþykktur 1946 við stofnun sambandslandsins og staðfestur 1951.
Opinbert tungumál í Neðra-Saxlandi er þýska og er háþýskan langalgengust. Í nyrstu héruðunum er einnig töluð lágþýska (Plattdeutsch, sem aftur er skipt niður í fjórar mállýskur) og á Austurfrísnesku eyjunum er töluð frísneska. Allar þessar mállýskur eru verndaðar og reynt er að halda þeim við.
Áður fyrr, á tímum Karlamagnúsar, bjuggu saxar í hartnær öllu Norður-Þýskalandi. Var landsvæðið því kallað Sachsen (Saxland). Seinna, þegar ríkinu var skipt, skiptist landsvæðið einnig upp með tímanum, allt eftir því hvaða furstar stjórnuðu hvar. 1946, eftir hertöku Breta, var ákveðið að landið skyldi heita Niedersachsen (Neðra-Saxland), þ.e. landið nær sjónum. Önnur saxnesk svæði í dag eru Saxland-Anhalt og bara Saxland, bæði í gamla Austur-Þýskalandi.
Á svæði núverandi Niedersachsen voru áður fyrr mörg furstadæmi og smærri sjálfstæð héröð og fríborgir. Það var Napoleon sem stofnaði til konungdæmisins Hannover í upphafi 19. aldar, sem Prússar hertóku og innlimuðu 1866. Héraðið Aldinborg var sænskt um tíma. Núverandi Niedersachsen var stofnað 1946 af breska hersetuliðinu.
Stærstu borgir Neðra-Saxlands (31. desember 2013):
Röð | Borg | Íbúar | Ath. |
---|---|---|---|
1 | Hannover | 518 þúsund | Höfuðborg Neðra-Saxlands |
2 | Brúnsvík | 247 þúsund | Á þýsku: Braunschweig |
3 | Aldinborg | 160 þúsund | Á þýsku: Oldenburg |
4 | Osnabrück | 156 þúsund | |
5 | Wolfsburg | 122 þúsund | |
6 | Göttingen | 117 þúsund | |
7 | Hildesheim | 99 þúsund | |
8 | Salzgitter | 98 þúsund | |
9 | Wilhelmshaven | 76 þúsund | |
10 | Delmenhorst | 74 þúsund | |
11 | Lüneburg | 72 þúsund | |
12 | Celle | 69 þúsund | |
13 | Garbsen | 60 þúsund | |
14 | Hameln | 56 þúsund | Rottufangaraborgin |
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.