From Wikipedia, the free encyclopedia
Massachusettsflóanýlendan var ensk nýlenda við Massachusettsflóa á austurströnd Norður-Ameríku sem var stofnuð á fyrri helmingi 17. aldar. Nýlendan náði yfir stóran hluta þess sem í dag er kallað Nýja England, þar með talið borgirnar Salem og Boston. Hún náði yfir hluta nútímafylkjanna Massachusetts, Maine, New Hampshire, Rhode Island og Connecticut.
Nýlendan var stofnuð af Massachusettsflóafélaginu, þar á meðal fjárfestum í Dorchesterfélaginu sem stofnaði skammlífa nýlendu á Annhöfða. Stofnun nýlendunnar hófst 1628 og tókst vel. Um 20.000 manns fluttu þangað frá Englandi á 4. áratugnum. Íbúar voru flestir hreintrúarmenn og leiðtogar nýlendunnar voru undir miklum áhrifum frá hreintrúarpredikurum. Leiðtogar nýlendunnar voru kjörnir en einungis frjálsir menn sem höfðu fengið formlega inngöngu í kirkjuna höfðu kosningarétt.
Í fyrstu voru samskipti nýlendunnar við frumbyggja góð en versnuðu brátt vegna menningarmunar og vegna þrýstings frá nýlendum Hollendinga. Þetta leiddi til Pekvotstríðsins 1636 til 1638 og síðan Stríðs Filippusar konungs 1675 til 1678. Eftir það héldu þeir frumbyggjar sem eftir voru á lífi frið við nýlenduna.
Nýlendunni vegnaði vel efnahagslega og hún átti í viðskiptum við Vestur-Indíur og England. Skortur á peningum varð til þess að stofnuð var myntslátta árið 1652. Eftir Stúart-endurreisnina í Englandi var nýlenduleyfið afturkallað 1682. Jakob 2. Englandskonungur stofnaði síðan Nýja-Englandsumdæmið 1686 til að treysta yfirráð sín yfir öllum ensku nýlendunum í Norður-Ameríku. Það var lagt niður eftir Dýrlegu byltinguna 1688. Árið 1692 var nýlendan sameinuð Plymouth-nýlendunni í eitt Massachusettshérað undir stjórn landstjórans William Phips.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.