Bandarískur stjórnmálamaður (1856-1937) From Wikipedia, the free encyclopedia
Frank Billings Kellogg (22. desember 1856 – 21. desember 1937) var bandarískur stjórnmálamaður úr Repúblikanaflokknum sem var utanríkisráðherra Bandaríkjanna frá 1925 til 1929, á forsetatíðum Calvins Coolidge og Herberts Hoover. Kellogg hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1929 fyrir að standa ásamt franska utanríkisráðherranum Aristide Briand fyrir samningu Kellogg-Briand-sáttmálans, sem gerði stríð ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum.
Frank B. Kellogg | |
---|---|
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna | |
Í embætti 5. mars 1925 – 28. mars 1929 | |
Forseti | Calvin Coolidge Herbert Hoover |
Forveri | Charles Evans Hughes |
Eftirmaður | Henry L. Stimson |
Öldungadeildarþingmaður fyrir Minnesota | |
Í embætti 4. mars 1917 – 3. mars 1923 | |
Forveri | Moses E. Clapp |
Eftirmaður | Henrik Shipstead |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 22. desember 1856 Potsdam, New York, Bandaríkjunum |
Látinn | 21. desember 1937 (80 ára) St. Paul, Minnesota, Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarískur |
Stjórnmálaflokkur | Repúblikanaflokkurinn |
Maki | Clara Cook |
Atvinna | Stjórnmálamaður |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (1929) |
Undirskrift |
Frank Billings Kellogg var kominn úr fátækri bændafjölskyldu. Faðir hans flutti með fjölskylduna til Minnesota þegar Frank var barn að aldri. Kellogg vann á bóndabæ fjölskyldu sinnar á unga aldri og hlaut litla sem enga formlega skólamenntun. Nítján ára gamall fékk hann vinnu við ræstingar á lögmannsskrifstofu. Samhliða vinnunni menntaði hann sig sjálfur í lögfræði og náði að endingu málaflutningsprófi án þess að hafa nokkurn tímann stundað laganám í skóla.[1]
Árið 1905 réð Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseti Kellogg sem saksóknara í ýmsum dómsmálum gegn einokunarhringjum.[2] Mikilvægasta mál Kelloggs sem saksóknara var hæstaréttarmálið Standard Oil Co. of New Jersey v. United States, 221 U.S. 1 (1911) þar sem Hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu að olíufyrirtæki Johns D. Rockefeller, Standard Oil, væri ólöglegur einokunarhringur sem bæri að brjóta upp.
Árið 1917 var Kellogg kjörinn á öldungadeild Bandaríkjaþings sem frambjóðandi Repúblikana í Minnesota. Kellogg hafði haft orð á sér fyrir róttækni en þegar á þing var komið þótti hann ívið íhaldssamari en von var á og því tapaði hann brátt trausti bænda í heimafylkinu. Kellogg tapaði endurkjöri á öldungadeildina árið 1923.[1]
Árið 1924 varð Kellogg sendiherra Bandaríkjamanna í London en ári síðar var hann kallaður heim og útnefndur utanríkisráðherra í ríkisstjórn Calvins Coolidge Bandaríkjaforseta. Sem utanríkisráðherra átti Kellogg oft í deilum við Breta vegna andstæðra hugmynda ríkjanna um olíuvinnslu í heiminum. Bandaríkin voru á þessum tíma ágeng á olíulindir í Níkaragva og Panama og náðu þar meiri tangarhaldi á olíuvinnslunni en Bretum þótti ráðlegt. Bretar brugðust við með því að gera leynilegan flotasamning við Frakka sem misbauð Bandaríkjunum mjög. Þegar Kellogg sigldi til Evrópu í samningaerindum lýsti hann yfir vanþóknun sinni á Bretum með því að fara frá borði í Írlandi til þess að þurfa ekki að koma til Englands.[1]
Merkasta afrek Kelloggs í embætti utanríkisráðherra var undirritun Kellogg-Briand-sáttmálans árið 1928. Sáttmálinn var kenndur við Kellogg og franska utanríkisráðherrann Aristide Briand og í honum stóð að samningsaðilar „[fordæmdu] það, að leysa milliríkjadeilur með styrjöld, og að þeir afsali sér rétti til að beita ófriði í þarfir stjórnmála lands síns“.[3] Þrátt fyrir fögur fyrirheit tókst ekki með sáttmálanum að draga úr aukinni hernaðarhyggju á fjórða áratugnum sem leiddi að endingu til seinni heimsstyrjaldarinnar. Þar sem sáttmálanum fylgdu engin viðurlög eða refsiákvæði fyrir samningsbrot hefur hann í seinni tíð almennt þótt marklaus og hefur að mestu hlotið slæm eftirmæli.[4]
Kellogg sagði af sér sem utanríkisráðherra stuttu eftir að Herbert Hoover varð forseti árið 1929 og sneri sér aftur að málaflutningsstörfum. Hann var sæmdur friðarverðlaunum Nóbels árið 1929 fyrir að standa að gerð Kellogg-Briand-sáttmálans. Árið 1930 var Kellogg útnefndur dómari við Alþjóðadómstólinn í Haag og gegndi þeirri stöðu í fimm ár.[1]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.