From Wikipedia, the free encyclopedia
Angvilla er nyrst Hléborðseyja í Litlu-Antillaeyjaklasanum í Karíbahafi. Eyjan er austan við Púertó Ríkó og Jómfrúaeyjar og norðan við Saint Martin. Angvilla er um 26 km löng og 5 km breið eyja, en undir hana heyra fjöldi óbyggðra smáeyja og sandrifja. Eyjan var áður hluti af bresku nýlendunni Sankti Kristófer-Nevis-Angvilla, en 1980 dró hún sig út úr því og hefur síðan verið sérstakt breskt yfirráðasvæði. Bretar námu þar land fyrstir Evrópumanna árið 1650. Nú búa þar tæplega 15.000 manns.
Anguilla | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: God Bless Anguilla | |
Höfuðborg | The Valley |
Opinbert tungumál | Enska |
Stjórnarfar | Þingbundin konungsstjórn |
Konungur | Karl 3. |
Landstjóri | Dileeni Daniel-Selvaratnam |
Forsætisráðherra | Ellis Webster |
Breskt | handanhafsumdæmi |
• Ensk yfirráð | 1667 |
• Sankti Kristófer-Nevis-Angvilla | 1871 |
• Lýðveldið Angvilla | 12. júlí 1967 |
• Bresk yfirráð | 18. mars 1969 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
91 km² ~0 |
Mannfjöldi • Samtals (2018) • Þéttleiki byggðar |
14.731 132/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2014 |
• Samtals | 0,311 millj. dala |
• Á mann | 29.493 dalir |
Gjaldmiðill | Austurkarabískur dalur |
Tímabelti | UTC-4 |
Þjóðarlén | .ai |
Landsnúmer | +1-264 |
Nafn Angvilla er dregið af orðinu fyrir ál (fiskinn) í rómönskum málum (latína: anguilla) að talið er vegna þess að lögun eyjunnar svipar til áls. Flestum heimildum ber saman um að Kristófer Kólumbus hafi gefið eyjunni nafn sitt. Eyjan hefur líka verið kölluð „Snákur“ eða „Snáksey“.
Amerískir indíánar námu fyrstir land á Angvilla og fluttu þangað frá Suður-Ameríku.[1] Elstu minjar um frumbyggjana sem fundist hafa á Angvilla eru taldir vera frá um 1300 f.o.t. og elstu minjar um mannabyggð eru frá um 600.[2][3] Aravakar kölluðu eyjuna Malliouhana.[1]
Óvíst er hvenær Evrópumenn komu fyrst auga á eyjuna. Sumar heimildir segja að Kristófer Kólumbus hafi séð eyjuna í annarri ferð sinni 1493, meðan aðrar segja að fyrsti evrópski landkönnuðurinn hafi verið franski aðalsmaðurinn René Goulaine de Laudonnière árið 1564.[3] Hollenska Austur-Indíafélagið reisti virki á eyjunni árið 1631, en hörfaði þaðan eftir að Spánverjar eyðilögðu það tveimur árum síðar.[4]
Venja er að telja fyrstu evrópsku landnemana hafa verið enska landnema frá Saint Kitts árið 1650.[5][6] Landnemarnir komu upp tóbaksplantekrum og í minna mæli bómullarræktun.[1] Frakkar hernámu eyjuna um stutt skeið 1666 en létu Englendingum hana aftur eftir með Breda-sáttmálanum 1667.[1] John Scott majór sem heimsótti eyjuna í september 1667 skrifaði að eyjan væri „í góðu ástandi“ og nefndi að „200 eða 300 manns flúðu þangað í stríðinu“.[7] Frakkar gerðu aðra árás á eyjuna 16878, 1745 og 1798, og ollu mikilli eyðileggingu en mistókst að hertaka eyjuna.[1][3]
Líklegt þykir að fyrstu evrópsku landnemarnir hafi haft afríska þræla með sér. Sagnfræðingar staðfesta að afrískir þrælar hafi búið á svæðinu frá því snemma á 17. öld, til dæmis þrælar frá Senegal sem bjuggu á Saint Kitts um miðja 17. öld.[8] Um 1672 var þrælageymsla á eyjunni Nevis fyrir Hléborðseyjar. Þótt erfitt sé að dagsetja nákvæmlega hvenær fyrstu þrælarnir komu til Angvilla benda skjöl til komu minnst 100 þræla fyrir 1683. Þrælarnir virðast hafa komið bæði frá Mið-Afríku og Vestur-Afríku.[9] Þrælarnir unnu á sykurplantekrum sem tóku við af tóbaksræktun sem helsti iðnaður eyjarinnar.[1] Brátt urðu þrælarnir og afkomendur þeirra miklu fleiri en hvítu landnemarnir.[1] Þrælasölu var hætt innan Breska heimsveldisins árið 1807 og þrælahald alveg bannað árið 1834.[1] Margir plantekrueigendur seldu eigur sínar í kjölfarið og yfirgáfu eyjuna.[1]
Frá því snemma á nýlendutímanum heyrði Angvilla undir bresku stjórnina á Antígva. Árið 1825 var hún felld undir stjórnina á Saint Kitts.[3] Angvilla var í sambandi við Saint Kitts og Nevis frá 1882, gegn vilja margra íbúa.[1] Efnahagsleg stöðnun og áhrif alvarlegra þurrka undir lok 19. aldar og Kreppan mikla á 4. áratugnum ollu því að margir íbúar Angvilla fluttust til annarra landa í leit að betri tækifærum.[1]
Almennur kosningaréttur var innleiddur á Angvilla árið 1952.[1] Eftir stutt tímabil sem hluti af Sambandsríki Vestur-Indía varð Angvilla hluti af sambandslandinu Saint Kitts-Nevis-Anguilla sem fékk heimastjórn árið 1967.[10] Margir íbúar Angvilla voru andsnúnir sambandinu og stjórninni á Sankti Kitts. Þann 30. maí 1967 ráku íbúar Angvilla lögregluna frá eyjunni og lýstu yfir aðskilnaði frá Sankti Kitts og Nevis eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.[11][1][12] Leiðtogar aðskilnaðarsinna voru Atlin Harrigan[13] og Ronald Webster ásamt fleirum, og þessir atburðir urðu þekktir sem „byltingin á Angvilla“. Íbúar sóttust ekki eftir fullveldi, heldur vildu vera sjálfstæð bresk nýlenda, óháð Sankti Kitts og Nevis.
Eftir að samningaviðræður runnu út í sandinn var önnur þjóðaratkvæðagreiðsla haldin þar sem vilji íbúanna var staðfestur. Þeir lýstu svo einhliða yfir stofnun lýðveldis með Ronald Webster sem forseta. Tilraunir breska sendifulltrúans William Whitlock báru engan árangur og í kjölfarið voru 300 breskir hermenn sendir til eyjarinnar í mars 1969.[1] Bretar tóku aftur við stjórn eyjarinnar og samþykktu Angvilla-lögin í júlí 1971.[1] Árið 1980 fékk Angvilla loks formlegan aðskilnað frá Saint Kitts og Nevis og varð sérstök krúnunýlenda (nú breskt handanhafssvæði).[14][15][10][16][1] Síðan þá hefur ríkt stöðugleiki á Angvilla og efnahagslíf eyjarinnar hefur vaxið vegna aukinnar ferðaþjónustu og fjármálaþjónustu.[1]
Angvilla er flatlend kóral- og kalksteinseyja í Karíbahafi, um 26 km á lengd og 6 km á breidd.[1] Hún liggur austan við Púertó Ríkó og Jómfrúaeyjar og beint norður af Saint Martin, en Angvillasund skilur á milli eyjanna.[1][17] Jarðvegur er lítill og snauður, en þar vaxa bæði kjarr og hitabeltisplöntur.[17] Hæsti tindur eyjarinnar er Crocus Hill, 73 metrar á hæð.[17]
Angvilla er þekkt fyrir kóralrif og sandstrendur. Utan við eyjuna sjálfa eru smáeyjar og rif sem flest eru agnarlítil og óbyggð.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.