Thomas Samuel Kuhn (18. júlí 1922 – 17. júní 1996) var bandarískur vísindaheimspekingur og vísindasagnfræðingur.
Vestræn heimspeki Heimspeki 20. aldar | |
---|---|
Nafn: | Thomas Samuel Kuhn |
Fæddur: | 18. júlí 1922 (í Cincinnati í Ohio í Bandaríkjunum) |
Látinn: | 17. júní 1996 (73 ára) |
Skóli/hefð: | Rökgreiningarheimspeki |
Helstu ritverk: | Vísindabyltingar |
Helstu viðfangsefni: | Vísindaheimspeki, vísindasagnfræði |
Markverðar hugmyndir: | Gerð vísindabyltinga, viðmiðaskipti |
Áhrifavaldar: | Alexandre Koyré, Michael Polanyi, Gaston Bachelard, Jean Piaget |
Hafði áhrif á: | Alla vísindaheimspeki eftir 1962, einkum Murray Rothbard og Paul Feyerabend |
Æviágrip
Thomas Samuel Kuhn fæddist í Cincinnati í Ohio í Bandaríkjunum þann 18. júlí árið 1922. Foreldrar hans hans voru Samuel L. Kuhn, iðnaðarverkfræðingur, og Minette Stroock Kuhn. Kuhn lauk B.A.-gráðu sinni í eðlisfræði frá Harvard-háskóla árið 1943 og meistara- og doktorsgráðu í eðlisfræði árin 1946 og 1949. Hann kenndi vísindasögu við Harvard-háskóla frá 1948 til 1956 að frumkvæði rektors skólans, James Conant. Kuhn yfirgaf Harvard til þess að taka við stöðu við Kaliforníuháskóla í Berkeley þar sem hann kenndi bæði við heimspeki- og sagnfræðideild. Hann hlaut stöðu prófessors í vísindasögu árið 1961. Á árunum í Berkeley samdi hann og gaf út (1962) þekktasta og áhrifamesta rit sitt, Vísindabyltingar. Árið 1964 tók hann við stöðu M. Taylor Pyne-prófessors í vísindaheimspeki og -sögu við Princeton-háskóla þar sem hann kenndi til ársins 1979 en þá tók hann við stöðu Laurance S. Rockefeller-prófessors í heimspeki við Tækniháskólann í Massachusetts (MIT) og kenndi þar til ársins 1991. Hann greindist með krabbamein árið 1994 og lést 17. júní tveimur árum síðar.
Kuhn var tvígiftur. Fyrri kona hans var Kathryn Muhs (þau eignuðust þrjú börn) og sú seinni Jehane Barton (Jehane B. Kuhn).
Kuhn var útnefndur Guggenheim-félagi árið 1954 og hlaut George Sarton-orðuna árið 1982 auk þess sem hann hlaut heiðursdoktorsnafnbót frá mörgum háskólastofnunum.
Hugmyndafræði í vísindaheimspeki
Thomas Kuhn var ólíkur öðrum vísindaheimspekingum á þann hátt að hann var ekki formlega menntaður í heimspeki heldur lagði stund á eðlisfræði og lauk háskólaprófi í þeirri grein. Það kann að hafa ráðið nokkru um hversu byltingarkenndar hugmyndir hans voru. Hans er einna helst minnst fyrir þá hugmynd að þróun vísinda einkenndist af ferli sem hann kallaði ímyndarhliðrun eða viðmiðaskipti (e. paradigm shift) í stað þess þeirrar línulegu og samfelldu þróunar sem aðrir höfðu gert ráð fyrir. Hann sagði að viðmiðaskipti ættu sér stað með svokölluðum vísindalegum byltingum, sem gerðust sjaldan en hefðu miklar breytingar í för með sér. Dæmi um slíkt væru sólmiðjukenningin og afstæðiskenningin. Undir venjulegum kringumstæðum, þ.e. milli þess að byltingar verða, færi starf vísindamanna hins vegar fram á þeim grundvelli sem hann kallaði venjuleg vísindi (e. normal science) þar sem unnið væri eftir ákveðnum viðmiðum eða ramma og fyrst og fremst leitast við að endurbæta ríkjandi kenningar.
Helstu rit
Bækur
- The Copernican Revolution: planetary astronomy in the development of Western thought (Cambridge, MA.: Harvard University Press, 1957). ISBN 0-674-17100-4
- Vísindabyltingar (Chicago: University of Chicago Press, 1962). ISBN 0-226-45808-3
- The Essential Tension: Selected Studies in Scientific Tradition and Change. Chicago and London: University of Chicago Press, 1977. ISBN 0-226-45805-9
- Black-Body Theory and the Quantum Discontinuity, 1894-1912 (Chicago: University of Chicago Press, 1987). ISBN 0-226-45800-8
- The Road Since Structure: Philosophical Essays, 1970-1993 (Chicago: University of Chicago Press, 2000). ISBN 0-226-45798-2
Greinar
- „The Function of Measurement in Modern Physical Science“ í Isis 52 (1961): 161-193.
- „The Function of Dogma in Scientific Research“ hjá A.C. Crombie (ritstj.), Scientific Change (New York og London: Basic Books and Heineman, 1963): 347-369.
Heimildir
- Fyrirmynd greinarinnar var „Paul Feyerabend“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. mars 2013.
Tengt efni
- John L. Heilbron
- Vísindaheimspeki
- Vísindasagnfræði
Tenglar
- Thomas Kuhn Online Geymt 22 desember 2014 í Wayback Machine (News, Philosophy, Biography, Bibliography)
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Thomas Kuhn“
- Thomas S. Kuhn, dánartilkynning í The Tech[óvirkur tengill]
Wikiwand in your browser!
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.