Sam Nujoma

1. forseti Namibíu (1929–2025) From Wikipedia, the free encyclopedia

Sam Nujoma

Samuel Shafiishuna Daniel Nujoma (12. maí 1929 – 8. febrúar 2025) var namibískur stjórnmálamaður og byltingarmaður sem var fyrsti forseti Namibíu. Nujoma var stofnmeðlimur og fyrsti leiðtogi Alþýðusamtaka Suðvestur-Afríku (SWAPO) og leiddi samtökin í sjálfstæðisstríði Namibíu gegn yfirráðum hvítra Suður-Afríkumanna í landinu. Eftir sjálfstæði Namibíu gegndi Nujoma þremur kjörtímabilum sem forseti landsins, frá 1990 til 2005. Í Namibíu er hann þekktur sem „stofnforseti Lýðveldisins Namibíu“, „faðir namibísku þjóðarinnar“ og „leiðtogi namibísku byltingarinnar“.

Staðreyndir strax Forseti Namibíu, Forsætisráðherra ...
Sam Nujoma
Thumb
Sam Nujoma árið 2004.
Forseti Namibíu
Í embætti
21. mars 1990  21. mars 2005
ForsætisráðherraHage Geingob (1990–2002)
Theo-Ben Gurirab (2002–2005)
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurHifikepunye Pohamba
Persónulegar upplýsingar
Fæddur12. maí 1929(1929-05-12)
Ongandjera, Ovambolandi, Suðvestur-Afríku (nú Omusati-héraði, Namibíu)
Látinn9. febrúar 2025 (95 ára) Windhoek, Namibíu
ÞjóðerniNamibískur
StjórnmálaflokkurSWAPO
MakiKovambo Mushimba (g. 1956)
Börn4
HáskóliHáskóli Namibíu
Loka

Æviágrip

Sam Nujoma fæddist 12. maí 1929 í sveitaþorpi í Ovambolandi. Hann vann við landbúnaðarstörf á unga aldri og gekk í finnskan trúboðsskóla.[1] Nujoma kom til Suður-Afríku síðla á sjötta áratugnum og fékk starf sem þjónn við járnbrautirnar. Á þessum tíma var aðskilnaðarstefnan í gildi í Suður-Afríku og hún varð til þess að Nujoma hóf þátttöku í kjarabaráttu og stjórnmálum blökkumanna. Hann tók þátt í leynisamkomum Ovambomanna í Höfðaborg þar sem rætt var um andspyrnu gegn vinnulöggjöf Suður-Afríkumanna, sem skerti mjög réttindi svartra verkamanna.[2]

Á sjötta áratugnum undirritaði Nujoma beiðni ásamt fleirum til Sameinuðu þjóðanna þar sem farið var fram á að Suðvestur-Afríka (eins og Namibía hét þá) yrði gerð að verndarsvæði undir stjórn samtakanna. Árið 1959 var Nujoma kjörinn leiðtogi Alþýðusamtaka Ovambolands (OPO), baráttusamtaka Ovambomanna gegn minnihlutastjórninni. Sama ár skipulagði hann ásamt öðrum andspyrnu gegn nauðungarflutningum á svörtu fólki frá Windhoek til þorpsins Katutura, sem var liður í aðskilnaðarstefnu stjórnarinnar. Til átaka kom þann 10. desember þar sem 12 manns voru drepnir og margir fleiri særðir. Nujoma var handtekinn og ákærður fyrir að skipuleggja andspyrnuna.[3] Hann var hins vegar látinn laus gegn tryggingu og notaði tækifærið til að flýja land.[2]

Í júní 1960 fór Nujoma til Bandaríkjanna og kom fyrir sérstaka nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna sem fjallaði um málefni Suðvestur-Afríku. Þegar Alþýðusamtök Suðvestur-Afríku (SWAPO) voru stofnuð í Namibíu þann 19. apríl 1960 var Nujoma kjörinn forseti samtakanna þrátt fyrir að hann væri fjarverandi. Nujoma ákvað að snúa heim árið 1966 eftir að Suður-Afríkumenn héldu því fram við Alþjóðadómstólinn í Haag að namibískir útlagar hefðu yfirgefið landið af fúsum og frjálsum vilja og gætu snúið heim án þess að eiga hættu á handtöku. Þrátt fyrir þetta var Nujoma handtekinn þegar hann kom aftur og fluttur til Sambíu.[3]

Nujoma, sem hafði verið æðsti yfirmaður Þjóðfrelsishers Namibíu, hernaðararms SWAPO, frá stofnun hans árið 1962, stóð fyrir flutningi vopna frá Alsír til Ongulumbashe í útlegðinni. Þar hóf SWAPO vopnaða andspyrnu gegn suður-afrískum yfirráðum í Namibíu þann 26. ágúst 1966.[3]

Á útlegðarárum sínum dvaldi Nujoma lengst af í Gana, Sambíu, Tansaníu og Angóla, en ferðaðist einnig mikið um Evrópu, einkum til Sovétríkjanna og Norðurlanda. Hann aflaði sér stuðnings valdhafa og vinstrisinna í þessum löndum. Nujoma naut afar sterks fylgis meðal stuðningsmanna sinna, sem flestir voru Ovambóar eins og hann. Hins vegar sögðu sumir fyrrverandi liðsmenn SWAPO að þeir sem hefðu lent í ónáð hjá forystunni hefðu sætt fangelsun, illri meðferð og pyndingum. Umdeilt er hve mikla ábyrgð Nujoma bar á slíku.[2] Nujoma hlaut ýmsar viðurkenningar á tíma sjálfstæðisbaráttunnar, meðal annars friðarorðu Leníns, Hồ Chí Minh-friðarverðlaunin, friðarverðlaun Indiru Gandhi og heiðursdoktorsnafnbót í lögfræði frá Ahmadu Bello-háskólanum í Zaria í Nígeríu.[1]

Sjálfstæðisstríð Namibíu entist til ársins 1989, en þá undirritaði Nujoma vopnahléssamning við Suður-Afríkumenn.[4] Friðaráætlun Sameinuðu þjóðanna tók síðan gildi þann 19. mars 1989. Nujoma sneri aftur til Namibíu nokkrum mánuðum síðar og var fagnað sem þjóðhetju. Hann var kjörinn á namibíska þingið í fyrstu frjálsu kosningunum í nóvember 1989 og var síðan kjörinn fyrsti forseti sjálfstæðrar Namibíu af þinginu í febrúar 1990. SWAPO vann afgerandi sigur í kosningunum en hafði þá þó ekki nógu drjúgan meirihluta til að geta breytt stjórnarskrá landsins.[3]

Nujoma gegndi forsetaembættinu í þrjú kjörtímabil og alls fimmtán ár, frá 1990 til 2005. Hann var áfram foringi SWAPO til ársins 2007. Stuðningsmenn Nujoma töldu honum til tekna að hafa stuðlað að þjóðarsátt í Namibíu eftir sjálfstæðisstríðið og fyrir að hafa gefið landinu lýðræðislega stjórnarskrá. Nujoma varð einnig þekktur fyrir harkaleg ummæli um samkynhneigð, sem hann kallaði „erlenda og spillta hugmyndafræði“, og um alnæmi, sem hann kallaði „manngert, líffræðilegt vopn“.[5]

Nujoma kom í opinbera heimsókn til Íslands árið 1993. Hann fundaði meðal annars með Davíð Oddssyni forsætisráðherra, Vigdísi Finnbogadóttur forseta og Þorsteini Pálssyni sjávarútvegsráðherra. Hann ræddi um þróunarsamvinnu og vann að því að stofna til viðskiptatengsla og samstarfs við Íslendinga í sjávarútvegsmálum og kynna sér verkbrögð í fiskvinnslu. Nujoma tók jafnframt á móti Davíð Oddssyni í opinberri heimsókn til Namibíu árið 1995.[5]

Nujoma lést þann 8. febrúar 2025, 95 ára að aldri.[5]

Tilvísanir

Loading related searches...

Wikiwand - on

Seamless Wikipedia browsing. On steroids.