Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Sóleyjarkvæði eftir Jóhannes úr Kötlum kom fyrst út á bók 1952. Kvæðið var ort í andrúmslofti sárra tilfinninga vegna inngöngu Íslands í NATÓ árið 1949, herstöðvasamningsins við Bandaríkin og komu bandarísks herliðs til Íslands 1951. Í kvæðinu segir frá Sóleyju sólufegri og baráttu hennar við að reyna að vekja menn og vætti Íslands til dáða gegn skuggaöflum vígtóla og hernaðar, sem stungið hafa riddarann hennar prúða með svefnþorni svo hún fær ekki vakið hann. Skáldið vefur í ljóðin stef úr þjóðkvæðum og stemmum frá eldri tíð og auk þess eru ótal vísanir til sögulegra viðburða í samtímanum og eitruð pólitísk skeyti.
Pétur Pálsson samdi lög við Sóleyjarkvæði og að lokum varð úr því heildstætt tónverk. Á sama hátt og ljóðskáldið notfærði Pétur sér galdur þjóðlagsins og minni úr rímnalögun og þulum. Lög og ljóð fallast því í faðma og hafa yfir sér undursamlega þjóðlegan blæ.
Verkið var frumflutt á vegum Samtaka hernámsandstæðinga vorið 1965 og vakti þegar mikla athygli. Það var síðan tekið upp og gefið út á hljómplötu 1967 af Æskulýðsfylkingunni. Það var endurútgefið af Fylkingunni 1973 en í nýju albúmi og veglegra en frumútgáfan var í. Samtök herstöðvaandstæðinga stóðu svo fyrir 3. útgáfunni 2001 og þá á geisladiski.
Háskólakórinn tók verkið til meðferðar undir stjórn Árna Harðarsonar, flutti það á tónleikum og gaf það síðan út á plötu 1985. Sóleyjarkvæði tilheyrir bókmenntaarfleifð sem varð til í andófi gegn bandarískum herstöðvum á Íslandi á síðari hluta 20. aldar.
Árið 2017 kom út bók um Sóleyjarkvæði í ritstjórn Silju Aðalsteinsdóttur hjá Máli og menningu undir heitinu Sóley sólufegri. Þar ritar Árni Björnsson þjóðháttafræðingur um kvæðið, tilurð þess og tilvísanir, Þórður Helgason fjallar um mál og stíl kvæðisins, Gunnar Guttormsson um Pétur Pálsson og tónlist hans við kvæðið, auk þess sem kvæðið er birt í heild. Bókinni fylgir geisladiskur með upphaflegum flutningi verksins af hljómplötu Æskulýðsfylkingarinnar.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.