From Wikipedia, the free encyclopedia
Magnús Olsen – (fullu nafni Magnus Bernhard Olsen) – (28. nóvember 1878 – 16. janúar 1963) var norskur málvísindamaður, og prófessor í norrænum fræðum við Háskólann í Osló 1908-1948. Hann er þekktastur fyrir rannsóknir á rúnaristum, örnefnum og dróttkvæðum.
Magnús Olsen fæddist í Arendal.
Magnús varð stúdent 1896, nam síðan við Háskólann í Osló og lauk kandídatsprófi í málfræði 1903. Hann var í hlutastarfi við Háskólabókasafnið í Osló frá 1899, og frá 1904 var hann styrkþegi við háskólann. Árið 1908, þegar hann var þrítugur, tók hann við af kennara sínum, Sophus Bugge, sem prófessor í fornu norsku og íslensku máli og bókmenntum (frá 1921 hét greinin norræn textafræði).
Magnús Olsen var á sínum tíma einn kunnasti fræðimaður Noregs á sviði norrænna fræða. Sérstaða hans var að beita mörgum fræðigreinum í senn til að varpa ljósi á viðfangsefnin. Hann gaf út 7 hefti af Edda- og skaldekvad með skýringum. Hann vann stórvirki við útgáfu á rúnaristum, fyrst með því að aðstoða Sophus Bugge við að ljúka útgáfu á eldri rúnaristum Norðmanna, síðan með útgáfu á fyrstu fimm bindunum af yngri rúnaristunum. Að vísu höfðu þeir Sophus Bugge, Olof Rygh og Ingvald Undset unnið þar mikla undirbúningsvinnu.
Hann tók þátt í að ljúka verki Oluf Ryghs um norsk bæjanöfn (Norske Gaardnavne) og gaf út 3 bindi. Hann setti fram hugmyndir um tengsl örnefna við trúar- og þjóðfélagsaðstæður í heiðnum sið, einkum í bókunum: Hedenske kulturminder i norske stedsnavne (1915) og Ættegård og helligdom, norske stednavn sosialt og religionshistorisk belyst (1926). Þriðja bókin: Hva våre stedsnavn lærer oss (1934) er læsilegt yfirlit um efnið. Hann leyfði sér talsvert innsæi og hugmyndaflug við fræðistörf sín, og gekk þar stundum lengra en síðar var talið gott og gilt.
Hann stofnaði tímaritið Maal og Minne árið 1909, og var ritstjóri þess í 40 ár.
Magnús Olsen var í Norsku vísindaakademíunni frá 1904, og í Konunglega norska vísindafélaginu (DKNVS). Hann var sæmdur St. Ólafs orðunni 1945, og hlaut einnig íslensku fálkaorðuna og sænsku Nordstjerne-orðuna. Hann þáði heiðurslaun frá norska ríkinu frá 1952.
Magnús Olsen dó í Osló 1963. Kona hans var Gjertud, f. Kjær. Faðir hennar var Albert Kjær bókavörður. Norrænufræðingurinn Ludvig Holm-Olsen var bróðursonur Magnúsar.
Á íslensku hefur komið út úrval ritgerða eftir Magnús Olsen:
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.