Luis Monti
From Wikipedia, the free encyclopedia
From Wikipedia, the free encyclopedia
Luis Felipe Monti (f. 15. maí 1901 - d. 9. september 1983) var argentínsk/ítalskur knattspyrnumaður. Hann er eini maðurinn í sögunni sem leikið hefur úrslitaleiki á HM í fótbolta fyrir sitthvora þjóðina. Hann hlaut silfurverðlaunin með argentínska liðinu á HM 1930 og varð heimsmeistari með Ítölum á HM 1934.
Monti fæddist í Buenos Aires og hóf meistaraflokksferil sinn með Huracán og síðar Boca Juniors en náði þó fyrst að sanna sig hjá San Lorenzo þar sem hann lék 202 leiki á árunum 1922-30 og skoraði í þeim heil 40 mörk þrátt fyrir að leika sem afturliggjandi miðjumaður. Hann var frægur, ef ekki alræmdur, fyrir hörku á leikvelli sem birtist í hörðum tæklingum en þar sem hann bjó yfir mikilli sendingartækni átti hann líka létt með að hefja sóknir síns liðs hratt um leið og það vann knöttinn. Monti varð argentínskur meistari fjórum sinnum. Fyrst sem nýliði með Huracán en síðan þrívegis með San Lorenzo: 1923, 1924 og 1927. Knattspyrnan í Argentínu var að nafninu til áhugamannaíþrótt á þessum árum en Monti var þó einn fjölmargra leikmanna sem fékk greitt eftir krókaleiðum.
Landsliðsferillinn hófst árið 1924 og átti Monti eftir að leika 16 landsleiki til ársins 1931 og skora í þeim fimm mörk. Leikjafæðin skýrðist af því að vináttulandsleikir voru fátíðir og leikirnir því flestir á stórmótum. Hann var í sigurliði Argentínu á Copa America árið 1927 og í liðinu sem fékk silfurverðalaunin á Ólympíuleikunum 1928. Þar jafnaði Monti metin gegn Úrúgvæ í 2:1 tapi.
Úrúgvæ og Argentína mættust aftur í úrslitum tveimur árum síðar þegar fyrsta heimsmeistarakeppnin var haldin í síðarnefnda landinu. Argentínumenn fóru hægt af stað í sínum fyrsta leik og skoraði Monti eina markið í viðureigninni gegn Frökkum þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Í undanúrslitum kom hann sínu liði á bragðið í stórsigri á Bandaríkjunum.
Gríðarleg spenna ríkti fyrir úrslitaleikinn og heimamenn gerðu sitt besta til að slá mótherjana út af laginu. Monti lýsti því síðar að honum hefðu borist líflátshótanir fyrir leikinn, auk þess sem því var hótað að fjölskylda hans yrði myrt líka ef Argentínumenn yrðu meistarar. Monti var almennt talinn ekki hafa náð sér á strik í úrslitaleiknum, sem tapaðist 4:2. Önnur skýring á slakri frammistöðu Monti er sögð sú að hann hafi meiðst fyrr í keppninni og ákveðið að leyna meiðslunum fyrir þjálfara sínum til þess að missa ekki af leiknum. Hvor skýringin sem kann að vera rétt beindist reiði argentínsku þjóðarinnar eftir tapið að miklu leyti að Monti sem var talinn hafa brugðist og var honum líka kennt um að hafa espað Úrúgvæmennina upp með hörku sinni fyrr í keppninni.
Skömmu eftir heimsmeistarakeppnina fékk Monti tilboð sem erfitt var að hafna. Honum bauðst samningur á Ítalíu sem myndi margfalda laun hans og herma sögur að sjálfur Benito Mussolini hafi kvittað undir bréfið. Um þessar mundir hvatti fasistastjórnin á Ítalíu Suður-Ameríkubúa af ítölskum ættum, líkt og Monti, til að snúa aftur til gömlu fósturjarðarinnar á sama tíma og öðrum útlendingum var stuggað í burtu. Monti sló til og gekk í raðir Juventus þar sem hann lék frá 1930-39. Á þeim tíma varð hann fjórum sinnum ítalskur meistari og einu sinni bikarmeistari. Var hann fyrirliði stóran hluta þessa tíma.
Mario Pozzo þjálfari ítalska landsliðsins tók þessum nýja leikmanni fagnandi og tefldi honum fram í 16 landsleikjum frá 1932-36. Hann var í landsliðinu sem vann Miðevrópukeppnina 1933-35 en stærsta afrekið var þó sigurinn í sjálfri heimsmeistarakeppnninni á heimavelli sumarið 1934. Í kjölfar sigursins á HM var ákveðið að Ítalir myndu mæta Englendingum í vináttulandsleik á Highbury. England tók um þessar mundir ekki þátt í heimsmeistaramótum en var almennt talið mesta knattspyrnuland heimsins og eftirvæntingin því mikil fyrir keppni þjóðanna og Mussolini mun hafa lofað hverjum ítölsku leikmannanna sportbíl ef sigur ynnist. Monti varð fyrir því óláni að fótbrotna illa eftir aðeins tveggja mínútna leik og þar sem varamenn höfðu ekki enn verið kynntir til sögunnar urðu Ítalir að leika manni færri allt til loka og töpuðu 3:2.
Monti sneri sér að þjálfun um leið og hann lagði skóna á hilluna árið 1939. Hann þjálfaði ýmis lið á Ítalíu til ársins 1950, ef undan er skilið eitt ár hjá hans gamla liði Huracán í Argentínu. Eini titill hans sem þjálfari kom þegar hann gerði Juventus að bikarmeisturum árið 1942. Hann lést 82 ára að aldri í Argentínu.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.