Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Karl djarfi (franska: Charles le Téméraire) (10. nóvember 1433 – 5. janúar 1477 var hertogi af Búrgund frá 1467 til dauðadags. Hann var síðasti Búrgundarhertoginn af Valois-ætt og þar sem hann eignaðist ekki son upphófust eftir lát hans deildur um hin víðfeðmu lönd Búrgundara sem áttu eftir að hafa áhrif á sögu Evrópu í meira en tvær aldir.
Karl var sonur Filippusar góða Búrgundarhertoga og konu hans Ísabellu af Portúgal. Á meðan faðir hans lifði bar hann titilinn greifi af Charolais en þegar Filippus dó 1467 erfði Karl alla titla hans. Hann ólst upp við hirð föður síns, sem ekki hafði eina meginbækistöð, heldur fluttist á milli hinna ýmsu halla Búrgundara, einkum þó í Belgíu og Norður-Frakklandi. Hirðlífið þótti hið glæstasta í Evrópu á þeim tíma og hirð Filippusar var miðstöð lista og viðskipta. Karl var snemma efnilegur og þótti góður námsmaður.
Sjö ára að aldri var hann látinn giftast Katrínu, dóttur Karls 7. Frakkakonungs. Hún var fimm árum eldri en brúðguminn en dó árið 1446, átján ára að aldri.
Árið 1454 giftist Karl öðru sinni. Sjálfur vildi hann giftast annarrihvorri af tveimur yngri dætrum Ríkharðs hertoga af York en Karli Frakkakonungi hafði tekist að fá inn í Arras-sáttmálann, sem gerður var 1435, ákvæði um að hann mætti aðeins giftast stúlku af frönsku konungsættinni. Filippus góði valdi þá systurdóttur sína, Ísabellu af Bourbon, sem brúði sonar síns. Þau áttu eina dóttur, Maríu, og var hún eina barn Karls sem lifði.
Fyrrverandi mágur Karls, Loðvík krónprins, átti í illdeilum við föður sinn og leitaði hælis við hirð Búrgundarhertoga 1456 og var þar uns faðir hans dó og hann varð konungur 1461. Þá fór vel á með þeim Karli en eftir að Loðvík 11. varð konungur urðu þeir ósáttir og þótti Karli Loðvík sýna sér yfirgang, enda lagði konungur undir sig lönd sem Karl átti tilkall til. Þeir áttu jafnan í deilum eftir það og Karl varð helsti leiðtogi andstöðunnar við konung á næstu árum.
Karl tók við stjórn hertogadæmisins vorið 1465; faðir hans var þá enn lifandi en lagði völdin í hendur sonar síns vegna heilsuleysis. Hann gekk í bandalag við hóp annarra voldugra aðalsmanna gegn Loðvík konungi og hófu þeir stríð við konung um sumarið undir forystu Karls. Þeir báru sigurorð af konungsmönnum í bardaganum við Montlhéry 13. júlí, þar sem Karl særðist, en tókst þó ekki að brjóta konunginn á bak aftur og um haustið voru gerðir friðarsamningar þar sem Karl náði aftur nokkrum landsvæðum sem konungur hafði tekið undir sig.
Á meðan samningar stóðu yfir dó Ísabella kona Karls skyndilega. Þá sá Loðvík færi á að styrkja sambandið við Búrgund með mægðum og bauð Karli elstu dóttur sína, Önnu, sem þó var ekki orðin fimm ára. En Karl taldi sig ekki lengur bundinn af Arras-sáttmálanum og frjálsan að leita þess kvonfangs sem hann hafði áður ætlað sér og hóf því samninga við Játvarð 4. Englandskonung um hjúskap við systur hans, Margréti af York, sem þá var tæplega tvítug.
Samningarnir gengu hægt af ýmsum ástæðum og Loðvík gerði líka allt sem hann gat að koma í veg fyrir giftinguna en það kom fyrir ekki og þau giftust sumarið 1468. Þau voru barnlaus en Margrét gekk Maríu stjúpdóttur sinni í móðurstað. Hún var eina eiginkona Karl sem bar titilinn hertogaynjaf af Búrgund, því fyrri konur hans tvær dóu áður en hann varð hertogi.
Árið 1471 ásakaði konungur Karl um landráð, skipaði honum að koma fyrir þingið og hertók nokkra bæi sem honum tilheyrðu. Karl réðist þá inn í Frakkland með fjölmennan her og fór með ránshendi um hluta Norður-Frakklands. Hann þurfti þó að hverfa frá, meðal annars til að sinna málum heima fyrir og styrkja innviði hertogadæmisins, stækka ríki sitt og auka eigin völd. Hann náði sínu fram með hörku og hefur stundum verið kallaður Karl hræðilegi vegna þess hve hersveitir hans gengu á stundum hart fram.
Karl var þegar hér var komi sögu orðinn einn auðugasti og valdamesti aðalsmaður Evrópu og yfirráðasvæði hans var stærra en mörg konungsríki. Heimildir sýna að hann hafði í hyggju að rjúfa öll tengsl við Frakkland og vera ekki lengur lénsherra Frakkakonungs, heldur láta krýna sjálfan sig konung.
Á næstu árum hallaði þó undan fæti, Karl tók ýmsar vafasamar ákvarðanir og hafa sumir talið að hann hafi líklega átt við einhverjar geðtruflanir að stríða. Hann lenti í ýmsum deilum og átökum, meðal annars við Sigmund erkihertoga af Austurríki, Svisslendinga og René 2. hertoga af Lorraine. Loðvík 11. veitti andstæðingum hans stuðning og þeir tóku saman höndum gegn honum. Karl beið lægri hlut fyrir andstæðingum sínum í orrustunni við Grandson 2. mars 1476 og var hrakinn á flótta. Honum tókst að safna liði á nýju en tapaði í öðrum bardaga 22. júní og missti þá þriðjung herliðs sín; flestir drukknuðu þegar þeir hröktust út í stöðuvatn.
Karl gafst þó ekki upp, safnaði enn liði og settist um Nancy, sem hann hafði náð af René af Lorraine en hann hafði tekið að nýju. Þetta var um miðjan vetur og það var mjög kalt í veðri svo að margir manna hans króknuðu. Hann hafði því aðeins nokkur þúsund manna lið í orrustunni við Nancy, 5. janúar 1477. Þar féll hann sjálfur og fannst nakið og illa leikið lík hans nokkrum dögum síðar í ísilagðri á.
Erfingi Karls var nítján ára dóttir hans, María af Búrgund, sem enn var ógift og því ákaflega eftirsóknarvert kvonfang. Elstu synir bæði Loðvíks 11. og Friðriks 3. keisara voru ókvæntir. Loðvík gerði hins vegar þau mistök að leggja þegar undir sig ýmsar lendur á mörkum Frakklands og Búrgundar og varð það til þess að þreifingum hans um að María giftist Karli krónprinsi, sem raunar var aðeins sjö ára, var illa tekið í Búrgund. Friðrik keisari var því fljótur til og bað Maríu til handa átján ára syni sínum, Maxímilían, og naut til þess stuðnings Margrétar stjúpmóður hennar.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.