Remove ads
From Wikipedia, the free encyclopedia
Kanadíska karlalandsliðið í knattspyrnu er er fulltrúi Kanada í knattspyrnu.
Íþróttasamband | Knattspyrnusamband Kanada | ||
---|---|---|---|
Álfusamband | CONCACAF | ||
Þjálfari | John Herdman | ||
Fyrirliði | Scott Arfield | ||
FIFA sæti Hæst Lægst | 43 (20. júlí 2023) 33 (febrúar 2022) 122 (október 2014) | ||
| |||
Fyrsti landsleikur | |||
1-0 gegn Bandaríkjunum, 28.nóvember, 1885) | |||
Stærsti sigur | |||
8-0 gegn Bandarísku Jómfrúaeyjum (Dublin,Írlandi; 9.september 2018) | |||
Mesta tap | |||
8-0 gegn Mexíkó 18.Júlí 1993) | |||
Heimsmeistaramót | |||
Keppnir | 1 (fyrst árið 1986) | ||
Besti árangur | Riðlakeppni | ||
CONCACAF | |||
Keppnir | 17 (fyrst árið 1977) | ||
Besti árangur | Meistarar (1985 og 2000) |
Allra fyrstu heimildir um knattspyrnuiðkun í Kanada eru frá árinu 1859 í Torontó og öðru hvoru á næstu árum víðar í landinu. Fyrst var leikið eftir stöðluðum nútímareglum í landinu árið 1876 og árið eftir var stofnað knattspyrnusamband í landinu, það fyrsta utan Bretlandseyja það sá um keppni félagsliða og sendi árið 1885 úrvalslið til New Jersey í Bandaríkjunum þar sem það atti kappi við úrvalslið heimamanna, í viðureign sem líta má á sem óopinberan landsleik. Kanada fór með sigur af hólmi, 1:0. Árið 1888 sendu Kanadamenn sem keppnisflokk til Bretlands sem lék þar fjölda leikja. Allir liðsmenn þess voru fæddir eða aldir upp í Kanada.
Sumarólympíuleikarnir 1904 í St. Louis þóttu um margt misheppnaðir, meðal annars vegna þess hversu fáir evrópskir íþróttamenn lögðu leið sína á þá. Þetta reyndist þó lán fyrir kanadíska knattspyrnu sem hreppti þar sinn fyrsta stóra titil, gullverðlaunin í knattspyrnukeppninni. Raunar kepptu aðeins þrjú lið á mótinu, kandadíska félagið Galt F.C. undir merkjum Kanada og tvö bandarísk félagslið.
Árið eftir ferðaðist enskt áhugamannalið, Píilagrímarnir, um Kanada og mættu Galt F.C. í viðureign sem auglýst var sem einvígi um heimsmeistaratitilinn. Því lauk með 3:3 jafntefli að viðstöddu fjölmenni.
Kanada reyndi ekki að keppa aftur á Ólympíuleikum fyrr en árið 1968 og komst ekki í sjálfa úrslitakeppnina fyrr en árið 1976, þá á heimavelli. Sama gilti um HM í knattspyrnu, þar sem Kanada freistaði þess fyrst að taka þátt fyrir keppnina í Svíþjóð 1958. Þar unnu Kanadamenn stórsigur á Bandaríkjunum í forkeppninni, en réðu ekki við Mexíkó, sem bar höfuð og herðar yfir önnur lið í álfunni á þeim árum. Til marks um veika stöðu kanadíska knattspyrnusambandsins þurftu báðir leikirnir við Mexíkó að fara fram ytra. Kanadamenn voru ekki meðal þátttakenda í forkeppnum HM 1962 og 1966, en hafa upp frá því verið fastagestir í slíkum keppnum.
Eftir því sem ferðalög urðu einfaldari og knattspyrnusambandið styrktist tóku Kanadamenn að láta meira til sín taka í alþjóðlegri keppni. Árið 1967 voru Ameríkuleikarnir, sameiginleg íþróttahátíð þjóða Norður-Ameríku og Suður-Amwríku fram í Winnipeg og tók Kanada vitaskuld þátt í átta liða knattspyrnukeppni leikanna. Liðið stóð sig með prýði og hafnaði í fjórða sæti, eftir að hafa veitt meisturum Mexíkó harða keppni í undanúrslitum.
Kanada tók þátt í forkeppni HM 1970 en komst ekki upp úr riðlakeppninni. Fjórum árum síðar, fyrir HM 1974 í Vestur-Þýskalandi var tekin upp sú nýbreytni að láta Gullbikarinn (keppni Norður- og Mið-Ameríkuliða) skera úr um hverjir yrðu fulltrúar heimsálfunnar í úrslitakeppninni. Kanada, sem fram að þessu hafði ekki tekið þátt í Gullbikarnum, skráði sig til leiks en féll út í forkeppninni.
Sem fyrr segir voru Kanadamenn gestgjafar á ÓL í Montreal 1976. Þar lentu þeir í þriggja liða riðli í knattspyrnukeppninni og töpuðu fyrir bæði Sovétríkjunum og Norður-Kóreu.
Kanadamenn komust í úrslitakeppni Gullbikarsins árið 1977 og 1981, sem einnig giltu sem forkeppni fyrir HM árin eftir. Keppnisfyrirkomulagið var í bæði skiptin þannig að leikið var í einu landi og kepptu liðin sex í úrslitakeppninni í einum riðli. Í fyrra skiptið var eitt sæti í úrslitakeppninni í boði en í seinna skiptið hafði þeim verið fjölgað í tvö. Kanada stóð sig með prýði og endaði í fjórða sæti í báðum tilvikum. Í keppninni 1981 sem fram fór í Hondúras fengu Kanda og Mexíkó bæði fimm stig, einu minna en lið El Salvador sem nældi sér í annað sætið á eftir heimamönnum.
Kanada átti blómaskeið á knattspyrnusviðinu á miðjum níunda áratugnum. Liðið tók þátt í Ólympíukeppninni 1984 í Los Angeles og komst þar í fjórðungsúrslit eftir að hafa skotið Kamerún og Írak aftur fyrir sig í riðlakeppninni. Kanada náði forystunni gegn stjörnum prýddu liði Brasilíu í næstu umferð en tapaði að lokum í vítaspyrnukeppni.
Sem fyrr var Gullbikarinn nýttur sem forkeppni HM 1986 sem fram fór í Mexíkó. Nýtt keppnsfyrirkomulag var þó tekið upp, þar sem leikið var heima og heiman. Hondúras og Kosta Ríka kepptu í þriggja liða úrslitariðli ásamt Kanada, sem fór í fyrsta sinn með sigur af hólmi, með tvo sigra og tvö jafntefli.
Ekki var búist við stórafrekum af kanadíska liðinu í úrslitakeppninni. Leikmennirnir voru langflestir frá félagsliðum í Bandaríkjunum og Kanada. Andstæðingarnir voru þrjár sterkar Evrópuþjóðir: Sovétmenn, Ungverjar og Evrópumeistarar Frakka. Kanada varðist vel og hélt hreinu gegn Frökkum allt þar til um tíu mínútur voru eftir, þegar Jean-Pierre Papin skoraði eina mark leiksins. Ungverjar unnu sinn leik með tveimur mörkum gegn engu og sömu úrslit litu dagsins ljós í lokaleiknum gegn Sovétmönnum. Kanadabúar héldu vissulega stiga- og markalausir heim en fengu þó ekki illilega á baukinn. Það varpaði hins vegar nokkrum skugga á frammistöðu kanadíska liðsins á mótinu að tveimur mánuðum síðar urðu nokkrir landsliðsmenn uppvísir að því að þiggja mútur til að hagræða úrslitum í leik gegn Norður-Kóreu og var landsliðið lengi að jafna sig á því áfalli.
Þátttaka Kanada í forkeppni HM 1990 varð endaslepp. Líðið mætti Gvatemala í tveimur leikjum og féll út á færri mörkum skoruðum á útivelli. Betur gekk í forkeppni HM 1994 í Bandaríkjunum. Einungis eitt sæti öruggt var í boði í úrslitunum og mættust Kanada og Mexíkó í lokaleiknum í Torontó. Kanada þurfti á sigri að halda og komst yfir í leiknum, en gestirnir svöruðu með tveimur mörkum. Við tók umspilseinvígi við Ástrali um réttinn til að mæta Argentínu í tveimur leikjum. Ástralir og Kanadamenn unnu hvort sinn leikinn 2:1 og þurfti þá að grípa til framlengingar og loks vítaspyrnukeppni þar sem þeir fyrrnefndu höfðu betur. Þótt Kanada væri ekki meðal þátttökuþjóða í úrslitakeppninni í Bandaríkjunum gaf staðsetning keppninnar færi á fjölda æfingaleikja gegn sterkum þjóðum og gerði liðið 1:1 jafntefli við heimsmeistaraefni Brasilíumanna.
Forkeppni HM 1998 byrjaði vel og væntingar voru miklar, en liðið reyndist of gamalt og var aldrei nærri því að komast í úrslitakeppnina þrátt fyrir að þrjú sæti væru í boði í fyrsta sinn. Kanadamenn komu þó sterkir til baka og árið 2000 vann liðið einn sinn stærsta sigur þegar það hlaut gullverðlaunin í Gullbikarnum, sem fram fór í Bandaríkjunum. Á leið sinni í úrslitaleikinn unnu Kanadamenn m.a. lið Suður-Kóreu, Mexíkó og Kólumbíu í úrslitunum.
Sigurinn í Gullbikarnum reyndist gefa fölsk fyrirheit fyrir forkeppni HM 2002. Kanadíska liðið lenti í vandræðum gegn Kúbu í fyrstu umferð og féll svo úr leik í milliriðlum eftir að hafa einungis náð að skora eitt mark í sex leikjum. Fjórum árum síðar, í forkeppni HM 2006, hafnaði liðið í neðsta sæti í milliriðli og var víðs fjarri því að blanda sér í slaginn um sæti Norður- og Mið-Ameríku í úrslitakeppninni. Í Gullbikarnum, sem að jafnaði er haldinn annað hvert ár, komst Kanada í undanúrslitin árin 2002 og 2007, en oftast mátti liðið gera sér að góðu að falla úr leik í riðlakeppninni.
Sagan endurtók sig í forkeppnunum fyrir HM 2010, 2014 og 2018. Í ekkert skiptanna tókst Kanadamönnum að komast upp úr milliriðlum í sex liða úrslitakeppnina. Styrkleikamunurinn á kanadíska liðinu og sterkari þjóðum CONCACAF virtist óbrúanlegur.
Á FIFA-þinginu í Rússlandi árið 2018 var ákveðið að HM 2026 yrði haldið sameiginlega í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada. Frá upphafi var reiknað með því að allar gestgjafaþjóðirnar fengju sjálfkrafa sæti á mótinu og vöknuðu efasemdir um að kanadíska liðið hefði nokkra burði til slíks. Aðrir bentu á að þjóðin hefði á að skipa mörgum ungum og efnilegum leikmönnum sem styrkja myndu landsliðið verulega á næstu árum.
Kanada komst í undanúrslit Gullbikarsins 2021 og tapaði þar afar naumlega fyrir Mexíkó. Alphonso Davies leikmaður Bayern München, dýrasti knattspyrnumaður í sögu Kanada og fyrsti Kanadabúinn til að vinna Meistaradeildina var í aðalhlutverki með landsliðinu í forkeppni HM 2022 þar sem Kanada varð fyrsta liðið í sinni álfukeppni til að tryggja sér sæti í úrslitunum. Jafnframt komst liðið í 33. sæti á heimslistanum í febrúar 2022, sem er hæsta staða þess í sögunni.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.