78. fjármálaráðherra Bandaríkjanna From Wikipedia, the free encyclopedia
Janet Louise Yellen (f. 13. ágúst 1946) er bandarískur hagfræðingur. Hún varð fjármálaráðherra Bandaríkjanna árið 2021.[1] Hún var áður seðlabankastjóri Bandaríkjanna frá 2014 til 2018. Eftir störf sín hjá seðlabankanum vann hún um skeið hjá bandarísku hugveitunni Brookings Institution. Í nóvember 2020 tilkynnti verðandi Bandaríkjaforsetinn Joe Biden að hann hygðist útnefna Yellen í embætti fjármálaráðherra í stjórn sinni.[2]
Janet Yellen | |
---|---|
Fjármálaráðherra Bandaríkjanna | |
Núverandi | |
Tók við embætti 25. janúar 2021 | |
Forseti | Joe Biden |
Forveri | Steven Mnuchin |
Seðlabankastjóri Bandaríkjanna | |
Í embætti 3. febrúar 2014 – 3. febrúar 2018 | |
Forseti | Barack Obama Donald Trump |
Forveri | Ben Bernanke |
Eftirmaður | Jerome Powell |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 13. ágúst 1946 Brooklyn, New York, Bandaríkjunum |
Stjórnmálaflokkur | Demókrataflokkurinn |
Maki | George A. Akerlof (g. 1978) |
Börn | 1 |
Háskóli | Brown-háskóli (BA) Yale-háskóli (MA, PhD) |
Undirskrift |
Yellen hafði áður verið varastjórnarformaður seðlabankans, framkvæmdastjóri seðlabankans í San Francisco, ráðgjafi Bills Clinton Bandaríkjaforseta og prófessor í hagfræði við Haas-viðskiptaskólann í Kaliforníuháskóla í Berkeley.
Yellen er bæði fyrst kvenna til að gegna embætti fjármálaráðherra og seðlabankastjóra Bandaríkjanna.[3] Hún var jafnframt fyrsti Demókratinn í síðara embættinu í rúm 30 ár (eða frá því að Paul Volcker lét af embættinu árið 1987).[4]
Yellen er fædd og uppalin í Brooklyn-hverfinu í New York-borg.[5] Hún útskrifaðist með hæstu einkunn úr BA-námi í hagfræði við Brown-háskóla árið 1967 og lauk doktorsprófi við Yale-háskóla árið 1971.
Yellen er gift George Akerlof, sem er Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og prófessor emeritus við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Sonur þeirra, Robert Akerlof, er lektor í hagfræði við Warwick-háskóla.[6]
Yellen var aðjúnkt við Harvard-háskóla á árunum 1971–76 og vann sem hagfræðingur fyrir framkvæmdastjórn bandaríska seðlabankans frá 1977 til 1978.[7] Hún starfaði síðan við Hagfræði- og stjórnmálafræðiháskólann í London. Hún hóf rannsóknar- og kennslustörf við Haas-viðskiptaskólann í Kaliforníuháskóla í Berkeley árið 1980. Hún varð prófessor við skólann árið 1985 og er nú prófessor emeritus hjá stofnuninni. Hún hefur tvisvar fengið verðlaun hjá Haas-viðskiptaskólanum fyrir framúrskarandi kennslu. Hún varð varaformaður hagfræðisamtakanna American Economic Association árið 2004.
Yellen var formaður Hagfræðingaráðs Bandaríkjaforseta á stjórnartíð Bills Clinton frá 1997 til 1999.[8]
Á rannsóknarferli sínum hefur Yellen lagt áherslu á þjóðhagfræðileg málefni eins og hagsveiflur, peningastefnu, viðskiptafrelsi, ójöfnuð, efnahagslega greiningu á þungunarrofum og barneignum utan hjónabands (ásamt eiginmanni sínum, George Akerlof) og vinnumarkaðsstefnu. Í greininni Efficiency Wage Models and Unemployment í tímaritinu American Economic Review árið 1984 og í bókinni Efficiency Wage Models of the Labor Market, sem Yellen skrifaði ásamt Akerlof árið 1986, þróaði hún hugmyndina um hagræðingarlaun (enska: efficiency wages). Hugmyndin gengur út á að það sé rökrétt að fyrirtæki greiði starfsmönnum sínum laun yfir jafnvægisverði. Þar með sé unnt að skýra hvers vegna fullkomin samkeppni viðgangist ekki á vinnumarkaði og hvers vegna kerfislægt atvinnuleysi finnist yfirleitt í markaðshagkerfi.
Yellen var meðlimur í framkvæmdastjórn bandaríska seðlabankans frá 1994 til 1997. Frá 2004 til 2010 var hún framkvæmdastjóri útibús seðlabankans í San Francisco. Hún varð meðlimur í Markaðsviðskiptanefnd Seðlabanka Bandaríkjanna (e. Federal Open Market Committee eða FOMC), sem ákvarðar vaxtastig bandarísku peningastefnunnar, árið 2009.
Eftir að Yellen var útnefnd framkvæmdastjóri árið 2004 lýsti hún bæði opinberlega og á fundum peningastefnunefndar seðlabankans yfir áhyggjum af afleiðingum mikillar hækkuar á íbúðaverði í Bandaríkjunum. Hún var meðal þeirra fyrstu sem lýstu ástandinu sem eignaverðsbólu.[9] Þegar Barack Obama útnefndi Yellen í embætti seðlabankastjóra í október 2013 benti hann meðal annars á að hún hefði verið meðal þeirra sem vöruðu við markaðsbólunni og yfirvofandi vanda á fjármálamarkaðinum.[10]
Í apríl árið 2010 útnefndi Barack Obama Bandaríkjaforseti Yellen til að taka við af Donald Kohn sem varastjórnarformaður seðlabankans.[11] Í júlí staðfesti bankanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings valið á Yellen með sautján atkvæðum á móti sex. Leiðtogi Repúblikana í bankanefndinni, Richard Shelby, kaus á móti útnefningu Yellen þar sem hann vændi hana um „verðbólgubjögun“. Litið var á útnefningu Yellen sem merki um valdatilfærslu frá varfærnari stjórnarmeðlimum til „hauka“ í verðbólgumálum.[12] Þann 4. október 2010 var Yellen ráðin sem varaforstöðumaður í fjögur ár. Um leið tók hóf hún áætlað 14 ára starfstímabil sem meðlimur í framkvæmdastjórn seðlabankans.
Þann 9. október 2013 var Yellen formlega útnefnd til að taka við af Ben Bernanke sem seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Í yfirheyrslum á Bandaríkjaþingi sem haldnar voru þann 14. nóvember færði Yellen rök fyrir ákvörðun seðlabankans um að greiða fyrir þriggja milljarða Bandaríkjadala örvunarpakka í bandaríska efnahaginn.[13] Þann 10. desember samþykkti öldungadeildin að binda enda á umræður um útnefningu Yellen með 59 atkvæðum á móti 34.[14] Útnefningin var endanlega samþykkt þann 6. janúar 2014 með 56 atkvæðum gegn 26.[15]
Á Wall Street hefur jafnan verið litið á Yellen sem „dúfu“ (þ.e. að hún hafi meiri áhyggjur af atvinnuleysi en af verðbólgu) og hneigist því almennt ekki til vaxtahækkana. Höfundur í dagblaðinu The New Yorker lýsti henni eitt sinn sem „mestu dúfu sem hefur leitt seðlabankann frá dögum Marriner Eccles“ (sem Franklin D. Roosevelt útnefndi á dögum kreppunnar miklu á fjórða áratugnum). Síðar skrifaði sami höfundur þó að fremur mætti lýsa henni sem hagfræðingi sem fylgdi meginstefnu síns tíma og hagaði sér ýmist eins og „dúfa“ eða „haukur“ eftir þjóðhagfræðilegum kringumstæðum að hverju sinni.[16]
Yellen er fylgjandi keynesískri hagfræði og hugmyndinni um Philipskúrfuna, sem gerir ráð fyrir því að neikvætt orsakasamband sé til skammtíma á milli atvinnuleysis og verðbólgu. Þar með verði áhrifamenn í hagkerfinu að forgangsraða því hvort vandamálið er tekist á við að hverju sinni.[17]
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.