Remove ads
20. forseti Bandaríkjanna (1831-1881) From Wikipedia, the free encyclopedia
James Abram Garfield (19. nóvember 1831 – 19. september 1881) var hershöfðingi í Bandaríkjaher og 20. forseti Bandaríkjanna. Hann gegndi því embætti frá 4. mars 1881 til 19. september 1881.
James Garfield | |
---|---|
Forseti Bandaríkjanna | |
Í embætti 4. mars 1881 – 19. september 1881 | |
Varaforseti | Chester A. Arthur |
Forveri | Rutherford B. Hayes |
Eftirmaður | Chester A. Arthur |
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir 12. kjördæmi Ohio | |
Í embætti 4. mars 1871 – 8. nóvember 1880 | |
Forveri | Albert G. Riddle |
Eftirmaður | Ezra B. Taylor |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 19. nóvember 1831 Moreland Hills, Ohio, Bandaríkjunum |
Látinn | 19. september 1881 (49 ára) Elberon, New Jersey, Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarískur |
Stjórnmálaflokkur | Repúblikanaflokkurinn |
Maki | Lucretia Rudolph |
Börn | 7 |
Háskóli | Hiram-háskóli Williams-háskóli (BA) |
Starf | Stjórnmálamaður, lögfræðingur, herforingi |
Undirskrift |
Garfield var af velskum ættum og fæddist í bjálkakofa í Ohio. Þegar hann var á öðru ári lést faðir hans og var hann alinn upp af móður sinni, systrum hennar og frænda sínum. Hann var framúrskarandi námsmaður og stundaði nám við Williams College í Williamstown í Massachusetts. Hann stundaði kennslustörf um skeið en lærði síðan lögfræði og starfaði sem lögmaður frá 1860. Nokkru fyrr hóf hann þátttöku í stjórnmálum og var kjörinn á ríkisþing Ohio fyrir repúblikana 1859.
Hann gekk í herinn þegar borgarastyrjöldin hófst og hlaut þar skjótan frama. Á meðan styrjöldin stóð var hann kjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Þingið kom ekki saman fyrr en alllöngu síðar og hann hélt áfram herþjónustu um skeið og var á þeim tíma gerður að hershöfðingja. Hann sagði þó af sér þegar hann settist á þing í desember 1863. Hann var svo endurkjörinn þingmaður á tveggja ára fresti, síðast 1878.
Árið 1880 var Garfield kjörinn öldungadeildarþingmaður fyrir Ohio en náði aldrei að setjast í öldungadeildina því þegar ekki tókst á flokksþingi repúblikana að ná fram niðurstöðu um forsetaframbjóðanda var leitað til Garfields og varð úr að hann bauð sig fram. Andstæðingur hans var demókratinn Winfield Scott Hancock. Rúmlega níu milljónir manna greiddu atkvæði og fékk Garfield aðeins um 1900 fleiri atkvæði en Hancock en hins vegar 214 kjörmenn móti 155.
Garfield náði ekki að setja mark sitt á forsetaembættið því að hann hafði aðeins verið í embætti tæpa fjóra mánuði þegar hann var skotinn tveimur skotum á járnbrautarstöð í Washington DC þann 2. júlí 1881. Tilræðismaðurinn var Charles J. Guiteau, geðsjúkur lögfræðingur sem hafði hvað eftir annað sótt um ýmis opinber embætti en verið hafnað.[1]
Önnur kúlan straukst við handlegg Garfields en hin sat föst í brjóstholinu og fannst ekki. Garfield lá rúmfastur í Hvíta húsinu í tvo mánuði, sífellt verr haldinn vegna sýkinga út frá skotsárinu og mistaka læknanna sem meðhöndluðu hann. Reynt var að flytja hann í sumarhús við ströndina honum til heilsubótar en allt kom fyrir ekki. Hann fékk blóðeitrun og svæsna lungnabólgu sem leiddi að lokum til þess að hann lést úr hjartabilun þann 19. september. Varaforsetinn, Chester A. Arthur, tók þegar við embættinu.
Morðingi Garfields, Guiteau, var dæmdur til dauða og hengdur 30. júní 1882.
Kona Garfields var Lucretia Rudolph (19. apríl 1832 – 14. mars 1918). Þau áttu fimm börn sem náðu fullorðinsaldri.
Seamless Wikipedia browsing. On steroids.
Every time you click a link to Wikipedia, Wiktionary or Wikiquote in your browser's search results, it will show the modern Wikiwand interface.
Wikiwand extension is a five stars, simple, with minimum permission required to keep your browsing private, safe and transparent.